Fara í efni

STOFNUN UM SAMVINNU LANDSREGLARA (ACER) - Framsal íslensks ríkisvalds  - Framhaldsumræða

-

            Í síðustu grein var rætt um tilurð og stofnun ACER og reglugerðirnar sem þessi stofnun landsreglara byggist á. Eftir því sem sumir stuðningsmenn orkupakkanna, sérstaklega á þingi, tjá sig oftar og meira, þeim mun augljósari verður djúpstæður þekkingarskortur þeirra á heildarsamhengi málsins. Málflutningur þeirra minnir helst á tal krakka sem eru að byrja að átta sig á heiminum og reyna að skilja muninn á hlutbundnum og óhlutbundnum veruleika. Þetta á t.d. við um marga Pírata. Málfundaræfingar og frasar koma í stað innihalds. „Ráðgjafar“ mæta á nefndarfundi þingsins og „gefa línuna“ sem „meðvirka fólkið“ tileinkar sér og hamrar síðan á, þvert á alla skynsemi og staðreyndir.

            Á heimasíðu Orkunnar okkar segir t.a.m. Björn Leví Gunnarsson, í athugasemd við frétt þess efnis að erlendir aðilar skoði uppsetningu garða vindrafstöðva við strendur Ísland: „En Bretar eru ekki í ESB og orkupakkinn hjálpar þeim ekkert í þessu. Hvorki Bretar né neinir aðrir geta komið inn í íslenska landhelgi og skellt niður vindorkugarði eftir hentugleikum.“ Þetta er dæmigerð framsetning fólks sem oft hrapar að ályktunum. Þetta minnir á spekina sem sumir „ráðgjafar“ stjórnvalda héldu fram, s.s. við Háskólann í Reykjavík. Í stuttu máli, það er ekki hægt að gefa sér þetta, eins og þingmaðurinn gerir, án athugunar á málinu. Þingmaðurinn myndi ekki láta þetta frá sér fara ef athugun á málinu lægi fyrir af hans hálfu og skilningur á því sem hann ræðir um.

Lögsaga eftir BREXIT

            Fyrst um það atriði að þar sem Bretar eru ekki lengur í ESB þá skipti orkupakkar engu máli í þessu samhengi. Það er lagalegt álitamál. Það er ekki hægt að slá því föstu, fyrirfram, eins og þingmaðurinn gerir. Fljótt á litið gætu menn þó hrapað að þeirri ályktun. Spurningin er þá þessi: hversu langt nær lögsaga orkupakkanna? [Eftir BREXIT].

            Áður hefur komið fram, í fyrri skrifum, að Evrópurétturinn gengur í framkvæmd framar alþjóðarétti, þegar Evrópudómstóllinn þarf að taka afstöðu til þess hvort skuli ráða ákveðnar lagagreinar í alþjóðasáttmálum eða ákveðnar lagagreinar í sáttmálum, reglugerðum og tilskipunum Evrópusambandsins. Það er því lítið hald í því að vísa til alþjóðasáttmála, s.s. vegna lagningar sæstrengja eins og sumir „ráðgjafar“ hafa gert. Evrópurétturinn er þar ráðandi. Þetta sést t.d. með því að rýna dóma Evrópudómstólsins.

            Hvað snertir Ísland og Bretland sérstaklega er Evrópurétturinn augljóslega til staðar Íslandsmegin (EES) en líka Bretlandsmegin, þrátt fyrir úrsögn úr ESB! Hvernig má það vera? Það skýrist af því að Bretar eiga enn í orkusamstarfi við innri orkumarkað ESB, eftir úrsögn úr ESB og munu áfram eiga næstu árin að minnsta kosti.[i] En þó svo að Bretar hefðu enga tengingu við innri orkumarkaðinn lengur, er heldur ekki hægt að gefa sér, fyrirfram, að vindorkugarður, ásamt með sæstreng til Bretlands, falli ekki undir reglur orkupakkanna.

            Þar má einnig nefna Evrópu-Asíu verkefnið, sæstreng á milli Ísrael, Kýpur og Grikklands. Það verkefni heyrir beint undir orkupakka ESB og er á vegum þeirra. Er Ísrael þó ekki aðildarríki Evrópusambandsins en hefur sérstakan samning við sambandið frá árinu 1995 [European Union Association Agreement]. Slíkir samningar, við þriðju ríki, hafa lagastoð í 217. gr. Lissabon-sáttmálans (TFEU).

