Fara í efni

RUGLIÐ Í GENGINU OG VAXTAPÓLITÍKINNI

Ég á nokkrar krónur á sparireikningi á 0,35% vöxtum í Landsbankanum.

Af öðrum bönkum á Íslandi er hann þó illskárstur.

Fjármagntekju skattur er nú (2020) 22%.

Vextirnir af þessum krónum mínum eru því ekki nema 0,273% og er því vandséð hvort það borgar sig að ómaka sig að fara með krónurnar í bankann.

Ef mig hins vegar langaði að fá mér bíl og þyrfti til þess að fá bílalán í bankanum, þá yrði ég að greiða 5,10% vexti + 3,25% stofnkostnað og ofaná þetta þinglýsingar gjald upp á 2.500 krónur, þannig að árleg hlutfallstala kostnaðar verður 6,52% samkvæmt tilskrifum bankans.

Munurinn á þessum viðskiptum yrði þá 6,247% mér í óhag.

Ef ég læt mér nægja að fá gamlan bíl, sem kostar tvær og hálfa milljón og ætla að fá helminginn að láni, þá skulda ég ekki 1.250.000 kr, heldur 1.293.206 kr, því bankinn tekur 40.706 kr fyrir örlitla pappírs-vinnu auk þinglýsingarinnar. Honum nægja ekki bara vextirnir,eins og dugði vel sparisjóðunum áður.

Að sjö árum liðnum verð ég svo búinn að borga bankanum um það bil 1.549.800 kr til að losna undan 1.250.000 kr skuldabagga. Bankinn hirðir mismuninn, en hvað fæ ég fyrir að lána bankanum sömu upphæð á 0,247% vöxtum í sjö ár?

Í framhaldi af þessu datt mér í hug, hvort ekki væri hagkvæmara að bankinn lækkaði útlánavexti sína og hætti að greiða arð til Bjarna í ríkissjóð, því það myndi skila sér í auknum almennum viðskiptum og þar með tekjum af virðisaukaskatti, því ekki er prósentu talan þar svo lítil. Að minnsta kosti til muna hærri en ég hef kynnst í utanlandsreisum til 15 nágrannalanda okkar. Fróðlegt væri að vita hvað veldur þessari háu virðisaukaskatts prósentu. Hvað veldur því að aldraðir og öryrkjar þurfa að flykkjast úr landi til að sjá sér betur borgið. Á síðasta ári var hægt að fá leigða, góða þriggja herbergja íbúðá Spáni, með tveimur baðherbergjum á fjórðung af því verði sem hún kostar hér á Fróni!

En nú er verið að gera þeim sem hafa flúið land og einnig hinum sem þrauka hér,  erfitt fyrir með því að lækka gengið, láta það síga hægt og rólega svo fólk taki síður eftir því.

Dæmi: Seðlagengi LÍ hefur lækkað þannig, að verð á € hækkaði um 8,2% frá 05.06.´20 til 12.08.´20 og samtals 19,35% frá mars – apríl 2019 til 12.ágúst 2020. Í mars í fyrra var seðlagengi € ísl kr 140,00  en var orðið Ísl kr 164,70 þann 12.ágúst síðastliðinn og er enn að hækka!

Til að sljófga dómgreind almennings enn frekar, þá flokka bankarnir gengið í; Almennt gengi, Seðlagengi , Tollgengi og Visagengi og er gengið all misjafnt á öllum þessum gengjum.

Ekki er hægt að sjá á heimsíðu bankans, í hvaða tilfellum hvert gengið er notað í viðskiptum.

Er þó LÍ illskárstur eins og áður kom fram.

Það var svo alveg til að kóróna alla vitleysuna að heyra forsætisráðherrann í nýlegum kastljós-þætti RÚV, segja öllum landslýð að gengið væri stöðugt! Það er eittvað meira en lítið að.

Þessar hugleiðingar voru skrifaðar 19.ágúst 2020. Síðan þá hefur seðlaverðið á € haldið áfram að hækka og er nú 01.sept. 2020 kr 167,97 og verður ábyggilega orðið þremur aurum hærra í fyrramálið. 

Verðdæmi: Leiguverð íbúðar á Spáni 2019! 600 € á mán. x 12 mán. x kr 140 = kr 1.008.000 ársleiga.

 Leiguverð á sömu íbúð á Spáni 01.09.2020! 600 € á mán. x 12 mán. x kr 168 = kr 1.209.600 ársleiga.

Sama verð í evrum, en hækkun í ísl kr um 201.600 krónur.

Hverjir fá evruna á kr 166,94 eins og stendur hjá „Gengi.is‟ 01.09.2020?

01.september 2020  Friðþjófur