Fara í efni

COVID-19, VERKFÆRI Í STÉTTABARÁTTU

Í fréttum 22. september sagði RÚV: „Í yfir 20 Evrópuríkjum greinast nú fleiri kórónuveirutilfelli daglega en í vor.“ Og þremur dögum síðar sagði RÚV: „Aldrei hafa fleiri tilfelli [af kórónuveiru] greinst á einum degi á heimsvísu en síðastliðinn sólarhring.“ https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/8kua0d/aldrei-fleiri-greinst-med-koronuveirusmit Daginn eftir hófst fréttatími útvarps svona: „Metfjöldi Kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 greindust bæði í Bretlandi og Frakklandi síðasta sólarhring.“ Þetta eru engin öfgadæmi heldur tilviljunarkennd dæmi. RÚV talar nú stöðugt um „fjölda smita“ en sleppir því hins vegar yfirleitt að nefna hvað margir af öllum þessum smituðu séu veikir eða deyi.

Munurinn á „tilfellum“ núna og í vor er sá að núna er skimað fyrir veirunni í mörgum löndum sem lítið var gert í vor (nema á Íslandi). Í vor þýddi „tilfelli“  yfirleitt þeir sem höfðu sjúkdómseinkenni, voru veikir, en nú þýðir það allir þeir sem hafa einhverjar agnir af veiru í öndunarvegi. Þar með margfaldast tala „smitaðra“. Dánarhlutfall smitaðra (IFR) og dánarhlutfall sýktra (CFR) er sitt hvað, en þessu tvennu er líka flækt hvoru um annað. Þetta er því skilningshamlandi fréttaflutningur hjá RÚV með þann eina sjáanlega tilgang að velja óöryggi og skelfingu. Sjá um hugtakarugl: https://drmalcolmkendrick.org/2020/09/04/covid-why-terminology-really-matters/

Þetta hefur líka verið ríkjandi stefna frá upphafi þessa sjúkdóms. Frá byrjun hafa RÚV og helstu fjölmiðlar landsins talað um kórónuveiruna sem heimsfaraldur í sérflokki. Sem einstæðan, afar mannskæðan sjúkdóm og óútreiknanlegan ekki síður. Sem ógni mannkyninu sjálfu! Með því eru fjölmiðlarnir annars vegar málpípur hinnar opinberu heilbrigðisstefnu og stunda hins vegar hreina æsifréttamennsku. Afleiðingin er almennur ótti og óöryggi.

Hin miðstýrða hnattræna „heilbrigðisstefna“

Þegar fyrst var farið að fjalla um Covid-19 gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, út ógnvekjandi tölur: að dánartíðni þeirra sem smituðust væri 3,4%, allir væru í hættu, engin lækning til og sjúkrahúsin myndu yfirfyllast. Stofnun með mikið heilsufarslegt agavald, Imperial College í London (undir forustu Neil Ferguson), lýsti því yfir í mars að allt að 40 milljónum myndi líklega deyja úr Covid á heimsvísu án róttækra aðgerða, en með lokunum, rekstrarstöðvunum og slíkum varnaraðgerðum mætti lækka töluna í 20 milljónir. https://www.imperial.ac.uk/mrc-global-infectious-disease-analysis/covid-19/report-12-global-impact-covid-19/ Umfram aðra aðila varð Imperial College sá sem „sló taktinn“ um viðbrögð við Covid, a.m.k. í Evrópu. Lokunarstefnan var svo framkvæmd, vissulega með tilbrigðum, með stuttu millibili um allan heim, í nær öllum 193 aðildarríkjum SÞ.