Orkumálin eru fullveldismál

            Margir gera sér ljóst að fullveldisréttur Íslands er stórlega skertur, á sviði orkumála, eftir innleiðingu orkupakka þrjú. Hversu mikið á eftir að koma betur í ljós. Þar skiptir miklu máli að orkupakkarnir eru hluti af yfirþjóðlegu valdi (supra national) sem gengur framar innlendu valdi á sömu sviðum. Það er margstaðfest af Evrópudómstólnum, í dómum hans.

            Eina „hálmstrá“ „ráðgjafanna“ er að segja sem svo að EES/EFTA ríkin lúti ekki sömu reglum og gilda innan Evrópusambandsins. Það atriði hefur áður verið reifað í fyrri skrifum. EES-réttur er hluti Evrópuréttar og þar sem EES-réttur og Evrópuréttur skarast (s.s. í orkumálum), þar gilda samræmdar reglur og eiga að gilda samræmdar reglur [út frá Evrópurétti]. EFTA-dómstóllinn getur ekki túlkað og dæmt á skjön við Evrópudómstólinn. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndi fljótlega hreyfa mótmælum við því [eins og hún gerði t.d. í Icesave-málinu þegar dómur EFTA-dómstólsins féll, Íslandi í hag, þvert á línu  framkvæmdastjórnarinnar].

            Það er því ljóst að þegar ríki hefur framselt hluta fullveldis á ákveðnu sviði hefur sama ríki ekki áfram óskoraðan fullveldisrétt á því sama sviði. Sumir þingmenn skauta léttilega yfir þá staðreynd. Í þessu felst að það er afar hæpið að vísa til þess að fullveldisrétturinn muni tryggja íslenska hagsmuni, t.d. hvað snerir lagningu sæstrengs.

            Til þess að átta sig á stöðu Bretlands gagnvart innri orkumarkaði ESB, eftir BREXIT, er nauðsynlegt að lesa vel útgöngusamninginn[ii] frá 19. október 2019; Viðskipta- og samstarfssamning Bretlands og ESB[iii] (TCA) og raunar einnig samninginn um kjarnorkusamstarf Bretlands og Euratom (samning um samstarf um örugga og friðsamlega notkun kjarnorku). Í TCA er rætt um orkumálin í bálki VIII, gr. 74-78. Hversu margir íslenskir þingmenn hafa lesið þessa samninga og skilja þá?

[„Pakkasúpa Píratans“]

Í pottinum hljóp í píratakekki,

pakkasúpan slök.

Vitlaus maður en veit það ekki,

virðir engin rök.

            Hér er rétt að víkja að öðru, áður en lengra er haldið. Skarpgreindir verkfræðingar, á sviði rafmagnsverkfræði, hafa réttilega rætt um evrópsku orkumálin í samhengi við útboð á réttindum, s.s. vatnsréttindum og jarðhitaréttindum. Allt hárrétt hjá þeim. Þá er og rætt um frumvarp í meðförum þingsins um nýtingu lands í eigu ríkisins sem m.a. fjallar um þessi atriði. Sumir kunna að vísa til þessa frumvarps sem merkis um að ekki þurfi að bjóða út nýtingarrétt. Þar er þó rétt að álykta varlega.

            Enn og aftur þarf að hafa í huga sameiginlegar reglur sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt orkupökkum ESB. Komist eftirlitsstofnun EFTA, ESA, að þeirri niðurstöðu að ákvæði í íslensku lögunum (s.s. um útboð á réttindum) séu ekki í samræmi við Evrópuréttinn (EES-réttinn) þá gætu málaferli, samningsbrotamál sprottið, af því, fyrir EFTA-dómstólnum.

            Það hefur einfaldlega ekki reynt á það enn sem komið er, enda er þetta enn í frumvarpsformi. Þetta merkir að Alþingi getur ekki lögfest neitt sem brýtur gegn Evrópuréttinum. Menn rekast alltaf á sama veginn. Evrópuréttur hefur ekki bara réttaráhrif á Íslandi, hann hefur meiri rétthæð en innlendur réttur.

            Fjöldi fólks, almenningur á Íslandi, er fyrir löngu búinn að átta sig á þessu samhengi og er vel með á nótunum. Það sést í athugasemdakerfum og á öðrum vettvangi þar sem fólk tjáir skoðanir sínar. Fyrrum ráðherra, Guðni Ágústsson, hefur t.a.m. í viðtölum vitnað til „kjötmálsins“[iv] [EFTA dómsins] í því sambandi. Þar reyndi á rétthæð íslensks réttar gagnvart Evrópurétti (EES) vegna Evróputilskipunar [Council Directive 89/662/EEC of 11 December 1989].

