Kári skrifar: Vindrafstöðvar, bilanatíðni þeirra, og „bilun“ ráðamanna - Bófar „bjarga heiminum“ -

„If you [an energy company] are interested in investing in Calabria, I can reassure you that it will be like a highway without toll gates. Wiretapping of an ongoing judicial inquiry about wind power (Corriere della Sera 2012).“

            Það horfir ekki vel um framtíð og ásýnd íslenskrar náttúru ef áform græðgisfólks á Íslandi, með stuðningi erlends græðgisfólks, ná fram að ganga. Fyrst er að nefna að raforkuframleiðsla, sem hluti innviða samfélaga, ætti ævinlega að vera í opinberri eigu, að langmestu leyti.

            Það boðar útaf fyrir sig aldrei gott þegar fram koma einhverjir „front-menn“ sem hafa (eða segjast hafa) erlenda „gullgrafara“ að baki sér. Slíku fólki á að halda sem lengst í burtu frá öllu sem heitir innviðir. Sama fólk leggur auðvitað ekki til krónu úr eigin vasa í verkefni sem þessi en er tilbúið að fleyta „rjómann“ af innkomunni. Það stendur ekki á því. Að vera „umboðsmaður fjárplógsmanna“ er vaxandi „atvinnugrein“ á Íslandi.

            Oft er um að ræða ábyrgðarlausa fjárglæframenn sem fara ránshendi um samfélög og skilja hvarvetna eftir sig sviðna jörð. Mýmörg dæmi eru um það og verður vikið betur að undir lok þessarar greinar. En í krafti svokallaðra „grænna orkugjafa“ sem aftur er ætlað að „smyrja“ orkustefnu ESB, spretta fram braskarar og fjárglæframenn sem ekki láta sitt eftir liggja.

            Ef umræður undanfarið snérust um það að bæjarfélög skoði kosti þess að reisa vindorkuver væri hægt að sýna því vissan skilning. Umræðan snýst hins vegar ekkert um það. Hún snýst um hitt, hvort hleypa eigi græðgisfólki og bröskurum inn á lendur fólks í stórum stíl, um allt land, og þá hvar. Stjórnvöld ráða skýrsluskrifara sem ætlað er að komast að þeirri niðurstöðu að fjölga verði „grænum orkuverum“ og þekja landið með vindrafstöðvum.

            Stjórnvöldin vísa síðan í skýrslurnar, sem þau báðu sjálf um, sem óræka sönnun þess að „allir verði að leggja sitt af mörkum“ í baráttunni við heimsenda. Það er óhætt að segja að stórir vindorkugarðar eru engin sérstök prýði í náttúrunni og eru gríðarleg mannvirki. Þeir fara auk þess illa saman við ferðaþjónustu. Það er afar ólíklegt að ferðamenn hópist til Íslands til þess að horfa á vindorkugarða. Áður en lengra er haldið er rétt að draga saman fáein atriði sem hér skipta miklu máli.

            Í fyrsta lagi er það eignarhaldið, hvort það er opinbert eða á hendi græðgisfólks og braskara, eins og komið er fram. Í öðru lagi sjónræn áhrif af vindrafstöðvum. Í þriðja lagi hávaði og segulsvið. Í fjórða lagi eru atriði sem snerta viðhald og rekstraröryggi. Þar koma m.a. við sögu veðurfarsþættir og ofsafengið veður.

            Í fimmta lagi atriði sem snerta ábyrgð þeirra sem eiga og reka slíkar vindrafstöðvar. Þar má nefna atriði eins og tjón/mengun [sem leiða kann af rekstrinum] og síðar kostnað við niðurrif og förgun, þegar starfsemi er hætt. Eðlilegt væri að gera eigendum skylt að leggja í upphafi fram alvöru tryggingar vegna mögulegs niðurrifs og förgunar síðar. Það er ekki forsvaranlegt að slíkur kostnaður lendi á almenningi.

Bilanatíðni og viðhald

            Það er athyglisvert að rýna í upplýsingar, byggðar á þýskum gögnum frá árunum 1997 til 2006, um bilanatíðni á 1.500 vindrafstöðvum. Rannsóknin var kostuð af þýskum stjórnvöldum en framkvæmd af ISET [Institut für Solare Energieversorgungstechnik].

