Fara í efni

FRÁSÖGN KJARTANS ÓLAFSSONAR AF ÍSLENSKUM KOMMÚNISTU

Bók Kjartans Ólafssonar Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Draumar og veruleiki. Stjórnmál í endursýn er mikið rit. Enda er það rit um mikla hreyfingu, sem er íslenskur vinstrisósíalismi í hálfa öld (u.þ.b. 1917-1968). Sagan er rakin af einum þátttakanda frá síðasta skeiði hennar. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Frásögn Kjartans er á margan hátt afrek og dregur saman feikna mikið efni (568 bls. í stóru broti) í skilmerkilegri og glöggri framsetningu sem á heimtingu á gagnrýninni umræðu. Í mati á sögu sósíalismans er margt sem orkar tvímælis og er sígilt deiluefni, og svo verður líka um úttekt Kjartans Ólafssonar.

Tvískiptingin: hið „heimagerða“ og hið „moskvustýrða“

Það er því ekki áhlaupaverk að ritdæma þessa bók. Ég tek þann kost að taka nokkur mikilvæg atriði til umræðu, pólitískrar umræðu, ekki bókmenntalegrar. Í þessari fyrri (fyrstu) grein fjalla ég eingöngu um afgreiðslu Kjartans Ólafssonar á Kommúnistaflokki Íslands, KFÍ.

Í sögutúlkun sinni gefur Kjartan okkur þá mynd að Kommúnistaflokkurinn íslenski hafi unnið merkilegt og mikið til gott starf fyrir verkalýðinn í íslenskri stéttabaráttu. Hins vegar hafi mjög háð flokknum hin sterku tengsl hans við Moskvu. Þar var Komintern og þar bjó Stalín, og öll áhrif þaðan voru slæm. Jafnframt má fullyrða að á engan þátt í starfsháttum KFÍ leggi Kjartan jafn mikla áherslu og einmitt tengslin við Moskvu. Þessi tvískipting er auðvitað ekki uppfinning Kjartans heldur er hún mjög algeng í hvers konar umfjöllun um þessa hreyfingu, sagnfræðinga sem annarra.

En aðgreiningin er á margan hátt hæpin. Tilkoma, þróun og viðgangur kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi var alla tíð mörkuð af miklum áhrifum frá rússnesku byltingunni, sovéska fordæminu – og á fyrri hluta tímans frá Komintern. Fyrirmynd Sovétríkjanna virkaði sem gríðarleg hvatning fyrir róttækan verkalýð, stundum virkaði hún þó í öfuga átt. En tilraunin til að skilja á milli hins vonda „stalíníska“ og hins góða „heimagerða“ verður gjarnan einskær draumur um fortíðina.

Komintern og klofin hreyfing

Komintern, Þriðja alþjóðasambandið, var miðstýrður heimsflokkur sem reyndi að framfylgja samræmdum, byltingarsinnuðum sósíalisma gegnum aðildarflokka hinna einstöku landa. Komintern, stofnað 1919, var hugmynd Leníns, en var samt engin ný hugmynd. Á undan höfðu starfað Fyrsta alþjóðasambandið og Annað alþjóðasambandið sem bæði reyndu að samræma byltingarsinnaðan sósíalisma á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, enda væri barátta verkalýðsins alþjóðleg að eðli. Þegar Annað alþjóðasambandið sveik í kringum 1914 og helstu flokkar þess breyttust í verkfæri nokkurra heimsvaldaríkja sem háðu með sér heimsvaldastríð, og þegar byltingin 1917 hafði sigrað í Rússlandi, þótti byltingarsinnum eðlilegt að stofna nýtt alþjóðasamband. Komintern var stofnað um byltingarsinnaðan marxisma sem hafði bætt við sig reynslunni af a) svikum sósíaldemókrata og b) rússnesku byltingunni, stofanð utan um þá lærdóma og endurnýjaða byltingarsinnaða stjórnlist og baráttuaðferðir.

