Kári skrifar: STOFNUN UM SAMVINNU LANDSREGLARA (ACER)

- Framsal íslensks ríkisvalds -

              Undanfarin misseri hefur mátt greina eðlilegar og fyllilega réttmætar áhyggjur sumra vegna framsals á íslensku ríkisvaldi sem felst í innleiðingu orkupakka þrjú í íslenskan rétt. Margir gera sér æ betur ljóst að ekki er bæði hægt, á sama tíma, að eiga kökuna og éta hana. Innan um í umræðunni má einnig greina raddir fólks sem er víðsfjarri raunveruleikanum. Það á bæði við um fólk á Alþingi og utan þess. Björn Leví Gunnarsson er í hópi þeirra þingmanna sem botna ekkert í málinu. Sennilega er þar bæði um að kenna skilningsskorti og þekkingarskorti [eða skilningsskorti sem leiðir af þekkingarskorti].

Yfirþjóðlegt vald

              Á heimasíðu Orkunnar okkar er t.a.m. rætt um þróun mála í Noregi, þar sem Hæstiréttur Noregs hefur opnað á málaferli í kjölfar innleiðingar norska Stórþingsins á orkupakka þrjú. Um þetta segir Björn Leví m.a.: „Þannig að hvernig sem niðurstaðan verður í Noregi, þá hefur hún ekkert að segja um okkar stjórnarskrá. Nú væri gott að vera með nýju stjórnarskránna, er það ekki?“

            Hér er ekki ljóst hvað þingmaðurinn á raunverulega við. Hins vegar koma mörg atriði strax í hugann við lestur þessarar tilvitnunar. Byrjum á byrjuninni. Að niðurstaðan í Noregi hafi engin áhrif á Íslandi er rangt. Ekki einungis út frá skyldleika norskrar og íslenskrar stjórnskipunar.

            En verði það niðurstaða norskra dómstóla að aukinn meirihluta þurfi til innleiðingar í norska Stórþinginu sýnir það auðvitað vel eðli og alvarleika málsins - er útaf fyrir sig sterk fordæmi enda um verulegt framsal fullveldis (ríkisvalds) að ræða. Framhjá því verður ekki horft. Síðan þetta: „...þá hefur hún ekkert að segja um okkar stjórnarskrá.“ Nú er ljóst að EFTA-ríkin þurfa að tala „einni röddu“ í málum sem þessum. Ákvarðanir í einu EFTA-ríki hafa þannig áhrif á hin EFTA-ríkin. Stjórnarskrárþátturinn snýr að samspili norsks/íslensks ríkisvalds gagnvart EFTA/ESB-valdinu [valdheimildum innanlands gagnvart erlendu valdi].

            Menn láta þarna eins og íslenskum yfirvöldum séu allir vegir færir í málinu, geti bæði „gefið og tekið“ á sama tíma, allt eftir hentugleikum. Maður hlýtur að spyrja: í hvaða veruleika lifir fólk sem svona talar? Það sem einnig vantar algerlega, og hefur vantað alla tíð frá því að Píratar og fleiri byrjuðu að ræða þessi mál, er hið yfirþjóðlega eðli málsins.

            Þingmaðurinn segir enn fremur: „þetta er samningur sem er gerður um sams konar reglur. Til þess að það sé ekki hægt að svindla á samningnum þurfa reglurnar auðvitað að halda áfram að vera í samræmi. Þegar fólk er orðið ósátt við að hafa sams konar reglur þá er auðvitað hægt að slíta samningnum. Framsalið er nú ekki meira en það. Það er ekkert óafturkræft í þessu.“

            Þessi klausa þarfnast sérstakra orðskýringa. Það er útaf fyrir sig rétt að allt lagakerfi ESB snýst um „samskonar reglur“. Þar með dettur botninn úr þessari tilvitnun. „Samskonar reglur“ eru engin trygging fyrir því að ekki sé hægt að „svindla“ eins og þingmaðurinn kýs að orða það. Það eru t.a.m. samræmdar reglur í umferðinni en þær tryggja ekki að fólk fari eftir þeim. Maður sem ekur gegn rauðu ljósi gerir það þrátt fyrir umferðarreglurnar.

