Fara í efni

AÐ LIFA TÍUNDA HLUTA ÍSLANDSSÖGUNNAR

Grimshagi
Grimshagi


Merkilegt að finna fyrir nið tímans. Það fannst mér ég gera við útför móðursystur minnar Sigríðar Ö. Stephensen frá Hólabrekku á Grímstaðaholti í Reykjavík í dag. Sigríður lifði heila öld. Hún var fædd í mars árið 1908 og átti tæpa þrjá mánuði í að hafa lifað  í rétt hundrað ár. Líf hennar spannar því nær tíunda hluta Íslandssögunnar. Um Sigríði skrifar systursonur hennar, Björn Jónasson í Morgunblaðið í dag: „Sigríður, var borinn og barnfæddur Reykvíkingur, fæddist í Hólabrekku og bjó þar í næstum heila öld. Hennar bær var Reykjavík, borgin sem hún horfði á breytast úr smábæ í volduga borg. Og hennar öld var tuttugasta öldin. Öldin sem breytti Íslandi meir en nokkur öld hafði gert áður. Öld sjálfstæðis, öld stríða, öld síma og samgöngubyltingar, öld vatnsveitu og nýrra viðskipta- og atvinnuhátta."

Séra Þórir Stephensen, fyrrum dómkirkjuprestur í Reykjavík, jarðsöng frænku sína og sagði hann m.a. eftirfarandi í minningarorðum sínum:
"Sigríður var fædd í Hólabrekku á Grímsstaðaholti 18. mars 1908, dóttir hjónanna Ingibjargar Þorsteinsdóttur og Ögmundar Hanssonar Stephensen. Hún ólst upp í foreldrahúsum þriðja elst  sex systkina, sem upp komust. Foreldrar hennar hófu búskap að Hurðarbaki í Kjós, en fluttu svo hingað til Reykjavíkur. Þau byggðu húsið í Hólabrekku 1906, ræktuðu þar í kring og voru með búskap, en auk  þess var Ögmundur ökumaður með  hesta  og vagna. Sá atvinnuvegur varð síðar að vörubílarekstri, sem hann stundaði lengi.

Sextán ára gömul fór Sigríður í Kvennaskólann. Hún var þar þrjá vetur. Veikindi munu hafa valdið því, að hún lauk ekki skólanum, en hún fór svo síðar til hússtjórnarnáms í Sórey í Danmörku. Árið sem hún var þar, naut hún einnig hins þekkta menningarheimilis þeirra Jóns Helgasonar prófessors í Höfn og konu hans Þórunnar Björnsdóttur frá Grafarholti. Sigríður var því vel menntuð kona á þeirrar tíðar mælikvarða.

Er hún kom heim frá Danmörku leið brátt að því, að heimilið í Hólabrekku þurfti mjög á henni að halda. Móðir hennar veiktist, líklega 1933 og var rúmföst síðasta áratug ævinnar. Sigríður tók þá við stjórn hins stóra og gestkvæma heimilis. Hún axlaði þær byrðar af mikilli fórnfýsi, - ástvinir hennar gengu alltaf fyrir. Svo kom að því, að Hans bróðir hennar missti fyrri konu sína 1937 frá tveimur drengjum, sex og ellefu ára gömlum. Sigríður tók þá að sjálfsögðu að sér og þeir ólust upp við afar gott atlæti í Hólabrekku.

Þegar um hægðist þar, kaus Sigríður að hasla sér völl úti á hinu starfræna sviði. Með því var hún ekki síst að leggja áherslu á sjálfstæði sitt. Hún gerði það með því að taka að sér heimaverkefni, vélritun og fjölritun fyrir stofnanir og félagasamtök. Þar kom sér hvort tveggja vel, smekkvísi hennar og næm tilfinning fyrir íslensku máli. Hún naut því góðs gengis í þessu starfi um langt árabil.

Ólafur faðir minn og Ögmundur í Hólabrekku voru bræðrasynir. Kynni mín af Hólabrekkufólkinu voru í fyrstu mest bundin stórafmælum Ögmundar. Þar undu menn sér gjarnan við söng og sögur og einkennisorðin hefðu á stundum getað verið: „Höldum gleði hátt á loft".  Umræðan gat þá orðið pólitísk og spennuþrungin, en ævinlega þó gagnsýrð þeirri væntumþykju, sem einkenndi þennan hóp. Ágæt vísa eftir Stefán Ögmundsson segir sína sögu

Þegar okkur innra með
æsist skap og hiti,
þá skal láta þrútið geð 
þoka fyrir viti.

En kynnin voru efld, þegar ég kom aftur hingað suður eftir 18 ára þjónustu úti á landi. Síðan hef ég notið þeirrar miklu frændrækni, hjálpsemi og órofatryggðar, sem hefur einkennt fjölskylduna frá Hólabrekku, dyggða sem Sigríður ræktaði vel.

Það var gaman að ræða við Sigríði, hvort heldur var um íslenska menningu eða þjóðfélagsmál. Hún mat hvern einstakling eftir gjörðum hans, eftir því hver áhrif þær hefðu til góðs að hennar mati.

