Fara í efni

ICELANDAIR-KJARADEILAN OG STÉTTABARÁTTAN EFTIR COVID

Icelandair Group og Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafa gert með sér nýjan kjarasamning til fimm ára (15/5). Í tilkynningu frá Icelandair segir að samningurinn sé „í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika verulega.“ Samningurinn tryggir m.a. verulega aukið vinnuframlag flugmanna. Bogi Nils Bogason forstjóri orðar það svo: „Þetta er stórt skref til að tryggja samkeppnishæfni félagsins og veigamikill þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.“ Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, kallar þetta „tímamótasamning“ og bætir við: „Flugmenn eru stoltir af því að hafa náð markmiðunum sem lagt var upp með sem eykur enn á samkeppnishæfni Icelandair.“ https://theworldnews.net/is-news/flugmenn-og-icelandair-gerdu-timamotasamning-i-nott

Björgunaraðgerðir fyrir Icelandair-group hafa verið fyrsta frétt fjölmiðla um skeið. Fyrirtækið rambar á barmi gjaldþrots, en stefnir á að safna 29 milljarða hlutafé fyrir hluthafafund 22. maí. Biðlar m.a. til lífeyrissjóða og enn frekar til ríkisins. Ennfremur: Bogi Nils forstjóri hefur sagt að unnið sé dag og nótt að því að bjarga fyrirtækinu en „að helsta fyrirstaðan fyrir að það takist erum við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu.“ Ef bjarga eigi fyrirtækinu verði starfsfólk þess að taka á sig  kjaraskerðingar. Stjórn Icelandair hefur gert Flugfreyjufélagi Íslands tilboð sem félagið metur sem allt að 40 prósenta kjaraskerðingu. Samninganefnd félagsins hafnaði tilboðinu en þá sendi Bogi Nils tilboðið bara beint til einstakra félagsmanna!

Þann 11. maí sagði í frétt Morgunblaðsins: „Til að forða Icelanda­ir frá gjaldþroti verða flug­freyj­ur og flug­menn fé­lags­ins að taka á sig launa­lækk­un á bil­inu 50-60%. Þá verður nýr kjara­samn­ing­ur að gilda til fimm ára og vera auk þess upp­segj­an­leg­ur að hálfu Icelanda­ir að samn­ings­tíma lokn­um. Þetta seg­ir ráðgjafi eins af stóru hlut­höf­um Icelanda­ir í Morg­un­blaðinu í dag.“ https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2020/05/11/stadan_ordin_grafalvarleg/

Við skulum vera raunsæ. Stéttarfélög flugstéttanna eru í erfiðri samningsstöðu. Fyrir launafólk eru skilyrði stéttabaráttunnar skyndilega orðin verri en þau hafa áður verið a.m.k. frá seinna stríði. Nú spá SA og VÍ 13% samdrætti (allt að 18%) á Íslandi fyrir árið 2020. Hin dýpkandi kreppa gerir áþreifanlegri en áður nokkur mikilvæg fyrirbrigði í hinni efnahagslegu þróun og stjórnmálunum. Þau blasa nú við okkur í skýrri skuggsjá.

 Hamfarakapítalismi og hnattvæðing

Stórauðvaldið lítur á Covid-kreppuna sem tækifæri til mikilla árása gegn réttindum launafólks. Sú afstaða er skýr í orðum og aðferðum hins prúðmannlega Boga Nils Bogasonar. Aðferðir Icelandair eru í góðum samhljómi við þá „sjokkmeðferð“ sem Naomi Klein hefur lýst best í bókum sínum um aðferðir stórkapítalsins á heimsvísu, einkum við innleiðingu nýfrjálshyggju/markaðshyggju: „Ég nota hugtakið „sjokkkenningin“ til að lýsa hinum ruddalegu aðferðum að nýta sér ráðaleysi almennings eftir sameiginlegt áfall – styrjöld, valdarán, hryðjuverkaárás, markaðshrun eða náttúruhamfarir – til að knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja, oft kallaðar „sjokkmeðferð“ [shock therapy]... Þessi hernaðaraðferð hefur verið þegjandi fylginautur innleiðingar á nýfrjálshyggju í yfir 40 ár.“ https://www.theguardian.com/us-news/2017/jul/06/naomi-klein-how-power-profits-from-disaster  

