AFBURÐAFÓLKIÐ OG VIÐ HIN


Hvað eru réttlát laun? Snúin spurning enda sýnist sitt hverjum.  Á sínum tíma þótti eðlilegt að launamunur væri ekki meira en tvö til þrefaldur. Nú dugar margföldunartaflan ekki til að sýna muninn. Annars vegar er launafólk með innan við tvö hundruð þúsund krónur og hins vegar forstjórar á ofurlaunum, talin í milljónum á mánuði hverjum.

Hæfileikamaðurinn ég

Viðtal við einn slíkan var í Fréttablaðinu 7. júní. Sá var Guðmundur Þóroddsson, fráfarandi forstjóri REI, áður forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur . Guðmundur átti ekki í vandræðum með að réttlæta mánaðartekjur sínar sem námu 2,6 milljónum. "Ég held að menn verði að hugsa þetta frá hinni hliðinni. Ef menn ætla að borga lægri laun þá missa þeir frá sér fólkið. Starfsmaður getur ekki unnið hjá fyrirtæki í almannaeigu af hreinni hugsjón." Allt snúist þetta um "reynslu og kunnáttu", og Guðmundur segist sleginn yfir því hve fáír starfsmenn Reykjavíkurborgar séu vel launaðirr. "Hvernig ætla menn sér að fá hæft fólk?Með því að borga lág laun ertu ekki að gera neitt annað en að reka þjálfunarbúðir fyrir aðra."
Nú er það ágætt að menn skuli hafa sjálfstraust og telja sig búa yfir reynslu og kunnáttu sem sé gulls ígildi hverja mínútu dagsins. En gæti verið að fjársjóðurinn sem fólginn er í Orkuveitu Reykjavíkur og REI sé að finna í Hellisheiðinni, Gvendarbrunnunum, Nesjavöllum, að ógleymdum okkur sem greiðum fyrir vatnið og orkuna? Getur verið að í framangreindu sé að finna skýringuna á ríkidæmi OR en ekki bara í stjórnvisku forstjóranna? Og gæti verið að annað starfsfólk skipti þar einnig máli, ekki bara smurðir og silkiklæddir forstjórar heldur rafvirkjar, ritarar, ræstingafólk, skrifstofumenn, bókhaldarar....? Gæti verið að menn hafi eitthvað ruglast í ríminu?

Nútímakonan Kolbrún Bergþórsdóttir

Ekki finnst Kolbrúnu Bergþórsdóttur, sem nú venur komur sínar á leiðarasíðu Morgunblaðsins, svo vera. Í pistli sínum 9. júní segir hún að varla geti það talist "stórhneyksli þótt forstjóri í krefjandi starfi fái rúmar tvær milljónir á mánuði, eins og mun hafa verið raunin með fyrrverandi forstjóra Orkuveitunnar...Vandlætingarfull og stórfurðuleg launaumræða kemur að hluta til frá fjölmiðlum sem kjósa að selja æsifréttir. Hún kemur ekki síður frá pólitískum öflum á vinstri væng sem telja að peningar séu ískyggilegt hreyfiafl og uppspretta vondra hluta...Hjá Vinstri grænum er viðhorf eins og þetta talið eðlilegt. Hins vegar myndi maður ætla að það væri ekki útbreitt í nútímajafnaðarflokki eins og Samfylkingunni. Samt hafa fulltrúar Samfylkingar, sérstaklega í borginni, risið upp og talað af vandlætingu um spillinguna sem felst í góðum launum..Það fer Samfylkingunni óneitanlega afar illa að þusa á þennan hátt. Reyndar virðist þetta tal aðallega sprottið frá öflum innan flokksins sem láta sig dreyma um vinstri stjórn í borgar- og landsmálum. Í Samfylkingu og Vinstri grænum eru fjöldamörg hjörtu sem slá í takt. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim samhljómi því þegar Samfylking og Vinstri-grænir leggja saman er ekki mikil von til að framsýn viðskiptasjónarmið verði höfð í fyrirrúmi. Umræður um launakjör einstakra manna yrðu örugglega ekki það undarlegasta sem það samstarf myndi leiða af sér. Ef hæft fólk á að fást til starfa í ábyrgðarstörf hjá ríki og borg verður að greiða því prýðileg laun eigi það ekki að sækja á önnur mið. Hæfileikafólk leitar á vinnustaði þar sem starfskraftar þess eru metnir og hlýtur þá að taka mið af launakjörum. Það er enginn glæpur að bjóða góð laun og enginn glæpur að þiggja þau."

Reynt að réttlæta kjaramisréttið

Annað hvort er þetta mikil einföldun eða þá einfeldni af óvenjulegri stærðargráðu. Skyldi Guðmundur Þóroddsson telja að bæjarfélög á Íslandi geti - að óbreyttri skattprósentu - greitt mánaðarlaun upp á par milljón á mánuði? Eða almenn framleiðslufyrirtæki? Sér hann ekki samhengið á milli hárra vatns- og raforkugjalda og hárra forstjóralauna? Eða þjónustugjalda banka og ofurlauna á þeim bæjum? Á kannski að selja dýrt aðganginn að dvalarheimilum fyrir aldraða svo hægt verði að borga forstöðufólki með "reynslu og kunnáttu"á borð við þá sem Guðmundur Þóroddsson telur sig búa yfir almennileg forstjóralaun?  Eða gæti verið að hæfileikafólk sé víðar að finna en í stjórnunarstöðum? Getur verið að þegar allt kemur til alls snúist þetta um að hafa jafnvægi á milli gjaldtöku, skatta, þjónustu og launa? Og að þegar einblínt er á launin sé viðfangsefnið að deila launasummunni út á réttlátan hátt þannig að allir þeir sem sinna verðugum verkefnum fái mannsæmandi laun?
Getur verið að þegar allt kemur til alls sé hæfileikaparið, þau Guðmundur og Kolbrún, að reyna að finna réttlætingu á því hróplega kjaramisrétti sem nú viðgengst á Íslandi og hefur farið vaxandi í seinni tíð?
Annars er það ekki amalegt fyrir íslenskt "hæfileikafólk" að hafa fengið eins öfluga talskonu og Kolbrúnu Bergþórsdóttur á leiðarasíðu Morgunblaðsins. Verra fyrir okkur hin sem fáum falleinkunn í pólitískum kladda þessa nýja skríbents á Mogga.

Fréttabréf