Fara í efni

„Woke“ er fasískt - Hugleiðingar um bók Simon Elmer, „The Road to Fascism"

Bræðralagið sem myndast meðal kúgaðra og ofsóttra varir aldrei, segir breski sagn- og listfræðingurinn Simon Elmer í nýrri bók sinni, „The Road to Fascism – For a Critique of the Global Biosecurity State“, (London 2022). Hann vitnar í heimspekinginn Hönnu Arendt: „Mennska hinna forsmáðu og sködduðu hefur aldrei enn lifað af stund frelsunarinnar í svo mikið sem eina mínútu. Þetta þýðir ekki að hún sé ómerkileg, því í raun gerir hún forsmán og sköddun þolanleg; en þetta þýðir að í pólitísku tilliti skiptir hún engu máli“ (231). Það sem verður að koma í stað bræðralagsins nú, segir Elmer, þegar verstu kúgunaraðgerðir Covid tímabilsins hafa hjaðnað, að minnsta kosti tímabundið, er vinátta; en þó ekki í þeim skilningi sem við nútímamenn leggjum í hana.

Elmer fullyrðir að vestræn samfélög stefni nú hratt í átt að fasísku alræði, þróun sem fjórða iðnbyltingin geri mögulega og sé drifin áfram af auðhringum og skrifræðisvaldi. Eftir fall Sovétríkjanna höfum við orðið ómeðvituð um hætturnar af alræði sem á sér uppruna hægra megin við miðju; barnalegt frjálslyndi undanfarinna áratuga hafi blindað okkur gagnvart þessari hættu. Elmer tekur undir viðvörun Hayeks í Leiðinni til ánauðar, um að hættulegasta tegund fasisma sé sá sem knúinn er áfram af yfirþjóðlegu tækniræði sem gæti „auðveldlega beitt mestu harðstjórn og ábyrgðarlausu valdi sem hægt er að hugsa sér ... Og þar sem það er varla neitt til, sem ekki er hægt að réttlæta með „tæknilegri nauðsyn“ sem enginn utanaðkomandi gæti í raun efast um – eða jafnvel með mannúðarrökum varðandi þarfir einhvers sérlega illa stadds hóps sem ekki væri hægt að hjálpa á annan hátt – þá er lítill möguleiki á að stjórna því valdi “ (143). Og höfum í huga að hér íhugar Hayek ekki einu sinni möguleikann á því nána samstarfi milli alþjóðlegs tækniræðis og einokunarauðvalds sem við sjáum á okkar tímum.

Elmer fullyrðir að stuðningur vinstri manna við tilskipanir og reglur líföryggisríkisins byggist ekki á eðlislægri forræðishyggju þeirra eins og hægrimenn telja gjarna, heldur mun fremur á því að þeir hafi „smitast af hugmyndum af meiði nýfrjálslyndis, um pólitíska rétthugsun, sjálfsmyndarstjórnmál og nú síðast réttrúnað „woke“ hugmyndafræðinnar.“ (147). Elmer bendir réttilega á hvernig þöggun, slaufunarmenning, kvenfyrirlitning ... lögreglueftirlit með orðum og skoðunum fólks“ eigi sér alls ekki rætur í lýðfrelsisstefnu, stéttabaráttu eða jafnaðarhugsjón“; það sé í raun ekkert sósíalískt við þessi einkenni hinnar nýju alræðishyggju.

Þetta virðist í beinni andstöðu við það algenga viðhorf, að minnsta kosti meðal hægrimanna, að „woke“ hugmyndafræðin sé vinstri sinnuð í grunninn, og sé afleiðing þeirra ítaka sem sósíalistar hafi náð í vestrænum samfélögum gegnum áróður og yfirtöku grunnstofnana, í samræmi við kenningu Dusche (og Gramscii) um „hina löngu göngu gegnum stofnanirnar“.

Hver er þá rökstuðningur Elmers hér?

Elmer vitnar í einkunnarorð nasista „Kraft durch Freude“ (styrkur í gegnum gleði), og bendir á hvernig það sé „draumurinn um einingu þjóðarinnar, minningin um fallnar hetjur“ sem liggi að baki fasistakveðjunni, að baki auðfúsri undirgefni við leiðtogann, og það sé á kitsinu sem fagurfræði alræðishyggjunnar byggi.

Á þetta hafa raunar fleiri bent: Samkvæmt listfræðingnum Monicu Kjellman-Chapin er algengt að kitsinu, vélrænni list sem auðvelt er að neyta og vekur væmnar tilfinningar, sé beitt af alræðisstjórnum sem tæki til stjórnunar og innrætingar.“ Í Óbærilegum léttleika tilverunnar (Reykjavík, 1986) segir Milan Kundera:

Kitsið kreistir fram tvö tár. Fyrra tárið segir: En hvað það er fallegt að sjá krakka hlaupa um grasflöt!