Þetta sýndi sig að vera heiftarlegt ofmat á sjúkdómnum. Sé miðað við íslenskar rannsóknir þá bendir mat Íslenskrar Erfðagreiningar á annars vegar umfangi smits og hins vegar á dauðsföllum til þess að dánartíðni smitaðra hafi verið 0,34% í vor (og fari lækkandi), sem sagt 1/10 af mati WHO. Og varðandi ofannefnda spá Imperial Collega um heildardauðsföll þá eru opinberar tölur um sk. „covid-tengd“ dauðsföll í heiminum núna í lok september komnar í slétta milljón (til samanburðar hafa á undaförnum áratug dáið árlega 290-650 þúsund í árstíðarbundinni inflúensu, þrátt fyrir bólusetningar). „Ráðgjöf“ WHO og Imperial College hefur sýnt sig að vera mikill hræðsluáróður – tíföldun hættunnar og þaðan af meira – í stað upplýsingagjafar.

 Seinni bylgjan: Bretland

Bretland hefur verið áberandi í fjölmiðlunum undanfarið. Um það sagði RÚV 22. september: „Önnur Covid-19 alda er ekki lengur fræðilegur möguleiki í Bretlandi, hún hefur þegar dunið yfir... Nú tvöfaldast smitin á viku. Um allt land eru varnaraðgerðir hertar... Í Englandi mega undir engum kringumstæðum koma fleiri en 6 manns saman í hóp.“ https://www.ruv.is/frett/2020/09/22/covid-19-og-osammala-visindamenn

Hræðsluáróður! Hreinræktaður hræðsluáróður. Vitnað er í bresk heilbrigðisyfirvöld og breska fjölmiðla þar sem segir að fyrir miðjan nóvember megi búast við 50.000 staðfest smituðum á dag í október og þá 200 dauðsföllum á dag mánuði síðar, um miðjan nóvember. Sjá BBC: https://www.bbc.com/news/uk-54234084  Þetta er auðvitað bara spá. En hversu dramatísk er sú spá? Hlutfallið 200/50.000 þýðir undir 0.3% dánarhlutfall af staðfest smituðum. Ef gert er ráð fyrir öðru eins af óstaðfestu smiti í samfélaginu þýðir það að dánarhlutfall smitaðra sé 1,5 prómill.

Vefsíðan Anti-Empire skoðar nokkrar tölur og línurit frá hinni opinberu Office for National Statistics (ONS) úr septembermánuði í Englandi og Wales í næstliðinni viku. M.a. eru borin saman Covid-19 annars vegar og hins vegar inflúensa og henni tengd lungnabólga.  Í umræddri viku höfðu dáið 10 sinnum fleiri úr flensu og lungnabólgu en úr Covid. Aðeins 1% af skráðum dauðsföllum í Englandi og Wales þá vikuna voru skráð sem „covid-tengd“ (auk þess: í yfir 90% tilfella sem skráð eru sem Covidtengd dauðsföll hefur viðkomandi undirliggjandi sjúkdóma, oft er erfitt að ákvarða hvort sjúklingur dó „af“ veirunni eða einungis „með“ hana). Íhaldsþingmaðurinn Steve Baker lét svo ummælt: „Tíðni kórónaveiru skv. mælingum ONS er nú einn á móti 20 þúsund. Það er fjórðungs magn af stigi faraldurs.“ https://www.anti-empire.com/flu-and-pneumonia-killed-ten-times-as-many-brits-as-covid-last-week-stats-reveal/

Hin svokallaða „seinni bylgja“ í Bretlandi er sem sagt blekking. Engu að síður eru neyðarráðstafanir þar í landi hertar um nokkur stig í viðbót, að því er virðist til þess eins að viðhalda ótta og óöryggi almennings. Og „neyðarástandið“ í Bretlandi er bergmálað í íslenskum fjölmiðlum – sömuleiðis virðist það til þess eins að auka ótta og óöryggi. Nú beinir RÚV athyglinni fyrst og fremst að að „fjölda smitaðra“, ekki fjölda látinna. Af hverju? Líklega af því smithlutfall hækkar og hækkar en dánarhlutfall lækkar og lækkar. Alvarlegi fasi sjúkdómsins er löngu liðinn hjá. Og málflutningurinn frá Bretlandi er dæmigerður fyrir málflutning RÚV af Covid-19.