Og Sigríður hefði getað sagt með Stephani G.:

Þú æskuást til ljóða,
mín auðnudísin góða,
og ætíð söm við sig,
mér hálfur hugur félli,
ef hefði eg ekki þig,
í einangraðri elli
að annast mig.

Hún var afar vel að sér í ljóðum aldamótaskáldanna, sem börðust fyrir sjálfstæði og vaxandi þjóðmenningu. Þegar yngri kynslóðirnar í fjölskyldunni horfa um öxl, þá er hinn sterki arfur úr Hólabrekku sambland af íslenskri menningu og ljóðrænu. Þorsteinn Erlingsson var Hólabrekkuskáldið, pilturinn sem þeir uppgötvuðu sr. Matthías og Steingrímur, komu til mennta og efldu til dáða. Hann átti þann tón, sem hreif menn til ástar á landi og lýð, gaf nátturunni líf og lit og hélt fram þeirri lífsafstöðu, sem hafði kærleikann að trúarjátningu.

Ég veit það ekki, en trúlegt þykir mér, að garðurinn fallegi við Hólabrekku hafi kallað fram í sál Sigríðar margt af því fegursta í ljóðum Þorsteins: Litla skáld á grænni grein

gott er þig að finna,
söm eru lögin sæt og hrein
sumarkvæða minna.

Vilji einhver vinur kær
vísur mínar heyra,
syng ég eins og sunnanblær
sumarljóð í eyra.

Og víst er um það, að ekki er fjarri, að Hólabrekka komi í hug þegar yngri kynslóðirnar syngja:       

Bænum mínum heima hjá
Hlíðar brekkum undir
er svo margt að minnast á,
margar glaðar stundir.
Því vill hvarfla hugurinn,
heillavinir góðir,
heim í gamla hópinn minn,
heim á fornar slóðir.

Þar var Sigríður í Hólabrekku  nánast eins og stofnun, svo sem börn Þorsteins bróður hennar orða það í miningargrein í dag. Hún annaðist ekki bara móður sína sjúka og litlu móðurlausu frændurna tvo. Hún varð uppistaðan í vefnum, þráðurinn er tengdi fortíð og nútíð og varð þannig samfellan í fjölskyldunni. Til hennar lágu allra leiðir, því samheldni systkinanna var mikil og fjölskyldna þeirra. Hún sat ættararfleifðina með reisn. Sennilega má líkja henni bæði við fjallkonuna, sem með sterkum, ríkum meiningum, en þó líka hæfilegri hógværð, vísar veginn til sjálfstæðis í kærleiksríkri hugsun og athöfn, og völvuna í Miðgarði fjölskyldunnar, sem miðlar visku, styrk og fegurð íslenskrar menningar með boðskap hins ljóðrænu arfs. Og það var ekki bara samheldni og skyldurækni, sem seiddu menn heim í Hólabrekku. Þar var líka eitthvað sem menn lærðu af, menningarleg gróandi, þroski. Ég hygg, að orð ungs drengs af yngstu kynslóð Hólabrekkufólksins segi það sem á vantar. Hann var spurður, hvaða maður hann vildi vera, ef hann ætti að skipta um ham einn dag. Hann svaraði hiklaust: „Ég vil vera Sigga frænka". Og hvers vegna: „Af því að hún veit svo mikið".

Síðustu árin sóttu erfiðleikar að. Fallvaltur líkami gat ekki fylgt fleygum anda hennar. Af því hvað hún var búin að reynast öðrum vel, þá voru þær nánast óteljandi hendurnar í fjölskyldunni sem vildu hjálpa henni. Þær framkvæmdu í raun hið óframkvæmanlega að gera henni kleift að vera heima svo lengi, leyfðu henni að finnast hún geta stjórnað umhirðu garðsins góða og haldið öllu í horfinu innan stokks. Þess vegna sagði hún líka svo oft: „Ég hef ekkert á spítala eða stofnun að gera. Ég hef það svo gott". En að því kom, að dæmið gekk ekki upp. Hún fór fyrst á Landsspítalann, en síðan á Droplaugarstaði, þar sem hún var enn umvafin umhyggju ástvinanna og einstakri alúð starfsfólks alls. Hún skynjaði að hverju stefndi. Björn systursonur hennar var henni afar náinn og kær. Hann var lengi hjá henni í Hólabrekku, en hefur verið búsettur erlendis. Hún var þarna í þörf fyrir að sjá hann. Henni var sagt, að hann væri væntanlegur. Þá sagði hún: „Bara að ég verði ekki farin heim". Það skynjuðu allir, hvaða heimför hún átti við. Ingibjörg móðir hennar var mjög trúuð kona. Sigríður ræddi sjaldan eilífðarmálin, en þarna var greinilega til staðar hinn bjarti arfur Ingibjargar, andlegt athvarf í æðra heimi.

Kallið kom á Stefánsdegi jólahátíðar svo sem fyrr sagði. Mig langar að trúa því, að ljóðrænan hafi verið eins og straumur sem flutti hana heim og bar henni myndir skáldsins frá Sigurhæðum af því, er „kertin brunnu bjart í lágum snúð" og leiddu til enn fegurri hugsana...