Kári skrifar: UPPGJÖF Í BARÁTTU VIÐ GLÆPI SEM LEIÐ TIL ÞESS AÐ DRAGA ÚR GLÆPATÍÐNI - "AFGLÆPAVÆÐING" -

            Það er algeng aðferð á Íslandi að breyta skilgreiningum þegar takast þarf á við alvarlegan vanda af ýmsu tagi. Menn reyna með öðrum orðum að skilgreina sig út úr vandanum – með endurskilgreiningu. Þegar aðferðinni er beitt á alvarleg afbrot í þjóðfélaginu fylgir því mikill vandi. Mönnum hættir þá til að horfa algerlega framhjá afbrotunum sem slíkum, og alvarleika þeirra, en telja sér og öðrum trú um að það sé baráttan gegn glæpunum sem sé hinn raunverulegi vandi. Glæpurinn sem um ræðir verður algert aukaatriði – menn skilgreina sig framhjá honum. Með þessu er hlutunum snúið á haus.

            Breytingarfrumvarp um „afglæpavæðingu“ eiturlyfja er dæmi um brotaflokk þar sem endurskilgreiningu er beitt. Látið er að því liggja að varsla og neysla eiturlyfja sé einkamál neytandans og komi ekki öðrum við. Það er auðvitað eins rangt og nokkuð getur verið. Fólk sem lifir í samfélagi við annað fólk getur aldrei skákað í því skjólinu að það sé „eitt í heiminum“. Fjölmargar athafnir fólks snerta annað fólk, bæði beint og óbeint. Neysla eiturlyfja er sannarlega engin undantekning þar á. Eingetinn maður á eyðieyju gæti fræðilega haldið fram „rökum“ um það að aðra varði ekkert um gerðir hans en þar endar slík „röksemdafærsla“, hún á hvergi annars staðar við.

Frelsi til þess að skaða sjálfan sig og aðra

            Breski heimspekingurinn John Stuart Mill [utilitarianism] taldi frelsi manna ná til þeirra marka þar sem frelsi annara byrjar, að menn hefðu frelsi svo lengi sem það skaðaði ekki frelsi annara. Sé þeirri reglu beitt á eiturlyf er ljóst að menn ganga ævinlega inn á og yfir frelsi annara með neyslu þeirra. Það eitt að þurfa að þola megna ólykt vegna einstaklinga sem reykja allskonar bölvaðan óþverra gæti flokkast undir „óþægindi“ [nuisance[i]] sem er vel þekkt hugtak t.d. í breskri lögfræði [skaðabótarétti, Tort law].

            En gerður er greinarmunur eftir því hvort um ræðir einkaréttarleg afbrot (civil wrong) eða sakamál (criminal wrong) [sbr. private nuisance and public nuisance]. Hið fyrra snertir notkun fólks á eigin húsnæði sem aftur leiðir til truflunar annara eigenda (íbúa) en hið síðara er verknaður eða aðgerðaleysi sem hindrar, skemmir eða veldur óþægindum gagnvart réttindum samfélagsins [varðar heildarhagsmuni]. Notkun eiturlyfja fellur undir hvort tveggja. Fáir vilja hafa „dópgreni“ í nálægð við sig.

„Skaðaminnkunin“

            Öllum má ljóst vera að neyslu eiturlyfja fylgir engin blessun, gæfa eða sérstakur velfarnaður, hvorki fyrir neytandann né ástvini hans og ættingja. Þvert á móti fylgir neyslunni óhamingja, bölvun og niðurbrot einstaklinganna og að lokum samfélagsins alls ef niðurbrotið er látið átölulaust.[ii] Þetta vita margir lögreglumenn og læknar,[iii] enda hafa þær stéttir beina snertingu við vandann sem við er að etja.

            Mesta skaðaminnkunin er sú að byrja aldrei að nota eiturlyf. Það ætti ævinlega að vera útgangspunktur þessarar umræðu. Spurningin ætti því fyrst og fremst að snúast um það hvernig því markmiði verði sem best náð. Fáránleikinn í röksemdafærslunni um „afglæpavæðingu“ og „skaðaminnkun“ kemur berlega í ljós þegar skoðaðir eru annars konar glæpir.

            Ef hugmyndafræði „skaðaminnkunar“ væri beitt t.d. á eftirför lögreglu þar grunur væri um ölvunarakstur, ætti samkvæmt speki „skaðaminnkunar“ ekki að gera neitt, enda gæti ökumaður brugðist illa við öllu „áreiti“ og misst bifreið sína útaf veginum og orðið sjálfum sér (og eftir atvikum öðrum í bifreiðinni) að fjörtjóni.