            Sá sem les dóminn hlýtur að efast um orð sumra íslenskra þingmanna, þess efnis að íslenskur réttur gangi framar Evrópurétti og að þingið hafi öll tögl og haldir þegar kemur t.d. að orkumálum og fjöldamörgum öðrum málum sem snerta fullveldishagsmuni Íslands. Góð byrjun fyrir þá sömu þingmenn væri að lesa t.d. mál Evrópudómstólsins frá 15. júlí 1964, Flaminio Costa v E.N.E.L[v] og síðan nefndan EFTA-dóm.

ACER-reglugerðirnar og samhengi hlutanna

            Eins og áður er komið fram er ACER samstarfsstofnun landsreglara aðildarríkja innri orkumarkaðar Evrópusambandsins. Með innleiðingu orkupakka þrjú gerðist Ísland aðili að þessu samstarfi. Sérstakur landsreglari starfar því á Íslandi í umboði Evrópusambandsins. Hlutverk ACER er skilgreint í fyrri ACER-reglugerðinni; reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009.

            Í 1. mgr. 2. gr. segir að stofnunin skuli vera Bandalagstofnun með réttarstöðu lögaðila. Í 2. mgr. 2. gr. segir: „Stofnunin skal njóta þess rétthæfis í öllum aðildarríkjunum sem löggjöf þeirra framast veitir lögaðilum. Hún skal m.a. geta aflað eða afsalað sér fasteignum og lausafé og tekið þátt í málarekstri.“

            Lesendur eru hvattir til þess að lesa vandlega íslenska þýðingu[vi] á reglugerðinni. Það er þó ekki nægjanlegt að lesa hana að „hætti Pírata“, á hraðferð og án skilnings og tenginga við stóra samhengi málsins. En það hefur berlega komið í ljós, bæði á meðan á umfjöllun málsins stóð í þinginu, og alla tíð síðan, að píratar þessir botna hvorki upp né niður í málinu.

            Telja það snúast um að „aukna samkeppni“, aukna „neytendavernd“, að „brjóta upp einokun“ og hvað þessir frasar heita allir saman. Þegar rætt er um mikilvæga innviði samfélaga er ekki hægt að tala þannig. Reynslan sýnir t.d. í Bretlandi[vii] að í stað hinnar „voðalegu ríkiseinokunar“ kemur fákeppni og „tvíkeppni“ (duopoly). Staða neytenda versnar til muna, orkufátækt eykst og verðið stórhækkar. Eða með öðrum orðum, allt þveröfugt við málfundartal Pírata. Það sýnir vel skilningsleysi þeirra. Fólk verður að minnsta kosti að ætla að sú sé ástæðan því annars væri um einbeittan ásetning að ræða. En til þess að gæta ákveðins jafnræðis er rétt að taka fram að skilningur t.d. þingmanna Samfylkingar, Vinstri-grænna og Framsóknar var og er ekki mikið betri. Höfðu greinilega líka tileinkað sér boðskap „ráðgjafanna“.

            Stóra samhengi málsins felst í ásókn braskara og fjárglæframanna í auðlindir og stjórnun þeirra, ekki til hagsbóta fyrir almenning heldur á kostnað almennings. Hefur auðvitað ekkert með „einokun“ og „neytendavernd“ að gera. Það eru frasar sem eru notaðir til þess að friðþægja hina mörgu sem hafa efasemdir.

            Þetta stendur ekki í tilskipunum eða reglugerðum [eins og frasafólkið vísar stundum til] en heilbrigð skynsemi og sagan getur hjálpað fólki að komast að því hvað raunverulega á sér stað. Að rýna sögu og reynslu annara ríkja. Ef upplýsing og þekking dugar ekki til er úr vöndu að ráða. Þá liggur beinast við að kjósa þetta fólk ekki til áframhaldandi setu á Alþingi.

[„Misheppnaður þingmaður“]

Þekking lítil og þroskinn lasni,

þannig er maðurinn hálfur.

Vont er að kallast vitlaus asni,

en vita ekki af því sjálfur.