Þó að stéttabaráttan sé alþjóðleg að innihaldi hefur hún að miklu leyti þjóðlegt form í ólíkum löndum og útheimtir því misjafnar baráttuaðferðir. En margur myndi meta það svo að skipulag og uppbygging Komintern hafi um of horft framhjá þessari staðreynd og reynt að fylgja einni samræmdri stefnu við jafnvel ólíkustu aðstæður.  

Í sögu Komintern hefur tímabilið á milli 6. og 7. heimsþings – 1928 til 1935 – verið nefndur „vinstri“ tíminn þegar sambandið einkenndist af „vinstri“ kúrs og talsverðri einangrunarstefnu. Stefna sú var mörkuð á 6. heimsþingi sambandsins árið 1928. Stefnan fól í sér það mat að heimskapítalisminn væri aftur orðinn óstöðugur – eftir tímabundinn stöðugleika sem hófst upp úr 1920 – kreppa væri nú í aðsigi og byltingaröflin væru í sókn en auðvaldið í vörn. Efnahagskreppan sem hófst ári síðar þótti staðfesta þetta mat.

Skilgreining Komintern á þjóðfélagslegu hlutverki sósíaldemókrata var erfiðasta málið, síðan einnig skilgreiningin á hlutverki hins vaxandi fasisma. Sósíaldemókratar voru á þessu skeiði skoðaðir sem  „þjóðfélagsleg höfuðstoð borgarastéttarinnar“. Og lengi voru hægri kratar og stéttasamvinna þeirra skoðuð sem mikilvægari stoð undir veldi borgarastéttarinnar en fasisminn. Lögð var upp sóknartaktík með mikla áherslu á að yfirvinna áhrif sósíaldemókrata innan verkalýðshreyfingarinnar. Samtímis var þróun fasismans og tilheyrandi afnám borgaralegra réttinda gjarnan túlkað sem veikleikamerki, sem örþrifaráð auðstéttar sem sæi völd sín í bráðri hættu. „Vinstri“ stefna Komintern byggði sem sagt á yfirdrifinni byltingarbjartsýni og vanmati á stéttarandstæðingnum.

Þýskaland var afar miðlægt í allri stefnumótun Komintern, a.m.k. hvað Evrópu snerti. Þar einkenndist tímabilið vissulega af djúpri auðvaldskreppu en einnig af vaxandi fasisma og nasisma sem bókstaflega „gleypti“ borgaralegu flokkana þýsku (þegar þýska auðstéttin gekk fasismanum á hönd). Skilgreining Komintern fól í sér vanmat sem áður segir, af því þýska auðvaldið var raunverulega í harkalegri sókn – og fór nú fram grímulaust. Sögulegur ósigur þýskrar verkalýðshreyfingar skýrðist ekki síst af því að verkalýðsflokkarnir tveir báru ekki gæfu til samstarfs á örlagatímum. Á meðan gríðarleg hólmganga geisaði milli þeirra efldist og dafnaði hinn sameiginlegi óvinur.

Kommúnistaflokkurinn þýski KPD var áhrifamesti flokkur Komintern fyrir utan þann sovéska. Skilgreiningin á fasismanum, og raunar einnig á hlutverki kratanna, byggði mest á þróuninni í Þýskalandi, og mati KPD á þeirri þróun. Stalín lék ekkert meginhlutverk í mótun stefnu Komintern. Að þessu sögðu er það rétt hjá Kjartani Ólafssyni að það var undarlegt og örlagaríkt hve langan tíma það tók Komintern að átta sig á afli fasismans og breyta taktík sinni gagnvart honum.