            Þaðan af síður ætti að ákæra ökumanninn fyrir háttsemina ef hann að lokum næðist. Að baki „hugmyndafræðinni“ virðist búa sú „hugsun“ að með því að leyfa fólki að fremja sína glæpi í friði muni sjálfkrafa draga úr glæpum. Þannig mætti útrýma umboðssvikum [auðgunarbrot] með því einfaldlega að „afglæpavæða“ umboðssvik og jafnvel afnema 249. gr. alm.hgl. Það myndi samkvæmt þessu minnka þann skaða sem fylgir því að vera dæmdur fyrir umboðssvik og skömmina sem því fylgir. Margir fjárglæframenn myndu fagna slíkri lagabreytingu – enginn vafi á því.

            En blasir þá ekki líka við að með því að afnema einfaldlega öll refsilög myndu glæpir hverfa um leið? Er stjórnleysi ekki það sem talsmenn „afglæpavæðingar“ og „skaðaminnkunar“ eru raunverulega að kalla eftir? Er það ekki kjarni málsins? Stjórnleysi í búningi „skaðaminnkunar“?

            Það þykir merki um skort á „manngæsku“ að ætlast til þess að fólk beri ábyrgð á hegðun sinni og taki tillit til annara. Alþingi er heldur ekki sérstök fyrirmynd hvað ábyrgð snertir, að ekki sé talað um fjárglæframenn. Fólk í báðum hópum ber sjaldnast neina ábyrgð á gerðum sínum og hvers vegna ættu þá eiturlyfjaneytendur að gera það frekar?

            Þegar varsla á „litlum skömmtum“ af kannabis var „afglæpavædd“ í Nebraska, hafði það ekki í för með sér færri handtökur á sama tíma og saksóknum tengdum kannabis fjölgaði meðal ungmenna. Í Tijuana í Mexíkó hafði „afglæpavæðing“ allra efna engin augljós áhrif á vörslu efnanna og fjölda handtekinna.

            Í þeim fylkjum Bandaríkjanna sem „afglæpavæddu“ kannabisefni á áttunda áratug síðustu aldar fjölgaði komum á neyðarmóttöku vegna þeirra en fækkaði hins vegar vegna annara efna. Í Kólóradó, í Bandaríkjunum, var „afglæpavæðing“ tengd fleiri komum á bráðamóttöku, vegna uppkasta (cyclic vomiting). Fíknimeðhöndlun, heilbrigðisþjónusta, og annar kostnaður en vegna heilsugæslu, akstur undir áhrifum efna, framboð efna, tíðni notkunar, afstaða til notkunar og það hvernig skaðsemi birtist, var metið í einungis einni eða tveimur rannsóknum á „afglæpavæðingunni“.[iv]

Hvað býr þarna að baki?

            Það er nauðsynlegt að rannsaka vel hvaða undirliggjandi hagsmunir stjórna umræðunni í dag um „afglæpavæðinguna“. Er það líkleg skýring að „góðmennska“ þingmanna keyri um þessar mundir úr hófi fram og það ráði framlagningu nefnds breytingarfrumvarps frá heilbrigðisráðuneytinu? Varpa má fram eftirtöldum skýringarþáttum:

  • lýðskrum og atkvæðaveiðar, einkum gagnvart eiturlyfjaneytendum, ættingjum og stuðningsfólki þeirra [fiskað í gruggugu vatni];
  • hagsmunir fólks í þeim lögum samfélagsins þar sem mikið er lagt upp úr stöðum og góðum launum [vill geta neytt efna í friði og án áhættu];
  • innreið frjálshyggjunnar, þar sem litið er á eiturlyfjaneyslu sem „rétt“ fólks til þess að „ráða eigin lífi“;
  • hluti af almennri uppgjöf gagnvart verkefnum sem þykja erfið og snúin;
  • aðferð til „sjálfsréttlætingar“ eiturlyfjaneytenda og ættingja þeirra;
  • þrýstingur alþjóðlegrar, skipulagðrar glæpastarfsemi sem víða hefur veruleg áhrif á stjórnmálin: „afglæpavæðingu“ fylgja fleiri „viðskiptatækifæri“, eftirspurnin vex og framboðið vex.

