Fara í efni

FORMAÐUR SJÓMANNASAMBANDSINS: EINKAVÆÐING ÖRYGGISEFTIRLITS TIL ILLS


Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands kom fram í fréttum í dag og kvað hann sér vera verulega brugðið að heyra hversu illa öryggismálum væri komið um borð í íslenskum bátum og skipum. Sævar sagðist óttast að eftirlitið hefði slaknað eftir að skipaskoðun fór frá Siglingastofnun til einkafyrirtækja. Formaður Sjómannasambandsins sagði að áður hefðu ríkisstarfsmenn annast eftirlitið, gefið sér góðan tíma og sinnt verkinu af mikilli vandvirkni. Nú væri greitt fyrir hvert verk og jafnvel samkeppni á milli fyrirtækja um að ná kostnaði niður.
Röksemdir Sævars Gunnarssonar eru skýrar: Það fer ekki saman að græða á öryggiseftirliti og sinna því sem skyldi. Sjá fréttir: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397795/1 
Þetta minnir á umræðu í Bretlandi um öryggiseftirlit í breska lestarkerfinu sem var einkavætt á sínum tíma en fært undir hið opinbera að nýju árið 2003 þegar sýnt þótti að einkavæðingin hafði stóraukið á slysahættu. Þetta varð tilefni þessarar örgreinar minnar í Morgunblaðinu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/vindarnir-eru-ad-snuast . Taldi ég að hinir nöpru vindar gróðahyggju frá útlöndum væru heldur að hlýna og átti þá við að hægri sinnaðir stjórnmálamenn í breska Verkamannaflokknum væru að byrja að átta sig á því að einkavæðing og öryggiseftirlit færu ekki saman.
Hér á landi hefur ekkert breyst. Rafmagnsöryggiseftirlit var einkavætt á Íslandi fyrir nokkrum árum með hörmulegum afleiðingum. Ég var í hópi þeirra sem mótmæltu hvað ákafast. Sagði að öryggiseftirliti myndi hraka, það kæmi til með að hafna í fákeppni, flytjast af landsbyggð til Reykjavíkur og yrði dýrara fyrir skattborgarann. Allt þetta gekk eftir og væri fróðlegt að rannsóknarfréttamenn færu í saumana á því máli.
Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þjóðfélaginu er breytt á grundvelli pólitískrar hugmyndafræði en skynsemi og reynsla látin lönd og leið. Hvenær kemur að því að afleiðingar einkavæðingarinnar verða í alvöru rannsakaðar og reynt að draga lærdóma af fyrri mistökum.