Fara í efni

VINSTRI GRÆN OG STÆKKUN NATO

Eftirfarandi grein er stíluð til félaga í Vinstrihreyfingunni grænu framboði og birtist fyrst 9. maí á vettvangi þeirra. Þar sem ég tel hana eiga erindi út fyrir raðir Vinstri grænna hef ég farið fram á að hún birtist hér á þessum opna vettvangi.

Í meðfylgjandi grein í Kjarnanum frá 6. maí stendur þetta:
„Íslensk stjórn­völd styðja þær ákvarð­anir sem þjóð­þing Finn­lands og Sví­þjóðar munu taka varð­andi aðild að Atl­ants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Engin breyt­ing hefur orðið á sam­þykktri stefnu Vinstri grænna (VG).

Þetta kemur fram í svari Katrínar Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra og for­manns VG við fyr­ir­spurn Kjarn­ans þar sem hún er spurð hvort áherslu­breyt­ing hafi orðið hjá flokknum varð­andi afstöðu til NATO.

Þegar Katrín er spurð hvort hún muni styðja við stækkun NATO segir hún að hún muni styðja þá ákvörðun sem Finn­land og Sví­þjóð munu taka.“

 Og í frétt Rikisútvarpsins 4. maí segir:

„Katrín Jakobsdóttir ítrekaði afstöðu Íslands og sagði að ef kæmi að aðildarviðræðum myndu Íslendingar gera hvað þeir gætu til þess að umsóknin yrði afgreidd með hraði.“

Ég veit ekki til að landsfundur eða flokksráð VG hafi nokkurn tíma samþykkt stefnu varðandi aðildarumsóknir að NATO. Hins vegar hafa þingmenn VG fjórum sinnum þurft að taka afstöðu til málsins, eins og nánar er að nokkru leyti greint frá í grein Kjarnans. Í öll þessi skipti hafa þingmenn VG setið hjá við afgreiðslu málsins. Eftir því sem ég best veit hefur sú afstaða verið óumdeild. Því má segja að VG hafi haft ákveðna stefnu varðandi þetta mál.

Sú stefna er mjög vel rökstudd í minnihlutaáliti Steingríms J. Sigfússonar á Alþingi 24. nóvember 2003 vegna þingsályktunartillögu um, staðfestingu sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu. Þessi tæplega tveggja áratuga gamla greinargerð er raunar mjög gott innlegg í þá umræðu sem við þurfum nú að eiga. Til viðbótar koma minnihlutaálit Árna Þórs Sigurðssonar 11. febrúar 2009 vegna aðildarumsóknar Albaníu og Króatíu, Steinunnar Þóru Árnadóttur 1. júní 2016 vegna aðildarumsóknar Svartfjallalands og þeirra Ara Trausta Guðmundssonar og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur 21. október 2019 vegna aðildarumsóknar Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

Framsöguræða Steingríms á Alþingi 28. nóvember 2003 er líka allrar athygli verð sem og ræður fleiri þingmanna VG þegar þessi mál hafa verið til umræðu á Alþingi, meðal annars ræða Katrínar Jakobsdóttur í umræðum 26. maí 2016.

Í þessum álitum og ræðum er meðal annars bent á að NATO er hernaðarbandalag sem ýtir undir aukinn vígbúnað og gerir þar á meðal ráð fyrir kjarnorkuvopnum og hafa ítrekað verið færð þau rök gegn friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum að hún samrýmist ekki veru okkar í NATO. Þá hefur verið bent á þær breytingar sem urðu á stefnu NATO eftir lok kalda stríðins þegar bandalagið fór í það að finna sér ný verkefni, eins og Katrín orðaði það í sinni ræðu 2016, tók upp útþenslustefnu til austurs sem hefur raskað stöðugleika í Evrópu, eins og Steinunn Þóra orðaði það í áliti sínu sama ár, og tekið þátt í hernaðaríhlutunum utan Evrópu með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa þeirra landa, eins og bent er á í minnihlutaálitinu 2019. Vænlegra sé að styrkja fjölþjóðleg samtök og stofnanir sem byggjast á samstarfi þvert á hagsmuni, svo sem Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, í stað stað þess að þenja út hernaðarbandalag einstakrar blokkar.

