Fara í efni

STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - FRAMHALDSUMRÆÐA SEX - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 ESB - ORKUPAKKI 4

            Enn verður haldið áfram að rekja ákvæði tilskipunar 2019/944 ESB. Í 49. gr. er rætt um yfirstjórn flutningskerfisstjóra. Samkvæmt 1. mgr. skal flutningskerfisstjóri hafa eftirlitsaðila sem ber ábyrgð á ákvörðunum sem haft geta veruleg áhrif á verðmæti eigna hluthafa fyrirtækis flutningskerfisstjóra. Einkum ákvarðanir varðandi samþykki árlegra og fjárhagslegra áætlana, til lengri tíma, skuldsetningar fyrirtækis flutningskerfisstjóra og fjárhæðir arðs sem dreift er til hluthafa.

            Ákvarðanirnar sem heyra undir stjórnina skal undanskilja frá þeim sem tengjast daglegri starfsemi flutningskerfisstjóra, stjórnun raforkunets og starfsemi sem nauðsynleg er við gerð tíu ára áætlunar um netuppbyggingu og þróuð er skv. 51. gr.

            Stjórnin skal skipuð fólki sem er fulltrúar lóðrétt-samþætts fyrirtækis, þeirra sem eru fulltrúar hluthafa þriðja aðila og, þegar viðkomandi landslög kveða á um, félaga sem eru fulltrúar annarra hagsmunaaðila, svo sem starfsmanna fyrirtækis flutningskerfisstjóra. (2. mgr. 49. gr.).

            Fyrsta undirgrein 2. mgr. 48. gr. og 3. til 7. mgr. 48. gr. gilda um að minnsta kosti helming fulltrúa í stjórninni að frádregnum einum. B-liður annarrar undirgreinar 2. mgr. 48. gr. gildir um alla aðila stjórnarinnar. (3. mgr. 49. gr.).

  • Regluvörslufyrirkomulag og regluverðir

            Í 1. mgr. 50. gr. segir að aðildarríkin skuli sjá til þess að flutningskerfisstjórar stofni til og innleiði regluvörslufyrirkomulag. Það skal innihalda ráðstafanir til að tryggja að mismunun sé undanskilin og sjá til þess að fylgt sé nægilega samræmi við fyrirkomulagið.

            Regluvörslufyrirkomulagið skal innihalda sérstakar skyldur starfsmanna til að ná þessum markmiðum. Það skal háð samþykki eftirlitsyfirvalda. Með fyrirvara um heimildir eftirlitsyfirvalda, skal regluvörður fylgjast sjálfstætt með samræmi við regluvörslufyrirkomulagið.

            Regluvörðurinn skal tilnefndur af stjórn með fyrirvara um samþykki eftirlitsyfirvalda. Eftirlitsyfirvöld (Landsreglari) geta aðeins synjað um samþykki regluvarðar vegna skorts á sjálfstæði eða hæfni. Regluvörðurinn getur verið einstaklingur eða lögaðili. 2. - 8. mgr. 48. gr. gilda um regluvörðinn. (2. mgr. 50. gr.).

            Regluvörðurinn skal hafa yfirumsjón með:

(a) framkvæmd regluvörslufyrirkomulagsins;

(b) útfærslu ársskýrslu, setja fram ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að hrinda í framkvæmd regluvörslufyrirkomulaginu og skila skýrslunni til eftirlitsyfirvalda;

(c) skýrslugjöf til stjórnar og gefa út tilmæli um regluvörslufyrirkomulagið og framkvæmd þess;

(d) tilkynna eftirlitsyfirvöldum um veruleg brot varðandi framkvæmd regluverksins; og

(e) að tilkynna eftirlitsyfirvöldum um viðskiptaleg og fjárhagsleg samskipti milli lóðrétt-samþætts fyrirtækis og flutningskerfisstjóra. (3. mgr. 50. gr.).

            Regluvörðurinn skal leggja fyrirhugaðar ákvarðanir um fjárfestingaráætlunina, eða um einstakar fjárfestingar í raforkukerfinu, fyrir eftirlitsyfirvöld. Það skal gerast í síðasta lagi þegar framkvæmdastjórn og/eða bær stjórnunaraðili fyrirtækis flutningskerfisstjóra leggur þær fyrir stjórn. (4. mgr. 50. gr.).

