Fara í efni

PÓLITÍSK MORÐ OG RÍKISHRYÐJUVERK  - AFLEIKUR TRUMPS

Morð í milliríkjasamskiptum

Abdul-Mahdi forsætisráðherra Íraks segir Soleimani yfirhershöfðingja hafa verið í opinberum erindagjörðum þar í landi þegar hann var myrtur, að Bandaríkin hafi óskað eftir milligöngu Mahdis í deilu BNA og Írans og Soleimani stefnt á hans fund af þeim ástæðum. Hann kom í venjulegu áætlunarflugi til Bagdad. https://www.unz.com/tsaker/the-us-is-now-at-war-de-facto-and-de-jure-with-both-iraq-and-iran/ Dráp á opinberum sendimanni er gróft brot á alþjóðalögum. Soleimani var næstvaldamesti maður í Írans og þjóðhetja. Það er erfitt að hugsa sér nokkra grófari ögrunaraðgerð gagnvart Íran né heldur grófari íhlutun í málefni Íraks. Þetta er utanríkisstefna sokkin niður í glæpamennsku.

Sama drónasprengja drap einnig Abu Mahdi al-Muhandis, foringja hinna áhrifamiklu sjía-hersveita Hashd al-Shaabi (eða PMU, Alþýðusveitirnar) sem njóta stuðnings stjórnvalda í Írak og áttu stærstan þátt í sigrinum yfir ISIS þar í landi.  

Morð Soleimanis er stríðsaðgerð af hálfu Bandaríkjanna, ekki stríðshótun heldur stríð. Árásarstríð. Stjórnvöld í Teheran sögðust strax taka því sem stríðsyfirlýsingu. Það er staðfest með loftskeytaárás Íranska byltingarvarðarins á bandarísku herstöðina Ain al-Assad í Vestur-Írak 7. janúar. Íranir vísuðu til stofnsáttmála SÞ sem heimilar beitingu hervalds í sjálfsvarnarskyni. https://www.presstv.com/Detail/2020/01/07/615621/IRGC-Ain-al-Assad-airbase-Anbar-province-

Einbeittur fjandskapur síðan 1979

Drápin við Bagdadflugvöll voru stríðsaðgerð. Spennumögnun með fullri vitund og vilja. Í áratugi hefur BNA haft þá stefnu að ögra Íran, að hámarka spennu og árekstra gagnvart Íran, til að sá sundrungu í landinu, koma þar á valdaskiptum, með litabyltingu, stríðshótunum eða beinum stríðsátökum.

Íran hefur verið efst á óvinalista Bandaríkjanna frá 1979. Þjóðleg og andheimsvaldasinnuð bylting varð í Íran það ár. Íranska keisarastjórnin, sérstakur skjólstæðingur og bandamaður Vestursins (einkum Breta og síðan Bandaríkjanna), var sett af og klerkastjórnin svokallaða tók við. Olíuiðnaðurinn var þjóðnýttur en Exxon, Mobil, Shell o.fl. voru rekin út. Það var ekki fyrirgefið.

Gríðarleg hernaðaruppbygging Bandaríkjanna í þessum heimshluta voru öðru fremur viðbrögð við írönsku byltingunni. Pentagon setti árið 1983 á fót herstjórnarsvæðið CENTCOM. Það markaði nýjar áherslur í hnattrænni herstjórnarlist BNA, ekki síst út frá vægi olíunnar. Næstu tvo áratugi var byggt upp net herstöðva í Miðausturlöndum og kringum Íran.   Árið 1983 hafði Bandaríkjaher engar herstöðvar í Miðausturlöndum en á miðjum fyrsta áratug 21. aldar hafði CENCOM byggt upp hernaðaraðstöðu með 125 herstöðvum á svæðinu. Endurtökum: á rúmum tveimur áratugum, 1983-2005, úr núll herstöð í 125 herstöðvar. Bandarísk heimsvaldastefna blómstraði, skákandi í skjóli þess að sovéski mótpóllinn hvarf. https://neistar.is/greinar/iran-heimsvaldastefnan-og-midsvaedid/

Eftir 11. sept 2001 hófu Bandaríkin (og NATO) „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“ sem var fyrst og fremst merkimiði og yfirskrift yfir hernaðarlega útþenslustefnu (hryðjuverkaógn kom nú í stað grýlu kommúnismans) og beindist alveg sérstaklega að múslimalöndunum í hinum olíuauðugu Austurlöndum nær. Þegar bandaríkin árið 2002 settu fram sex ríkja lista yfir „öxulveldi hins illa“ voru fjögur þeirra ríki í Stór-Miðausturlöndum: Íran, Írak, Sýrland, Líbía.