Mynd 1

Mynd 1

Viðhald vindrafstöðvar. Myndin sýnir naf (Rotor Hub).[i]

            Safnað var saman 15.400 „túrbínuárum“ í notkun og þannig reiknaðar líkur á ýmsum bilunum, á skala 0-8, þar sem núll táknar engin tilvik bilana. Í ljós kom að rafbúnaður er líklegastur til þess að bila, með gildið 5.5 tilvik fyrir hver tíu vélarár. Tími sem vindrafstöð er óvirk vegna þess (downtime) er einn og hálfur sólarhringur. Til samanburðar hafa gírkassar og rafalar lægri bilanatíðni eða u.þ.b. 1.5 tilvik á hverjum tíu vélarárum. Hins vegar verður vindrafstöð óvirk um mun lengri tíma vegna þessa, eða í meira en sex til sjö daga.

            Þá vekja aðrir þættir ekki minni athygli, s.s. spaðar [um 1.5 tilvik] sem valda óvirkni í u.þ.b. þrjá daga, hemlabúnaður [tæplega 2.0 tilvik] sem veldur töf í u.þ.b. tvo og hálfan dag. Einnig snúningsnaf (Rotor Hub[ii]) en það er miðja spaðans og kemur á öxul sem aftur tengist rafal vindrafstöðvar [hvort sem vindrafstöð er með gírkassa eða beintengt drif]. Þar er bilanatíðni um 2.0 tilvik og stöðvun vegna þess um fjórir dagar.

            Greining á vegum landbúnaðarins í Schleswig-Holstein, á 5.800 túrbínuárum, sýnir svipaða bilanatíðni, en umtalsvert lengri frátafir vegna þeirra. T.d. reyndist töf vegna bilunar í gírkassa vera 14 dagar. Bilanatíðni er talin aukast með vaxandi stærð vindrafstöðva. Af samtals 700.000 spöðum (rotor) á heimsvísu eru um 3.800 tilvik vegna bilana á spöðunum eða 0.54% tilvika.[iii]

            Hér þarf að hafa hugfast að viðgerðir á vindrafstöðvum eru engin gamanmál, enda hæðin mikil og veður setur því takmörk hvenær hægt er að hefjast handa. Starfsmenn Landsnets hafa marga „fjöruna sopið“ í viðhaldi háspennulína, um hávetur oft við mjög erfiðar aðstæður. En mikil hæð vindrafstöðva flækir málið enn frekar, þar sem sérútbúnir „loftfimleikamenn“ hanga í beltum.[iv] Það eru sannarlega engir veifiskatar sem starfa við viðhald háspennulína eða vindrafstöðva.

            Allir gera sér ljóst að bilanir valda tekjutapi. Afleiðingar geta orðið talsverðar og kostnaður vegna bilana er fljótur að hækka verulega. Þegar um ræðir vindrafstöðvar á sjó (offshore) tekur tíma að fá viðgerðarskip á staðinn og oft þarf stóra krana[v] til viðgerða vindrafstöðva á landi.

„Bilun“ ráðamanna

            Ráðamenn sofa á verðinum. „Bilun“ þeirra er langtímavandamál. Það verður ekki leyst á nokkrum dögum eins og bilun í vindrafstöð. Þeir stóðu sig afspyrnu illa á árunum 2010 til 2016, þegar unnið var að upptöku orkupakka þrjú. Stuðningsmenn pakkans stóðu sig einnig hörmulega þegar málið kom til kasta Alþingis. Menn hljóta að spyrja: hvað voru íslenskir stjórnmála- og embættismenn að hugsa? Ef horfið er aftur til ársins 2010 og reynt, af fremsta megni, að rýna í hugsunarhátt braskara og sumra stjórnmálamanna á þeim tíma, má setja fram eftirfarandi tilgátu um framtíðarsýn [ekki endilega í þessari röð]:

