Fara í efni

ÞAÐ RIGNIR Á ÞOTURNAR


Forstjóri Actavis, Róbert Wessman, segir í  Fréttablaðinu í dag að hann sé á hrakhólum með einkaþotur  sínar í Reykjavíkuflugvelli og vill leyfi til að byggja 2000 fermetra einkaskýli á vellinum. Um þessar þotur sinar hefur Actavis stofnað sérstakt fyrirtæki, Salt Investments. Og eftir talsmanni þess fyrirtækis hefur Fréttablaðið í dag: „ Við hjá Salt Investments höfum verið á hrakhólum með að koma flugvél okkar í skjól síðustu árin og höfum verið í sambandi við flugmálayfirvöld um lausn okkar mála"
Í þessu kristallast þær breytingar sem orðið hafa á þjóðfélagi okkar á undanförnum 5 árum. Við í BSRB erum að reyna gera "björgunarsamning", sem er til þess fallinn að koma í veg fyrir óðaverðbólgu. Verkalýðshreyfingin er samfélagslega ábyrg. Kjör almennings versna hratt í verðbólgunni og almenningur í landinu þarf að kljást við hættulegt efnahagsástand, frjálshyggjuríkisstjórn auk þess að horfa upp á auðmenn, sem hafa slitið sig úr samhengi við samborgara sína og lifa lífi sem gæti eins verið lifað í öðru sólfkerfi, - sólkerfi sem hefur engan snertiflöt við veröld okkar hinna.
Á meðan við erum að reyna að slökkva eldana sem kviknuðu af ofhitnun hagkerfisins, í skjóli græðgi auðmanna og með aðstoð óblandaðrar hugmyndafræði frjálshyggjunnar, á meðan við erum að axla ábyrgð á samfélaginu; þá eru vandamál Actavis, að það rignir á þoturnar.
Ég segi við Actavis, hjálpið okkur að stöðva kjararýrnun almennings, sem er í frjálsu falli. Takið þátt í því að slátra verðbólgunni. Lækkið lyfjaverð um 20%. Ferðist með Flugleiðum og Iceland Express. Þið búið á Íslandi og eruð Íslendingar. Leyfið þotunum að veðrast um stund.