Talskonur flugfreyja benda á að kjaraskerðingarstefna Icelandair sé ekki alveg ný: „þeir eru búnir að bjóða nánast sömu samninga síðan haustið 2018 og það er ástæðan fyrir að ekki hefur verið samið.“ En með tilkomu Covid-19 getur Icelandair sett margfalt afl á bak við kjaraskerðingakröfur sínar. Nákvæmlega eins og Naomi Klein lýsir er það til að „knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja“. Markmiðið er að sjokkera fólk til undirgefni, Covid-19 er verkfærið.

Icelandair er auðhringur sem keppir á hnattvæddum markaði. Bogi Nils forstjóri hamrar á því að lækka þurfi „einingarkostnað“, einkum að launakostnaður verði „samkeppnisfær“ við „alþjóðleg flugfélög“. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR spyr: „Samkeppni um hvað? Verstu lífsgæðin fyrir mestu vinnuna?“ Einmitt! Hnattvæðing undanfarinna þriggja áratuga er algjörlega á forsendum auðmagnsins, reglur markaðshyggjunnar stjórna fjármagnsumferðinni. Hnattvæðingin felur í sér frjálst flæði fjármagns og fjárfestinga milli landa. Í því umhverfi fá atvinnurekendur, fyrst og fremst stórfyrirtækin, óskastöðu gagnvart samtökum launafólks. Þau hóta því stöðugt að flytja starfsemi sína til annars lands þar sem skilyrði eru hagfelldari, nema verkalýðssamtök gefi eftir varðandi kaup og kjör, og vísa til „samkeppnishæfninnar“. Andspænis stórfyrirtækjunum standa samtök launafólks í vestri og austri – sem berjast við atvinnuleysi og reyna að toga starfsemina til sín eða halda henni. Við þau skilyrði þurfa verkalýðshreyfingar ólíkra svæða undirbjóða hver aðra. Í Evrópu er samtökum launafólks í Þýskalandi eða Bretlandi stillt upp gegn verkalýsðhreyfingu í Póllandi eða Litháen, enda gilda hnattvæðingarreglur í ESB. Útvistun framleiðslu til lágkostnaðarlanda í Asíu býður auðhringunum upp á ódýrt og réttindasnautt vinnuafl þar svo verkalýður Vestursins má þá bjóða niður laun sín til að reyna að vera samkeppnisfær. Auðhringarnir stilla ennfremur stjórnvöldum einstakra ríkja upp við vegg og spyrja hver bjóði besta þjónustu, lægst aðstöðugjöld, besta skattaumhverfi o.s.frv. Öll þessi einkenni hnattvæðingar birtast skýrt í Icelandair-deilunni, og öll einkennin skerpast við Covid-kreppu.

Ísland þarf flugfélög og flugrekstur. Það tilheyrir innviðum samfélagsins. En fyrsta spurningin er: Á íslenska ríkið að moka mörgum milljörðum í rekstur Icelandair á óbreyttum grundvelli, án þess að ráða neinu um rekstrarstefnuna og án þess að breyta því láni í eign? Þessari spurningu fylgja síðan aðrar: Þarf Ísland að keppa um Norður-Atlantshafsmarkaðinn? Þarf yfir höfuð að reka innviði – eins og flug – á markaðsgrundvelli? Gera sig gildandi á alþjóðlegum áhættumarkaði? Eins og Icelandair, eða WOW-air?

