Fara í efni

ÞÁ FLISSAÐI EGILL...


Ég hlustaði á Silfur Egils í dag - reyndar kvöldútgáfuna. Ekki held ég að hún hafi batnað við geymsluna yfir daginn. Þó var þar sumt gott - sem endranær. Almennt líkar mér vel við Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingarráðherra. Hann var í þættinum í dag. En að heyra hann mæra Guðlaug Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir þær kerfisbreytingar sem hann er að innleiða í heilbrigðiskerfinu er meira en ég get tekið af manni, sem vill kenna sig við jafnaðarstefnu! Eitt heilbrigðskerfi fyrir alla, sagði Björgvin um leið og hann tók undir með Guðlaugi Þór um að heilbrigðisþjónusta snerist fyrst og fremst um kostnaðargreiningu. Ég sem hafði haldið að hún snerist fyrst og fremst um að veita sjúkum líkn. Fram kom í máli Björgvins að allt sem Sjálfstæðisflokkurinn væri að gera í heilbrigðismálum væri gott! Samfylkingin, þögli félaginn - silent partner - sá sem blessar einkavæðinguna með afskiptaleysinu - var núna  mættur  til leiks, að þessu sinni ekki þögull heldur með áróður fyrir því að markaðshyggja yrði innleidd á göngum Landspítalans!! Það var viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar að segja í reynd þegar hann blessaði í bak og fyrir gjörðir Guðlaugs Þórs. En til hvers skyldi annars verið að kostnaðargreina alla heilbrigðisþjónustuna? Ætli Samfylkingin hafi hugleitt það? Það er til þess að viðskipti geti farið fram. Næst á dagskrá er einmitt að koma á fót sérstakri stofnun sem hafi milligöngu um viðskiptin. Þetta er nákvæmlega sama ferli og í Bretlandi þar sem illu heilli er verið að brjóta niður það sem Bretar hafa kallað National Helath Service. Hægri menn í Svíþjóð hafa einnig farið þessa leið eins og heilbrigðisráðherrann klifar á án þess að virðast sérlega vel að sér um mismunandi leiðir sem einstök lén í Svíþjóð hafa farið og deilur sem þar eru uppi um framtíð heilbrigðiskerfisins.  

Getur verið að framhjá talsmönnum Samfylkingarinnar, meðreiðarsveinum einkavæðingarsinna í Sjálfstæðisflokknum, hafi farið það sem er að gerast í heilbrigðiskerfinu þessa dagana, nú síðast útboð heillar deildar á Landakoti, úthýsing á störfum læknaritara þvert á þeirra vilja  eða auglýsing Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. á 20% afslætti á þjónustu velferðarlínunnar  til gullkorthafa Kaupþings þar sem meðal annars er að finna geðheilbrigðisþjónustu?!!!

Heilbrigðisráðherra  kom mjög mörgum orðum að í þættinum. Ekki höfðu þau sérstaklega mikið innihald. Og það sem var af innihaldi þótti mér vera niður á við, í  anda lágkúru og orðhengilsháttar. Hins vegar tók ég eftir því hve það kætti þáttastjórnandann þegar Guðlaugur Þór fór í sitt lágflug.

Ég hef blandað mér nokkuð inn í umræðuna um heilbrigðismálin á undanförnum misserum og árum. Reynt að færa rök fyrir því að markaðsvæðing heilbrigðisþjónustunnar hafi samkvæmt rannsóknarskýrslum orðið dýrari og leitt til mismununar. Ekki vottaði fyrir röksemdum gegn þessum staðhæfingum okkar sem gagnrýnum stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum í þættinum í dag. Heilbrigðisráðherrann afgreiddi þvert á móti minn málflutning þannig að þar sem ég færi væri á ferðinni  Marteinn Mosdal  okkar þingmanna, eins og hann komst að orði.  Þetta mun vera aulafígúra úr skopþætti , sem  aldrei tekur rökum. Ja, hver skyldi ekki taka rökum? Varla ráðherrann, varla þáttastjórnandinn. Enda flissaði hann.

En viljum við láta tala svona til þjóðarinnar úr Stjórnarráði Íslands? Er þetta boðleg umræða um grafalvarleg þjóðfélagsmál? Um ráðherrann ætla ég ekki að hafa mörg orð. Hann afgreiðir sig sjálfur. En við RÚV ohf vil ég segja: Eru íslenskir þáttastjórnendur virkilega svo vesælir að geta aldrei stillt viðmælendum sínum upp við vegg með rökum og talað til þeirra af þekkingu þannig að til þeirra séu gerðar lágmarkskröfur?