            Þegar lóðrétt-samþætt fyrirtæki hefur, á aðalfundi eða með atkvæðum fulltrúa stjórnar sem það hefur skipað, komið í veg fyrir að ákvörðun verði tekin, með þeim afleiðingum að koma í veg fyrir eða seinka fjárfestingum, sem samkvæmt tíu ára áætlun um netuppbyggingu áttu að koma til framkvæmda á næstu þremur árum, skal regluvörður tilkynna það til eftirlitsyfirvalda sem síðan skulu bregðast við í samræmi við 51. gr. (5. mgr. 50. gr.).

            Skilyrðin fyrir umboði eða ráðningarskilyrðum regluvarðar, þ.m.t. tímalengd umboðsins, skulu háð samþykki eftirlitsyfirvalda. Þessi skilyrði skulu tryggja sjálfstæði regluvarðar, þ.m.t. með því að veita honum allar nauðsynlegar bjargir til að gegna skyldum sínum. Meðan umboð hans stendur skal regluvörður ekki hafa aðra faglega stöðu, ábyrgð eða hagsmuni, beint eða óbeint, í eða með einhverjum hluta lóðrétt-samþætts fyrirtækis eða með ráðandi hluthöfum þess. (6. mgr. 50. gr.).

            Regluvörður skal með jöfnu millibili gefa skýrslu, annað hvort munnlega eða skriflega, til eftirlitsyfirvalda og hefur rétt til að tilkynna reglulega, annað hvort munnlega eða skriflega, til stjórnar flutningskerfisstjóra. (7. mgr. 50. gr.).

            Regluvörður getur sótt alla fundi stjórnenda eða framkvæmdastjórnar flutningskerfisstjóra og stjórnarfundi og aðalfund. Regluvörður skal sitja alla fundi sem fjalla um eftirfarandi mál:

  1. a) skilyrði fyrir aðgangi að raforkuneti, eins og mælt er fyrir um í reglugerð (ESB) 2019/943, einkum varðandi gjaldtöku, aðgangsþjónustu þriðja aðila, getu til úthlutunar og stjórnun á yfirálagi (congestion), gegnsæi, stoðþjónustu og eftirmarkaði;

(b) verkefni sem ráðist er í til að reka, viðhalda og þróa flutningskerfið, þ.m.t. samtengingar og fjárfestingar í tengingum;

(c) orkukaup eða nauðsynleg sala til reksturs flutningskerfisins.

            Regluvörður skal fylgjast með samræmi flutningskerfisstjóra við 41. gr. (9. mgr. 50. gr.). Regluvörður skal hafa aðgang að öllum viðeigandi gögnum og skrifstofum flutningskerfisstjóra og að öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að gegna starfinu. (10. mgr. 50. gr.). Regluvörðurinn skal hafa aðgang að skrifstofum flutningskerfisstjóra án undangenginnar tilkynningar. (11. mgr. 50. gr.). Eftir fyrirfram samþykki eftirlitsyfirvalda, getur stjórn (yfirstjórn – Supervisory Body) vikið regluverði úr starfi. Það skal víkja regluverði frá störfum vegna skorts á sjálfstæði eða faglegri getu að beiðni eftirlitsyfirvalda. (12. mgr. 50. gr.).

  • Þróun raforkunets og vald til að taka ákvarðanir um fjárfestingar

            Í 51. gr. er fjallað um þróun raforkunets og völd til ákvarðana og fjárfestinga. Að minnsta kosti annað hvert ár skulu flutningskerfisstjórar leggja fyrir eftirlitsyfirvöld tíu ára þróunaráætlun fyrir raforkunet sem byggist á núverandi og áætluðu framboði og eftirspurn, eftir samráð við alla hagsmunaaðila. Áætlun um netuppbyggingu skal innihalda skilvirkar ráðstafanir til að tryggja fullnægjandi kerfi og afhendingaröryggi. Flutningskerfisstjóri skal birta tíu ára netþróunaráætlun á vefsíðu sinni.