Íran var fremst á lista „hinna illu“, en það var stærri og torsóttari biti en hinir. BNA með bandamönnum voru árið 2002 einmitt að hefja „stríðið langa“ í Stór-Miðausturlöndum þar sem umrædd lönd voru tekin til afgreiðslu hvert af öðru. Nú skyldi hreinsað til. Stríðið í Afganistan var þegar hafið og innrásin í Írak vofði yfir. Þá fundu strategistarnir m.a. út að „leiðin til Teheran liggur gegnum Damaskus“ að fyrst þyrfti að kippa úr leik helsta bandamanni Írans á svæðinu, Sýrlandi. Það tókst reyndar ekki nógu vel.

Gjörningaþokunni léttir

Frá upphafi var „hryðjuverkaógnin“ skálkaskjól til að réttlæta hinar fjölmörgu íhlutanir heimsvaldasinna. En þegar komið var að íhlutunum BNA og bandamanna í Líbíu og Sýrland 2011 var orðið ljóst að hryðjuverkasveitirnar voru fyrst og fremst leiguherir á snærum heimsvaldasinna sjálfra, svokölluð „uppreisnaröfl“ í löndunum sem siktuð voru út til „valdaskipta“ voru fyrst og fremst illa dulbúin verkfæri Bandaríkjanna og bandamanna þeirra við Persaflóa.

Við erum nú farin að sjá skýrar. Yfirskinið „stríð gegn hryðjuverkum“, dulafult stríð gegn dularfullum andstæðingi var gjörningaþoka. Nú víkur hún fyrir raunveruleikanum: Átökin í Íran, Írak, Sýrlandi og víðar snúast í raun um yfirráðin í Austurlöndum nær. Þar er Íran, með sinn mikla herstyrk, versti Þrándur í Götu heimsvaldasinna. En nú skal berjast beint við óvininn sjálfan. Jafnframt snúast þessi átök um um heimsyfirráð, átök við rísandi efnahagsveldi, einkum Kína og bandamenn þeirra Rússa. Vestrið fer nú halloka í efnahagsstríðinu, það skal þá endurheimt með hervaldi. Þetta er einmitt djöfullinn í spilinu og skýringin á botnlausri hernaðarhyggjunni: af því helsti styrkur Bandaríkjanna liggur á hernaðarsviðinu (og af því hernaðariðnaðurinn er kjarni bandaríska efnahagskerfisins) leitast þau stöðugt við að draga baráttuna inn á það svið.

Klofningur innan NATO – NATO styður samt Trump

Annar þáttur í stríðinu við Íran eru viðskiptaþvinganir, refsiaðgerðir gegn þegnum landsins til að sá sundrungu og grafa undan stjórnvöldum. Bandarískar viðskiptaþvinganir gegn Íran voru settar á í áföngum frá 1979. Nýjar komu undir Reaganstjórn, voru svo mjög hertar á Clintontímanum. Frá 2006 settu SÞ refsiaðgerðir á Íran tengdar kjarnorkuáætlun landsins, ESB setti á víðtækt viðskiptabann 2007. Árið 2015 var hins vegar gerður sk. kjarnorkusamningur Írans og stórveldanna jafnframt því sem SÞ aflétti sínum refsiaðgerðum. Þetta opnaði fyrir stóraukin viðskipti. Í framhaldinu tóku nokkur evrópsk lönd og stórfyrirtæki að gera stóra og gróðavænlega viðskiptasamninga við Íran og voru harla ánægð með það.

Þetta olli pólitískum átökum í Bandaríkjunum, og vakti mikla gremju í Ísrael. Strax við enbættistöku gerði Donald Trump hagsmuni Ísraels að miklum meginþætti í utanríkisafstöðu sinni, og sem og tengslin við Sádi-Arabíu. En sameiginlegur höfuðóvinur þessara tveggja ríkja í Miðausturlöndum er Íran. Í fyrstu opinberu utanlandsför sinni (maí 2017) fór Trump til Ísrels – og síðan til Sádi-Arabíu þar sem hann tók þátt í að opna alþjóðlega „miðstöð gegn hryðjuverkum“ í Riad(!). Þetta voru mikilvægar merkjasendingar.

Bandaríska djúpríkið (hermálabatteríið og olíuauðmagnið)  ætlaði aldrei að semja varanlegan frið við Íran. Í maí í fyrra sögðu Bandaríkin sig frá kjarnorkusamningnum við Íran og hófu nýjar og harðari refsiaðgerðir gegn landinu (og gegn öllum þeim sem skipta við Íran), eins þótt það gengi gegn augljósum hagsmunum bandamannanna þeirra. Því Bandaríkin eru einbeitt í fjandskap sínum sem áður segir.  

