Fara í efni

HVAÐ RÆÐUR MESTU UM HEGÐUN NOTENDA Á RAFORKUMARKAÐI?

- Braskvæðing rafmagns -

            Ef reynt er að lesa í vilja íslenskra kjósenda að loknum kosningum til Alþingis virðist sem talsverður hluti þeirra sé ekki mjög óánægður með yfirstandandi braskvæðingu raforkumálanna. Líklegt er að sú afstaða haldist óbreytt þangað til notendur sjá áhrifin með vaxandi þunga á rafmagnsreikningum sínum. Þegar breytingarnar skila sér í buddu notenda, með gríðarlegum hækkunum, kann að verða breyting á. En það gildir hér, eins og víða annars staðar, að best er að bregðast við í tíma, ekki bíða þar til allt er komið í óefni. Það stefnir nefnilega í stórfelldan voða á íslenskum raforkumarkaði, fari svo fram sem horfir. Sú hætta blasir við að raforka og dreifing hennar lendi í gini braskara og fjárglæframanna. Íslenskir stjórnmálamenn (þvert á flokka) hafa þar undirbúið jarðveginn og skapað skilyrðin, nú síðast með innleiðingu orkupakka þrjú.

kona í taugaáfalli.JPG
              Kona í vægu taugaáfalli eftir að hafa fengið rafmagnsreikninginn. Hún hefur eflaust trúað því sem sagt var á Alþingi Íslendinga, að ekkert væri að óttast með innleiðingu orkupakka þrjú; að þar væri aukin „neytendavernd“ og „samkeppni“ sem myndi leiða af sér lægri verð.[i]

            Það kemur æ betur í ljós að allt sem fulltrúar stjórnarflokkanna (auk sumra Evrópusinna í Viðreisn) hafa sagt um að ekki standi til að leggja sæstreng (aflstreng) austur yfir Atlantsála er rangt. Það mál hefur verið lengi í skoðun m.a. innan Landsvirkjunar og þá helst sem einhvers konar „einkaframkvæmd“. Ýmsir fulltrúar braskarastéttarinnar hafa á liðnum misserum talað fyrir kostum og rómað arðsemi slíkrar lagningar og skrifað um það blaðagreinar.

            Markmiðið með tengingunni við Evrópskan raforkumarkað (innri orkumarkað Evrópu) er að taka þátt í æðisgenginni spákaupmennsku þar sem hægt er að okra á notendum og fyrirtækjum af áður óþekktum krafti. Orkupakkar ESB veita þar ákveðna leiðsögn og skapa traust bakland. Eftirspurn orku (raforku) er viðvarandi meiri en framboð í flestum ríkjum Evrópu. Sífelldar verðhækkanir verða óhjákvæmileg afleiðing af því enda þótt verðin sveiflist mikið á hverjum tíma. Markaðsvæðing (braskvæðing) merkir auðvitað ekki að þar með hafi jafnvægi náðst á milli framboðs og eftirspurnar heldur hitt að markaðurinn skuli ráða verðinu. Þar skiptir miklu hvað er selt og hvernig.

            Ríkisstjórnin sem endurnýjaði sjálfa sig, þann 28. nóvember 2021, lagði áherslu á uppbyggingu og eignarhald innviða á síðasta kjörtímabili. Það skilaði sér m.a. þannig að Míla, dótturfélag Símans, var seld erlendum bröskurum.[ii] Nú blasir við að unnið er að hinu sama með orkuinnviði [Landsvirkjun/Landsnet] á Íslandi: að koma þeim í hendur braskara og fjárglæframanna. Sýnist því miður einungis spurning um tíma hvenær það gengur eftir.

            „Rándýrin“, einkum „hýenur“, leita sífellt að nýrri bráð og ekkert fær satt hungur þeirra. „Gammarnir“ hnita hringi og fylgjast vel með hverri hreyfingu og hverju ríkisfyrirtæki sem fært getur þeim auð á silfurfati. Út á þetta gengur íslenskur „kapítalismi“ að miklu leyti. Þeir sem vilja spila heiðarlega [sem þrátt fyrir allt eru margir] mega lúta í lægra haldi. Allt gerist þetta í nánu samspili við stjórnmálin sem forðast að skipta sér af „markaðnum“. Fyrst er almenningur rændur en síðan látinn taka þátt í spákaupmennsku og braski með innviði, s.s. með notkun „snjallmæla“ og endalausri leit að betri tilboðum. „Snjallmælar“ geta því aðeins gagnast neytendum að mælarnir leiti sjálfvirkt bestu tilboða og skipti stöðugt um rafveitur, eftir því sem verð hækkar eða lækkar. Þannig væri neytendum sparað ómakið við leit og skipti.

