TVÍSKINNUNGUR "HERLAUSRAR" ÞJÓÐAR


Íslenskur utanríkisráherra lét á sínum tíma svo um mælt að hann þakkaði sínum sæla fyrir að hér væri ekki her því þá þyrfti hann að senda íslensk ungmenni í stríð. Hann kvaðst hins vegar dást af mönnum einsog Tony Blair sem gætu tekið slíkar ákvarðanir. Þessi orð féllu í kjölfar innrásarinnar í Írak. Mér kom þetta í hug þegar núverandi utanríkisráherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði við opnun nýrrar "Varnarmálaskrifstofu" í gær að Ísland hefði verið og yrði herlaust land. Og hún bætti því við, að Ísland herjaði á engan! Þetta er rangt! Ísland átti beinan þátt í árásunum á Júgóslavíu 1999 og hefur verið beinn aðili að stríðsátökunum í Afganistan og Írak í gegnum NATÓ. 
Að mínu mati er það að sumu leyti heiðarlegri afstaða að senda eigin ungmenni inn á stríðsvettvang  en að samþykkja að ungmenni annarra þjóða skuli send í hernað í árásarskyni og tala síðan af upphafningu um eigið vopnleysi og friðarást. Ef alvara væri að baki beitti ráðherrann sér fyrir því að Ísland gengi úr hernaðarbandalaginu NATÓ sem í seinni tíð hefur gerst sífellt árásargjarnara.

Fréttabréf