Fara í efni

GLEÐILEGT SUMAR!


Í dag er sumardagurinn fyrsti. Þegar ég var að vaxa úr grasi var hann ætíð mikill hátíðisdagur í mínu umhverfi. Strax að morgni dags, Sumardaginn fyrsta,  var flaggað á ættaróðalinu, Hólabrekku á Grímstaðaholti, síðan voru skrúðgöngur, heitt súkkulaði með rjóma. Sumargjöf fengum við krakkarnir alltaf, oftast bolta enda fór boltaleikjatímabilið í hönd.
Ég hef trú á því að kynslóð foreldra minna hafi lagt meira upp úr Sumardeginum fyrsta en síðari kynslóðir hafa gert. Nú var daginn farið að lengja svo um munaði , sauðburður að hefjast  og stutt í að moldin kviknaði af lífi. Aðflutt borgarfólkið hugsaði til sveitarinnar sinnar. Sumarkoman lét reyndar oftast á sér standa og tengist Sumardagurinn fyrsti - sem í minningunni var reyndar oft sólríkur - norðannepju.  Enginn lét slíkt á sig fá og voru stúlkurnar mættar berleggjaðar á sportssokkum í skrúðgöngurnar, bláar af kulda en í sólskinsskapi.
Sumardagurinn fyrsti var þó fyrst og fremst dagur skátanna og er enn. Ég held upp á daginn með því að sækja skátamessu í Hallgrímskirkju. Þetta geri ég bæði vegna þess að mér finnst þetta tilheyra deginum  en jafnframt geri ég þetta í minningu föður míns, Jónasar B. Jónssonar, sem um langt árabil var skátahöfðingi og bar hag skátahreyfingarinnar mjög fyrir brjósti. Það geri ég líka.
Mjög yljaði mér um hjartarætur þegar Guðbjartur Hannesson, alþingismaður og ræðumaður í messunni í dag,  rifjaði upp hvernig æskulýðsstarf hófst á Úlfljótvatni  í Grafningi  í byrjun fimmta áratugar síðustu aldar en það mun hafa verið 1941 sem fyrstu skátabúðirnar voru reistar þar undir leiðsögn föður míns. Þetta voru tjaldbúðir en síðan risu þar skálar. Nú skipta þeir þúsundum sem eiga góðar minningar úr æskulýðsstarfi  á Úlfljótsvatni.
Í prýðilegri ræðu sinni í Hallgrímskirkju í dag fjallaði Guðbjartur Hannesson um mikilvægi þess að innræta æskunni vilja til að bæta heiminn. Forsenda þess væri að hver og einn ynni að því að bæta sjálfan sig. Í skátastarfi væri lögð áhersla á að styrkja einstaklinginn þannig að hann öðlaðist sjálfsöryggi en jafnframt þannig að hann temdi sér að sýna umhverfi sínu ábyrgð, jafnt samferðamönnum sínum sem náttúrunni.  
Gleðilegt sumar!