Á HNJÁNUM FRAMMI FYRIR FJÁRMAGNINU

Birtist í DV 07.05.08.
DVÁ fundi  fagnefnda Alþingis  koma umsagnaraðilar víða að úr þjóðfélaginu til að varpa ljósi á þingmál sem  eru til umfjöllunar í þinginu hverju sinni. Þetta er að mörgu leyti ágætur spegill á samfélagið en einnig á þingið sjálft því það segir meira en mörg orð hvaða sjónarmiðum meirihluti Alþingis ljær eyra.

Á hverja er hlustað?
Þannig er hlustað takmarkað á boðskap eldri borgara en talsmaður þeirra tjáði þingnefnd í vikunni að hann væri nýkominn úr ferð um landið. Þótt hann þekkti kjaramál aldraðra vel hefði það orðið sér áfall að sjá hve margt eldra fólk byggi við bágborin kjör. Kjaramisréttið á Íslandi væri "ævintýralegt", sagði formaður Landssambands eldri borgara og  vísaði sérstaklega til þeirra sem búa við strípaða taxta almannatrygginga og litlar sem engar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Ríkidæmið höfum við svo fyrir sjónum okkar í ýmsum myndum. Fannst talsmanni eldri borgara of lítið hlustað á sjónarmið sín og sinna.

Þeir sem valdið hafa
Öðru máli gegnir um samstök atvinnurekenda og fjármálafyrirtækja. Þau er harla ánægð með sína ríkisstjórn. Enda er það svo í reynd að nær alltaf er farið að vilja þessara aðila. Þannig hafa skattar verið lækkaðir jafnt og þétt á fyrirtæki og fjármagnseigendur og er síðasta dæmið að finna í stjórnarfrumvarpi um enn eina lækkun tekjuskatta á fyrirtæki. Ísland er fyrir löngu búið að skipa sér í hóp þeirra ríkja innan OECD þar sem skattar á fyrirtæki og fjármagn er minnst.
Nýjasta afrekið er svo frumvarp sem gerir ráð fyrir að undanþiggja söluhagnað af hlutabréfum skattlagningu. Á það hefur verið bent að vegna frestunarheimilda og möguleika á að skjóta sér út fyrir landsteinana með söluhagnaðinn hafi þessi skattur sjaldnast verið inntur af hendi. Þegar frumvarpið kom upphaflega fram átti á móti niðurfellingu skattsins að afnema heimild til frádráttar vegna vinnu við hlutabréfaviðskiptin. "Það gengur ekki" sögðu þá fjármálafyrirtækin. Og stjórnarmeirihlutinn hlýðir.
Fyrirsjáanlegt er því að við sitjum uppi með lög sem undanþiggja söluhagnað af hlutabréfaviðskiptum skatti og í ofanálag verður vinnan við að afla þessara skattlausu tekna einnig undanþegin skatti!

Sátt um ranglæti og þjónkun?
Fjármálafyrirtækin eru himinlifandi og lofa og prísa ríkisstjórnina. Sömu ríkisstjórn og talar nú um nauðsyn "þjóðarsáttar". En ég spyr sátt um hvað? Framhald á ranglætinu? Framhald á þjónkun við hina efnameiri? Að álit verkalýðshreyfingar verði hundsað en alltaf farið að vilja fjármagnsins?
Í álitsgerð frá 7. mars um  framangreint stjórnarfrumvarp leggst ASÍ "eindregið gegn þeirri breytingu að söluhagnaður lögaðila af hlutabréfum verði undanþegin skattskyldu." Í framhaldsálitsgerð frá 24. apríl er hert á mótmælunum. Í umsögn embættis ríkisskattstjóra er fjallað um málið af mikilli hógværð. Þeim mun meiri athygli vekur þegar embættið varar við ákveðnum "stílbrotum" í frumvarpinu frá almennum skattareglum.
En hvað kemur ríkisstjórninni slíkt við? Hún hefur hvort eð er brotið öll siðalögmál og allan stíl. Þegar fulltrúar fjármagnsins tala þá hlýðir hún. En hvert skyldi vera langlundargeð þjóðarinnar?


Ögmundur Jónasson,
þingmaður og formaður BSRB

Fréttabréf