Fara í efni

ÁHRIF MARKAÐSVÆÐINGAR ORKUMÁLANNA Í BRETLANDI - INNRI ORKUMARKAÐUR EVRÓPUSAMBANDSINS - SÍÐARI GREIN

            Verður hér haldið áfram að rekja atriði sem einkenna breska orkumarkaðinn og áhrif markaðsvæðingar orkumálanna þar í landi. Eins og áður er komið fram gagnast svokallaðir snjallmælar [smart meters] vel í braskkerfi með raforku þar sem hægt er að mæla notkun í rauntíma.

            Ef hins vegar slíkir mælar ættu að gagnast neytendum í alvöru þyrftu þeir að vera þannig útbúnir að þeir leiti líka að lægsta verði og skipti um rafveitu (sjálfvirkt) samkvæmt því. Neytandinn gæti þá treyst því að hann greiði ætíð lægsta verð í boði. Það væru snjallmælar sem snúa að neytendahliðinni.

            Neytendur munu hins vegar ævinlega tapa á þessu fyrirkomulagi, miðað við það að halda framleiðslu og dreifingu rafmagns í opinberri eigu. Enda er fyrirkomulagið ekki hannað með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Steve Thomas, prófessor í orkustefnu, bendir enda á að margir neytendur í Bretlandi upplifi þetta þannig, að þeir séu hafðir að féþúfu.

            Að ætla fólki sjálfu að leita uppi lægstu verð og skipta um veitu er ekki fyrirkomulag sem hentar almennt. Enda sýnir reynslan t.d. í Bretlandi að fólk hefur annað að gera en leita að verðum sem það finnur hvort sem er ekki.

Orkufátækt

            Í skrifum um orkupakka fjögur var m.a. rætt um hugtakið „orkufátækt“. Eins og kemur fram hjá Steve Thomas er það stundum skilgreint þannig að meira en 10% af tekjum heimilis[i] sé varið til þess að greiða orkureikningana.[ii] Fólk í lægstu tekjuhópum sé líklegra til þess að greiða fyrirfram (sbr. prepayment meters, um 20% kaupenda í Bretlandi greiði með því fyrirkomulagi) sem aftur merki að það fólk greiði um 25% hærra verð miðað við lægsta verð í boði.

  • 6-7 milljónir heimila (25%) búa við orkufátækt í Bretlandi, fjórum sinnum fleiri en 10 árum fyrr;
  • verð eru viljandi höfð flókin og ruglandi;
  • ef engin samkeppni er í heildsölu eða smásölu, hver er þá tilgangurinn með uppskiptingu raforkukerfa? [flutningskerfi/dreifikerfi];
  • „reglarinn“ [regulator] þykir óskilvirkur, ófær um að stöðva „prang“ [mis-selling], ófær um að stöðva gróðahyggju á heildsölumarkaði, ófær um að koma í veg fyrir misneytingu með fyrirframgreiðslumælum; verð hækkar hraðar en verðbólga; ófær um að koma upp samkeppnisskipulagi.[iii]

            Orkufátækt er raunverulegt og alvarlegt vandamál í ýmsum ríkjum. Hvað snertir innri orkumarkað Evrópu, er ekkert sem bendir til þess að regluverk hans muni bæta þar úr brýnum vanda – þvert á móti – eykur einmitt mjög á vandann.

            Allir ættu að geta haldið á sér nægum hita heima við. Í Englandi er staðan víða sú að hækkandi orkukostnaður, lágar tekjur og heimili sem dýrt er að kynda [t.d. ónóg einangrun] takmarka valkosti fólks og skilja það eftir í ómögulegum aðstæðum, eins og þeim að þurfa að velja um að kynda hús sitt, gefa börnum sínum að borða eða greiða leigu.

