Kári skrifar: SKYLDUBÓLUSETNINGAR LEYSA EKKI VANDANN

            Það er nokkuð rætt um skyldubólusetningar þessar vikurnar. Ríki á meginlandi Evrópu hafa t.a.m. farið þá leið að skylda bólusetningar vegna veiki þeirrar sem kennd er við Covid-19. Þar hefur m.a. verið stuðst við dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli VAVŘIČKA AND OTHERS v. THE CZECH REPUBLIC.[i]

Forsaga mála

            Eins og kemur fram í dóminum er í tékkneskum sóttvarnarlögum nr. 258/2000, 1. mgr. 46. gr., kveðið á um það að fólk með fasta búsetu, og útlendingar sem heimild hafa til langtímabúsetu í Tékklandi, skuli gangast undir hefðbundnar bólusetningar í samræmi við ítarleg skilyrði sem sett eru fram í afleiddum lögum [reglugerðum]. Forráðamenn barna, yngri en 15 ára, bera ábyrgð á því að skyldunni sé framfylgt.

            Almennt er litið svo á að tékknesk stjórnskipunarvenja takmarki skyldur við það sem kveðið er á um í lögum og að takmarkanir á grundvallarréttindum (mannréttindum) og frelsi megi einungis setja með lögum. Nefnd sóttvarnarlög hafa að geyma ákvæði í 6. mgr. 46. gr. og í 1. mgr. 80. gr. sem kveða á um það að heilbrigðisráðuneytið samþykki innleiðingarlöggjöf í tengslum við bólusetningar.

            Ráðuneytið staðfesti framangreindar ráðstafanir gegn smitsjúkdómum með úrskurði sínum nr. 439/2000, með áorðnum breytingum, og var í gildi. frá 1. janúar 2001 til 31. desember 2006. Í sóttvarnarlögunum er ennfremur kveðið á um að leikskólar megi aðeins taka við börnum sem hafa verið bólusett, eða hafa staðfest ónæmi af öðrum orsökum eða eru ófær um að þiggja bólusetningu af heilsufarsástæðum. Kostnaður við bólusetningu er greiddur af sjúkratryggingum.

            Samkvæmt f-lið 1. mgr. 29. gr. og 2. mgr. laga um minniháttar afbrot (minor offence) er hver sá sem sem brýtur gegn banni, eða sinnir ekki lagaskyldu sem ætlað er að stemma stigu við smitsjúkdómum, brotlegur og kann að verða látinn sæta sektum, allt að 10.000 tékkneskum krónum.

            Ef misbrestur á skyldubólusetningu veldur bólusettum einstaklingi heilsutjóni, kann sá er veldur að verða gerður ábyrgur samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar [hér kunna sönnunarvandkvæði að vera til staðar, það að vera óbólusettur/sett jafngildir ekki sjálfkrafa því að vera smitandi. Komið hefur í ljós að þeir sem eru bólusettir smita líka, að minnsta kosti í tilviki Covid-19].

            Hvað snertir heilsutjón af völdum skyldubóluefnis sem gefið er, í samræmi við gildandi reglur og verklagsreglur (lege artis), var hægt, fram til 31. desember 2013, að krefjast bóta frá heilbrigðisstarfsmanni sem bólusetti, á grundvelli hlutlægrar skaðabótaábyrgðar [ í enskum rétti „strict liability“].

            En hlutlæg skaðabótaábyrgð merkir [Tort Law/Criminal Law] að ekki þarf að sanna gáleysi eða ásetning stefnda/ákærða. Viðkomandi er gerður ábyrgur á þeim grundvelli að hann framkvæmdi eitthvað sem aftur leiddi til tjóns.[ii] Með breytingum á einkamálarétti í Tékklandi var þetta afnumið. Frá og með 1. janúar 2014 er ekki lengur um að ræða hlutlæga skaðabótaábyrgð starfsmanns heldur er ábyrgðin færð yfir á ríkið, samkvæmt sérlögum sem gildi tóku þann 8. apríl 2020.

