Fara í efni

AFGLÆPAVÆÐING GLÆPAMENNSKU

- Tilveran felur í sér fjölmörg stríð -

            Hún er sérkennileg umræðan um „afglæpavæðinguna“. Nú liggur fyrir breytingarfrumvarp[i] í heilbrigðisráðuneytinu um að ekki verði lengur refsivert að hafa í vörslu sinni svonefnda „neysluskammta“ eiturlyfja. Er frumvarpið þar komið í „samráðsgátt“ (sýndarmennskugátt). Málið er angi af öðru miklu stærra máli sem kalla má „undanhaldið mikla“ og lýsir sér í uppgjöf og undanhaldi á mörgum sviðum – allt í nafni „framfara“ auðvitað. Þetta er í stuttu máli geigvænleg þróun og alls ekki góð, öðru nær. Eftir stendur að fíkniefnaneysla er harmvaldur allra sem í henni lenda og aðstandenda þeirra.

            Það sem fyrst og fremst þarf að gera er að stórefla fíkniefnaleit, bæði að innfluttum og „heimatilbúnum efnum“, reka kærleiksríkan áróður í öllum skólum gegn fíkniefnum [byrja helst í leikskóla] og skýra vandlega skaðsemi þeirra, taka engum vettlingatökum á forhertum innflytjendum fíkniefna og taka þá úr umferð í mjög langan tíma [dýrast af öllu er að þeir gangi lausir]. Vel má hugsa sér að dómur við öðru eða þriðja „innflutningsbroti“ væri 20 ár, óskilorðsbundið, án möguleika á reynslulausn. Það væri væg refsing samanborið t.d. við refsingar í sumum Asíuríkjum s.s. Singapore[ii] fyrir samskonar brot!

            Það er afar fróðlegt að rýna í rök þeirra sem styðja „afglæpavæðinguna“. Þar er áberandi að segja sem svo að „stríðið gegn fíkniefnum sé hvort sem er tapað“. Þar gætir ákveðinnar hugsunarvillu. Nú er það svo að öll „alvöru stríð“[iii] vinnast seint eða jafnvel aldrei. Skoðum nokkur dæmi.

Stríðin sem vinnast aldrei

            Þau eru mörg stríðin sem sífellt eru háð og vinnast aldrei þótt baráttan haldi áfram. Lífsbarátta margra, einstaklinga og fjölskyldna, er sífelld barátta frá morgni til kvölds. Allt þetta blessaða fólk heyr sitt daglega stríð en er ekkert endilega að birta fréttir af því í fjölmiðlum. Það vinnur margar orustur í þessu stríði, og glæsilega sigra inn á milli, en stríðið heldur þó áfram.

            Margt af þessu fólki er líka sannkallaðar stríðshetjur, jafnvel þær mestu þegar allt kemur til alls. Í orustum stríðsins er oft tekist á um mannsæmandi líf, kaup og kjör launafólks, jafnt á Íslandi sem í öðrum ríkjum. Ljóst er að stríðið fyrir réttlæti og sanngirni mun standa að minnsta kosti næstu 100 ár, líklega mun lengur!

            Undanfarin misseri hefur fjöldi fólks, þúsundum saman, átt í stríði við viðsjárverða veiru sem nefnd er Covid-19. Þar hafa margar orustur unnist en aðrir tapað sínum orustum og horfið úr þessu jarðlífi. Stríð þeirra sem lifa af heldur þó áfram þótt orustan um „Covid-19“ og báráttan fyrir lífinu hafi unnist.

            Fjöldi íslenskra sjómanna hefur háð stríð við Ægi, á úfnum öldum hafsins, áratugum saman. Það stríð stendur enn. Margir hafa þar unnið allar sínar orustur en aðrir tapað þeirri síðustu, eins og gengur. Aldrei heyrast þessir menn þó halda því fram að stríðið sé tapað og þess vegna sé best að leggja „árar í bát“. Oft hefðu gjaldeyristekjur þjóðarinnar orðið rýrar ef sjómenn hugsuðu þannig.

            Þau eru fleiri stríðin sem líklega vinnast aldrei en þó þarf að heyja. Eitt þeirra er stríð mennskunnar. Það stríð hefur staðið öldum saman. Af og til tapar mennskan einni og einni orustu en margar hafa líka unnist. Stríðið stendur enn og ekki sér fyrir endann á því.

            Mikilvægt stríð er háð fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands. Þjóðveldisöldin markaðist mjög af stríðsátökum (borgarastríð). Íslendingar lentu sem kunnugt er undir Hákon gamla Noregskonung með tilkomu Gamla sáttmála sem undirritaður var árið 1262. En árið 1380 urðu Ísland og Noregur hluti Danaveldis. Gamli sáttmáli hélt gildi allt til ársins 1662, eða í 400 ár, þegar haldinn var Kópavogsfundurinn svonefndi. Síðar tók við „stríð“ fyrir sjálfstæði Íslands frá Dönum, á 19. og 20. öld.