            Fyrsta atriðið skýrir sig að mestu sjálft. Stjórnmálamenn hika ekki við að físka í gruggugu vatni ef von er um atkvæði. Næsta atriði er hins vegar ekki eins augljóst og þarfnast rækilegra rannsókna.

            Það snýr að því hvort svokallað „valdafólk“,[v] og fólk í viðskiptum, neytir margskonar efna í verulegum mæli.[vi] Ef sú tilgáta er á rökum reist, þá skýrir það hluta áróðursins fyrir „afglæpavæðingunni“ sem dynur á fólki í dag. Það er t.a.m. áberandi hversu einhliða áróður með „afglæpavæðingu“ er á leitarvélum s.s. Google. Það er örugglega ekki vegna þess að þetta sé „hið rétta viðhorf“ í málaflokknum heldur er því skipulega stjórnað hvaða upplýsingar fólk fær í hefðbundinni leit [algóritmi].

            Maður í „viðskiptum“ sem neytir reglulega kókaíns vill auðvitað hafa frelsi til þess. Hann gæti jafnvel endað inn á Alþingi! Er líklegt að hann láti af neyslu sinni einvörðungu vegna þess að hann er kominn á þing? Eftir að hafa sest á Alþingi mun hann örugglega ekki beita sér gegn eiturlyfjum. Ekkert frekar en að hætta sjálfkrafa að drekka áfengi við það eitt að vera kjörinn á þing. Hvaða efni [utan áfengis] eru notuð skiptir ekki öllu máli í þessu samhengi. Hér gildir að „brjóta ísinn“. Um leið og búið er að opna glufu er leiðin greið, fyrr eða síðar, fyrir hvaða efni sem er. Hins vegar er byrjað á því að útmála sakleysi þess að „reykja bara gras“ [minna rætt um geðklofa[vii] og annað sem stundum fylgir kannabisneyslu].

            Um innreið frjálshyggjunnar þarf ekki að fjölyrða. Frjálshyggjan boðar nánast takmarkalaust „frelsi“ en helst þeirra sem græða mest. Ef hægt er að fjölga neytendum með „afglæpavæðingu“ (sem um leið felur auðvitað í sér ákveðna viðurkenningu á efnunum) má stækka markaðinn og græða meira. Frjálshyggjan spyr oftast ekki um siðfræði þannig að hún er ekki til trafala hér. Í þessu ljósi felur „afglæpavæðing“ í sér aukin markaðstækifæri – meiri viðskipti.

            Almenn uppgjöf er ríkjandi viðhorf í stjórnmálum á Íslandi og víðar. Stjórnmálamenn hafa framselt frjálsa hugsun til Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins. Það þykir ekki fínt að hafa sjálfstæða stefnu eða ákveðna sýn í stjórnmálum. Seðlabankastjóri hefur réttilega rætt um völd hagsmunahópa. Stjórnmálin eru vissulega í vasa sérhagsmunaafla. Ef ákveðin „sérhagsmunaöfl“ vilja „afglæpavæðingu“ eiturlyfja er vandséð að Alþingi muni standa gegn því og fyrrum fíklar berjast fyrir „afglapavæðingu[viii] innan þingsins.

           

[„Afglapavæðing“]

Að fikta við eitur er flóttaleið,

framtíðar varla menn njóta.

Afglapavæðingin opnast breið,

inngangur helvítis þrjóta.

            Um sjálfsréttlætingu er það að segja að hún tengist stimplun. Sumt fólk vill geta brotið af sér án þess að hljóta stimplun annara fyrir það. Mætti kalla „frelsi til afbrota“. Með „afglæpavæðingu“ [afglapavæðingu] er sjónum beint frá þeim brotlega og yfir á hina sem ekki samþykkja afbrotin. Viðbrögð samfélagsins við glæpum, en ekki sjálfur glæpurinn, eru þannig sett í miðpunkt og þau talin stærsta vandamálið. Með sömu „rökum“ má réttlæta hvaða glæp sem er. Síðan er sagt sem svo að eiturlyfjafíkn sé heilbrigðisvandamál og eigi ekki heima í réttarvörslukerfinu. Það þykir sumu fólki sterk „rök“.