Málavextir

            Þann 18. desember 2003 var kærandi fundinn sekur um brot samkvæmt f-lið 1. mgr. 29. gr. áðurnefndra laga um minniháttar afbrot, á þeim grundvelli að hafa ekki virt skyldu til þess að mæta með tvö börn sín, þá fjórtán og þrettán ára, á heilsugæslustöð til bólusetningar vegna mænusóttar (lömunarveiki), lifrarbólgu B og stífkrampa. Var kærandi sektaður um 3.000 tékkneskar krónur og auk þess gert að greiða 500 tékkneskar krónur vegna kostnaðar. Þarna var málið á stjórnsýslustigi.

            Kærandi bar ákvörðunina undir dómstóla og að lokum undir stjórnlagadómstól landsins. Kærandi hélt því fram að að umræddar reglugerðir væru andstæðar grundvallarréttindum hans og frelsi, einkum réttinum til þess að hafna læknisfræðilegri íhlutun. Var þar vísað til 5. og 6. gr. sáttmálans um mannréttindi og líflækningar [the Convention on Human Rights and Biomedicine - Oviedo Convention[iii]] sem er hluti af tékkneskum rétti og hefur forgang [eins og Evrópuréttur] fram yfir lög landsins, komi til árekstra. Þá var og byggt á réttinum til þess að hafa trúarlegar og heimspekilegar skoðanir og halda þeim fram.

            Andmælti kærandi bólusetningarskyldunni sem óábyrgum tilraunum með heilsu manna og lagði áherslu á raunverulegar og mögulegar aukaverkanir bóluefna. Hann hélt því fram að engin hætta skapaðist fyrir lýðheilsu í þessu tilviki, í ljósi þess að síðasta tilvik mænusóttar var árið 1960, að lifrarbólga B varðaði einungis sérstaka áhættuhópa og stífkrampi smitaðist ekki á milli manna.

            Áfrýjun kæranda var fyrst vísað frá Hæstarétti á stjórnsýslustigi [Supreme Administrative Court] með dómi þann 28. febrúar 2006. Dómurinn var hins vegar ógiltur af stjórnlagadómstólnum, með dómi þann 3. febrúar 2011. Taldi stjórnlagadómstóllinn að sá fyrrnefndi hefði ekki veitt fullnægjandi úrlausn á kröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun væri andstæð rétti hans til trúfrelsis.

            Taldi dómstóllinn að bólusetningarskyldan sem slík væri ekki í húfi í málinu þar sem áfrýjunin snéri að refsingu (sekt), vegna vanefndar á skyldu samkvæmt ráðherraúrskurði frá árinu 2000, sem lögð var á samkvæmt nefndum lögum um minniháttar afbrot, þann 18. desember 2003. Það úrlausnarefni var utan valdsviðs stjórnlagadómstólsins. Hann gat því ekki tekið afstöðu til þess hvort sjálf bólusetningarskyldan stæðist stjórnarskrá landsins.

            Í öllu falli taldi stjórnlagadómstóllinn sig ekki hafa vald til þess að meta, í stað löggjafans eða framkvæmdavaldsins, gegn hvaða smitsjúkdómum nauðsynlegt væri að bólusetja. Það skyldi löggjafinn meta, með hliðsjón af 26. gr. Oviedo-sáttmálans. Ákvörðunin væri pólitísks og sérfræðilegs eðlis og svigrúm til ákvarðanatökunnar tiltölulega mikið.

            Dómstóllinn gerir greinarmun á því annars vegar að setja ákvæði í lög um skyldubólusetningu og hins vegar að framfylgja skyldunni. Skyldubólusetning jafngilti í meginatriðum leyfilegri takmörkun á grundvallarrétti til þess að tjá trú sína eða skoðanir, þar sem hún væri augljóslega nauðsynleg ráðstöfun í lýðræðisþjóðfélagi til þess að vernda almannaöryggi, heilsu, réttindi og frelsi annara. En til þess að túlkunin á takmörkunum væri í samræmi við stjórnskipunarreglur gæti hún ekki falið í sér að bólusetningarskyldu væri framfylgt skilyrðislaust gagnvart sérhverjum einstaklingi, óháð þeim ástæðum sem fólk kann að hafa. Þetta merkir með öðrum orðum að taka ber fullt tillit til einstaklingsbundinna ástæðna.