Fráleitt er samt að halda fram að KPD hafi vegna „vinstri“ öfga sinna einfaldlega borið ábyrgð á klofningnum í þýskri verkalýðsstétt. Pólitískur klofningur hennar kom ekki síður, og enn frekar, til af sögulegum svikum sósíaldemókrata í aðdraganda stríðsins 1914 (með stuðningi sínum við heimsvaldastríð þýskrar auðstéttar) og aftur í því að berja niður byltingarölduna 1918/19 og svo í bræðralagi krata við þýsku auðstéttina á 3. áratugnum. Og á tímanum frá og með 1930 var krataflokkurinn SPD engu fúsari en kommúnistarnir í KPD til samstarfs. Þegar komið var fram á árið 1932 lagði KPD fram nokkur tilboð til SPD (kratanna) um sameiginlegar aðgerðir (m.a. allsherjarverkfall) og „samfylkingu verkalýðs“ 1. maí en því var hafnað. Ábygð KPD á klofningnum var mikil en ábyrgð SPD enn meiri.

KFÍ á „vinstra“ skeiðinu

Pólitískur klofningur verkalýðsaflanna á Íslandi birtist í stofnun KFÍ og brösóttri sambúð hans við Alþýðuflokkinn. Af hverju var sú sambúð svo erfið? Hverjir klufu mest? ASÍ var samvaxið Alþýðuflokknum frá stofnun, 1916. Allt frá 3. áratugnum predikuðu kommúnistar aðskilnað verkalýðsfélaga frá flokknum og stofnun óháðs verkalýðssambands, en kratar hindruðu það. Flokksfélögum kommúnista var meinuð aðild að Alþýðusambandinu, og ekki bara það – krataforingjarnir ákváðu að aðeins Alþýðuflokksmenn skyldu kjörgengir til trúnaðarstarfa innan sambandsins. Þeir klufu verkalýðsfélög hiklaust ef kommúnistar höfðu þar forustu, stofnuðu ný félög og véku hinum úr ASÍ. Þetta var alvarlegasta klofningsstarfið í hreyfingunni. Kjartan Ólafsson kemur inn á þessa klofningsaðferð kratanna, lýsir henni málefnalega (t.d. bls. 87) en hefur samt ekki um hana mörg orð og leggur enga megináherslu á þetta atriði.

Hins vegar fer Kjartan afar ýtarlega yfir það sem hann telur vera eitruðu áhrifin frá Komintern og Moskvu á þessu „vinstra“ tímabili KFÍ (fyrir 1935), gegnum það sem hann nefnir „réttlínufárið“. Við verðum samt að spyrja: Var einagrunarstefna megineinkenni á starfi KFÍ á fyrri helmingi starfstíma hans – sem eyðilagði fyrir flokknum og málstaðnum? Ég hygg að svarið sé nei. Sú staðreynd að KFÍ náði mjög sterkri stöðu meðal verkalýðs á skömmum tíma, mun sterkari stöðu en allir bræðraflokkarnir í nágrannalöndum, bendir ekki til þess. Flokkurinn fékk 7.5% atkvæða þegar árið 1933. Hann fékk þá 8.9% í Reykjavík sem var glæsilegur árangur.  

Einkum virkaði flokkurinn vel sem baráttutæki í daglegri baráttu verkalýðs, þar sem var aðalvettvangur starfsins. Honum gekk vel að fylkja verkalýð til baráttu, líka á mesta „vinstri“ tímanum. Sem vísbendingu um það má nefna að á þeim tíma var Nóvudeilan háð (1933) og Borðeyrardeilan (1934) þar sem flokkurinn tók forustuna og sýndi mikla skipulagshæfni. Hann tók á sama tíma forustu í baráttu atvinnuleysingjanna og skipulagði mjög stórar kröfugöngur gegn atvinnuleysinu. Meðal annars af þessu að dæma var „vinstri“ tíminn í heild (fyrir 1935) ekki einangrunartími hjá KFÍ.

Fyrir íslenskan verkalýð var fjórði áratugurinn tími mikillar „valdeflingar“ þrátt fyrir klofning. Í lok áratugsins var verkalýðsstéttin orðinn gríðaröflugur gerandi í samfélaginu, sem varla var hægt að segja í upphafi hans, og munaði líklega mest um að einmitt við upphaf áratugsins varð KFÍ til. Baráttugeta verkalýðsins jókst stórum skrefum, ekki síst á „vinstri“ tíma KFÍ, sem sást t.d. á því að auðvaldinu tókst ekki að lækka kaupmátt kauptaxta í verstu kreppunni þó mjög væri það reynt.