Ég reikna með að það sé leitun á þeim í röðum Vinstri grænna sem telja að NATO hafi eitthvað breyst til hins betra frá árunum 2003, 2009, 2016 og 2019. Hins vegar eru auðvitað með innrás Rússa í Úkraínu komnar upp aðstæður í Evrópu sem ekki voru í þau fjögur skipti sem VG hefur þurft að taka afstöðu til stækkunar NATO. En það er alls ekki óumdeilt að það sé til bóta að stækka NATO enn frekar við þessar aðstæður. Þau ríki, sem hyggjast nú sækja um aðild að NATO, hafa sínar ástæður til þess rétt eins og þau ríki, sem  sóttu um aðild árin 2003, 2009, 2016 og 2019, höfðu sínar ástæður. Þrátt fyrir það var afstaða þingmanna VG þá að sitja hjá. Í umræðum á Alþingi 12. febrúar 2009 sagði Árni Þór Sigurðsson það skiljanlegt að þjóðir á Balkanskaga leituðu eftir því að tengjast vestrænum bandalögum í ljósi sögunnar og átaka á tíunda áratug síðustu aldar, að sjálfsögðu bæri að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða og lýðræðislegan rétt þeirra til að ákveða hvernig varnar- og öryggismálum þeirra skuli háttað, en þrátt fyrir það teldu þingmenn VG ekki að stækkun Atlantshafsbandalagsins væri jákvætt skref í öryggismálum Evrópu og því mundu þeir sitja hjá.

Sumir telja kannski að innrásin í Úkraínu hafi breytt öllum forsendum varðandi þetta mál og þar með kannski að einhverju leyti afstöðu VG til NATO. Það er þá brýnt að taka það til alvarlegrar umræðu á vettvangi VG. Formaður VG á ekki einn að breyta þessari afstöðu þrátt fyrir að vera í þeirri vandasömu stöðu að vera talsmaður ríkisstjórnarinnar og þar með eiginlega Íslands. VG var líka í ríkisstjórn árið 2009 og það hindraði þingmenn flokksins ekki í að greiða atkvæði öðru vísi en  þingmenn samstarfsflokksins. Þá var það þingið en ekki ríkisstjórnin sem tók afstöðu.

Þá er líka rétt að benda á að systurflokkur VG í Svíþjóð, Vänsterpartiet, hafnar aðild að NATO. Með  aðild að NATO geti Svíþjóð neyðst til að taka þátt í ófriði, NATO sé í raun kjarnorkuvopnabandalag og aðild að því drægi úr möguleikum Svíþjóðar á að hafa sjálfstæða utanríkisstefnu. Svíþjóð yrði í raun öruggara utan NATO

Út frá þeirri stefnu sem þingmenn VG hafa fylgt síðan 2003 er eðlilegast að þeir sitji hjá þegar aðildarumsókn Svíþjóðar og Finnlands kemur til kasta Alþingis. Önnur afstaða verði ekki tekin nema að afstöðnum ítarlegum umræðum á vettvangi VG.

https://kjarninn.is/frettir/katrin-stydur-staekkun-nato-i-fyrsta-sinn-sem-formadur-vg-gerir-thad/

Tenglar á þær umræður á Alþingi sem hér hefur verið vísað til og á yfirlýsingu á heimasíðu Vänsterpartiet í Svíþjóð:

Viðbótarsamningur við Norður­-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu. 2019

https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=150&mnr=146

Viðbótarsamningur við Norður­-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró). 2016.

https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=145&mnr=788

Viðbótarsamningar við Norður­-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu. 2009.

https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=150&mnr=146

Viðbótarsamningar við Norður­-Atlantshafssamninginn. 2003

https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=130&mnr=249

Vänsterpartiet säger nej till ett svenskt Natomedlemskap. Militär alliansfrihet är det bästa valet för att trygga landets säkerhet.

https://www.vansterpartiet.se/politik/nato/

w.vansterpartiet.se/politik/nato/