            Lokaniðurstaðan lá fyrir þann 24. janúar 2013, þegar stjórnlagadómstóllinn hafnaði kröfum kæranda, vegna dóms Hæstaréttar á stjórnsýslustigi, frá 30. september 2011. En í þeim dómi kemur fram að kærandi hafi ekki reitt sig á vernd trúar- og heimspekilegrar sannfæringar sinnar fyrr en seint við rekstur málsins, án frekari skýringa. Rök hafi skort fyrir því hvernig bólusetningarnar gætu truflað vernd trúarsannfæringar mannsins. [Þetta verður að teljast nokkuð hæpin krafa af hálfu dómstólsins. Trúarsannfæring þarfnast að öllu jöfnu ekki sérstaks rökstuðnings]. Taldi dómstóllinn að hagsmunir þess að vernda lýðheilsu vægju þyngra en réttur kæranda til þess að iðka trú sína og tjá skoðanir.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu

            Það er áskilið í reglum mannréttindadómstóls Evrópu að áður en máli verði skotið þangað hafi öll réttarúrræði heimaríkis verið tæmd.[iv] Það skilyrði er uppfyllt með dómi á efsta dómstigi. Hér verða ekki raktir málavextir í tilvikum annara kærenda en sjónum beint að niðurstöðum og dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Segja má að dómstóllinn hafi í síauknum mæli tekið á sig á pólitíska mynd [MDE er mjög pólitískur dómstóll[v] og sprottinn af pólítískum rótum] sem aftur birtist í fjölmörgum dómum hans og röksemdafærslum sem stundum ná ekki máli. Að þessu verður betur vikið við lok greinarinnar. En þá að niðurstöðum mannréttindadómstólsins.

            Lagagrunnur (lagarök) kærenda var byggður á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu [1. mgr. 8. gr.], en einnig var látið reyna á 9. gr. (hugsana-, samvisku- og trúfrelsi), 2., 6., 13. og 14. gr. mannréttindasáttmálans sem taka til (í sömu röð); réttar til lífs; réttar til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi; réttar til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns; og banns við mismunun. Þá var ljósi varpað á málið út frá 2. gr. í 1. viðauka við samninginn [sjá: submissions of the third-party interveners]. Dómstóllinn taldi einungis 8. gr. mannréttindasáttmálans koma til álita við úrlausn málsins.

            Samkvæmt staðfestri dómaframkvæmd dómstólsins var skyldubólusetning, sem þvinguð læknisíhlutun, talin truflun á réttinum til friðhelgi einkalífs. Þrátt fyrir að engar hinna kærðu bólusetninga hafi verið framkvæmdar, jafngilti bólusetningarskyldan, og beinar afleiðingar þess að ekki var farið að henni, einnig slíkri truflun. Inngripin hafi verið lögmæt og stefnt að því lögmæta markmiði að vernda heilsu og réttindi annarra. Við mat á því hvort inngripin í réttindi kærenda hafi verið nauðsynleg í lýðræðissamfélagi kannaði dómstóllinn eftirfarandi þætti:

(a) svigrúm til aðgerða (margin of appreciation) var talið vítt;