            Tíu ára netþróunaráætlun skal einkum:

(a) sýna markaðsaðilum helstu flutningsvirki sem þarf að byggja eða uppfæra næstu tíu árin;

(b) innihalda allar fjárfestingar sem þegar hafa verið ákveðnar og greina nýjar fjárfestingar sem þarf að ráðast í á næstu þremur árum; og

(c) kveða á um tímaramma fyrir öll fjárfestingarverkefni.

            Við útfærslu á tíu ára netþróunaruppbyggingu skal flutningsfyrirtæki taka fullt tillit til möguleika á notkun eftirspurnarstýringar (demand response), orkugeymslna eða annarra bjarga, sem valkosta við stækkun kerfis, sem og væntanlegrar neyslu, viðskipta við önnur lönd og fjárfestingaráætlanir fyrir Evrópu-netkerfi (Union-wide) og svæðisbundin netkerfi. (3. mgr. 51. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld skulu hafa samráð við alla raunverulega eða mögulega kerfisnotendur um tíu ára áætlun um netuppbyggingu á opinn og gagnsæjan máta. Hægt er að krefja einstaklinga eða fyrirtæki sem segjast vera mögulegir kerfisnotendur um rökstuðning fyrir því. Eftirlitsyfirvöld skulu birta niðurstöðu samráðsferlisins, sérstaklega hugsanlegar þarfir fyrir fjárfestingar. (4. mgr. 51. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld skulu kanna hvort tíu ára netþróunaráætlun nái yfir allar fjárfestingarþarfir, sem greindar eru í samráðsferlinu, og hvort áætlunin sé í samræmi við óbindandi, tíu ára þróunaráætlun sambandsins (Union-wide) sem um getur í b-lið 1. mgr. 30. gr. reglugerðar ESB 2019/943. Komi upp einhver vafi um samræmi við þróunaráætlun sambandsins, skulu eftirlitsyfirvöld hafa samráð við ACER. Eftirlitsyfirvöld geta krafist þess að flutningskerfisstjórinn breyti tíu ára áætlun sinni um netuppbyggingu.

            Lögbær landsyfirvöld skulu kanna samræmi tíu ára áætlunar um netuppbyggingu við innlenda orku- og loftslagsáætlun sem lögð var fram í samræmi við reglugerð ESB 2018/1999. (5. mgr. 51. gr.). Eftirlitsyfirvöld skulu fylgjast með og meta innleiðingu tíu ára áætlunar um netuppbyggingu. (6. mgr. 51. gr.).

            Við aðstæður þar sem flutningskerfisstjóri fjárfestir ekki, af annari ástæðu en brýnni þörf sem hann ræður ekki við, samkvæmt tíu ára áætlun um netuppbyggingu, sem átti að framkvæma á næstu þremur árum, skulu aðildarríkin tryggja að eftirlitsyfirvöldum sé gert að grípa til að minnsta kosti einnar af eftirtöldum ráðstöfunum til að tryggja umrædda fjárfestingu, ef slík fjárfesting er enn mikilvæg á grundvelli nýjustu tíu ára netuppbyggingaráætlunar:

(a) að þess sé krafist að flutningskerfisstjóri ráðist í umræddar fjárfestingar;

(b) að skipulagt sé útboðsferli sem er opið öllum fjárfestum fyrir viðkomandi fjárfestingu; eða

(c) að flutningskerfisstjóri sé skyldaður til þess að samþykkja hlutafjáraukningu, til þess að fjármagna nauðsynlegar fjárfestingar og leyfa óháðum fjárfestum að taka þátt í hlutafjáraukningunni. (7. mgr. 51. gr.).

            Þegar eftirlitsyfirvöld hafa nýtt vald sitt samkvæmt b-lið 7. mgr., geta þau skyldað flutningskerfisstjóra til að samþykkja eitt eða fleiri af eftirfarandi atriðum:

(a) fjármögnun af hálfu þriðja aðila;

(b) smíði af hálfu hvaða þriðja aðila sem er;

(c) uppbyggingu á eignum til eigin rekstrar;

(d) rekstur á eignum til eigin rekstrar.

