OKKAR DRENGUR Í FÆREYJUM


Fíkniefni eru hræðilegur vágestur í hverju samfélagi. Þeir sem höndla með slíkan ógæfuvald sem eiturlyf eru,  eiga fátt gott skilið. Ég verð þó að segja að hlutskipti unga Íslendingsins sem setið hefur í 170 daga einangrunarfangelsi í Færeyjum vegna tengsla sinna við fíkniefnasmygl og hefur nú í kjölfarið fengið 7 ára fangelsisdóm, finnst  mér harðneskjulegt. Mér þykir svo vera vegna eðli málsins. Hinir raunverulegu brotamenn  virðast hafa flækt unga manninn inn í net sem hann aldrei vildi vera hlutaðeigandi að. Smyglararnir hafa sýnt þann manndóm að lýsa þessu  yfir og jafnframt sorg sinni yfir því að íslendingurinn í Færeyjum kunni að fá þyngri dóm en þeir sjálfir sem í reynd eigi að bera sökina.
Málið var til umfjöllunar í Kastljósi Sjónvarpsins í gær sem hinn galvaski fréttamaður, Helgi Seljan stýrði. Karen Dögg Kjartansdóttir, fréttakona á Fréttablaðinu og Pétur Gunnarsson, ritstjóri vefmiðilsins Eyjunnar (http://eyjan.is/)  ræddu  málefni vikunnar, þar á meðal þetta. Karen Dögg sagði undarlegt að eftir 170 daga einangrun væri það fyrst nú, eftir að málinu væri lokið, að utanríkisráðherra brygðist við og ganrýndi ómannúðlega meðferð á unga manninum í Færeyjum! Hárrétt ábending hjá fréttakonunni en hún og Fréttablaðið, eiga lof skilið fyrir að hafa haldið þessu máli vakandi.  Jafnframt kom þó fram í  máli Karenar Daggar að Eiður Guðnason, sendiherra Íslands í Færeyjum hefði hitt fangann vikulega. Lítil samskipti  - en smávægileg bót í máli.
Pétur Gunnarsson sagði þá nokkuð athyglisvert sem varð mér tilefni til umhugsunar, nefnilega að sennilega myndi engin utanríkisþjónusta í heiminum yfirleitt hafa haft nokkur afskipti af máli af þessu tagi fyrir það eitt að þarna væri "landi" á ferðinni! Þetta er rétt. En er þetta gott eða er þetta slæmt?
Mín skoðun er sú að þetta sé gott . Ég hef stundum tekið sem dæmi um jákvæðar hliðar samkenndarinnar, viðhorf  okkar sem þjóðar til brotamanna sem lenda í fangelsi á erlendri grundu. Þótt afbrot þeirra séu slæm, og við formælum  brotunum, þykir okkur sjálfsagt að ná í viðkomandi menn "heim". Þegar allt kemur til alls þykir okkur við bera eins konar fjölskylduábyrgð á þeim. Þessi samkennd - bæði í blíðu og stríðu -þykir mér vera eftirsóknarverð. Þeir sem eru á öndverðum meiði telja að allt þetta stríði gegn jafnræðisreglum sem eigi að skilgreina út frá forsendum réttarríkis og ekki annarra tengsla. Við megum hins vegar aldrei gera samkennd og væntumþykju nærumhverfisins útlæga! Það er mín skoðun.
Í þessu tilviki þykir mér að auki undarlega illa farið með Íslendinginn unga og er mín tilfinning sú að um sé að ræða ungan mann sem flæktist inn í atburðarás sem hann hafði í raun engan vilja til að taka þátt í. Þess vegna segi ég takk Eiður fyrir að sinna okkar dreng í Færeyjum. Takk Keren Dögg fyrir að halda hans máli vakandi. Takk Pétur fyrir ábendinguna í Kastljósinu í gær.

Fréttabréf