Hegðun neytenda

            Í fagtímaritinu The Energy Journal[iii] er birt rannsókn (grein frá 2018) eftir þau Miguel Flores og Catherine Waddams Price. Byggt var á viðtölum við 2537 einstaklinga, frá 16 ára aldri, í janúar 2011. Þar af voru svör greind frá 1992 svarendum, en sá hópur hafi vitneskju um það að hægt væri að skipta um rafveitu og gat hver um sig, eða sameiginlega, tekið ákvörðun um skiptin. Gagnasafnið (úrtakið) var síðan greint með aðferðum tölfræðinnar.

            Jafnan er: Pr (y1= 1, y2=1) = Φ (Aβ, Mγ, Xδ, ρ). Háðu breyturnar (dependent variables) eru tvær; „leit“ (y1 =1) og „skipti“ (y2 =1). Þetta eru tvíkostabreytur, geta tekið gildið 1 (ef svarandi hugleiddi að skipta um rafveitu á síðstu þremur árum/skipti) annars 0. Vigur (vector) A inniheldur viðhorf neytandans, vigur M inniheldur upplýsingar/markaðsbreytur, X inniheldur félags-hagfræðilega eiginleika og reynslu af skiptum á öðrum mörkuðum, β, γ og δ eru færibreyturnar sem áætla skal og ρ er fylgnistuðullinn á milli leifanna (residuals) á sitt hvoru líkani [probit models]. Viðhorfsbreyturnar [attitudes variables] eru „leita sífellt að tilboðum“, „ávinningur/tími“, „lífið er of stutt“, „óbreytt ástand“ og „eftirsjá“ [vegna rangrar ákvörðunar].

            Höfundar skilgreina þrjár gerðir viðskiptavina, þ.e. „verslunarmenn“, „tímalitla“ og „holla“. Í rannsókninni er greint hvaða hlutverk viðhorf og markaðssetning hafa í hegðun neytenda [notenda] á breskum raforkumarkaði. Hér verður gerð grein fyrir helstu atriðum í nefndri rannsókn.

            Eins og gefur að skilja, er það mikilvæg forsenda skilvirkra markaða (almennt) að neytendur bregðist við verðhækkunum með því að skipta um seljanda og sjái sér hag í því; að næg samkeppni sé til staðar; sem aftur ræðst m.a. af stærð markaðanna; og að það sem selt er sé þess eðlis að neytendur hafi næga yfirsýn. Fæst af þessu á við um íslenska markaði.

            Fákeppni og einokun eru þvert á móti einkennandi þættir á Íslandi. Utanlandsflugið hefur verið helsta undantekningin á þeirri reglu. Rétt er að gera greinarmun á því sem kallað er í samkeppnisrétti „samráð“ [collusion] og hins sem kalla mætti „þegjandi samráð“ þar sem verðmunur á milli aðila er sáralítill (sýndarsamkeppni) þótt ekki sé um skipulagt og beint verðsamráð að ræða.[iv] Víkjum þá aftur að rannsókninni í Bretlandi.

            Frá opnun smásöluorkumarkaða hafa eftirlitsaðilar („reglarar“) og samkeppnisyfirvöld lagt aukna áherslu á mikilvægi virkra notenda sem sífellt leiti lægstu verða. Samningssamband notanda við rafveitu helst áfram nema notandinn kjósi að skipta um rafveitu. „Óvirkir notendur“ geti þannig hindrað mögulegan ávinning af opnun og skráningu fyrirtækja á markað, vegna starfsemi sem áður laut opinberri einokun.[v] [Þetta er skoðun rannsakenda. Margir neytendur hafa annað við tíma sinn að gera en að elta upphæðir sem litlu sem engu máli skipta].

            Í rannsókninni kemur fram að illa hefur gengið að auka þátttöku „neytenda“ á raforkumörkuðum í Bretlandi [og Bandaríkjunum]. Eldri rannsóknir benda til þess að þessu valdi kostnaður við leit (að bestu verðum); ákveðin tregða til þess að skipta um rafveitur; takmörkuð geta til þess að velja á milli rafveitna; „athyglisbrestur neytenda“ og/eða „vörumerkjahollusta“.