            Flutningskerfisstjóri skal veita fjárfestum allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna fjárfestingarinnar, tengja nýjar eignir við flutningskerfið og skal almennt gera sitt besta til þess að auðvelda fjárfestingarverkefnið. Viðeigandi fjárhagsfyrirkomulag skal háð samþykki eftirlitsyfirvalda. (8. mgr. 51. gr.). Þegar eftirlitsyfirvöld hafa nýtt vald sitt samkvæmt 7. mgr. skulu viðeigandi gjaldskrárreglur standa straum af kostnaði við umræddar fjárfestingar. (9. mgr. 51. gr.).

  • Tilnefning og vottun flutningskerfisstjóra

            Í bálki 4 er rætt um tilnefningu og vottun flutningskerfisstjóra. Þar segir í 52. gr. að áður en fyrirtæki er samþykkt og tilnefnt sem flutningsfyrirtæki skal það vottað í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 4., 5. og 6. mgr. þessarar greinar og í samræmi við 51. gr. reglugerðar ESB 2019/943. (1. mgr. 52. gr.).

            Fyrirtæki sem hafa verið vottuð af eftirlitsyfirvöldum til að uppfylla kröfur 43. gr. samkvæmt vottunarferlinu hér að neðan, skulu samþykkt og tilnefnd sem fyrirtæki flutningskerfisstjóra af aðildarríkjum. Tilkynna skal framkvæmdastjórn ESB um tilnefningu flutningskerfisstjóra og skal hún birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. (2. mgr. 52. gr.).

            Flutningskerfisstjórar skulu tilkynna eftirlitsyfirvöldum um fyrirhuguð viðskipti sem kunna að krefjast endurmats á samræmi viðskiptanna við kröfur 43. gr. (3. mgr. 52. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld skulu fylgjast með því hvort áframhaldandi samræmis flutningskerfisstjóra við kröfur 43. gr. sé gætt. Þau skulu opna vottunarferli til að tryggja slíkt samræmi:

(a) eftir tilkynningu frá flutningskerfisstjóra skv. 3. mgr.

(b) að eigin frumkvæði þar sem þau hafa vitneskju um að fyrirhugaða breytingu á réttindum eða áhrifum yfir eiganda flutningskerfis eða flutningskerfisstjóra geti leitt til brots á 43. gr., eða þar sem þeir hafa ástæðu til að ætla að slíkt brot hafi átt sér stað; eða

(c) að rökstuddri beiðni framkvæmdastjórnar ESB. (4. mgr. 52. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld skulu taka ákvörðun um vottun flutningskerfisstjóra innan fjögurra mánaða frá dagsetningu tilkynningar frá honum eða frá þeim degi sem beiðni framkvæmdastjórnar ESB berst. Vottunin telst veitt að þeim tíma loknum. Skýr ákvörðun, eða með þegjandi samþykki, eftirlitsyfirvalda öðlast aðeins gildi eftir að málsmeðferðinni, sem sett er fram í 6. mgr., er lokið. (5. mgr. 52. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld skulu tilkynna án tafar framkvæmdastjórn ESB ákvörðun, skýra eða með þegjandi samþykki, um vottun flutningskerfisstjóra ásamt öllum viðeigandi upplýsingum varðandi ákvörðunina. Framkvæmdastjórnin skal bregðast við í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 51. gr. reglugerðar ESB 2019/943. (6. mgr. 52. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld og framkvæmdastjórn ESB geta óskað eftir upplýsingum  frá flutningskerfisstjóra, og fyrirtækjum sem sinna hvers kyns hlutverki í framleiðslu eða veitustarfsemi, og máli skipta fyrir verkefni sem flutningskerfisstjórinn og fyrirtækin sinna samkvæmt þessari grein. (7. mgr. 52. gr.). Eftirlitsyfirvöld og framkvæmdastjórn ESB skulu gæta trúnaðar um viðskiptalega viðkvæmar upplýsingar. (8. mgr. 52. gr.).

  • Vottun í tengslum við þriðju ríki[i]

            Ef vottunar er óskað af flutningskerfisstjóra, eða þeim sem reka fyrirtæki flutningskerfisstjóra, sem stjórnað er af einstaklingi eða einstaklingum frá þriðja ríki eða þriðju ríkjum, skulu eftirlitsyfirvöld tilkynna það framkvæmdastjórn ESB.

