Baldur Andrésson skrifar: "VOPN KVÖDD" Í AFGANISTAN

Stríðsleikir, manndráp, hafa lengi verið skemmtan manna oft sögð uppspretta menningar. Hér á útúrborunni Íslandi var lítið um krassandi stríð forðum, sögur af manndrápum urðu þó kjarnafæðan, Íslendingasögur. Alltaf var haft sem réttast þótti, heiður höfunda lá undir.
Heimsbókmenntir að fornu og nýju snúast um manndráp og stríð að miklu leyti og veita leiklist innblástur. Listasöfn yrðu fátækleg án stríðs-mynda. Ekki skortir stríð og dráp í kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tölvuspilin, mikla skemmtiblessun. Morðsögur eru best seldar bækur nú á Íslandi. Trúarbrögð mörg eru tengd ofbeldi, sem þau upphefja, og boðberar þeirra oft í drápshug.
Ein stríðssagna í nútíma snýst um Afganistan. Opinbera útgáfan er þó stórgölluð og fáu rímar saman svo rökrétt sé. Leiðréttingar er þörf. Á heljarslóð til Afganistan skaust stríðsafli BNA 2001 og fékk frjálsra vinaríkja hjálp við tiltækið næstu tvo áratugi hernáms. 800.000 varð tala hermanna BNA, en þá ótalinn mikill fjöldi málaliða einkaverktaka frá BNA sem störfuðu frjálsir, án lögþvingana. Liðsauki vinaríkja BNA taldist á annað hundrað þúsunda hermanna.
Marga Afgani tókst að drepa með fjarvinnu, stýringu dróna frá BNA. “Afganistanpakki” kostaði BNA 280.000 milljarða Ikr, ekkert sparað, en vinaríki bættu við í það púkkið. Alræmdan skuggasvein, Arabíu-Ósóma, átti að finna og sá drepinn “ í beinni” í Pakistan eftir 11 ára leit í röngu landi. Áður drepnir grunaðir Ósomavinir, eða fangaðir, píndir víða um lönd. Í byrjun var gengi Talibana brottrekið frá völdum, margir slíkra drepnir í fangavist eða á öðrum stöðum. Óvart féllu þá aðrir Afganir líka, en af miklum mannfjölda var af að taka í Afganistan. Heraka á Afganistan stóð næstu nálega tvo áratugi. Liprir leppstjórar ráðnir gegn greiðslum yfir og undir borð. Góð veisla þeim gjörð, völdum vinum þeirra og vandamönnum, spillt valdastétt lands í vellystingum. Uppsett heimssýning á nýsköpun hertekins samfélags Afgana fór illa úrskeiðis, en það bætt upp með öflugum spunagaldri, uns hann brást líka.
Ráðgert endurframsal á alræði til Talibana varð því þrautalending loks í ágúst á liðnu ári. Brotið var þá Afganistan, þjóðin áfram stórþjáð, Innviðir ónýtir sem fyrr, sultur sótti áfram að ofurfátækri lágstétt. Áður var spilling mæld sem ein sú mesta í heimi. Nú er hungursneyð 25 milljóna Afgana loks upplýst. Skökk er útgefin stríðssagan frá Afganistan svo miklu munar, enda endalokin í árekstri við fyrri þræði útgefinna spunasagna yfirherstjóra.
Í bráðum hálft ár er biðin orðin eftir réttri útgáfu, sem fært gæti umheimi skilning. Töfin er dulafull orðin. Rétt útgáfa af Afganistanstríði býr í hugskoti margra, en afar sterk heimsöfl hindra öll útgáfustörf, enda “Happy End” ekki til staðar, Gamla brenglaða reifaraútgáfan af Afganistanhertöku BNA frá 2001 skal nú gjalda eyðingar, gleymsku. Leiðrétt útgáfa skal falin líka og refsingu heitið þeim sem leka. Látið er sem neyð Afgana sé sjálfsprottin. 

Fréttabréf