SA nota Covid eins og mest þau mega

Svo til Íslands: Undanfarna viku á Íslandi hafa á bilinu 1-5 legið á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og 0-2 verið á gjörgæslu. Engu að síður tala stjórnvöld enn eins og við séum stödd í heilsufarshamförum. Í samræmi við það eru nú í landinu á 5. þúsund manns í sóttkví, þ.á.m. mörg hundruð skólabörn.

Afleiðingar kórónu-ráðstafana eru svo annar handleggur. Vegna þeirra er nú atvinnuleysi á Íslandi 10%, sem er a.m.k. langmesta atvinnuleysi frá því á 4. áratug 20. aldar. Atvinnuleysi fylgja alvarleg félagsleg vandamál: fátækt, tilgagnsleysi, illar heimilisaðstæður barna, kvíði og öryggisleysi, heimilisofbeldi, áfengissneysla, tíðari sjálfsvíg...

Icelandair og SA vísa til veirunnar þegar þeir ráðast á flugstéttirnar og hóta niðurbroti á stéttarfélögum viðsemjenda ef með þarf. Og „vegna veirunnar“ hóta SA uppsögn kjarasamninga og þvingar í gegn ívilnanir sér til handa frá ríkinu. Jafnhliða þessu er í snöggu vetfangi komið hér upp eftirlitssamfélag með persónunjósnum og skertu persónufrelsi.

Ef umgangsveirusýking sem kostar landið aðeins 1-5 sjúkrahúsinnlagnir í einu er nóg til að réttlæta miklar og viðvarandi neyðarráðstafanir hvenær megum við þá búast við að ástandið verði „normalt“?

Það er viðbúið að íslenska ríkisstjórnin, eins og margar aðrar, hafi í vor verið raunverulega hrædd við faraldurinn (á Íslandi var lokunarstefnunni þó aldrei fylgt á jafn öfgafullan hátt og í mörgum nálægum löndum), en hitt ér ég líka viss um að hún eins og aðrir valdhafar hafi tekið fagnandi tækifærinu til að stjórna landinu í krafti ótta og upplifa þegnana undirgefnari en áður. Og ekkert hefur staðið upp á hana (eða íslenska fjölmiðla) í hræðsluáróðrinum.

 „Varnarviðbrögð“ og kreppa á heimsvísu

Rekstrarstöðvanir vegna  covid-ráðstafana á heimsvísu hafa leitt af sér gríðarlegt atvinnuleysi. Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, áætlar að á 2. ársfjórðungi 2020 hafi tapast 495 milljón heilsdags störf (17,3%) og að á 3. ársfjórðungi tapist 345 milljón störf. https://www.ilo.org/global/topics/coronavirus/impacts-and-responses/WCMS_755910/lang--en/index.htm  Þetta eru vel að merkja ekki neinar beinar afleiðingar af sjúkdómum Covid-19 eins og orðræða valdsins gefur í skyn, heldur eru þetta afleiðingar af pólitískum ákvörðunum, einkum um rekstrarstöðvanir og lokun heilu hagkerfanna, stofufangelsi, nálægðarbann og einangrun áhættuhópa jafnt sem annarra o.s.frv. Lokanirnar í Bandaríkjunum einum hafa til dæmis leitt af sér mesta atvinnuleysi sögunnar þar í landi með 40 milljónir atvinnulausar.

Þetta gerist næstum án þess að fólk veiti því viðnám vegna hins yfirlýsta neyðarástands. Fjöldafundir og mótmæli eru bönnuð. Verkalýður heimsins er í klemmdri stöðu og sýnist lamaður, a.m.k. um sinn.

Umræðan um Covid hefur verið afar einhliða og einokuð og vel passað upp á að ekki fari á flot upplýsingar um sjúkdóminn sem ekki samræmast hinni opinberu heilbrigðisstefnu. Covid-reglurnar eru eitt risavaxið hlýðninámskeið og yfirvöld heimsins geta væntanlega metið árangurinn af því námskeiði góðan, a.m.k. í bili.