 • ekki hafi verið bólusett gegn vilja umsækjenda, né hefði það verið fært, þar sem nauðung hefði ekki staðist landslög;
 • almenn samstaða meðal samningsríkjanna [sem aðild eiga að mannréttindasáttmálanum], studd af alþjóðlegum sérhæfðum stofnunum, um að bólusetning væri eitt farsælasta og hagkvæmasta heilbrigðisinngripið og að hverju ríki bæri að stefna að því að bólusetja sem flesta;
 • ekki var samstaða um samræmda aðferð við bólusetningu barna, heldur fremur mismunandi aðferðir, allt frá þeim sem byggja algjörlega á tilmælum, til þeirra sem skyldubinda eina eða fleiri bólusetningar og til þeirra sem lögbinda þær. Þrjú ríki höfðu meðalgöngu með Tékklandi og fylgdu málsástæðum þess sem hafa nýlega verið teknar upp af fleiri ríkjum, sökum færra fólks sem þiggur bólusetningar af fúsum og frjálsum vilja, sem aftur leiði til minna „hjarðónæmis“ [við þetta er ýmislegt að athuga. Er það t.a.m. víst að margar bólusetningar tryggi frekar „hjarðónæmi“, ekki síst þegar það er haft í huga að margar veirur stökkbreytast? Hafi veira breyst það mikið að fyrra bóluefni dugar ekki lengur er ljóst að enn er langt í land];
 • bólusetningarskylda barna er ekki bundin við sjónarhorn þeirra sem eru ósammála þessari skyldu heldur felur hún einnig í sér gildi félagslegrar samstöðu, en tilgangur skyldunnar er að vernda heilsu allra þjóðfélagsþegna, sérstaklega þeirra sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir tilteknum sjúkdómum og fyrir hönd þeirra var restin af þjóðinni beðin um að taka á sig lágmarksáhættu í formi bólusetningar. [„Lágmarksáhættu“? Það á næstum örugglega við í tilviki hefðbundinna bólusetninga, eins og hér um ræðir, enda komin löng reynsla á þær. Þar með er ekki sagt að sama eigi við um allar bólusetningar!];
 • eins og áður hefur komið fram, falla heilbrigðismál undir svigrúm þeirra yfirvalda sem best eru til þess fallin að leggja mat á forgangsröðun og félagslegar þarfir [það merkir ekki að dómgreind annara skuli víkja og engin önnur sjónarmið komast að. Tíminn einn mun leiða í ljós hvaða sjónarmið er „rétt“];
 • úrskurðarefnið var ekki hvort taka hefði mátt upp aðra, vægari stefnu, eins og í sumum öðrum Evrópuríkjum, heldur fremur hvort tékknesk yfirvöld hefðu náð ákveðnu jafnvægi en jafnframt haldið sér innan ákveðinna marka [sbr. margin of appreciation];

(b) brýn félagsleg þörf, viðeigandi og fullnægjandi ástæður voru svör yfirvalda. Til þess að vernda heilsu einstaklinga og lýðheilsu gegn viðkomandi sjúkdómum og til þess að mæta fækkun barnabólusetninga. Það var, að mati mannréttindadómstólsins, talið stutt viðeigandi og fullnægjandi rökum. Auk veigamikilla lýðheilsusjónarmiða, almennrar samstöðu milli ríkja og viðeigandi sérfræðigagna, hafði dómstóllinn einnig hliðsjón af hagsmunum barna.

Samkvæmt rótgróinni dómaframkvæmd dómstólsins skipta hagsmunir barna höfuðmáli í öllum ákvörðunum sem þau varða; þetta endurspeglar þá víðtæku samstöðu sem einkum kemur fram í 3. grein barnasáttmálans [UN Convention on the Rights of the Child].

Í kjölfarið hvílir sú skylda á ríkjum að setja hagsmuni barna, og einnig hagsmuna barna sem hóps, í öndvegi allra ákvarðana sem hafa áhrif á heilsu þeirra og þroska. Þegar kemur að bólusetningu ætti markmiðið að vera það að hvert barn sé verndað gegn alvarlegum sjúkdómum; þetta hefur náðst, í langflestum tilfellum, með því að börn hafa fengið fullar bólusetningar á fyrstu æviárum sínum.

Þau sem ekki er hægt að bólusetja hafa fengið óbeina vernd gegn smitsjúkdómum, svo framarlega sem tilskilinni bólusetningarvernd er viðhaldið í samfélagi þeirra, þ.e.a.s. vernd þeirra kemur þá frá hjarðónæmi. Þegar frjálsar bólusetningar eru ekki taldar fullnægjandi til að ná og viðhalda hjarðónæmi, eða slíkt ónæmi er ekki mikilvægt vegna eðlis sjúkdóms, getur komið til álita að skylda bólusetningar til þess að ná viðeigandi vernd gegn alvarlegum sjúkdómum. Á grundvelli slíkra sjónarmiða var heilbrigðisstefna tékkneska ríkisins reist og því talin í samræmi við hagsmuni barnanna.