 • uppkaup [braskara] á vatnsréttindum;
 • innleiðing orkupakka þrjú;
 • uppsetning snjallamæla;
 • gervi heildsölumarkaði komið á;
 • uppbrot Landsvirkjunar [einkaránsvæðing];
 • uppbrot Landsnets [einkaránsvæðing];
 • sæstrengur/sæstrengir til Bretlands/meginlands Evrópu;
 • innreið fjárglæframanna inn á íslenskan raforkumarkað;
 • vindorkugarðar hringinn í kringum landið [í eigu braskara];
 • vindorkugarðar á hafi, hringinn í kringum landið [í eigu braskara];
 • fákeppni/einokun tryggð með tilheyrandi okri og ringulreið á markaði;
 • orkufrekur iðnaður flæmdur úr landi [í boði Vg og rafmagnið selt á uppsprengdu verði um sæstreng/strengi];
 • stóra ránið fullkomnað;
 • ráðherrar sem það studdu verðlaunaðir með starfi sendiherra eða studdir til áframhaldandi „góðverka“ innan ESB eða Sameinuðu þjóðanna.

            Ætla má að þetta sé í grófum dráttum „planið“ sem unnið er eftir. Undirmálin þarf að afhjúpa sem allra fyrst (og eru þegar byrjuð að afhjúpast) og segja landið frá öllum tengslum við innri orkumarkað Evrópusambandsins. Ísland þarf nauðsynlega að endurheimta sjálfstæði sitt í orkumálum og yfirstjórn þeirra.

            Verði ráðist í uppsetningu vindrafstöðva á Íslandi, að einhverju ráði, ætti það að minnsta kosti að vera ófrávíkjanlegt skilyrði að eignarhaldið sé opinbert. Að Landsvirkjun eða bæjarfélög eigi og reki vindrafstöðvarnar. En að opna fjárglæframönnum leið inn á íslenskan raforkumarkað, í gegnum vindrafstöðvar, er ekki bara slæm hugmynd hún er beinlínis hættuleg og alveg fráleit.

            Það er engin hending að Alþingi samþykkti innleiðingu orkupakka þrjú. Þar er boðuð „samkeppni“ (gervisamkeppni) og „neytendavernd“ [en gagnvart hverjum?]. Í orkumálum líkjast íslensk stjórnvöld stundum áhöfn á skútu [þjóðarskútu] með rifin segl sem hrekst undan veðri og vindum [einkum þegar vindurinn blæs frá Evrópusambandinu].

            Það þarf að leiðrétta „kúrsinn“, rifja upp „siglingafræðina“ [lesa „sjókortin“] og forða skútunni frá því að lenda uppi í fjöru og brotna þar í spón. Taki áhöfnin ekki hæfingu þarf að skipta um áhöfn. Nýja áhöfn er þó ekki að finna í Samfylkingu, Viðreisn og pírötum. Það væri glapræði að fela fólki í þeim flokkum stjórn skútunnar og þar með orkumálanna. Samfélagslegt eignarhald á orkulindum er frumforsenda þess að hægt sé að reka mannsæmandi þjóðfélag. Að slá á ránshendur er enn fremur viðvarandi verkefni þar sem aldrei má slá slöku við.

Mynd 2[vi]

Mynd 2

Mynd 2 sýnir raforkuframleiðslu, eftir svæðum, á heimsvísu í teravattstundum [TWh], bæði á sjó og landi.

Bófarnir sjá sér leik á borði

              Bófar í fjármálaheiminum eru sífelt á höttunum eftir nýjum „viðskiptatækifærum“. Þeir hafa í vaxandi mæli fundið sér farveg í „endurnýjanlegum“ orkugjöfum. Undanfarið hefur umræða beinst að skipulagðri glæpastarfsemi. Þar tvinnast oft saman stjórnmál og „viðskipti“.

            Árið 2016 birtist fræðigrein eftir þau Caterina Gennaioli og Massimo Tavoni. Á íslensku gæti titill hennar útlagst: „Hrein eða óhrein orka: sannanir um spillingu á sviði endurnýjanlegrar orku“ [Clean or dirty energy: evidence of corruption in the renewable energy sector].