Aðalritari SÞ sagði strax í apríl að kreppa af völdum lokana vegna veirunnar gæti leitt af sér „barnadauða í hundruðþúsundatali á ári“. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) lét frá sér skýrslu í apríl í vor þar sem fram kemur að vegna kórónukreppu muni líklega 130 milljón manns aukalega ýtast á barm hungurs fyrir árslok 2020. https://www.wfp.org/news/wfp-chief-warns-hunger-pandemic-covid-19-spreads-statement-un-security-council

Lokunarstefnan hefur leitt til þess að meðhöndlun sjúkdóma á borð við berkla, malaríu og HIV hefur stöðvast í fátækum löndum, nokkuð sem leiðir til meira en milljón viðbótardauðsfalla 2020-21. Lokanir skóla hafa skaðað 1,6 milljarð barna og sá skaði mun fylgja þeim. https://apps.who.int/gpmb/assets/annual_report/GPMB_AR_2020_EN.pdf

Öryggisnet brotna saman, fátækt eykst – og eymdin og öll félagslegu vandamálin að sama skapi. Samkvæmt tölfræðivefnum worldometer.info  eru 1.8 milljón manns dauðir af ofdrykkju í heiminum þetta árið og 790 þúsund vegna sjálfsvíga. Rifjum upp í því samhengi að í kreppunni í Rússlandi á 10. áratug lækkaði meðalaldur karlmanna um 10 ár á einum áratug vegna félagslegra afleiðinga kreppunnar, ekki síst einmitt ofdrykkju og sjálfsvíga.  

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að Covid-19 sé meinlaus sjúkdómur, sérstaklega var hann það ekki í vor, sérstaklega ekki fyrir gamla og veiklaða. En ég held því hiklaust fram að þau miðstýrðu „hamfaraviðbrögð“ sem gripið var til gegn honum á heimsvísu hafi verið stórslys fyrir allan almenning og hafi skaðað margfalt fleiri en þau björguðu – og eigi eftir að gera það enn frekar.

Hvaðan kom lokunarstefnan?

Atvinnulíf og heilu samfélögin snögglega sem næst stöðvuð og þeim lokað í „heilsuverndarskyni“. Þetta var fordæmalaus samfélagsleg tilraun. Hvað réði þeirri stefnumörkun og hvaðan úr ósköpunum kom hún?

Ég skrifaði fyrstu grein um Covid 16. apríl í vor. Þar sagð:  „Ekki ætla ég að halda því fram að eitthvert fjármálasamsæri úti í heimi hafi fundið veiruna upp. Hitt þykist ég hafa sannreynt ríkjandi auðvaldsöfl nota sérhvert gott tækifæri til að móta heiminn sér í vil. Og margt bendir til þess að valdamikil öfl hafi snemma tekið þá stefnu að notfæra veirufaraldur þennan til að koma á samfélagsbreytingum sem þau telja sér hagstæðar.“ Þetta var skrifað þegar sjúkdómurinn var í hámarki í vor. Sá vafasami tilgangur sem þarna er gefinn í skyn staðfestist enn frekar þegar spennustigi og neyðarráðstöfunum er viðhaldið jafnt þótt sjúkdómurinn sé að fjara út.

Lokunarstefnan mikla kom í beinu framhaldi af yfirlýsingu WHO í mars um Covid-19 sem heimsfaraldur með áðurnefndum ógnartölum um dánarhlutfall. En WHO (eða Sameinuðu þjóðirnar) lagði samt ekki fram neina opinbera stefnu um samfélagslega lokun. Einhver miðlæg og ofursterk öfl hafa komið að þeirri stefnumörkun. Það er t.d. vitað að Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum, WEF ) beitti sér mjög fyrir lokunarstefnu alveg frá byrjun. WEF er samkunda 1000 helstu þungaviktarauðhringa heims sem hittist árlega í Davos í Sviss, stefnumótandi stjórnstöð, og margfalt áhrifameiri en SÞ um efnahagsmál heimsins. Ekki er hún alveg ótengd SÞ samt, þar sem auðhringasamkundan WEF tók í fyrra SÞ á löpp og gerði við alþjóðasamtökin sögulegan samstarfssamning. Með þessu „Strategic Partnership“ eru fjölþjóðlegu auðhringarnir orðnir fullgildir aðilar að stjórnkerfi SÞ (nú fyrr í mánuðinum bað Matvælastofnun SÞ „billjónera“ heimsins að hjálpa sér að bjarga 30 milljón manns frá hungurdauða). 