(c) Meðalhóf. Mannréttindadómstóllinn kannaði fyrirkomulag í Tékklandi. Í ljós kom að bólusetningarskyldan náði til tíu sjúkdóma. Í þeim tilvikum var bólusetning talin árangursrík og örugg af „vísindasamfélaginu“ [þetta snertir kjarna málsins, hvort hægt er að svara þessu játandi eður ei].

Þótt um bólusetningarskyldu sé að ræða er hún ekki altæk og veitir færi á undanþágum, annað hvort vegna læknisfræðilegra frábendinga eða vegna samvisku manna. Í samræmi við dómaframkvæmd stjórnlagadómstólsins skyldi hvert mál metið vandlega. Hins vegar byggði enginn kærenda á annari hvorri undanþágunni. Ekki var hægt að skylda beint bólusetningar, en líkt og önnur ríki hafa gert, var skyldunni framfylgt óbeint með beitingu viðurlaga. Í Tékklandi voru viðurlögin tiltölulega hófleg, fólust í einskiptis stjórnvaldssekt. Í tilviki fyrsta kæranda var fjárhæðin í lægri kantinum og taldist ekki óeðlilega há eða íþyngjandi. Hvað snertir aðra kærendur, börnin, var synjun um aðgang þeirra að leikskóla til þess ætluð að vernda heilsu ungra barna og var því í meginatriðum talin verndandi frekar en refsandi. Kveðið er á um málsmeðferð í landslögum og kærendur gátu nýtt sér úrræði stjórnsýslu og dómstóla.

Lagaleg úrræði gerðu yfirvöldum kleift að bregðast af sveigjanleika við faraldsfræðilegum aðstæðum og við þróun í læknavísindum og lyfjafræði. Ekki var í málinu sýnt fram á óheiðarleika eða skort á gagnsæi innanlands. Með tilliti til öryggis, þar sem dómstóllinn viðurkenndi mjög sjaldgæfa en án efa mjög alvarlega áhættu fyrir heilsu einstaklinga, ítrekaði dómstóllinn mikilvægi nauðsynlegra varúðarráðstafana fyrir bólusetningu, þar á meðal eftirlit með öryggi bóluefna sem eru í notkun og athugun á hugsanlegum frábendingum í hverju einstöku tilfelli. Í öllum þessum atriðum var ekki talin ástæða til þess að efast um að innlenda fyrirkomulagið væri fullnægjandi. Jafnframt hafi svigrúm verið gefið varðandi val á bóluefni og tíma bólusetningar.

Þótt mögulegar skaðabætur, vegna heilsutjóns af völdum bólusetninga, sé mikilvægt atriði við heildarmat á fyrirkomulagi skyldubólusetninga, hafði það atriði enga afgerandi þýðingu í viðkomandi málum, þar sem engin bólusetning fór fram. Ennfremur vísuðu kærendur ekki til þessara atriða í innlendum málarekstri. En á þeim tíma hafi ákvæði um skaðabætur þegar verið til staðar í landslögum.

Í öðru lagi tók dómstóllinn ekki til athugunar hversu mikil hin kærða truflun væri á rétti til einkalífs þar sem:

í tilviki fyrsta kæranda hafi stjórnvaldssekt sem lögð var á hann ekki verið óhófleg miðað við aðstæður og engin áhrif haft á menntun barna hans. Hvað snertir hina kærendurna, þýddi útilokun þeirra frá leikskóla að mikilvægt tækifæri til þroskunar persónuleika þeirra, og byrjunar félags- og námsfærni, í umhverfi mótunar og menntunar, glataðist. Þetta var hins vegar talið bein afleiðing af vali foreldra barnanna, um að virða ekki bólusetningarskyldu sem hafði það að markmiði að vernda heilsu, sérstaklega í þessum aldurshópi. Þar að auki var möguleiki á leikskólagöngu, barna sem ekki var hægt að bólusetja af læknisfræðilegum ástæðum, háður mjög háu bólusetningarhlutfalli meðal annarra barna gegn smitsjúkdómum.