            Eftirlitsyfirvöld skulu einnig tilkynna framkvæmdastjórn ESB, án tafar, um allar kringumstæður sem gætu leitt til þess að einstaklingur eða einstaklingar frá þriðja ríki eða þriðju ríkjum fengju yfirráð yfir flutningskerfi eða flutningskerfisstjóra. (1. mgr. 53. gr.).

            Flutningskerfisstjóri skal tilkynna eftirlitsyfirvöldum um allar kringumstæður sem gætu leitt til þess að einstaklingur eða einstaklingar frá þriðja ríki eða þriðju ríkjum fengju yfirráð yfir flutningskerfinu eða flutningskerfisstjóranum. (2. mgr. 53. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld skulu samþykkja drög að ákvörðun um vottun flutningskerfisstjóra, innan fjögurra mánaða frá tilkynningu flutningskerfisstjórans. Synja skal um vottunina ef ekki hefur verið sýnt fram á það:

(a) að hlutaðeigandi aðili uppfylli kröfur 43. gr. og

(b) að eftirlitsyfirvöld, eða önnur bær yfirvöld sem tilnefnd eru af aðildarríkinu sem veitir vottun, séu sannfærð um það að vottun muni ekki stofna í hættu öryggi orkuveitu aðildarríkisins og ESB. Við athugun á þeirri spurningu skulu eftirlitsyfirvöld eða önnur þar til bær yfirvöld taka mið af:

(i) réttindum og skyldum ESB gagnvart því þriðja ríki sem stofnast af alþjóðalögum, þar með taldir allir samningar sem gerðir hafa verið við eitt eða fleiri þriðju ríki sem ESB er aðili að og fjalla um öryggismál orkuveitu;

(ii) réttindi og skyldur aðildarríkisins gagnvart því þriðja ríki sem myndast samkvæmt samningum sem gerðir eru við það, að svo miklu leyti sem þeir eru í samræmi við Evrópurétt.

(iii) aðrar sérstakar staðreyndir og kringumstæður máls og hlutaðeigandi þriðja ríkis. (3. mgr. 53. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld skulu tilkynna framkvæmdastjórn ESB um ákvörðunina, án tafar, ásamt allar viðeigandi upplýsingum um hana. (4. mgr. 53. gr.). Aðildarríkin skulu gera eftirlitsyfirvöldum, eða tilnefndum lögbærum yfirvöldum, sem um getur í b-lið 3. mgr., áður en þau taka ákvörðun um vottun, að leita eftir álitsgerð framkvæmdastjórnar ESB um það hvort:

(a) viðkomandi aðili uppfyllir kröfur 43. gr. og

(b) veiting vottunar muni stofna í hættu orkuöryggi til ESB. (5. mgr. 53. gr.).

            Framkvæmdastjórn ESB skal skoða beiðnina sem um getur í 5. mgr. um leið og hún berst. Innan tveggja mánaða frá móttöku beiðninnar skal hún skila áliti sínu til eftirlitsyfirvalda eða, ef beiðni lögð fram af tilnefndum lögbærum yfirvöldum, til þeirra yfirvalda.

            Við undirbúning álitsins getur framkvæmdastjórnin óskað eftir áliti ACER, hlutaðeigandi aðildarríkis og hagsmunaaðila. Þegar framkvæmdastjórnin ber fram slíka beiðni skal tveggja mánaða tímabilið framlengt um tvo mánuði.

            Verði framkvæmdastjórnin ekki við beiðni um álit innan tímabilsins, sem um getur í fyrstu og annarri undirgrein, skal litið svo á að framkvæmdastjórnin andmæli ekki ákvörðun eftirlitsyfirvalda. (6. mgr. 53. gr.).