Í október 2019, rétt áður en faraldur gaus upp í Kína, héldu nokkrir lykilaðilar æfingu í New York í því að fást við faraldur af völdum SARS veirusjúkdóms. Þeir kölluðu það „Event 201“. Aðstandendur voru World Economic Forum, Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health og Bill & Melinda Gates Foundation. Þátttakendur voru m.a. frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Alþjóðabankanum. Æfingin gerði ráð fyrir að „...út brjótist ný kórónuveira úr dýraríkinu sem smitast úr leðurblökum í svín og svo í menn og verður loks smitandi frá manni til manns sem leiðir til hættulegs faraldurs. Sýkillinn og veikin sem hann veldur taka að mestu mið af SARS...“ https://www.centerforhealthsecurity.org/event201/scenario.html

Eftir æfinguna var gefin út ráðgjöf um hvernig  mæta skyldi slíkum faraldri og kallað eftir samvinnu ríkisstjórna, alþjóðastofnana og stórfyrirtækja. Mikil áhersla var lögð á stjórnun upplýsingagjafar, nútímalegri ritskoðun: „Þetta krefst þess að þróa getuna til að fylla fjölmiðla með fljótri, nákvæmri og staðfastri upplýsingagjöf... Að sínu leyti þurfa fjölmiðlafyrirtæki að ábyrgjast að tryggja það að opinber skilaboð hafi forgang og að falsfréttum verið haldið frá, jafnvel með hjálp tækninnar.“ https://www.centerforhealthsecurity.org/event201/recommendations.html

WEF var sem sé tilbúð með viðbragðsáætlun þegar veirusýkillinn mánuði síðar stakk sér niður í Kína. WEF er ekki einangruð stofnun heldur fulltrúi voldugusta stórauðvalds á hnettingum. Efnahagsáætlanir WEF eru í takt við áætlanir Alþjóðabankans, AGS, áætlanir Bill & Melinda Gates Foundation, Rockefeller Foundation og annarra aðila úr kjarna vestrænnar fjármálaelítu.

„Endurstillingin mikla“

Þessi greining mín mun verða kennd við samsærishyggju, og samsærislega hljómar þetta. En raunveruleikinn er einmitt sá að heimskapítalismanum (þróun hans) á „öld eins prósentsins“, öllu heldur „öld 0,0001 pósentsins“,  er í æ meiri mæli stjórnað frá fáeinum klúbbum og hugveitum auðmanna. Það er vissulega ærið samsærisbrölt í þessu fólgið. Fyrst og fremst er þetta þó stéttabarátta af hálfu áðurnefndrar fjármálaelítu. Af þeirri tegund sem kennd er við hamfarakapítalisma sem Naomi Klein hefur lýst öðrum betur. Söguleg hliðstæða er helst innleiðing markaðshyggjunnar (nýfrjálshyggju) um auðvaldsheiminn fyrir 30-40 árum. Sjá hér: https://neistar.is/greinar/hugleidingar-um-covid-kreppu/

Í maí í vor setti WEF fram nýja efnahagsstrategíu „til að mæta kórónukreppunni“ og kallar hana „The Great Reset“ (endurstillinguna eða uppstokkunina miklu). Í kynningarefni segir m.a. „Nú er tíminn til að ýta á endurstillingartakkann fyrir kapítalismann... Við verðum nýta þetta tækifæri til gagns fyrir mannkynið... Þetta augnablik er fordæmalaust í mannkynssögunni.“ https://www.facebook.com/watch/?v=189569908956561 Þarna er undirstrikað að heimurinn eigi ekki að fara aftur í „normalástand“ heldur skuli þessi kreppa notuð til að skapa „kapítalisma fyrir 21. öld.“ Ekki reyni ég hér að útskýra stefnuna af viti en nefni að hún hefur þrjár megináherslur: 1) réttlátari kapítalisma, hagsmunagæslu(stakeholder)-kapítalisma, 2) sjálfbært hagkerfi og grænni þróun, 3) nýta nýjungar fjórðu iðnbyltingarinnar til að bæta velferð, heilsu og félagsleg gæði. Áætlunin kynnt hér: https://www.weforum.org/great-reset  

