Fara í efni

“VANDASAMT ER VEGABRASK”

Delluplan um 340 þús risaálver á Bakka féll þegar loks uppgötvaðist að ekkert “ Kárahnjúkaafl” var finnanlegt, jafnvel þótt níðst yrði gróflega á náttúruperlum, sem áður stóð til. “Orkuleitin” kostaði þó Landsvirkjun á annan tug milljarða. Síðla árs 2011 var uppgjöf staðfest.

2009 var álversplani á Bakka hátt tjaldað. Hraðbraut, Akureyri/ Húsavík var hluti þess. Skyndigerð jarðganga um Vaðlaheiði varð því áherslumál.

Í anda ríkjandi nýfrjálshyggju eftir síðustu aldamót þótti heppilegast að spekúlöntum yrði boðið til Vaðlaleiks -göngin yrðu “viðfang til viðskipta”. Jafnvel óðustu áhættufjárfestar fyrir hrun bitu ekki á Vaðlaagnið, enn síður eftir hrunið 2008 þótt stofnverðið væri logið niður í 5.5 ma 2009.

2010 varð þrautalausn því mótuð, að ríkið skaffaði “brúarlán” til þá stofnaðs VHG hf. Forsenda láns að fjárfestar tækju við kefli ríkisins; tveimur árum eftir að fjáröflun hæfist af vegfarendum um Vaðlaheiðargöng.

Síðla árs 2011 var Alþingi fyrst kynnt “endurbætt” 8.7 ma falsáætlun um stofnkostnað, sem Alþingi setti því sem hámark brúarláns frá ríki með sérlögum þ.a.l. 2012. ( þótt álplanið um Bakka félli haustið 2011 varð viðhengt Vaðlaplanið lífseigara). Rosalegar urðu stökkbreytingar á lánsþörf VHG hf frá 2012. 8.7 ma falsáætlun náði tvöföldun við verklok og á gjalddaga” brúarláns” ríkis um síðustu áramót bætist að líkum 1 ma við vegna “ taprekstrar” VHG hf.

Í gegn um ásetta pukurþoku grillir í að gjaldfallin skuld VHG hf við ríkið sé komin á óljóst ról að 19 ma. Ekkert bólar enn á “frelsandi spekúlöntum” til lausnar á þessu ómögulega dæmi. Hástemmd gjaldpíning á vegfarendur og hátóna skrum, “markaðsfærslan”; hefur enga tiltrú vakið um hagnað, enda tjónstap á rekstri þegar mikið. Vaðlaheiðargöng eru hvorki einka- framkvæmd VHG hf né PPP tiltæki. Þau eru ríkiskostaður 7.5 km bútur af þjóðvegakerfi landsins, sá eini sem undirorpinn er gjaldpíningu. Lygaorpinn aðdragandi Vaðlatiltækis og absúrd umgerð þess er nú krísuvaldur sjórnkerfisins.

Áður áttu göngin að sanna að vegabrask yrði kjörin leið um þróun vegainnviða þjóðar, eitt trompa hrákapítalisma. Það plan fór allt í skötulíki í Vaðla- tilviki, klúðurdæmið því þaggað sem verða má, en sviðsett er upplýsinga- óreiða og afvegaleiðing til yfirklórs.

Árás á sameignarviðhorf um almannavegi birtist í Vaðlaleiknum. Það högg reyndist klámhögg og verður því ekki sértjaldað vegabraski til framdráttar. Sú er ástæðan fyrir þöggun og yfirklóri, enda eru önnur plön um vegabrask í bígerð. Að auki er orðstýr skapara absúrd Vaðlaleiks þeim mikilsverðastur af öllu. Því er reynt að fela öll óhreinindin, allt kusk á hvítflibbum dustað af þeim sem með spunavald fara gagnvart almenningi. Eftir stendur þó klúður- staða Vaðladæmis, þótt falin sé enn.