            Síðan segir þingmaðurinn: „Þegar fólk er orðið ósátt við að hafa sams konar reglur þá er auðvitað hægt að slíta samningnum.“ Hvernig sér Píratinn það fyrir sér? Á hann þar við riftun, þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að ACER eða jafnvel uppsögn EES? Bretum hefur reynst þetta auðvelt eða hvað?

            „Það er ekkert óafturkræft í þessu“ segir þingmaðurinn að lokum. Þarna virðist eitthvað vefjast fyrir þingmanninum að greina á milli þess sem er fræðilega mögulegt og hins sem er vel gerlegt. Fræðilega er vissulega margt mögulegt. Samkvæmt því er hægt t.a.m. að ganga í ESB og út úr því aftur, líki mönnum ekki vistin. En halda menn að það gerist án afleiðinga? Aftur, hver er reynsla Breta af útgöngu úr ESB? Innleiðing Evrópugerða kann þegar að hafa valdið óafturkræfum skaða þótt þjóðin á endanum kæmist út úr ákveðnu samstarfi eða jafnvel EES í heild sinni.

            Nefna má Landsvirkjun í þessu tilliti. Ef skammsýnir stjórnmálamenn ganga erinda fjárglæframanna og búta fyrirtækið í sundur, í því skálkaskjóli að „evrópsk samkeppni“ krefist þess, þá er sá skaði skeður. Það er ekki hægt að tala eins og það sé „afturkræft“.

Samningar binda einstaklinga og ríki

            Samningar um innri markað ESB (og innri orkumarkaðinn) eru ekki eins og „hverjir aðrir samningar“ þar sem fólk getur gengið „út og inn“. Það á raunar alls ekki við heldur um samninga almennt!

            Hvort sem um er að ræða einkaréttarlega samninga, samninga á milli einstaklinga, eða milliríkjasamninga, þá eru oft í þeim ítarleg ákvæði um efni, hvernig samningar skuli uppfylltir, hvernig skuli taka á vanefndum, undir hvaða kringumstæðum hægt sé að rifta samningum, hvert sé varnarþingið o.s.frv. Píratar tala eins og það sé ekkert mál að ganga út úr þessu orkusamstarfi ESB verði niðurstaðan sú.

            Fullkomið skilningsleysi felst í slíkri ályktun. Það er auðveldara að klúðra málum og ganga inn en að komast út aftur, þótt það hins vegar markmið sem ber að stefna að sem allra fyrst. Um afstöðu sína til þess eiga stjórnmálamenn að tala mjög skýrt nú fyrir næstu kosningar og ekki reyna nein undanbrögð.

            Hið rétta í málinu hefði verið að fá undanþágur á vettvangi hinnar sameiginlegu EES-nefndar, varanlegar undanþágur, frá öllum orkupakka þrjú. Þennan pakka átti aldrei að innleiða á Íslandi. Hið sama gildir að sjálfsögðu um aðra pakka sem á eftir koma. Þeir fela í sér stórhækkað raforkuverð, meiri og dýrari yfirbyggingu, brask með auðlindir þjóðarinnar [bein afleiðing] og algerlega óviðunandi framsal á íslensku fullveldi til evrópskra stofnana.

            Almennt gildir latneska reglan „Pacta sunt servanda“ (samninga skal halda). Enn fremur þetta, ný stjórnarskrá breytir ekki þeirri staðreynd að áfram er um að ræða YFIRÞJÓÐLEGT VALD SEM GENGUR FRAMAR LÖGUM EINSTAKRA AÐILDARRÍKJA ÞAR MEÐ TÖLDUM STJÓRNARSKRÁM ÞEIRRA.[i] Þeir sem vilja ganga í ESB ættu að hafa það hugfast.

            Breska þingið setti sérstök lög um inngönguna í Evrópusambandið árið 1972 [inngangan sjálf árið 1973]: The European Communities Act 1972.[ii] Í BREXIT kom vel í ljós að það er auðveldara að ganga til samstarfs á „Evrópuvettvangi“ en komast út. Burtför getur kostað hótanir og refsiaðgerðir. Því er ekki hægt að tala eins og nefndur þingmaður leyfir sér að gera. Regluverkið innan ESB er enn fremur þannig upp byggt að það er engan veginn auðvelt að losna úr viðjum þess. Þetta er flókið regluverk og e.t.v. ekki hægt að gera þá kröfu til íslenskra þingmanna að þeir botni eitthvað í því sem þeir eru að innleiða.