Því var ekki tali óhóflegt að ríki krefði þá sem töldust í lítilli áhættu vegna áhrifa af bólusetningum um samþykki vegna þessara almennu verndarráðstafana, sem lagalegrar skyldu og í nafni félagslegrar samstöðu, í þágu hinna fáu viðkvæmu barna sem gátu ekki notið góðs af bólusetningum.

Tékkneska löggjafanum hafði því verið fært, með gildum og réttmætum hætti að velja, í fullu samræmi við rökin fyrir því að vernda heilsu almennings. Mögulega tiltækt úrræði, sem er ekki eins íþyngjandi, til að ná því markmiði, eins og kærendur lögðu til, breytti þessu ekki. Þá hafi kærendur ekki verið sviptir öllum möguleikum á persónulegum, félagslegum og vitsmunalegum þroska, jafnvel þótt það hafi kostað aukna áreynslu og kostnað af hálfu foreldranna. Afleiðingarnar hafi verið takmarkaðar í tíma, þar sem inntaka þeirra í grunnskóla hafi ekki orðið fyrir áhrifum af stöðu bólusetninga þeirra.

            Niðurstaðan er því sú að ráðstafanirnar sem kærendur kvörtuðu yfir, metnar í samhengi við fyrirkomulag innanlands, stóðu í sanngjörnu samhengi við lögmæt markmið sem tékkneska ríkið stefndi að. Enn fremur, tékkneska ríkið taldist ekki hafa farið út fyrir svigrúm sitt [margin of appreciation] með bólusetningarskyldunni. Þess vegna mætti telja þær „nauðsynlegar í lýðræðisþjóðfélagi“ og því ekki um brot gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að ræða [sjá 2. mgr. 8. gr.].

Niðurstaða á eftir niðurstöðu

            Af framansögðu er ljóst að það er ekki um það deilt að skyldubólusetning sem slík sé truflun á réttinum til einkalífs. Álitaefnið snýr fyrst og fremst að því hvort réttmætar og lögmætar ástæður séu til staðar sem gangi framar nefndum rétti, þannig að hann megi skerða. Það má kalla réttlætingarástæður.

            Nú er það svo, að líf fólks snýst að miklu leyti um „áhættustýringu“. Greina má áhættuþætti í tvo flokka: þá sem hægt er að stýra og hina sem ekki verður stýrt (eru „beyond control“). Dæmi um þá fyrrnefndu eru t.d. áfengisneysla og reykingar. Dæmi um síðarnefndu þættina eru margskonar óvænt atvik sem engin leið er að tryggja sig gegn.

            Í tilviki smitsjúkdóma, eins og Covid-19, hafa menn ekki val um það að smitast eða smitast ekki [og jafnvel þótt þeir reyni að smitast er ekki víst að það takist]. Hins vegar er ýmislegt sem hver og einn getur gert til þess að lágmarka áhættuna, s.s. að forðast mannamót, dvelja sem styst meðal annara, nota grímu, þvo hendur og fleira í þeim dúr (persónulegar sóttvarnir). Samt getur jafnvel varfærnasti maður smitast.

            Margt er líka komið undir „heppni“. Þar er t.a.m. átt við ónæmiskerfið. Hver og einn verður að sætta sig við þau gen sem hann fékk „úthlutað“. Það er þó fjölmargt sem hægt er að gera til styrkingar ónæmiskerfis og heilsu almennt. Þar vega þungt góður svefn, hreyfing, holl næring og sem heilsusamlegast líferni. Þannig má draga úr áhættu. Allt skiptir þetta máli og kann að hafa áhrif á smitnæmi.[vi]

            Yfirvöldum ríkja er talsverð vorkunn á tímum sem nú ganga yfir. Þegar t.d. koma upp smitsjúkdómar þarf að meta áhættu, hvort um ógn[vii] er að ræða og þá hversu mikla. Viðbrögðin ráðast af slíku mati. Miðað við sum önnur ríki verða viðbrögð íslenskra stjórnvalda að teljast hófleg, enda þótt þau hafi komið illa við marga, einstaklinga og fyrirtæki. Íslensk stjórnvöld hafa t.d. ekki sett á útgöngubann og fólk að mestu verið frjálst ferða sinna, þó með ýmsum takmörkunum.