Seinna tárið segir: En hvað það er fallegt að klökkna eins og allt mannkynið við að sjá krakka hlaupa um grasflöt!

Einungis síðara tárið veldur því að kitsið er kits.

Bræðralag mannanna getur aldrei grundvallast á öðru en kitsi.“

„Woke“, segir Elmer, er jafngildi kitsins. Að „taka hnéð“, klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki, fylgja órökréttum tilskipunum, „í þágu heildarinnar“, eða eins og er líklega algengara, aðeins til að sýnast, er í eðli sínu það sama og að klökkna eins og allt mannkynið við að sjá krakka hlaupa um grasflöt. Og þessi samstaða, sem á endanum er fölsk samstaða, er líka drifkrafturinn þegar múgurinn snýst gegn þeim sem ekki hlýða, gegn óbólusettum, gegn þeim sem neita að „taka hnéð“, gegn þeim sem hafa hugrekki til að rugla og vekja efasemdir um hina viðteknu skoðun, til dæmis þegar svartur maður klæðist stuttermabol með slagorðinu „White lives matter“. Því í eðli sínu snýst „woke“, rétt eins og kitsið, um útilokun; þeir grimmustu eru gjarna væmnastir allra.

„Woke“ hugmyndafræðin sem látið er líta út fyrir að snúist um menningarlegt andóf hinna jaðarsettu og kúguðu er nú orðin opinber hugmyndafræði líföryggisríkisins, sem á grunni hennar réttlætir stöðugt eftirlit, ritskoðun og æ öflugri stýringu ríkisvaldsins á líffræðilegri tilveru okkar, segir Elmer. „Woke“ er þegar Justin Trudeau „tekur hnéð“ í mótmælum Black Lives Matter í Ottawa árið 2020 og úthúðar svo, tveimur árum síðar, þeim sem andmæla gerræðistilburðum hans, kallar þá þjófa, ofstækismenn, kynþáttahatara og gyðingahatara, kallar viðhorf þeirra óásættanleg, sakar þingmenn sem andmæla fasískri hegðun hans um að standa með hakakrossinum, og lætur loka bankareikningum þeirra sem styðja baráttuna gegn löglausu ofbeldi hans og krefjast þess að lög og stjórnarskrá séu virt. „Engin önnur hreyfing, síðan fasisminn var og hét, hefur lagt sig eins í framkróka um að skapa grundvöll fyrir lagalegar og pólitískar breytingar til að styðja við kapítalisma í dauðateygjunum“ segir Elmer (117).

Elmer bendir á hvernig mótmæli sem voru í samræmi við „woke“ hugmyndafræðina voru ekki aðeins liðin heldur litið á með velþóknun meðan samfélagið var drepið í dróma sóttvarnaraðgerða, en þeir sem mótmæltu lokunum og höftum til að verja lífsviðurværi sitt voru hundeltir, sektaðir eða fangelsaðir. Ástæðan fyrir þessu er sú, segir Elmer, að yfirvöldum stafar engin ógn af „woke“; það snýst einungis um um réttrúnað, umburðarleysi og helgisiði, það er andbyltingarsinnað, en „sér markaðinn sem eina mögulega farveg breytinga“ (120), og síðast en ekki síst skapar það tækifæri til að framfylgja og þróa enn frekar takmarkanir á málfrelsi og persónufrelsi, lykilskref á leiðinni til fasismans. „ ... Í stuttu máli, með því að auðvelda kapítalismanum að skapa alræði líföryggisríkisins  – er „woke“ ekki frjálslynt, og það er sannarlega ekki sósíalískt: „Woke“ er fasískt.“ (121)

Eitt af lykileinkennum „woke“ hugmyndafræðinnar er algjört óþol gagnvart rökræðu, gagnvart röklegri hugsun, og við sjáum sömu tilhneigingu í þeim fjarstæðum, aftengingu við veruleikann og mótsagnakenndu viðhorfum sem breiðst hafa út í tengslum við kórónafaraldurinn. Fyrir þá sem aðhyllast „woke“ er það eina sem skiptir máli þeirra eigin persónulega upplifun, einkareynslan. En í heimi þar sem öll merking er einkaleg getur engin merking verið til; einkamál er ómögulegt, segir Wittgenstein, því höfundur þess getur ekki skilið það sjálfur. Í almennari skilningi gætum við litið á skilgreiningu Hönnu Arendt á almennri skynsemi sem sameiginlegri skynjun okkar á heiminum, og hvernig þessi sameiginlega skynjun grundvallast á sameiginlegu tungumáli, sameiginlegum sögum og sameiginlegri aðferð til að hugsa; án þessara grundvallarþátta er samfélagið í raun ekki lengur til.