            Samkvæmt sömu speki ætti þá ekki að refsa ökumanni sem ekur undir áhrifum eiturlyfja og verður manni að bana með athæfi sínu. Aksturinn er „heilbrigðisvandamál“ og dauði annara eðlileg og fyrirsjáanleg afleiðing sem samfélagið verður bara að sætta sig við! Þó má öllum ljóst vera, í upphafi, að það að fikta við eiturlyf kann að hafa í för með sér hörmulegar afleiðingar [og hefur það oft]. Þetta er enn eitt dæmið um það hvernig menn, oft lævíslega, reyna að skilgreina sig frá vanda sem þó hlýtur að blasa við öllum.

            Um alþjóðlega, skipulagða glæpastarfsemi er það að segja að hún er alltumlykjandi og teygir sig um allt samfélagið. Fjármálakerfið, eins og það leggur sig, er allt undirorpið tenglsum við mafíufyrirtæki og peningaþvætti.[ix] Að sjálfsögðu tekur það til allrar þeirrar starfsemi sem hefur mikinn ágóða í för með sér.

Tvær aðferðir

            Almennt má segja að tvær leiðir séu færar í báráttunni við glæpi:

  1. það er hægt að fyrirbyggja af fremsta megni og taka á glæpnum sjálfum, með lagasetningu, fjárheimildum og valdheimildum lögreglu, EÐA;
  2. það er hægt „skilgreina sig frá glæpnum“ og „afglæpavæða“ hann.

            Síðari kosturinn er þægilegri fyrir stjórnmálamenn, um stundarsakir. Þá er hægt að skera niður fjárveitingar til löggæslu og ásaka svo lögregluna um getuleysi í baráttunni við glæpi.

            Hið rétta væri þó að styrkja mjög forvarnir og löggæslu, ekki hvað síst þar sem um er að ræða hátæknivædda glæpi, fjármunaglæpi, peningaþvætti og annað sem tengist sölu og neyslu eiturlyfja. Tæknideildir lögreglu og deildir sem annast sértækar rannsóknir þurfa að hafa yfir að ráða öllum nýjustu og bestu tækjum sem í boði eru á hverjum tíma, auk sérþjálfaðs starfsfólks. Þannig ná menn árangri.

[Íslenska mafían]

Þar sérhagsmunir segja flest,

sumar rætur grunnar.

Stjórnun landsins styðja best,

stoðir mafíunnar.

            Baráttan er viðvarandi. Fá stríð vinnast í eitt skipti fyrir öll og örugglega ekki baráttan gegn eiturlyfjum og annari glæpastarfsemi. Til viðbótar við þetta eiga lögreglumenn almennt að vera vel launaðir, enda starfið erfitt, krefjandi og stundum vanþakklátt. En fjármunum til löggæslu er vel varið.

Hvað segir eiturlyfjavaktin?

            Sumir kynnu að láta glepjast á öllum áróðrinum sem veður uppi á netinu um nauðsyn þess að „afglæpavæða“ eiturlyf og helst lögleiða. En innan um allan hópsálarhugsunarháttinn örlar þó víða á viti inn á milli.

            Dæmi um það er Eiturlyfjavaktin (Drug Watch International). Þar segir í grein frá 1994 sem enn er í fullu gildi:

            „Lögleiðing eða „afglæpavæðing“ fíkniefna myndi gera skaðleg, geðvirk og ávanabindandi efni, ódýrari, fáanleg, handhæg og markaðsvæn. Hún myndi auka notkun lyfja. Það myndi fjarlægja þann félagslega smánarblett sem fylgir ólöglegri vímuefnaneyslu og senda skilaboð um umburðarlyndi gagnvart vímuefnaneyslu, sérstaklega til ungmenna.“[x]

            Núverandi og fyrrum eiturlyfjaneytendur eru vafalaust ýmsir ósammála þessu og telja hamingju og velferð samfélaga aukast í réttu hlutfalli við neysluna og afskiptaleysi stjórnvalda. En sá sem reynir að halda því fram hefur rangt fyrir sér og í raun mjög skerta dómgreind [mögulega einmitt vegna eiturlyfjaneyslu!].

Að lokum

            Vonandi sér meirihluti þingmanna á Alþingi sóma sinn í því að styðja ekki framkomið breytingarfrumvarp frá heilbrigðisráðuneytinu um „afglæpavæðingu“ eiturlyfja. Samþykkt frumvarpsins myndi hins vegar sýna svart á hvítu að siðferðisþrek margra þingmanna er ekki mikils virði. Eru þá ótalin öll rök gegn „afglæpavæðingunni“ sem slíkri og nefnd hafa verið hér að framan.