            Við mat á því hvort stjórnun einstaklings eða einstaklinga frá þriðja ríki, eða þriðju ríkjum, muni stofna orkuöryggi ESB í hættu skal framkvæmdastjórn taka tillit til:

a) sérstakra staðreynda málsins og hlutaðeigandi þriðja ríkis eða þriðju ríkja; og

(b) réttinda og skyldna sambandsins (ESB) gagnvart því þriðja ríki, eða þriðju ríkjum, sem stofnast samkvæmt alþjóðalögum, þar með taldir samningar sem gerðir eru við eitt eða fleiri þriðju ríki sem sambandið er aðili að og fjalla um afhendingaröryggi. (7. mgr. 53. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld skulu, innan tveggja mánaða frá því að tímabilinu sem um getur í 6. mgr. lauk, taka lokaákvörðun um vottunina. Við ákvörðunartökuna skulu eftirlitsyfirvöld taka fyllsta tillit til álits framkvæmdastjórnarinnar. Í öllum tilvikum skulu aðildarríkin hafa rétt til að hafna vottun ef veiting hennar stofnar í hættu afhendingaröryggi aðildarríkis eða orkuframboði annars aðildarríkis.

            Ef aðildarríkið hefur tilnefnt önnur lögbær landsyfirvöld til þess að annast matið sem um getur í b-lið 3. mgr., getur ríkið krafist þess að eftirlitsyfirvöld taki endanlega ákvörðun sína í samræmi við mat þeirra viðkomandi lögbærra yfirvalda.

            Lokaákvörðun eftirlitsyfirvalda og álit framkvæmdastjórnarinnar skal birta saman. Ef lokaákvörðun víkur frá áliti framkvæmdastjórnarinnar, skal hlutaðeigandi aðildarríki leggja fram og birta, ásamt ákvörðuninni, rökstuðninginn sem liggur að baki lokaákvörðuninni. (8. mgr. 53. gr.).

            Ekkert í þessari grein hefur áhrif á rétt aðildarríkjanna til þess að beita, í samræmi við lög sambandsins [Evrópurétt], innlendu lagalegu eftirliti til að vernda lögmæta almannavarnahagsmuni. (9. mgr. 53. gr.).

            Þessi grein, að undanskildum a-lið 3. mgr., gildir einnig um aðildarríki sem eru háð undanþágu skv. 66. gr. (10. mgr. 53. gr.).

  • Eignarhald flutningskerfisstjóra á búnaði til orkugeymslu

            Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. mega flutningskerfisstjórar ekki eiga, þróa, stjórna eða reka orkugeymslur. En þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta aðildarríki heimilað flutningskerfisstjórum að eiga, þróa, stjórna eða starfrækja orkugeymslur, þegar þær eru að fullu samþættir nethlutar (fully integrated network components) og eftirlitsyfirvöld hafa veitt samþykki sitt, eða þegar öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

(a) öðrum aðilum hefur ekki verið veittur réttur til að eiga, þróa, stjórna eða reka slíkan búnað eða geta ekki veitt þessa þjónustu á sanngjörnu verði og tímanlega, eftir opið, gegnsætt útboðsferli, án mismununar, sem er háð endurskoðun og samþykki eftirlitsyfirvalda;

b) slíkur búnaður, eða stoðþjónusta sem ekki er „tíðniþjónusta“ (non-frequency ancillary services[ii]), er nauðsynlegur fyrir flutningskerfisstjóra til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun um skilvirkan, áreiðanlegan og öruggan rekstur flutningskerfisins og búnaðurinn er ekki notaðar til að kaupa eða selja rafmagn á raforkumörkuðum; og

(c) eftirlitsyfirvöld hafa lagt mat á nauðsyn slíkrar undanþágu, hafa skoðað fyrirfram (ex ante review) gildissvið útboðs, þ.m.t. skilyrði útboðsins, og veitt samþykki sitt.

            Eftirlitsyfirvöldum er heimilt að semja leiðbeiningar eða innkaupaákvæði til hjálpar flutningskerfisstjórum við að tryggja sanngjarnara útboðsferli. (2. mgr. 54. gr.).

            Tilkynna skal framkvæmdastjórn ESB og ACER um ákvörðun þess að veita undanþágu ásamt því að veita viðeigandi upplýsingar um beiðnina og ástæður þess að undanþágan er veitt. (3. mgr. 54. gr.).

            Eftirlitsyfirvöld skulu, með reglulegu millibili, eða að minnsta kosti á fimm ára fresti, efna til opinbers samráðs um núverandi orkugeymslur til þess að meta mögulegt framboð og áhuga annarra aðila á að fjárfesta í slíkum búnaði.