            Til þess að skýra hvað ræður leit og skiptum „neytenda“ hafa einkum verið kannaðir þættir s.s. aldur, atvinna, tekjur og reynsla af öðrum mörkuðum. Svör margra neytenda benda til þess að þeir líti svo á að það svari ekki kostnaði að eyða tíma í leit og skipti á rafveitum. Telja að ávinningurinn sé hvort sem er afar lítill.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar

            Af þeim sem voru í úrtakinu sögðust 28% hafa skipt um rafveitu á undanförnum þremur árum, en 44% þeirra sem skiptu sögðust ekki hafa verið virkir í leit að betri verðum. Rannsóknin leiðir m.a. í ljós að meginmunurinn lá á milli þeirra sem leituðu og hinna sem gerðu það ekki, hvort sem leitin leiddi til skipta eða ekki.

            Hvort fólk leitaði og skipti reyndist tengt afstöðu þess til markaða almennt, þótt leiðrétt væri fyrir lýðfræðilega þætti sem taldir voru geta haft áhrif á skipti á rafveitum. Það vekur nokkra athygli að bein samskipti, s.s. símtöl, heimsóknir og póstur hafa engin áhrif á leit að eða skipti fólks á rafveitum. Upplýsingar frá vinum og fjölskyldufólki reyndust hins vegar hafa nokkur áhrif. Í fjórða hluta greinarinnar eru niðurstöðurnar dregnar saman. Þær eru helstar:

  • auk fárra lýðfræðilegra atriða sem virðast ráða þátttöku á raforkumarkaði eru leit og skipti á rafveitum verulega tengd viðhorfum neytenda til markaða almennt. Þeir sem eru fastheldnir á það sem þeim líkar og hinir sem ekki hafa tíma til þess að leita, vegna lítils ávinnings, eru ólíklegri til þess að leita að rafveitu eða skipta. Þá eru þeir sem telja „lífið of stutt“ (viðhorfsbreyta) ólíklegri til þess að að verja tíma í leit að betri tilboðum, en þó ekki verulega ólíklegri til þess að skipta. Þeir sem nefna tímaeyðslu, vegna leitar að betri tilboðum, eru almennt líklegri til þess að leita en ekki endilega til þess að skipta;
  • önnur helsta niðurstaðan felst í mismuni áðurnefndra hópa viðskiptavina [„verslunarmanna“, „tímalítilla“ og „hollra“]. Þar er sjónum beint að mismunandi „leitar- og skiptihegðun“ á milli hópa sem og innan þeirra. Þetta er mikilvægt, sökum þess að heildarþátttaka (hvort sem hún er mikil eða lítil) leynir töluverðu af viðbrögðum neytenda. Skiptingin í mismunandi hópa auðveldar einnig greiningu tengsla sem ekki eru áberandi í úrtakinu í heild. Leit og skipti, í framhaldi af pósti eða tölvupósti, virðast t.a.m. einungis tengjast hópnum „tímalitlir“;
  • þriðja meginniðurstaðan er sú að bein samskipti, s.s. símtöl, komur í heimahús og póstsendingar, hafa lítil áhrif á leit og skipti. Hins vegar virðast auglýsingar, s.s. á internetinu, í blöðum eða tímaritum, hafa neikvæð áhrif á skipti. Ráðleggingar frá fjölskyldu og vinum tengjast meiri leit en ekki eingöngu skiptum;
  • fjórða niðurstaðan staðfestir fyrri vísbendingar, þess efnis að umsvif á orkumarkaði séu sterklega tengd því að hafa skipt um aðra þjónustuaðila og að væntingar um ávinning séu sterklega og jákvætt tengdar leit og skiptum meðal þeirra neytenda sem eru nægilega „upplýstir“ og færir um að gera áætlanir. Sá minnihluti sem er fær um að gera áætlanir, um væntanlegan hagnað og tíma til skipta, er virkari hópur svarenda og fólk í honum er tvöfalt líklegra til þess að hafa bæði leitað og skipt um rafveitu en aðrir.[vi]

Að lokum

            Eins og að framan er rakið er hegðun rafmagnsnotenda allflókið fyrirbæri. Notendur eru fjarri því einsleitur hópur. Eitt sameinar þó flesta notendur (neytendur) almennt; þeir vilja ekki láta okra á sér, sérstaklega ekki á mörkuðum þar sem alvöru samkeppni verður illa eða ekki við komið. Erlendir og íslenskir stjórnmálamenn boða heimsendi, innan fáeinna ára, verði ekki tafarlaust gripið í „handbremsuna“ og undið ofan af aukningu koltvísýrings (CO2) í andrúmslofti.