            Þeir sem fyrst og fremst hagnast á „afglæpavæðingu“ eru seljendur eiturefna og mafíur sem þar með fá aukin „viðskiptatækifæri“. Það er nefnilega alröng ályktun að sömu aðilar muni missa spón úr aski sínum við breytingarnar. Þegar hindrunum fyrir „viðskiptum“ er velt úr vegi hefur það almennt þau áhrif að auka viðskiptin.

            Hindrunin nú felst m.a. í því að eiturlyf eru ólögleg „verslunarvara“. Ætlar ríkisstjórnin þá í framhaldinu að beita sér fyrir því að kaup á vændi verði einnig gerð „refsilaus“? Þurfa stjórnmálamenn ekki stundum að vera sjálfum sér samkvæmir? Væri þá ekki rökrétt að gera Ísland að viðurkenndri, alþjóðlegri miðstöð vændis og eiturlyfja sem hluta af „ferðaþjónustu“? Það er ekkert eðlilegt eða sjálfsagt við það að samfélög sýni vörslu og neyslu eiturlyfja sérstakt umburðarlyndi og það er ekki að ástæðulausu að þungar refsingar liggja við vörslu og innflutningi eiturlyfja, í ýmsum ríkjum heims.[xi]

            Á heimasíðu American Addiction Centers segir: „Í Víetnam eru fíkniefnaglæpir teknir mjög alvarlega. Ef þú ert handtekinn með meira en 1,3 pund af heróíni verður þú sjálfkrafa tekinn af lífi.“[xii]

            „Lögreglan í Singapúr gerir ráð fyrir því að þú seljir fíkniefni ef þú ert  tekinn með tiltölulega lítið magn. Verðirðu dæmdur fyrir sölu fíkniefna, færðu dauðadóm.“[xiii] Menn þurfa varla að óttast dauðarefsingu á Íslandi. Það markast af tvennu: 2. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (réttur til lífs). Auk þess mæla 1. gr. 6. viðauka og síðan 1. gr. 13. viðauka við mannréttindasáttmálann fyrir um afnám dauðarefsinga.

[i]      Sjá t.d.: https://legal-dictionary.thefreedictionary.com/nuisance

[ii]    Sjá t.d.: U.S. Department of Justice. National Drug Intelligence Center. National Drug Threat Assessment 2006, (January 2006). https://www.justice.gov/archive/ndic/pubs11/18862/impact.htm

[iii]   Sjá t.d.: Læknafélagið mótfallið afglæpavæðingu. (2021, 1. maí). Morgunblaðið. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/05/01/laeknafelagid_motfallid_afglaepavaedingu/

[iv]    Scheim, A. et al., 2020. Impact evaluations of drug decriminalisation and legal regulation on drug use, health and social harms: a systematic review. BMJ Open, 10(9), p.e035148. https://bmjopen.bmj.com/content/bmjopen/10/9/e035148.full.pdf

[v]     Sjá: Cocaine, cannabis and opium: Which politicians have used drugs and what did they take? (Tuesday 11 June 2019). SkyNews. https://news.sky.com/story/cocaine-cannabis-and-opium-which-politicians-have-used-drugs-and-what-did-they-take-11737521

[vi]    Sjá einnig: Akhtar, A. (Dec 8, 2019). 7 business leaders who are completely open about their struggles with alcohol and drugs. Insider. https://www.businessinsider.com/business-leaders-who-openly-discuss-drug-and-alcohol-addiction?r=US&IR=T

[vii]  Sjá t.d.: Patel, S. et al. (2020). The Association Between Cannabis Use and Schizophrenia: Causative or Curative? A Systematic Review. Cureus. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC7442038/

[viii] Réttnefni væri AFGLAPAVÆÐING.

[ix]    Sjá einnig: The Guardian. 2021. Drug money saved banks in global crisis, claims UN advisor. [online] Available at: <https://www.theguardian.com/global/2009/dec/13/drug-money-banks-saved-un-cfief-claims> [Accessed 4 May 2021].

[x]     Against Legalization or Decriminalization of Drugs. (01 August 1994). Drug Watch International. https://www.drugwatch.org/resources/publications/position-statements-and-resolutions/163-against-legalization-or-decriminalization-of-drugs.html

[xi]    Sjá enn fremur: The 20 Countries with the Harshest Drug Laws in the World. (December 31, 2020). American Addiction Centers. https://drugabuse.com/blog/the-20-countries-with-the-harshest-drug-laws-in-the-world/

[xii]  Ibid.

[xiii] Ibid.

Fréttabréf