ACER

              ACER er samstarfsstofnun landsreglara aðildarríkja á innri orkumarkaði Evrópusambandsins. Um stofnunina gilda beint tvær reglugerðir. Í fyrsta lagi er það reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 713/2009 um stofnun ACER. Þessi reglugerð er hluti þriðja orkupakkans. Í öðru lagi er um að ræða reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2019/942. Hún er hluti fjórða orkupakkans.

              Agency for the Cooperation of Energy Regulators (ACER) er stofnun Evrópusambandsins, sett á laggir með þriðja orkupakkanum, til þess að vinna að einum, samræmdum orkumarkaði ESB fyrir rafmagn og jarðgas (Internal Energy Market – IEM). Ráðið [the Council] fundaði[iii] þann 11. júní árið 2018. Um fundinn segir m.a.:

              „Á opinberum fundi samþykkti Ráðið afstöðu sína til reglugerðarinnar um ACER, stofnun ESB fyrir samvinnu landsreglara. Frá stofnun þess árið 2011 hefur ACER bætt samhæfingu milli landsreglara um málefni yfir landamæri. Raforkukerfi sambandsins er nátengt og það er vaxandi þörf á samstarfi nágrannaríkja til þess að viðhalda stöðugleika netsins [raforkunetsins] og samþætta mikið af endurnýjanlegri orku. Ný eftirlitsverkefni og valdheimildir skulu einungis veittar stofnuninni með því skilyrði að fullnægjandi aðkoma aðildarríkja sé tryggð.“[iv] [Þetta vekur upp ýmsar spurningar um aðkomu EFTA-ríkjanna]. Í niðurstöðum fundarins segir einnig:

              „Vaxandi samþætting markaðarins, og skref í átt að fjölbreytilegri raforkuframleiðslu, krefst aukinnar viðleitni til samræmingar innlendrar orkustefnu við nágranna og aukinna tækifæra á raforkuviðskiptum yfir landamæri.[v] Slík samræmd nálgun gerir aðildarríkjum ESB kleift að búa sig undir óvæntar framboðskreppur og tryggja framboðsöryggi. Raforkukerfi sambandsins er nátengt og það er vaxandi þörf á samstarfi nágrannaríkja til þess að viðhalda stöðugleika netsins og samþætta stóra endurnýjanlega orkugjafa.“[vi]

              Í Stjórnartíðindum ESB, L 158, bls. 22, er að finna eftirfarandi, undir 14. júní 2019: „Reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) 2019/942 frá 5. júní 2019 um að koma á laggirnar stofnun Evrópusambandsins fyrir samvinnu landsreglara...“ [ACER].

              Eins og komið er fram, var stofnuninni formlega hleypt af stokkunum í mars 2011. Hún hefur aðsetur í Ljubljana í Slóveníu. Sem sjálfstæðri evrópskri stofnun er henni ætlað að tryggja samþættingu markaðarins og að samræming regluverks náist í takti við markmið orkustefnu ESB.

              Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 713/2009[vii] frá 13. júlí 2009 er tilgangur ACER að aðstoða landsreglara sem um getur í 35. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins 2009/72/EB[viii] frá 13. júlí 2009, hvað snertir sameiginlegar reglur um innri markað raforku og sem um getur í 39. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins 2009/73/EB frá 13. júlí 2009, um jarðgas. Þetta merkir á mannamáli að ACER skal aðstoða landsreglara aðildarríkja við að framfylgja sameiginlegum reglum innri orkumarkaðar ESB. Taki menn eftir, sameiginlegum reglum. Einstök aðildarríki hafa reglurnar nefnilega ekki á sínu valdi eftir þátttöku á innri orkumarkaðnum.

              Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/942[ix] frá 5. júní 2019, um að koma á laggirnar stofnun Evrópusambandsins fyrir samvinnu landsreglara (önnur ACER reglugerðin), er tilgangur ACER að aðstoða landsreglara aðildarríkjanna. Vísað er til 57. gr. tilskipunar (ESB) 2019/944 [raforkutilskipunin] og 39. gr. tilskipunar 2009/73/EB.

              Þá skal ACER aðstoða ríkin, ef nauðsyn krefur, við að samræma aðgerðir sínar, miðla og leysa ágreining milli þeirra í samræmi við 10. mgr. 6. gr. reglugerðar 2019/942. ACER skal vera bært til þess að ákvarða um reglur sem hafa áhrif á viðskipti milli ríkja eða kerfisöryggi sem krefjast sameiginlegrar ákvörðunar að minnsta kosti tveggja landsreglara.

              ACER skal einnig leggja sitt af mörkum við setningu vandaðra, sameiginlegra reglna og eftirlitsvenja og stuðla þannig að stöðugri, skilvirkri og árangursríkri beitingu Evrópuréttar, til þess að ná loftslags- og orkumarkmiðum sambandsins.

              Önnur ACER reglugerðin kveður skýrt á um það að ACER starfi í þágu Evrópusambandsins og taki sjálfstæðar ákvarðanir, óháð hagsmunum stjórnvalda, einkaaðila og fyrirtækja.

Lokaorð

              Í næstu grein verður fjallað áfram um ACER og reglugerðirnar sem hún byggir á. Öllum má vera ljóst að það er fjarri öllu lagi að hægt sé að ganga til aðildar að stofnunum Evrópusambandsins, eða í sambandið í heild, og síðan út úr því aftur ef fólki líkar ekki vistin þar.[x] Fólk sem þannig talar hlýtur að lifa í öðrum heimi en meirihluti Íslendinga.

              Það verður æ ljósara að þjóðaratkvæðagreiðslur eru það sem þjóðina vantar, bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvægt mál eins og Evrópumálin. Það þarf nauðynlega að höggva á tengslin á milli íslensku valdaklíkunnar annars vegar og braskara/fjárglæframanna hins vegar.

              Með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum má koma vilja þjóðarinnar milliliðalaust til framkvæmda, án þess að Alþingi nái að spilla málum og þynna þau út sem of lengi hefur viðgengist. Sumir þingmenn nálgast fullveldismálin eins og krakkar sem fikta með eld. Þeim þarf að skipta út í næstu kosningum.

             

 

[i]      Sjá t.d.: Case C-399/11 - Stefano Melloni v Ministerio Fiscal. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=CELEX%3A62011CJ0399

[ii]    Sjá: https://www.legislation.gov.uk/ukpga/1972/68/pdfs/ukpga_19720068_en.pdf

[iii]   Sjá: Council of the European Union. Transport, Telecommunications and Energy Council (Energy), 11 June 2018. https://www.consilium.europa.eu/en/meetings/tte/2018/06/11/

[iv]    Ibid.

[v]     Svartletrun og undirstrikun höfundar.

[vi]    Council of the European Union. Outcome of the council meeting 3623rd council meeting transport, telecommunications and energy, Luxembourg, 7, 8 and 11 june 2018. https://www.consilium.europa.eu/media/36238/st09810-en18.pdf

[vii]  REGULATION (EC) No 713/2009 OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL of 13 July 2009 establishing an Agency for the Cooperation of Energy Regulators. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=celex%3A32009R0713

[viii] DIRECTIVE 2009/72/EC OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL of 13 July 2009 concerning common rules for the internal market in electricity and repealing Directive 2003/54/EC. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=celex%3A32009L0072

[ix]    REGULATION (EU) 2019/942 OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL of 5 June 2019 establishing a European Union Agency for the Cooperation of Energy Regulators. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?toc=OJ%3AL%3A2019%3A158%3ATOC&uri=uriserv%3AOJ.L_.2019.158.01.0022.01.ENG

[x]     Sjá einnig: THE PROCESS FOR WITHDRAWING FROM THE EUROPEAN UNION. https://assets.publishing.service.gov.uk/government/uploads/system/uploads/attachment_data/file/505566/process_for_withdrawing_from_the_european_union.pdf

 

Fréttabréf