            Í greininni kemur fram að á Ítalíu er [2016] tryggt lágmarksverð [guaranteed rate] 180 evrur á kílóvattstund [ath. þarna eiga breskir blaðamenn sem vísað er til trúlega við mwh] sem þá er sagt hæsta verð í heimi. Síðan segir, og þar vísað til The Telegraph: „Í landi þar sem mafían hefur margra ára sérfræðiþekkingu á því að kaupa spillta stjórnmálamenn og hræða keppinauta, er niðurstaðan e.t.v. óumflýjanleg, að búa til nýja tegund frumkvöðla sem kallast herrar vindsins“ [lords of the wind].[vii] Á Íslandi hafa slíkir menn hlotið nafnið „rafgreifar“. Sumir þeirra hafa birst fólki á fundum, hversdagslega klæddir, og reynt að telja því trú um að þeir muni bjarga heiminum frá glötun – með vindorku – en jarðeigendur verði að fórna landi sínu og útsýni á altari græðginnar. Á næstu misserum verða eflaust haldnir fleiri fundir um áform „rafgreifa“ og nýja vindorkugarða. Þá ættu fundarmenn, um land allt, að hugleiða einmitt tengsl ítölsku mafíunnar, og „systursamtaka“ hennar, við spillta stjórnmálamenn. Sömu lögmál gilda á Íslandi enda margt skylt með Ítalíu og Íslandi þegar kemur að stjórnmálum og spillingu. Rannsóknarskýrsla í níu bindum varpar ljósi á það.

            Fjölmargt áhugavert kemur fram í nefndri fræðigrein. Þar segir m.a. að gæði stofnana [hvað segir í rannsóknarskýrslunni um veikar stofnanir?] og vindstyrkur ráði því hvort „vindmarkaður“ í viðkomandi héraði teljist spilltur (og menn greiða mútur). Vindstyrkurinn, sem aftur hefur áhrif á arðsemi fjárfestingar, stjórnar því hvort braskararnir fara inn á vindorkumarkaðinn eða ekki.

            Þegar gæði stofnana eru lítil [stofnanir veikburða], auka afskipti stjórnmálamanna verulega líkur á leyfisveitingum og spilling er almennt liðin í samfélaginu. Mikill vindur tengist þá auknum fjölda spilltra aðila sem virkir eru á vindorkumarkaði. Ef hins vegar líkur á leyfisveitingu aðila án pólitískrar íhlutunar eru þær sömu, og spilling er illa séð í samfélagi, þá tengist hár vindstyrkur fleiri „heiðarlegum bröskurum“ á markaði.[viii]

            Þetta merkir á mannamáli að spillt pólitík verður ekki ráðandi þáttur um það hvort menn fá leyfi eða ekki þegar stofnanir samfélagsins hafa næga burði og spilling er illa liðin. Aðrir þættir verða þá ráðandi um leyfisveitingar. Annað sem vekur athygli er það að þegar fara saman veikar stofnanir og innleiðing markaðskerfis eykst spilling á svæðum með mikinn vindstyrk.

            Sumir kunna að halda að þetta eigi ekki við á Íslandi. En er það svo? Saga íslenskra stjórnmála og viðskipta, áratugum saman, er samofin margskonar sérkennilegri „fyrirgreiðslu“ og ógagnsæi, veikburða stofnunum og veikburða stjórnsýslu sem aftur eykur líkur á því að braskarar nái að hreiðra um sig. Það skortir viðspyrnu. En fólk verður samt sem áður að halda í bjartsýnina – einhvern tíma hlýtur að „stytta upp“. En þreifingar um vindorkugarða, vítt og breitt um landið, hljóta þó að vekja mikla tortryggni.

            samandregið gerir kenning þeirra Gennaioli og Tavoni ráð fyrir tvennu:

 1. að spilling sé meira áberandi í vindasömustu héruðunum;
 2. að hækkað endurgjald vindfjárfestinga, vegna innleiðingar markaðsbundinnar stefnumótunar [markaðskerfis], leiðir til aukins umfangs spillingar, sérstaklega í vindasömum héruðum.[ix]

            Fyrsta skrefið er lagasetning um vindorkuver. Annað skref er að leita til Veðurstofu Íslands og kortleggja hvar vindasömustu svæðin eru á landinu sem orðuð hafa verið við vindorkugarða. Þau svæði eru samkvæmt rannsókninni tengd mestri hættu á spillingu. Þriðja skref er að gera úttekt á þeim stofnunum sem t.a.m. gefa út framkvæmdaleyfi, hversu öflugar og faglegar þær eru. Síðast en ekki síst þarf að mæla þol Íslendinga gagnvart spillingu. Þegar þessum rannsóknum er lokið er fyrst hægt að ræða um uppsetningu vindorkugarða. Þá er málið komið á umræðustig, varla fyrr.