Hver var galdurinn á bak við hinn góða árangur KFÍ? Bók Kjartans á ekki gott svar við því, manni finnst einna helst við lesturinn að mikilvægasta skýringin hafi verið yfirburðamælskulist og kjörfylgi Einars Olgeirssonar. Það sýnir að sjónhringur hjöfundar er að mestu takmarkaður við leikreglur borgaralegs þingræðis. Mér finnst sennilegra (þó list Einars skuli aldrei vanmetin) að skýringin hafi helst legið í stéttarlegri samsetningu flokksins og hæfni flokksmanna að skipuleggja fólk í stéttabaráttu. Persónusaga Einars Olgeirssonar og nokkurra annarra kommaleiðtoga sem hér birtist er oft fróðleg og  góðra gjalda verð en um leið er framsetningin allt of persónumiðuð í heild.

Það háir Kjartani Ólafssyni í matinu á KFÍ að hann er ekki byltingarsinni og hefur aldrei verið það. „Valdefling“ alþýðu felst í að upplýsa og skipuleggja hana um hagsmuni sína (og „frelsun verkalýðsins verður að vera hans eigið verk“). KFÍ skilaði meiru í því efni en allir aðrir flokkar, þrátt fyrir ýmis mistök, m.a. í afstöðu til bæði sósíaldemókrata og fasisma.

„Réttlínufárið“

Afstaðan til sósíaldemókrata var mesta þrætueplið í átökunum innan flokksins. Af túlkun Kjartans má ráða að einagrunarstefnan (Kjartan kallar það „réttlínufár“ en Einar og Brynjólfur kalla það „barnasjúkdóma“) hafi einkennt allt starf KFÍ milli 2. og 3. flokksþings (1932-35). Ekki er það þó einboðið. Í frásögnum Brynjólfs Bjarnasonar og Einars Olgeirssonar síðar meir (sjá Krafatverk einnar kynslóðar og Brynjólfur Bjarnason. Póltísk ævisaga) eru þeir sammála um það að einagrunarstefnan sem alvarlegt vandamál hafi staðið stutt – frá febrúar 1934 til júní sama ár, segja þeir báðir. Stefna sú eða „fárið“ einkenndist af miklum ásökunum um tækifærisstefnu og kröfum um sjálfsgagnrýni flokksmanna. En þegar stimplanir „réttlínumanna“ urðu hvað ákafastar kom ný tilskipun frá Komintern sem gekk í þveröfuga átt.

Mesta beina inngrip Komintern í innanflokksmál Kommúnistaflokks Íslands var einmitt á þessum punkti, sumarið 1934, og þá var það til að leiðrétta „vinstri“ öfgarnar. Af frásögn Kjartans má hins vegar skilja að þungvægasta íhlutun Kominterns hafi komið gegnum svokallað „Stalínbréf“ frá október 1931 (opið bréf Stalíns til ritstjórnar Öreigabyltingar sem var tímarit í Moskvu um flokkssögu). Kjartan skrifar að afskiptin hafi einkum komið gegnum þá Íslendinga sem stunduðu nám í Lenínskólanum í Moskvu upp úr 1930. Hann fjallar samt lítið um innihald þessa „Stalínbréfs“. Gallinn er sá að umrætt opið bréf Stalíns var ekki innlegg í baráttuna við evrópska sósíaldemókrata árið 1931 og fjallaði ekkert um þá. Það fjallaði um „sentrismann“ í 2. Alþjóðasambandinu fyrir 1914 (Kautsky, Bebel...). Grein í þessu tímariti hafði haldið því fram að Lenín hefði þá vanmetið hættuna af „sentrismanum“. Stalín kallaði þessa kenningu „flokksfjandsamlega“ og merkti hana sem trotskíisma. Það hefur oft verið sagt að þessi grein hafi orðið til að þrengja olnbogarýmið í fræðilegri umræðu í Svétríkjunum, en það er önnur saga.