            Stríðið fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands stendur enn. Það er að miklu leyti stríð valdaklíkunnar á Íslandi gegn almenningi og fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Valdaklíkan heyr það stríð í nafni frelsis og framfara en það eru þó alger öfugmæli enda felur inngangan í Evrópusambandið í sér afsal fullveldis og sterkt erlent vald sem þó er þegar verulegt. Nú síðast með upptöku orkupakka þrjú, þar sem forræði og stjórnun á Íslenskri raforku voru færð undir erlent vald [Orkustofun Evrópu - ACER[iv]].

Glæpur verður áfram glæpur

            Það er áberandi aðferð á Alþingi að gefa hlutum og fyrirbærum önnur nöfn þegar koma á í gegn umdeildum og siðferðislega ámælisverðum frumvörpum. Líknardauði er t.d. kallaður „líknaraðstoð“ [talið hljóma betur, enda margir á sífelldum flótta undan raunveruleikanum] fóstureyðingar kallaðar „þungunarrof“, afsal fullveldis kallað „styrking fullveldis“, eiturlyf kölluð „neysluskammtar“ og svo mætti áfram telja. Mikilvægt er að fólk láti ekki blekkjast af nafnabreytingum. Eftir að breytingarfrumvarpið [frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974] um „afglæpavæðingu“ eiturlyfjanna hefur verið samþykkt má búast við aukinni sölu á „meðalavogum“ enda þurfa fíkniefnaneytendur að standa klárir og fara ekki yfir hið leyfilega hámark. Ætlar ráðherra síðan með reglugerð að ákveða frá ári til árs „leyfilegan neysluskammt“?

            Í samræmi við þetta má sjálfsagt ætla að fram komi tillögur og frumvörp sem ganga enn lengra en hingað til hefur sést. Margir muna þegar fullnustu dóma[v] var breytt til þess að fjárglæframenn þyrftu ekki að sitja lengi í fangelsi. Það var sagt gert til að verndar æsku landsins. Stjórnmálaflokkarnir sjá um sína og vilja ekki að þeirra fólk sitji í fangelsum eins og ótíndir glæpamenn þótt fangelsi sé einmitt rétti staðurinn fyrir sama fólk. Skaðinn sem hlýst af hegðun og hátterni sums fólks verður einungis lágmarkaður með því að halda því sem allra lengst á bak við læstar dyr. Það á t.d. við um marga fjárglæframenn.

            Ætla má að innan ekki langs tíma komi fram frumvarp um „afglæpavæðingu fjárglæframennsku“. Sumir telja sig nefnilega hafa fundið einskonar töfraformúlu til þess að taka á glæpum. Formúlan er í stuttu máli sú að skipta um nafn á glæpum og breyta lögum þannig að þau hætti að ná yfir glæpinn sem um ræðir. Þar með telur sama fólk að glæpnum hafi verið útrýmt – í eitt skipti fyrir öll.

            Á eftir „afglæpavæðingu“ fjárglæframennskunnar gæti komið fram frumvarp um „afglæpavæðingu“ „smámorða“ - að gert verði „refsilaust“ að farga minniháttar borgurum sem hvort sem er teljist ekki eiga sér þegnrétt. Þannig má lækka glæpatíðni og minnka um leið „óþarfa refsigleði“. Þá eru umferðarlagabrot mörg og óþarfi að eyða tíma lögreglu í þau. Það er því rökrétt næsta skref að gera refsilaus „minniháttar umferðarlagabrot“ s.s. ofsaaksur, ölvunarakstur og „minniháttar manndráp“ í umferðinni. Þannig má enn fækka glæpum. Afglæpavæðingin er sannarlega töfraformúla. Henni má beita á alla brotaflokka ef vilji er fyrir hendi. Að yfirvinna takmarkanir ímyndunaraflsins er allt sem þarf.

            Hver segir líka að að fólk þurfi að berjast gegn ranglæti, glæpum, siðleysi, lélegum kjörum eða berjast fyrir sjálfstæði ríkja? Er ekki undanhaldið alltaf farsælast og líklegast til árangurs? Þarf góður skákmaður nokkuð að sækja fram, er ekki nóg að láta andstæðinginn stjórna framvindu skákarinnar? Hvers vegna ætti skákmaður að hafa einhverjar sjálfstæðar hugmyndir um það hvernig skákin þróast? Hvað ef báðir hugsa þannig? Samkvæmt formúlu „afglæpavæðingarinnar“ er „stríðið“ þegar tapað og best að gefa skákina.[vi] Skák - og mát!

[i]      Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 (afglæpavæðing neysluskammta). https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2884

[ii]    Sjá t.d.: McLennan, S. Singapore Judge Issues Death Sentence by Zoom. Use of Capital Punishment Out of Step with Global Standards. Human Rights Watch. https://www.hrw.org/news/2020/05/27/singapore-judge-issues-death-sentence-zoom

[iii]   Sjá t.d.: Hundred Years’ War. https://www.history.com/topics/middle-ages/hundred-years-war

[iv]    The European Union Agency for the Cooperation of Energy Regulators (ACER). https://www.acer.europa.eu/en/The_agency/Pages/default.aspx

[v]     Alþingi. Fullnusta refsinga. https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=145&mnr=332

[vi]    Margir þekkja hið feikiöfluga skákforrit Stockfish. Það hefur mælst 3692 Elo-stig. https://stockfishchess.org/