            En með því að halda opinberu eignarhaldi á vindrafstöðvum má líka lágmarka áhættu og spillingu sem tengist vindorkunni, auk þess sem arðurinn rennur þá ekki í vasa braskara og fjárglæframanna heldur í opinbera sjóði. Spilling á ekki eins greiða leið inn í ákvarðanatöku ef um ræðir sveitarfélög sem hyggjast reisa og reka orkuver eða opinbert fyrirtæki s.s. Landsvirkjun.

            Hættan er mest þegar braskararnir, og fulltrúar þeirra, ganga lausir og vaða yfir allt og alla. Margir Íslendingar skilja það ágætlega. Hinu þarf þó að halda til haga líka, að braskarar rata stundum inn í stjórnir opinberra fyrirtækja og jafnvel þar í stól forstjóra. Þeir vinna þá leynt og ljóst að því að grafa undan viðkomandi fyrirtæki og koma því á „frjálsan markað“. Slík undirmál á að afhjúpa og bjóða sömu mönnum „starfslokasamning“ enda séu þeir komnir útaf sporinu.

Að lokum

            Innleiðing orkupakka þrjú var herfileg mistök og algerlega óþarft klúður. Sumir töldu sig vafalaust styðja „græna stefnu“ með innleiðingu hans. Það eru hins vegar alger öfugmæli. Markaðskerfi með raforku, þar sem „grænir orkugjafar“ skulu njóta forgangs, er ekki það sem þjónar náttúrunni best enda stór landsvæði (og hafsvæði) lögð undir gríðarmikla vindorkugarða með tilheyrandi landskemmdum, plastmengun[x] og fugladauða. Til hliðar við þetta þrífast síðan sjálfstæð kerfi braskara með upprunaábyrgðir[xi] og losunarheimildir.[xii]

            Íslendingar eiga sem þjóð að halda innlendri stjórn á virkjunum og dreifikerfi og opinberu eignarhaldi á hvoru tveggja og ákveða sjálfir verðlagningu raforku. Orkupakki þrjú er Trójuhestur í íslensku þjóðfélagi. Í Trójuhestinum reyndist m.a. vera Landsreglari [„landstjóri“ ESB í orkumálum]. Þetta erlenda yfirvald skal vera óháð íslenskum stjórnvöldum og sækir ekkert umboð til íslenskra kjósenda. Er með öðrum orðum ekki lýðræðislegt yfirvald. Hins vegar er afskaplega erfitt að henda reiður á því hver er raunveruleg stefna stjórnvalda í orkumálum eða hvort þau hafa yfirleitt einhverja stefnu aðra en einmitt ESB-línuna.

Mynd 3

Mynd 3

Mynd 3 sýnir miklar verðhækkanir á gasi og rafmagni á tólf mánaða tímabili í Þýskalandi.

            Ef „plan“ braskaranna (sjá upptalningu), með stuðningi stjórnmálanna, nær fram að ganga er ljóst að „stóra ránið“ hefur heppnast fullkomlega. Þjóðin hefur verið rænd auðlindum sínum en braskararnir hrósa sigri. Orkumálin eru mál málanna. Það er því furðuleg tímaskekkja að heyra t.d. rætt á RUV (Rás1) um innihaldslaus fjölskyldumál „rappara“ og „áhrifavalda“ í stað þess að ræða stóru þjóðfélagsmálin. Forheimskun er raunar hluti af vandamálinu, því hvernig þjóðin er rænd og hlunnfarin, t.d. með innihaldslausu blaðri um Kardashian-fjölskylduna. Þegar kjósendur eru vel upplýstir og alltaf á vaktinni, á öllum aldri, er að sama skapi mun erfiðara að ræna fólk – það er þá oftar viðbúið og getur frekar varist ráninu.