Það lítur vissulega út fyrir að Íslendingarnir ungu, heimkomnir úr Lenínskólanum í Moskvu, hafi verið leiðandi í „réttlínufárinu“ í KFÍ, og það lítur líka út fyrir að þeir hafi m.a. notfært sér „Stalínbréfið“ máli sínu til framdráttar. En „réttlínufárið“  mikla á Íslandi árið 1934 var samt séríslenskt fyrirbæri með „vinstribeygju“ í einstrengingshætti einmitt þegar beygja í hina áttina var nýhafin suður á meginlandinu. „Stalínbréfið“ frá 1931 fjallaði ekki um hvernig ætti að haga sér gagnvart sósíaldemókrötum né yfir höfuð um taktík í stéttabaráttunni á líðandi stund. Í bréfinu voru samtíðastjórnmál í Evrópu aldrei nefnd og bréfið var allt miðað á átök í sovéska flokknum. Grein þessi gat því ekki nýst í slíkum deilum nema mjög óbeint.

Sú aðferð að „skýra“ sögulegt ferli eða stefnu með því að henni hafi verið „stjórnað af Stalín“ er borgaralegur vandlætingarstimpill í stað raunverulegrar skýringar. Sjálfsgagnrýniherferðir og „hreinsanir“ af tækifærisstefnu voru alveg „eðlilegt“ ástand í kommúnískum flokki, en Kjartan fjallar um slíka starfsemi með stöðugum vísunum í hreinsanirnar í Sovét 1937-38. Með því skapar hann meðvituð hugrenningatengsl sem hamla skilningi fremur en auka hann.   

KFÍ tapaði nokkru kjörfylgi á þessum tíma, úr 7,5% árið 1933 í 6% árið 1934 fyrir landið allt og Kjartan skrifar það á reikning „réttlínufársins“. Í mati sínu á efri árum tók Einar Olgeirsson (í Kraftaverk einnar kynslóðar)undir hin neikvæðu áhrif vinstri öfganna á flokkinn árið 1934 en hann gerði samt meira úr áhrifum af glæsilegri kosningastefnuskrá Alþýðuflokksins fyrir komandi kjörtímabil, sem var mun róttækari en fyrr hafði verið, því nú skyldi kreppunni mætt með „framtaki hins opinbera auknum atvinnurekstri og framleiðslu eftir nákvæmri áætlun er gerð sé til ákveðins tíma (4 ára)“ undir sterkum sovéskum áhrifum. Alþýðuflokkurinn vann út á þessa stefnu sinn stærsta kosningasigur fyrr og síðar. Segja má að Stalín hafi því haft sín áhrif í kosningunum, einkum gegnum Alþýðuflokkinn. Róttæknin í stefnuskránni var vellukkuð tilraun þess flokks til að koma til móts við vaxandi róttækni verkalýðs og samkeppnina frá vinstri.

Samfylkingartíminn

Þá er komið að seinna tímabilinu í lífi KFÍ, þ.e.a.s. samfylkingartímann frá 1935. Kaflinn „Samfylking – sameining“ er að mínu mati besti kafli bókarinnar. Þar lýsir Kjartan því ýtarlega hvernig hægriforustan í Alþýðuflokknum á næstu árum – eftir að KFÍ tók kröftuglega upp samfylkingarmerkið – stóð þversum gegn allri samvinnu flokkanna. En samfylkingarstefnan hafði gríðargóðan byr í seglin. Enda vann nú KFÍ stórlega land af Alþýðuflokknum, í verkalýðshreyfingunni sem og í kosningasigrinum 1937, sérstaklega í Reykjavík (fékk þar 15,1%).