Tveir fyrri liðir áætlunarinnar ganga augljóslega út á að selja „endurstillinguna“ til almennings. Réttlæti selur og „grænt“ selur alltaf (en WEF eru umfram alla aðra holdgerfingur auðhringavalds, ójöfnuðar og umhverfissulls). Þriðji liðurinn er þegar í fullum gangi, og vegur væntanlega þyngst, þ.e.s. fjórða iðnbyltingin. Kórónuráðstafanirnar gera milljónir atvinnulausar, þær rústa litlum og meðalstórum fyrirtækjum um allan heim. Það opnar öðrum leið og sá rekstur verður yfirtekinn af stærri aðilum. Þar mun fjórða iðnbyltingin koma mikið við sögu, stafræna byltingin, gerfigreindin o.s.frv. Samtímis því sem efnahagslíf Bandaríkjanna hrapar meira en fordæmi eru fyrir raka tæknirisarnir inn metgróða. Microsoft, Alphabet (á Google), Apple, Amazon og Facebook þénuðu 34 milljarða dollara á 2. ársfjórðungi. https://thenextrecession.wordpress.com/2020/08/01/taking-on-the-fearsome-foursome-and-market-power/ “Faraldurinn er hagkvæmniskreppa fyrir elíturnar sem stjórna þessum ráðstöfunum“, sagði Robert F. Kennedy jr. á fjöldafundi í Berlín í ágúst.

Vaxandi mótmæli í Evrópu

Þó að upplýsingaflæðið kringum kórónuveiru sé gríðarlega ofanstýrt og einhliða hefur það ekki hindrað að mótmæli við ríkjandi stefnu aukist. Einkum nú tvo síðustu mánuði eða svo. Í Berlín urðu mikil mótmæli 1. ágúst með á milli 80.000 og 500.000 þátttakendum sem fóru alveg friðsamlega fram. Og 29. ágúst mótmæltu aftur tugþúsundir í Berlín, mótmælt var því 20-alda broti á þýsku stjórnarskránni sem aðgerðir þýskra stjórnvalda fela í sér að mati aðstandenda. Aðalræðumaður var Robert F. Kennedy jr. Ráðandi fjölmiðlar reyndu mjög að stimpla mótmælendur sem hægri-öfgamenn, en þótt slíkir hafi líka mótmælt í borginni var ljóst að langsamlega stærstur hluti voru venjulegir borgarar. Sama dag (29.) var mótmælafundur á Trafalgar Squere í London og mættu tugþúsundir. Aftur mættu tugþúsundir á sama stað 27. september. Yfirskriftin var þá „Nei við kórónuharðstjórn“. Kjörorð voru m.a. „No to social distancing“, „Freedom not fear!», «No to lockdown!», «No to fascism!» og «Say no to cashless society!“ Fjölmenn mótmæli hafa einnig farið fram m.a. í Dublin og Madrid undanfarnar vikur.

Þann 24. september var belgískum stjórnvöldum sent bréf undirritað af 476 læknum og 1509 öðru heilbrigðisstarfsfólki. Undirskrifendur krefjast endurskoðunar á kórónuráðstöfunum og að venjuleg lýðræðisleg réttindi taki aftur gildi. Læknarnir telja auk þess að mörg viðbrögðin séu ekki vísindalega rökstudd og þjóni ekki heilbrigði. https://anthropocene.live/2020/09/22/brev-fran-400-lakare/

Þetta er vonandi merki um að hin stranglega ofanstýrða orðræða samhliða „sjokkmeðferðinni“ muni smám saman missa tökin á þegnunum, og þá mun margt gerast. Læt ég svo mál mitt niður falla.