            Áform um vindorkugarða, eins og þau hafa verið kynnt, virðast því miður vera enn einn ránsleiðangurinn, þar sem braskarar hafa stórfé af fólki en lofa gulli og grænum skógum. Í krafti almannahagsmuna á að vísa bröskurunum úr húsi og hvetja það fólk sem nú vinnur að uppsetningu gervi-heildsölumarkaðar með raforku til þess að hætta störfum sem fyrst. Stjórnmálamenn sem ekki starfa í þágu lands og lýðs eiga enn fremur að snúa sér að öðru. „Bilun“ ráðamanna má ekki valda frekari skaða en orðinn er á sviði orkumálanna. Þjóðarhagsmunir verða að ráða för. Góðar stundir!

Nokkrar slóðir um vindorku fyrir áhugasama

https://www.ndr.de/nachrichten/schleswig-holstein/Wilstermarsch-Fundamente-fuer-die-leistungsstaerksten-Windraeder,windkraft1178.html

https://www.schleswig-holstein.de/DE/landesregierung/themen/energie/windenergie/windenergie_node.html

https://www.wind-energie.de/english/statistics/statistics-germany/

https://www.windpowermonthly.com/article/1347145/annual-blade-failures-estimated-around-3800

https://www.wind-energy-the-facts.org/factors-affecting-turbine-location.html

https://www.firetrace.com/fire-protection-blog/wind-farm-maintenance

https://nawindpower.com/five-key-factors-that-affect-wind-farm-bankability

https://www.nsenergybusiness.com/projects/reusenkoge-wind-farm-expansion/#

https://stopthesethings.com/2016/01/19/wind-turbine-terror-spanish-home-hit-by-flying-blade-just-1-of-3800-blade-fails-every-year/

https://www.welt.de/regionales/hamburg/article236365107/Windenergie-Die-ungeloesten-Probleme-beim-Ausbau-der-Windkraft-auf-See.html

https://group.vattenfall.com/de/verantwortung/fossilfreier-fortschritt/windenergie

[i]      Heimild: Mein, S. (2020). Wind Farm Maintenance Planning. FIRETRACE International. https://www.firetrace.com/fire-protection-blog/wind-farm-maintenance

[ii]    Sjá t.d.: Wind turbine terminology and Components. https://www.youtube.com/watch?v=P9SyZvHrJvc

[iii]   Mishnaevsky, L., Jr. Root Causes and Mechanisms of Failure of Wind Turbine Blades: Overview. Materials 2022, 15, 2959. https://doi.org/10.3390/ma15092959

[iv]    Sjá t.d.: Become a Wind Turbine Tech in 2021? Salary, Jobs, Education. https://www.youtube.com/watch?v=g1t5EUxyFx8

[v]     Sjá t.d.: Reaching the limit? (13 January 2021). CRANES TODAY MAGAZINE. https://www.cranestodaymagazine.com/features/reaching-the-limit-8451449/

[vi]    Heimild: Our World in Data. https://ourworldindata.org/grapher/wind-generation

[vii]  Gennaioli, C., Tavoni, M. Clean or dirty energy: evidence of corruption in the renewable energy sector. Public Choice 166, p. 262 (2016). https://doi.org/10.1007/s11127-016-0322-y

[viii] Ibid, p. 265.

[ix]    Ibid, p. 266.

[x]     Sjá t.d.: Hill, S. (2021). Letters/Microplastics from wind turbines. Shetland News. https://www.shetnews.co.uk/2021/10/19/microplastics-from-wind-turbines/

[xi]    Sjá: European University Institute, Conti, I., Pototschnig, A. (2021). Upgrading guarantees of origin to promote the achievement of the EU renewable energy target at least cost, Publications Office. https://data.europa.eu/doi/10.2870/848062

[xii]  Sjá: European Commission. EU Emissions Trading System (EU ETS). https://climate.ec.europa.eu/eu-action/eu-emissions-trading-system-eu-ets_en

Fréttabréf