            Ef hið opinbera samráð, eins og það er metið af eftirlitsyfirvöldum, bendir til þess að aðrir aðilar séu færir um að eiga, þróa, reka eða stjórna slíkum búnaði á hagkvæman hátt, skulu eftirlitsyfirvöld sjá til þess að starfsemi flutningskerfisstjóra á þessu sviði sé lögð af í áföngum innan 18 mánaða. Sem hluta skilyrða þessa ferlis geta eftirlitsyfirvöld heimilað flutningskerfisstjórum að taka sanngjarnt gjald, einkum til þess að endurheimta afgangsverðmæti fjárfestingar sinnar í orkugeymslubúnaðnum. (4. mgr. 54. gr.).

  1. mgr. gildir ekki um fullkomlega samþætta nethluta eða venjulegt afskriftartímabil nýrra rafgeymslustöðva með endanlegri fjárfestingarákvörðun fyrr en árið 2024, að því tilskildu að slík rafgeymslustöð sé:

(a) tengd við raforkunetið í síðasta lagi tveimur árum eftir það [2024];

(b) samþætt í flutningskerfið;

(c) aðeins notuð til tafarlausrar endurræsingar á raforkuneti, þegar um ófyrirséð atvik er að ræða, þar sem slík endurreisn hefst strax og lýkur þegar önnur rafstöð getur leyst vandann (sbr. re-dispatch[iii]); og

(d) ekki notuð til kaupa eða sölu á rafmagni á raforkumörkuðum, þar með talið „jafnvægi“ (balancing[iv]). (5. mgr. 54. gr.).

  • Aðgreining og gagnsæi reikninga

            Í bálki 5 er m.a. fjallað um aðgreiningu reikninga og rétt til aðgangs að reikningum. Þar segir í 1. mgr. 55. gr. að aðildarríki eða lögbært yfirvald sem þau tilnefna, þar með talin eftirlitsyfirvöld sem um getur í 57. gr., skulu, svo framarlega sem nauðsyn krefur til að sinna störfum sínum, hafa aðgang að reikningum raforkufyrirtækja eins og kemur fram í 56. gr.

            Aðildarríkin og tilnefnd lögbær yfirvöld, þar með talin eftirlitsyfirvöld, skulu gæta trúnaðar um viðkvæmar, viðskiptalegar upplýsingar. Aðildarríkin geta kveðið á um birtingu slíkra upplýsinga þegar slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til þess að lögbær yfirvöld geti sinnt hlutverki sínu. (2. mgr. 55. gr.).

            Fjallað er um aðgreiningu reikninga í 56. gr. tilskipunarinnar. Þar segir í 1. mgr. að aðildarríkin skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að bókhald raforkufyrirtækja sé haldið í samræmi við 2. og 3. mgr.

            Raforkufyrirtæki, hvert sem eignarhald þeirra er eða lögform, skulu semja, leggja til endurskoðunar og birta ársreikninga sína, í samræmi við reglur landslaga, um ársreikninga hlutafélaga með takmarkaða ábyrgð (limited liability companies) sem samþykktar voru samkvæmt tilskipun 2013/34 ESB.

            Fyrirtæki sem ekki eru lagalega skuldbundin til þess að birta ársreikninga sína skulu geyma afrit af þeim til ráðstöfunar fyrir almenning á aðalskrifstofu sinni. (2. mgr. 56. gr.).

            Raforkufyrirtæki skulu, í innri bókhaldi sínu, halda aðgreindu bókhaldi fyrir hverja flutnings- og dreifingarstarfsemi sína, eins og þeim bæri að gera ef viðkomandi starfsemi væri á hendi aðskildra fyrirtækja, í því skyni að forðast mismunun, „krossstyrkingu“ (cross-subsidisation) og röskun á samkeppni. Þau skulu einnig halda bókhald, sem hægt er að sameina, vegna annarrar raforkustarfsemi sem ekki snertir flutning eða dreifingu. Tekjur af eignarhaldi á flutnings- eða dreifikerfi skulu tilgreindar í bókhaldinu. Ef við á skulu þeir halda gera samstæðureikningsskil vegna annarrar starfsemi en raforkustarfsemi. Innri reikningarnir skulu innihalda efnahagsreikning og rekstrarreikning fyrir hverja starfsemi. (3. mgr. 56. gr.). Endurskoðunin, sem um getur í 2. mgr., skal einkum sannreyna að skyldan til að koma í veg fyrir mismunun og krossstyrkingu sem um getur í 3. mgr. sé virt.