            Áður var að því vikið að Mannréttindadómstóll Evrópu er mjög pólitískur dómstóll.[viii] Alla dóma hans þarf að vega og meta í því ljósi. Segja má að dómar dómstólsins virki eins og „skóbætur“ á meingallað markaðshagkerfi. Í réttlátu þjóðfélagi er engin þörf á mannréttindadómstóli sem þessum. Dómunum er ætlað að innprenta almenningi þá tilfinningu að hann hafi einhvern rétt gagnvart ríkisvaldinu og sætti sig þannig betur við galla markaðskerfisins.[ix]

            Af öllum þeim málum sem dómstólnum berast árlega[x] eru einungis um 10% þeirra talin tæk (admissible). Það er afar lágt hlutfall, séð í samhengi Evrópuráðsins og aðildarríkja þess. Hætt er við að réttarvitund almennings á Íslandi væri gróflega misboðið ef héraðsdómstólar tækju einungis til meðferðar 10% þeirra mála sem þeim berast og vísuðu 90% málanna frá. Slíkt á ekkert skylt við alvöru réttarfar eða raunhæf úrræði til þess að leita réttar síns.

            Þetta verður heldur ekki afsakað á þeim grundvelli að búið sé að tæma öll réttarúrræði heimaríkja þegar málin berast mannréttindadómstólnum og því sé þetta ekki sambærilegt. Það er einmitt sambærilegt. Mannréttindadómstóllinn er sjálfstæður dómstóll (að nafninu til) og dæmir fyrst og fremst á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka við hann. Því miður minnir margt í umgjörð dómstólsins meira á „leikhús fáránleikans“ en stofnun sem veitir borgurum aðildarríkja Evrópuráðsins raunhæf réttarúrræði. Það verður að segjast eins og er.[xi] Enda er umræða í sumum ríkjum, s.s. í Bretlandi, um að segja sig frá dómstólnum og afnema lögin þar að lútandi [The Human Rights Act 1998]. „Skóbætur“ leysa ekki af hólmi réttlátt þjóðfélag.

            En þá aftur að skyldubólusetningunni. Eins og komið er fram, snéru tékknesku málin að bólusetningum vegna mænusóttar[xii] (lömunarveiki), lifrarbólgu B og stífkrampa. Komin er löng reynsla á bólusetningar við þessum sjúkdómum sem verður að teljast góð (jafnvel afar góð). Þeir sem t.d. lömuðust og enduðu í hjólastól, eða gengu við hækjur, vegna mænusóttar hefðu örugglega ekki skoðað hug sinn lengi ef þeim hefði verið fært að „spólað til baka“ og velja bólusetningu.

            En er þetta sambærilegt við Covid-19? Það er afskaplega hæpið að draga þá ályktun að hægt sé að skylda bólusetningar við Covid-19 á sama grundvelli og aðrar bólusetningar eru skyldaðar. Síðan Covid-19 varð á allra vörum, í byrjun ársins 2020, hafa nokkur afbrigði komið fram af veirunni. Það er orðin býsna áleitin spurning við hverju verið er að bólusetja og þá hversu margar bólusetningar þarf til.