Eins og Elmer bendir á, og aðrir, þar á meðal Arendt, hafa bent á áður, er einangrun einstaklingsins ein af lykilforsendum þess að hægt sé að koma á og viðhalda alræði. Þetta skildi Stalín vel þegar hann lét leysa upp öll félög og klúbba; jafnvel skákfélög voru ekki undanskilin, því til að koma á sönnu alræði verður að einangra fólk frá hvort öðru, hindra að það myndi félagsleg tengsl. Höfnun „woke“ hugmyndafræðinnar á öllu öðru en einkareynslunni er því afar mikilvægur hornsteinn hins nýja fasisma sem Elmer óttast að sé handan við hornið. En það eru ekki aðeins hin sýnilegu ummerki einangrunarinnar, svo sem skilyrðislaus hlýðni við grímuskyldu og innilokun sem leggja þennan grundvöll, heldur ekki síður sú einangrun sem grundvallast á afneitun á sameiginlegri skynjun, sem er bein afleiðing róttækrar afstæðishyggju sem tekur ekkert sem gilt nema einstaklingsbundna huglæga reynslu. Og þar sem samfélagsbreytingar knúnar áfram af fólkinu, byltingarkenndar eða ekki, byggjast á möguleikanum til að koma saman, ræða hugmyndir og skipuleggja aðgerðir, sjáum við hversu eyðileggjandi slík hugmyndafræði er fyrir alla slíka viðleitni, jafnt á vinstri og hægri væng stjórnmálanna; hún ógnar öllu raunverulegu stjórnmálastarfi. Og það segir sig sjálft, að í samfélagi sem hafnar öllu öðru en einkareynslu - ef við getum jafnvel kallað það samfélag – getur engin löggjöf haldið velli, og þar með engin mannréttindi.

Umfjöllun Elmers um „woke“-hugmyndafræðina er miðlæg í gagnrýni hans, en um leið aðeins hluti víðfeðmrar greiningar hans á fasismanum, grundvelli hans og ummerkjum um yfirvofandi endurvakningu hans. Hann rekur greiningu Umberto Eco á einkennum hins „eilífa“ fasisma, fjallar á gagnrýninn hátt um skilgreiningu Hayeks á fasisma, fjallar um og skýrir flókinn hugmyndaramma Giorgio Agamben sem liggur til grundvallar sýn hans á stöðu nútímamannsins sem homo sacer – þess sem er útilokaður, en um leið ofurseldur valdinu - innan líföryggisríkisins, kafar ofan í tækniþróunina sem leyfir stöðugt eftirlit yfirvalda og kemst að þeirri niðurstöðu að ef ekkert er að gert séum við á leið í átt að nýrri tegund fasísks alræðis, sem sé kapítalískt í eðli sínu og sem nær ómögulegt sé að brjótast undan þegar því hefur einu sinni verið komið á. Sú staðreynd að greining hans er byggð á sósíalísku sjónarhorni fremur en hægrisinnuðu gefur henni vissulega aukið vægi; hér gæti verið kominn sá grunnur að gagnrýninni umræðu meðal vinstrisinnaðra menntamanna um atburði undanfarinna missera, sem sárlega hefur skort.

Undir lok bókarinnar fjallar Elmer um forngríska vináttuhugtakið sem mögulega útgönguleið. Hjá Forngrikkjum, segir hann, var vinátta meðal borgaranna (philia) grundvallaratriði í velferð borgarríkisins (polis) og einmitt á því byggist hugmyndin um vestrænt lýðræði. Þetta vináttuhugtak er frábrugðið því sem við eigum að venjast. Við sjáum vináttu sem þá nánd sem við leitum eftir til að forðast firringuna sem stafar af stöðugri opinberun einkalífs okkar, segir Elmer. Vinátta er því aðeins til staðar í einkalífinu. En hjá Forngrikkjum voru borgararnir aðeins sameinaðir innan borgarríkisins gegnum stöðuga samræðu og rökræðu. Kjarni vináttunnar fólst í því að koma saman og ræða málefni samfélagsins, ekki aðeins í persónulegum samskiptum og samræðum um okkur sjálf við þá sem standa okkur næst, heldur í samtali sem byggir á sameiginlegum hagsmunum okkar sem þegnar og þátttakendur í samfélaginu. Að sögn Elmers er það vinátta af þessu tagi, tengslin sem myndast á milli ábyrgra virkra borgara, sem gæti og ætti að koma í stað bræðralags þeirra sem ráðist er á með þöggun, ritskoðun, innilokun og öðrum kúgunaraðferðum. Í stuttu máli, Elmer hvetur okkur til að taka alvarlega ábyrgð okkar sem samfélagsþegnar í stað þess að vera eingöngu neytendur sem láta sig stjórnmál og samfélag engu varða; að við komum að nýju saman á torginu, til að takast á um hugmyndir, þróa viðhorf okkar áfram gegnum rökræðu, en ávallt á grundvelli vináttunnar, í hinum forngríska skilningi.

Þorsteinn Siglaugsson, formaður Málfrelsis – samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi