Fara í efni

ÍBÚÐAVERÐIÐ, LAUNIN OG LÁNIN


Seðlabankinn spáir því að húsnæðisverð lækki um 30% á næstu tveimur árum. Er það raunsæ spá? Það veit enginn. Hitt vita menn að spáin getur haft þau áhrif að líklegra sé að þetta gerist. Væri það eftirsóknarvert? Í fyrsta lagi ber að leggja áherslu á að allar stökkbreytingar á fasteignamarkaði eru slæmar. Um er að ræða keðjuverkandi samhengi kaups og sölu. Fólk sem keypt hefur á uppsprengdu verði á undanförnum þremur árum gæti átt erfitt með að losa sig við íbúðir sínar og kaupa nýjar í samræmi við breyttar aðstæður. þannig að þetta getur sett óheppilegan tappa inn á markaðinn og valdið fólki eignatjóni.
Til langframa verður hins vegar að verða grundvallarbreyting á öllu innra samhengi á húsnæðismarkaði. Grunnstærðirnar eru þar þrjár: a) laun, b) íbúðarverð og c) lán og lánskjör. Nú er svo komið að þetta þrennt er komið úr slíku jafnvægi að millitekjufólk getur ekki keypt íbúðarhúsnæði. (Langt er síðan lágtekjufólki var úthýst af markaðnum).
Hvað þyrfti  þá að breytast?
Þarf húsnæðið að lækka í verði?
Þurfa launin að hækka svo þau dugi fyrir kaupum á húsnæði?
Þurfa vextir að lækka og lánskjör að batna?
Að mínum dómi þarf allt þetta að breytast.
a) Húsnæðisverð þarf að lækka verulega. Á höfðuborgarsvæðinu hefur orðið verðsprenging á undanförnum fjórum, fimm árum, langt umfram það sem Seðlabankinn spáir nú að muni ganga tilbaka.
b) Laun lágtekju- og millitekjufólks þurfa að hækka og hátekjufólkið þarf að lækka. Það þarf með öðrum orðum uppstokkun í kjaraumhverfinu.
c) Vextir þurfa að lækka. Þar þarf Íbúðalánasjóður áfram að gegna lykilhlutverki og snúast þarf gegn  einelti bankanna og Viðskiptaráðs gegn þeirri þarfastofnun enda er hún mikilvæg kjölfesta á íbúðalánamarkaði.