VÆRUKÆRIR FJÖLMIÐLAR SVÆFA SAMFÉLAGIÐ


Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss, hefur verið látinn víkja úr starfi. Annar lykilmaður úr æðstu stjórnsýslu spítalans, Jóhannes Gunnarsson, er kominn í leyfi. Leiðarahöfundur sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins gengur út frá því  að ástæðan fyrir brottvikningu Magnúsar sé af pólitískum toga, þ.e. til að greiða fyrir kerfisbreytingum: "Guðlaugur Þór Þórðarson hefur nú tekið tvær lykilákvarðanir, sem leggja grundvöll að miklum breytingum í heilbrigðiskerfinu. Í fyrsta lagi með því að fá til starfa nýjan ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu og í öðru lagi með því að gera ofannefndar breytingar á yfirstjórn Landspítala."
Í Fréttablaðinu á laugardag fæst einnig staðfesting á því að um er að ræða pólitíska hreinsun í stjórnsýslu Landspítalans. Þar er talað um þá "niðurstöðu ráðherra" að segja forstjóranum upp störfum og blaðið kveðst hafa heimildir fyrir því að Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrverandi forstjóri Byko og bæjarstjóri í Garðabæ, gallharður Sjálfstæðismaður, sé orðuð við stöðuna.
Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hafa talað um pólitískar uppsagnir og fært fyrir því rök: Magnús Pétursson hafi ekki tekið sveltistefnunni gagnvart Landspítalanum þegjandi og verið ósáttur við einkavæðingarstefnu ráðherrans þegar sýnt varð að hún gengur gegn hagsmunum skjólstæðinga, starfsfólks og skattborgara.
Það á að verða öllu hugsandi fólki umhugsunarefni þegar starfsfólki er vikið úr starfi fyrir að bera fyrir brjósti hag þeirrar starfsemi sem því er treyst fyrir. Einnig hljótum við að íhuga værukærð fjölmiðla. Með einstaka heiðvirðum undantekningum virðast þeir varla rumska frammi fyrir ofbeldi af þessu tagi. Værukærir fjölmiðlar svæfa samfélagið. Í sofandi samfélagi viðgengst síðan einræðiskennd framkoma. Hana eigum við að forðast eins og heitan eldinn því slíkt stjórnarfar drepur allt í dróma. Í þjóðfélagi sem er í gerjun einsog okkar, er þörf á víðtækri, opinni og lýðræðislegri umræðu. Núverandi ríkisstjórn forðast slíka umræðu. Hún gengur lengra. Hún rekur úr starfi þá einstakinga sem voga sér að gsgnrýna stjórnvöldin!  
Hvað á að segja um svona stjórnarfar,  hvað á að segja um ráðherra sem haga sér með þessum hætti? Eitt er víst að svona koma þeir einir fram sem eru ekkert alltof vissir um sinn málstað. Þeim nægir að þekkja sína pólitísku línu. Verkefnið að framfylgja henni og forðast síðan alla umræðu. Svona vinnubrögð eru ástunduð í einræðisríkjum. Þar þurfa valdamenn aldrei að standa fyrir máli sínu.
Úr Stjórnarráðinu heyrist ekki múkk. Þögli félaginn, Samfylkingin, samþykkir yfirganginn með þögn sinni.

Fréttabréf