            Köld heimili geta valdið eða leitt til versnandi heilsufars eins og hjartaáfalla, heilablóðfalla, berkjubólgu og astma [lungnasjúkdóma[iv]]. Á hverju ári deyja um 10.000 manns vegna búsetu á köldum heimilum í Englandi, samkvæmt upplýsingum frá NEA.[v] Orkufátækt getur einnig haft veruleg áhrif á geðheilsu og er þekktur áhættuþáttur sjálfsvíga.[vi]

            Köld heimili geta líka hindrað að börn fólks dafni sem vera skyldi. Án hlýs og rólegs staðar til þess að sinna heimanámi geta börn dregist afturúr í skóla. Skortur á heitu vatni getur haft í för með sér að börn forðist persónulegt hreinlæti, sem aftur getur leitt til eineltis og félagslegrar einangrunar. Vanti hlýtt rými, til þess að eyða tíma með fjölskyldunni, verja börnin þess í stað stórum hluta dagsins í rúminu.

            Sameiginleg áhrif á samfélagið eru líka veruleg. 1,3 milljörðum punda er varið á hverju ári í heilbrigðisþjónustu á Englandi, vegna meðhöndlunar sjúkdóma af völdum kaldra heimila; og 20% af kolefnislosun Bretlands kemur frá húsnæði.

            Orkufátækt er ekki óhjákvæmileg. Hægt væri að beita sömu kerfum og skópu fátæktina til þess að byggja upp samfélag þar sem allir geta búið á hlýjum heimilum. Bent er á að mörgu fólki reynist erfitt að fóta sig í flóknum heimi markaðsvæddra orkumála.[vii] Það rímar mjög vel við rannsóknir prófessors Steve Thomas.

Að lokum

            Fróðlegt væri að sjá og heyra hvernig íslenskir stjórnmálamenn sjá þróun mála fyrir sér á Íslandi. Hversu stóru hlutfalli ráðstöfunartekna telja þeir æskilegt að varið sé til greiðslu fyrir vatn og rafmagn hjá „dæmigerðri íslenskri vísitölufjölskyldu“?

            Hvernig hyggjast íslenskir stjórnmálamenn verja orkunotendur fyrir okri, markaðsmisnotkun og orkufátækt? Eru sömu stjórnmálamenn þeirrar skoðunar að vel hafi tekist til í Bretlandi við markaðsvæðingu orkumálanna þar? Er það reynsla sem er líkleg til þess að gagnast íslenskum neytendum, heimilum og fyrirtækjum?

            Raunar er það svo að orkufátækt mun aldrei snerta íslensku valdaklíkuna og sjálftökufólkið á Alþingi sem einfaldlega skammtar sjálfu sér laun eftir löngun (ekki þörfum). Sama fólk, margt hvert, getur því trútt um talað. Það verður fyrst og fremst almenningur sem mun líða fyrir markaðsvæðinguna og einkavæðinguna á orkuframleiðslunni (og dreifingunni) enda ekki í aðstöðu til þess að velta byrðunum yfir á neinn annan. Góðar stundir.

[i]      Sjá enn fremur: Fuel poverty statistics. https://www.gov.uk/government/collections/fuel-poverty-statistics

[ii]    Sjá einnig skilgreiningar á orkufátækt heimasíðu ENPOR. https://www.enpor.eu/energy-poverty/

[iii]   Florence School of Regulation. (2013, December 13). Case Example on Energy Markets: the UK Power Market by Steve Thomas [Video]. Youtube. https://www.youtube.com/watch?v=-ADj1C52Ow4

[iv]    Sjá enn fremur: WHO Housing and Health Guidelines. (2018). https://www.ncbi.nlm.nih.gov/books/NBK535294/

[v]     NEA. https://www.nea.org.uk/articles/what-is-fuel-poverty/

[vi]    Sjá einnig: Davie, E. (29 June 2020). Compare and take action to cut your area’s suicide risk. Mental Health Foundation. https://www.mentalhealth.org.uk/blog/compare-and-take-action-cut-your-areas-suicide-risk

[vii]  NEA, op. cit.