            Evrópusambandið (og stofnanir þess) er ekki myndað til þess að verja hagsmuni almennings í aðildarríkjunum. Þetta er fyrst og fremst bandalag „stórkapítalsins“ og stórfyrirtækja.[viii] Tilskipanir um „neytendavernd“ eða Mannréttindasáttmáli Evrópusambandsins [sem er allt annað „verkfæri“ en Mannréttindasáttmáli Evrópu, frá Evrópuráðinu] eru hrein „aukaafurð“ ef svo má að orði komast og skipta í raun litlu máli í stóra samhenginu. Má fremur líkja við smurningu á stóra gangverkið sem allt snýst um. Orkupakkarnir þjóna fyrst og fremst þessu sama gangverki, ekki almenningi, alls ekki. Náskyld þessu er svo auðvitað hin svonefnda alþjóðavæðing (globalizaton) þar sem allt leitar að lægsta samnefnara.

            Í 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2019/942 [hluti fjórða orkupakkans] kemur fram að málum sem varða ákvarðanir ACER má skjóta til Evrópudómstólsins, eftir að þau úrræði sem um getur í 28. gr. sömu reglugerðar hafa verið tæmd. Hvernig hyggjast íslenskir stjórnmálamenn/embættismenn útfæra þetta ef þeir með vélráðum skyldu troða orkupakka fjögur ofan í þjóðina? Ætla þeir að vísa til tveggja stoða kerfisins og fullyrða að lögsagan verði hjá EFTA-dómstólnum? Eða, ætla þeir að eftirláta Evrópudómstólnum þessa lögsögu enda þótt Ísland sé ekki aðili að ESB? Í öllu falli er ljóst að endanlegt úrskurðarvald verður ekki á Íslandi.

Lokaorð

            Áfram verður fjallað um orkumálin. Kjósendur á Íslandi fá tækifæri til þess í næstu kosningum að segja álit sitt á frammistöðu núverandi þingmanna. Það tækifæri á að nýta vel og ekki eyða atkvæðum á fólk sem vinnur að því (meðvitað og ómeðvitað) að grafa undan íslenskum hagsmunum og fullveldinu. Stjórnmál verða að snúast um stefnumótun, réttar ákvarðanir og hagsmunavörslu fyrir þjóðina. Ekki meðvirkni gegn þjóðinni. Þau eiga heldur ekki að vera „ímyndarsamkeppni“ á milli ráðherra um það hver getur brosað mest í myndavélar með erlendum leiðtogum, eins og t.d. er áberandi hjá Vinstri-grænum. Kjósendur hljóta að gera meiri kröfur en það þegar kjósa skal.

[„Ímyndarstjórnmál“]

Innihaldið áfram vel,

oft það bíður hnekki.

Mikið bros í myndavél,

mestu skiptir ekki.

[i]      Sjá t.d.: Norton Rose Fullbright. https://www.nortonrosefulbright.com/en/knowledge/publications/de27d8b1/the-impact-of-brexit-on-the-energy-sector

[ii]    Sjá: HM Government. Agreement on the withdrawal of the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland from the European Union and the European Atomic Energy Community. (19 October 2019). https://assets.publishing.service.gov.uk/government/uploads/system/uploads/attachment_data/file/840655/Agreement_on_the_withdrawal_of_the_United_Kingdom_of_Great_Britain_and_Northern_Ireland_from_the_European_Union_and_the_European_Atomic_Energy_Community.pdf

[iii]   UK-EU TRADE AND COOPERATION AGREEMENT. (December 2020). https://assets.publishing.service.gov.uk/government/uploads/system/uploads/attachment_data/file/962125/TCA_SUMMARY_PDF_V1-.pdf

[iv]    Sjá: Joined Cases E-2/17 and E-3/17. https://eftacourt.int/download/2-17-and-3-17-judgment/?wpdmdl=1381

[v]     Case 6-64 Flaminio Costa v E.N.E.L. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX%3A61964CJ0006

[vi]    REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS(EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009. https://www.efta.int/sites/default/files/documents/legal-texts/eea/other-legal-documents/solr/translated-legal-acts/icelandic/i32009R0713.pdf

[vii]  Sjá t.d.: Case Example on Energy Markets: the UK Power Market by Steve Thomas. https://www.youtube.com/watch?v=-ADj1C52Ow4

[viii] Sjá einnig: Ivanovitch, M. (2019). The European Union needs a strong economy to claim its role on the world stage. CNBC. https://www.cnbc.com/2019/12/09/the-eu-needs-a-strong-economy-to-claim-its-role-on-the-world-stage.html