            Stjórnmálamenn margir hafa tilhneigingu til þess að grípa tækifæri sem þessi [gróðurhúsaáhrif, SARS-veira] og skáka í skjóli þeira. Þegar búið er að skilgreina „heimsógnir“ (með réttu eða röngu) þarf að finna „lausnir“. Þá hafa menn fengið öflug tæki í hendur til þess að takmarka mannréttindi (s.s. tjáningarfrelsi og ferðafrelsi).

            Aðgerðir eru skilgreindar og hannaðar út frá meintri ógn. Í krafti þess að „heimurinn væri að farast“ innleiddi meirihluti Alþingis orkupakka þrjú, enda væri hann liður í orkuskiptum – gegn heimsendi. Raunverulegur tilgangur er þó allt annar; nefnilega sá að skapa „gömmum“ og „hýenum“ „veiðileyfi“ á almenning og auðlindir þjóðarinnar. Sá tilgangur er látinn helga vont meðal. Hvernig gerist það? Það gerist þannig að orkupakkarnir mæla fyrir um algera opnun orkumarkaða heimaríkja og uppskiptingu (unbundling) framleiðslu og dreifingar. Þarna er fólgið „veiðileyfið“ sem „ránfuglar“ og „rándýr“ eru fljót að nýta sér.

            Það var sláandi að bæði vinstri-grænir og framsóknarmenn á þingi skiptu gersamlega um skoðun á orkupakka þrjú, urðu bullandi meðvirkir með innleiðingu hans og börðust hart fyrir henni. Forsætisráðherranefnan sagði málið löngu útrætt. Líklega vegna þess að hún hafði ekkert til mála að leggja, annað en venjubundið blaður.

[„Undirsáti“]

Tíminn fylgir evrópsku úri,

að utan kemur stefnan.

Fangi er eins og fugl í búri,

forsætisráðherranefnan.

            Formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, ræddi þó frekar skynsamlega um þessi mál á tímabili, m.a. um undanþágur [enda Ísland ekki hluti af innri orkumarkaði ESB], en smitaðist síðan af meðvirknisveirunni á Alþingi og snérist þá um 180 gráður í afstöðu sinni, þegar kom að umræðum og atkvæðagreiðslu.

            Miðstjórn Framsóknarflokksins ályktaði einnig um málið, á þann máta að hægt er að taka undir hvert orð:

Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.[vii]

            Hvað breyttist? Er ekki bara best að biðja fyrir framsókn? Góðar stundir.

[i]      Heimild: https://www.shutterstock.com/image-photo/woman-shocked-surprised-her-electricity-bills-526879285

[ii]    Sjá t.d.: Ardian kaupir Mílu af Símanum. Morgunblaðið 23. október 2021. https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2021/10/23/ardian_kaupir_milu_af_simanum/

[iii]   https://www.iaee.org/en/publications/scope.aspx

[iv]    Sjá einnig: Fonseca, Miguel A.; Normann, Hans-Theo (2012): Explicit vs. Tacit collusion: The impact of communication in oligopoly experiments, DICE Discussion Paper, No.65, ISBN 978-3-86304-064-2, Heinrich Heine University Düsseldorf, Düsseldorf Institute for Competition Economics (DICE), Düsseldorf. https://www.econstor.eu/bitstream/10419/62592/1/724283404.pdf

[v]     Flores, M. and Price, C., 2018. The Role of Attitudes and Marketing in Consumer Behaviours in the British Retail Electricity Market. [online] http://www.iaee.org. Available at: <http://www.iaee.org/en/publications/ejarticle.aspx?id=3106> [Accessed 6 December 2021].

[vi]    Ibid.

[vii]  „Stjórnmálin hafa farið fram úr almenningi – verðum að stoppa hér.“ (25/11/2018). Heimasíða Framsóknarflokksins.

       https://framsokn.is/nyjast/frettir/stjornmalin-hafa-farid-fram-ur-almenningi-verdum-ad-stoppa-her/