HUGSJÓNASTARF OG ÞJÓÐARVILJI
Einhverra hluta vegna leggst nýtt ár vel í mig. Kannski vegna þess
hve mér þóttu skilaboð þjóðarinnar í lok ársins sem leið vera góð.
Þá er ég að sjálfsögðu að tala um val á "manni ársins". Í mínum
huga lá í hlutarins eðli að velja Svandísi Svavarsdóttur fyrir
framgang hennar í pólitíkinni. En ég er hins vegar orðinn svo vanur
því að það sem mér finnst sanngjarnt nái ekki fram að ganga. Þess
vegna varð ég glaður nú. Aðkoma Svandísar Svavarsdóttur að
orku/einkavæðingar/spillingarmálum í Reykjavík og hvernig hún hófst
handa um að vinda ofan af því máli vakti verðskuldaða athygli.
Reyndar held ég að það sé máti Svandísar að tala til fólks þannig
að það hrífist af. Hún er með félagslegar hugsjónir sínar á hreinu
á sama tíma og hún talar það sem kallað er mannamál. Allt þetta,
andúð fólks á spillingu, löngun til að halda eignarhaldi á
orkulindunum hjá þjóðinni og væntumþykja um hugsjónafólk, varð til
þess að Svandís nýtur stuðnings í þeim mæli sem opin kosning hjá
RÚV ohf leiddi í ljós.
Hjá Stöð tvö var fíkniefnadeild lögreglunnar fyrir valinu. Það
þótti mér einnig gott. Málefnið og mennirnir eiga skilið að fá
athygli og löggæslan vel að lofinu komin.
Lesendum síðunnar óska ég gleðilegs árs. Vonandi verður þetta árið
sem góðar hugsjónir fá að rætast. Sameinumst um að gera þetta að
slíku ári! Ég held að það sé þjóðarviljinn.