Stéttasamvinna og baráttustefna

Icelandair hefur í hótunum við flugstéttirnar. Auðvaldið heldur alltaf á loft hugmyndinni um að við séum „öll á sama báti“ og í kreppu og fallandi arðsemi þurfi launafólka að skerða launin sín. Ekki er þó sjálfsagt að gangast inn á slíkt. Ef við tökum kreppuna á 4. áratug 20. aldar sem dæmi þá reyndi auðvaldið að nota hana til að skerða laun en það tókst bara að takmörkuðu leyti. Vissulega versnuðu kjör í takt við atvinnuleysi. Samt tókst að verja kauptaxtana. Í nýlegri sögu ASÍ má lesa um fjórða áratuginn:

„Sem fyrr tókust tilraunir til að lækka kaup hjá Dagsbrúnarmönnum lítt eða ekki. Dagsbrún var sterkasta stéttarfélag landsins og beitti sér af mikilli hörku gegn öllum tilraunum í þá átt, eins og svonefndur Gúttóslagur frá 1932 er m.a. til vitnis um. Þegar miðað er við kaup Dagsbrúnarmanna má því segja að tekist hafi furðanlega að koma í veg fyrir kauplækkanir. Reyndar jókst kaupmáttur kauptaxta verulega á þessu tímabili vegna verðhjöðnunar.“ (Sumarliði R. Ísleifsson, Í samtök. Saga ASÍ, bls 138)  

Upp úr 1930 var verkalýðshreyfingin tiltölulega öflug og forðaði a.m.k. að nokkru leyti því að auðvaldinu tækist að velta kreppunni yfir á verkafólk. Og baráttustefnan var líka forsenda fyrir því að verkalýðshreyfingin var fær um að sækja hart fram eftir að kreppunni lauk. En frá því um 1970 tók íslensk verkalýðshreyfing upp stéttasamvinnustefnu. Vorið 1970 var síðasta meiriháttar verkfall á vegum ASÍ, eftir það urðu það viðtekin sannindi í samfélaginu að mesta óhamingja væru verkföll, en æðsta dyggð væri „sveignaleiki“ í samningum. Það er sorgarsaga sem við þekkjum allt of vel.

Það var snemma ljóst í Icelandair-deilunni að sum stéttarfélög flugstéttanna fylgja boðorðum stéttasamvinnustefnu, láta undan kröfum Icelandair um grófar skerðingar, jafnvel til langs tíma. Það má öruglrega halda því fram að þessi félög hafi tekið sjokkmeðferðinni vel! Flugfreyjur hafa hins vegar ekki beygt sig undir okið, hafa hafnað tilboðum Icelandair og standa þétt saman. Með hverjum nýjum sveigjanleika- samningi annarra flugstétta við Icelandair eykst pressan á flugfreyjur. Og ef svo færi sjokkmeðferðin dygði til að brjóta aftur flugfreyjur mun auðvaldið sannarlega ganga á lagið.

Það vekur von í þessum nýja veruleik að stéttarsamvinnustefnan hefur ekki sömu tök á verkalýðshreyfingunni og áður. Efling- stéttarfélag náði fram meginkröfum sínum í samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga á mæðradag. Efling er vissulega ekki í jafn þröngri stöðu og flugstéttirnar en var þó óspart lamin með Covid-písknum. Að samningnum loknum sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður: „Í enn eitt skiptið hafa þau [Eflingarfólk] sannað að réttlát og staðföst barátta láglaunafólks í gegnum sitt stéttarfélag er ekki bara réttur okkar heldur skilar hún líka raunverulegum árangi.“ https://efling.is/2020/05/11/efling-fagnar-langthradum-sigri-i-kjarabarattu-vid-sveitarfelogin/

Samstaðan er fjármagn hins fátæka. Akkúrat núna er lífsspursmál í harðnandi aðstæðum stéttabaráttunnar að öll stéttvís launþegasamtök stilli sér upp við bakið á Flugfreyjufélagi Íslands. Ég hef því miður ekki séð neinar ályktanir í þá veru.