            Áður en skyldubólusetningar vegna Covid-19 geta yfirleitt komið til álita þarf að hafa svör við að minnsta kosti eftirfarandi spurningum:

 1. við hverju er nákvæmlega verið að bólusetja? Er það Delta-afbrigðið, er það Omicron-afbrigðið, eða „afbrigði framtíðarinnar“?;
 2. hve lengi má ætla að ónæmi haldist, myndist það á annað borð?;
 3. hversu mikið geta umræddar veirur breytst (stökkbreyst), og ný afbrigði komið fram, þannig að ónæmi haldist samt sem áður?;
 4. geta vísindamenn fullyrt eitthvað um möguleg langtímaáhrif vegna bólusetninganna, sérstaklega þegar höfð eru í huga svonefnd mRNA[xiii] bóluefni?;
 5. hver er dánartíðni af völdum Covid-19, samanborið við aðra veirusjúkdóma, síðastliðin hundrað ár?

            Að sanna orsakatengsl á milli annars vegar bólusetningar við Covid-19 og hins vegar mögulegra sjúkdóma, eftir t.a.m. 10-15 ár, kann að verða þrautin þyngri, nema að fram komi útbreitt og áþekkt mynstur hjá fjölda fólks, sem rakið verður til bólusetninganna og ekki á sér aðrar orsakir. Tíminn einn mun á endanum leiða það í ljós. Hitt skal áréttað, að alltaf er skynsamlegt að fara varlega, og kunna fótum sínum forráð, vegna áhættu sem að ýmsu leyti er óþekkt. Varúð og góðar stundir.

[i]      Case Vavřička and Others v. the Czech Republic [GC] - 47621/13, 3867/14, 73094/14 et al. https://hudoc.echr.coe.int/eng

[ii]    Sjá einnig: Babcock, M. Types of Injury Torts: Intentional, Negligence & Strict Liability. HG.org Legal Resources. https://www.hg.org/legal-articles/types-of-injury-torts-intentional-negligence-and-strict-liability-51736

[iii]   Council of Europe. Oviedo Convention and its Protocols. https://www.coe.int/en/web/bioethics/oviedo-convention

[iv]    Sjá einnig: The International Justice Resource Center. https://ijrcenter.org/exhaustion-of-domestic-remedies/

[v]     Sjá t.d.: Gittos, L. (6th March 2020). Leaving the ECHR is not enough - We need to take back control from European and British judges. Spiked. https://www.spiked-online.com/2020/03/06/leaving-the-echr-is-not-enough/

[vi]    Sjá t.d.: What determines susceptibility to virus infection? Virology Research Services | Jul 29, 2019 | VRS Blog. https://virologyresearchservices.com/2019/07/29/susceptibility-to-virus/

[vii]  Þetta atriði tengist einnig varúðarreglunni svo nefndu. Sjá t.d.: European Parliament. https://www.europarl.europa.eu/thinktank/en/document/EPRS_IDA(2015)573876

[viii] Sjá t.d.: Friedman, I. B. (2021). As Russia shutters respected NGOs, European Court of Human Rights intervenes. JURIST. https://www.jurist.org/news/2021/12/as-russia-shutters-respected-ngos-european-court-of-human-rights-intervenes/

[ix]    Sjá einnig: Mchangama, J. (2012). The European Court of Human Rights - A European Constitutional Court? The Federalist Society, 13(1). https://fedsoc.org/commentary/publications/the-european-court-of-human-rights-a-european-constitutional-court

[x]     Tölfræði dómstólsins má nálgast hér: https://www.echr.coe.int/Documents/Stats_analysis_2020_ENG.pdf

[xi]    Sumir íslenskir fjárglæframenn eru þó vafalaust ánægðir með dómstólinn enda hefur dómstóllinn talið mannréttindi þeirra meira virði en margra annara.

[xii]  Sjá einnig: The Race For A Polio Vaccine Differed From The Quest To Prevent Coronavirus. (May 22, 2020). Shots - Health News From NPR. https://www.npr.org/sections/health-shots/2020/05/22/860789014/the-race-for-a-polio-vaccine-differed-from-the-quest-to-prevent-coronavirus?t=1642613881180

[xiii] Sjá einnig: SARS-CoV-2 Variant Classifications and Definitions. https://www.cdc.gov/coronavirus/2019-ncov/variants/variant-classifications.html

Fréttabréf