Kjartan rekur vel hvernig varaformaður Alþýðuflokksins, Héðinn Valdimarsson, eftir kosningatap þess flokks  þetta ár, með sólóspili sínu náði frumkvæðinu í samfylkingarmálunum þrátt fyrir glæstan kosningasigur kommúnista. Héðinn gerði það gegnum verkalýðsfélagið Dagsbrún með því að sameina tvö stefnumál í eina kröfu, „um einingu alþýðunnar í einu faglegu sambandi, Alþýðusambandi Íslands, og einum pólitískum, lýðræðissinnuðum flokki, hinum sameinaða flokki alþýðunnar“ (bls. 175). Sögurakning Kjartans hér er ekki ný (sjá t.d.Þorleif Friðriksson, Dagar vinnu og vonar, 217) en hún er mjög skilmerkileg. Krafan um samfylkingu og samstarf um einstök málefni hafði mikinn hljómgrunn meðal verkalýðs en í meðförum Héðins varð hún að kröfu um „einn sameinaðan alþýðuflokk“ og ákafir samfylkingarmenn í KFÍ tóku undir þá kröfu með taktískum rökum.  Kjartan skýrir það að hluta til með því hvað Einar Olgeirsson hafi pólitískt staðið nærri vinstrisósíalistanum Héðni, og má líklega taka undir það.

Það kemur vel fram og skilmerkilega í bókinni að sú samfylkingarstefna sem varð ofan á á Íslandi var mjög frábrugðin þeirri útgáfu sem boðuð var af Georgi Dimitrov (aðalritara Komintern 1935-43). Stefna Kominterns var um samvinnu í stéttabaráttunni (og gegn fasisma), „baráttueiningu“, „aðgerðaeiningu“ en ekki pólitíska sameiningu við krata nema í algerum undantekningartilfellum. En hér var nánast frá upphafi samfylkingartímans mestur fókus á sameiningu frekar en samfylkingu. Að frumkvæði Héðins. Ekki aðeins var það andstætt stefnu Kominterns að stefna að vinstriklofningi krataflokka heldur tók Komintern beina og afdráttarlausa afstöðu gegn þein öflum innan KFÍ sem miðuðu að því að kljúfa Alþýðuflokkinn (bls. 180). Engu að síður fóru kommúnistar á Íslandi þveröfugt að, pólitísk sameining kom í stað „aðgerðareiningar“ og samvinnan var bundin við vinstri krata en ekki flokk þeirra sem heild.

Og Komintern lét þetta gerast án þess að hafa mikil afskipti. Það kippir að nokkru fótum undan þeirri söguskýringu sem gengur út frá fullkominni stýringu frá Moskvu. Sú stýring var þrátt fyrir allt fyrst og fremst hugmyndalegs eðlis, meðan stefnumótunin hér heima réði jafnan úrslitum. Brynjólfur Bjarnason hafði eitthvað til síns máls þegar hann sagði síðar: „En á hitt vil ég leggja áherslu að Kommúnistaflokkur Íslands hafði sjálfstæðari stefnu en flestir Kommúnistaflokkar Evrópu á þeim tímum“ (sjá Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga, 25).

Svo var KFÍ lagður niður. Þar hvarf úr heimi kattliðugur stéttabaráttuflokkur og byltingarflokkur „sem fólksins merki hreint og tigið bar“. Upp reis stærri flokkur, verkalýðsflokkur en um leið flokkur sem takmarkaði starf sitt miklu meira við þingræðislega baráttu en fyrirrennarinn hafði gert. Kjartan getur um greinaskrif Brynjólfs frá 1937 þar sem hann varaði einmitt við þeirri hættu. Nýi flokkurinn gaf sósíalískum verkalýð sóknarfæri innan valdakerfisins í landinu, en gaf líka borgarastéttinni sóknarfæri inn í herbúðir sósíalista. Um úttekt Kjartans Ólafssonar á Sósíalistaflokknum fjöllum við í annarri grein.