  • Að lokum

            Í næstu grein verður enn haldið áfram að rekja ákvæði raforkutilskipunar 2019/944 ESB. Verður þá byrjað á nýjum „þjóðhöfðingja“ Íslendinga, nefnilega Landsreglara ESB. Umfjöllun um hann hefst á 57. gr. tilskipunarinnar. Það er alveg nauðsynlegt að þjóðin kynnist aðeins, þótt ekki væri nema af nasasjón, þessum nýja „þjóðhöfðingja“ sínum.

            Segja má að Alþingi, ríkisstjórn og stærstu fjölmiðlar landsins, hafi brugðist upplýsingaskyldu sinni með því að kynna ekki þjóðinni veigamikil atriði í vegferð markaðs- og einkavæðingar sem tók um margt nýja stefnu með þriðja orkupakka ESB og enn er hert á í þeim fjórða.

            Það dylst engum sem les tilskipun 2019/944 ESB, að yfirþjóðlegar stofnanir (stofnanir ESB) leika mjög stórt hlutverk í orkumálum innan evrópska efnahagssvæðisins. Þar má nefna (ACER[v]) orkustofnun Evrópu; (ENTSO[vi]), Evrópunet raforkuflutningskerfisstjóra og síðan Ráð evrópskra Landsreglara (CEER[vii]). Eins og fólk sér þegar heimasíður ENTSO og CEER eru skoðaðar, er Ísland þarna í hópi með evrópskum raforkuflutningskerfisstjórum og Landsreglurum! Lesendur eru hvattir til þess að skoða þetta vel.

            Þetta er ekki hvað síst merkilegt í því ljósi að stuðningsmenn orkupakka þrjú á Alþingi fullyrtu, hver í kapp við annan, að innleiðing pakkans myndi engin áhrif hafa og skipti engu máli. Orð eins stuðningsmannsins endurspegla þetta vel, en Ari Trausti Guðmundsson sagði þann 14. maí 2019: Það er ekkert í þriðja orkupakkanum sem ber vott um einhvers konar miðstýrt orkubandalag, svo að ég endurtaki það einu sinni enn.[viii]

            Ekkert, sagði þessi þingmaður VG. Nú geta lesendur vel metið það sjálfir hvort þetta sé sannleikanum samkvæmt. En það má spyrja: út á hvað gengur innri orkumarkaður Evrópu? Er það rangt að Ísland sé orðið aðili að evrópuneti raforkuflutningskerfisstjóra (ENTSO) og Ráði evrópskra Landsreglara (CEER)?

            Það blasir auðvitað við öllu fullsjáandi fólki að þarna er einmitt um mjög miðstýrt orkubandalag að ræða. En ekki hvað? Um þetta verður fjallað áfram í næstu grein. Góðar stundir.

[i]      Þriðja ríki merkir ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

[ii]    Sjá einnig: Irena - Internatioinal Renewable Energy Agency - Innovative Ancillary Services - Innovation Landscape Brief. https://www.irena.org/

[iii]   Sjá t.d.: What are Dispatch & Redispatch? Next Kraftwerke. https://www.next-kraftwerke.com/knowledge/dispatch

[iv]    Sjá einnig: What is the Electricity Balancing Guideline (EBGL)? Next Kraftwerke. https://www.next-kraftwerke.com/knowledge/electricity-balancing-guideline

[v]     Sjá: ACER. https://www.acer.europa.eu

[vi]    Sjá: ENTSO-E Member Companies. https://www.entsoe.eu/about/inside-entsoe/members/

[vii]  Sjá: Council of European Energy Regulators (CEER). http://icer-regulators.net/icer-members/council-of-european-energy-regulators/

[viii] 149. löggjafarþing — 104. fundur, 14. maí 2019. Svartletrun mín.