Þarna varð nokkur aðskilnaður á milli USA og bandamannanna í Evrópu sem m.a. höfðu fjárfest í olíuiðnaði Írans. ESB tók afstöðu gegn hinum nýju bandarísku refsiaðgerðum, enda lendir höggið á evrópskum hagsmunum litlu minna en á Íran. Og vináttusambandið yfir Atlantshafið hefur trosnað nokkuð við þetta. Þeir sem fögnuðu voru Ísrael og Sádar. Þeir sömu sem nú opinberlega fagna drápinu á Soleimani hershöfðingja.

Spennan jókst svo í júní 2019 vegna hryðjuverkaárása á japanskt olíuflutningaskip í Persaflóa. Þær báru skýr merki ögrunaraðgerða til að auka spennuna. Árásin kom samtímis því sem forsætisráðherra Japans kom í heimsókn, í óþökk Bandaríkjanna, til friðsamlegra samræðna við Írani um efnahagssamvinnu og um það hvernig Íran gæti komist í gegnum refsiaðgerðirnar. Að Íran stæði á bak við árásirnar var röklega óhugsandi en þær féllu hins vegar vel inn í áform Washington um að hámarka spennu.

Þótt deila BNA við Íran hafi skapað nokkra óeiningu milli Washington og bandamannanna í Evrópu hlaupa lénsmennirnir ekki langt frá lénsherra sínum. Jens Stoltenberg tilkynnti á mánudag (6.jan) að öll NATO-ríki stæðu að baki Bandaríkjunum gagnvart Íran eftir að hafa fengið kynningu á drónaárásinni sem drap Soleimani. Samstaða í NATO um diplómatísk morð, ekki boðar það gott. Þarna hefur þá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur væntanlega gefið samþykki sitt. „Við erum sameinuð í að fordæma stuðning Írans við mismunandi hryðjuverkahópa“, sagði Stoltenberg eftir aukafundinn í NATO. Á fundinum hafði ekki komið fram gagnrýni á lista Trumps yfir 52 skotmörk í Íran, m.a. menningarmiðjar. https://www.aljazeera.com/news/2020/01/nato-stands-soleimani-assassination-warns-iran-200106173245219.html ESB (og Frakkar, Bretar og Þjóðverjar)  hafa fordæmt loftskeytaárásir Írana á Ain al-Assad herstöðina sem var sjálfsvörn en hins vegar ekki upphaflega stríðsaðgerð Bandaríkjanna, árásina við Bagdadflugvöll sem var árásarstríð.

Fer ekki samkvæmt fyrirætlun Trumps

Íran er auðvaldsríki  og klerkaveldið má vel skilgreina sem harðstjórn. Það er ekkert aðalatriði í þessu samhengi. Málið snýst um að styðja sjálfstætt ríki í baráttu við grimmustu og voldugustu heimsvaldastefnu á okkar dögum. Og morðin hafa síður en svo veikt klerkastjórnina. Í Teheran var ólga gegn stjórnvöldum fyrir fáeinum vikum síðan. En þann 6. janúar mættu milljónir í sorgargöngu vegna útfarar Soleimanis sem orðinn er píslarvottur og voldugt tákn um baráttuna gegn heimsvaldastefnunni, og þjóðin sameinast í mikilli sorg og reiði.

Ekki bættu þessi pólitísku morð heldur stöðu Trumps í Írak. Þingið í Írak hefur samþykkt að vísa skuli öllu erlendu herliði úr landi. Viðvera Bandaríkjahers í landinu er þar nú ólögleg. Andspyrnuöxullinn í Miðausturlöndum styrkist dag frá degi.

Íran greiðir högg tilbaka. Líklega mörg högg, og það hlaut Trump að vita fyrirfram. Annað væri að bjóða hinn vangann, sem heimsvaldasinnar auðvitað myndu nýta sér. Eitt höggið var árasin á Ain al-Assad herstöðinni. Annað högg var að lýsa yfir að Íran muni hætta að hlíta reglum kjarnorkusamningsins frá 2015.

En þetta er hættuleg stigmögnun. Því fleiri sem Trump fær með sér á stríðsvagn ótýndrar stigamennsku því hættulegri verða afleiðingarnar. Hérlendis þarf að gera það skýrt, með orðum Sólveigar Önnu Jónsdóttur að „það verði ekki liðið að enn eina ferðina taki Ísland þátt í viðbjóðslegum árásarstríðum og stríðsglæpum“.