Kári skrifar: ÞAÐ GETUR ALDREI ÞÓTT GÓÐ LÖGFRÆÐI AÐ SELJA ÞAÐ SEM MENN EIGA EKKI

- Framsal aflaheimilda -

            Það er að sjálfsögðu allt rétt athugað sem Styrmir Gunnarsson segir um tilurð framsals í sjávarútvegi. Hann bendir á þá staðreynd að framsalið komst á í stjórnartíð félagshyggjuflokka, með lögum nr. 38/1990. Ýmsir vöruðu við þessu á þeim tíma. Meðal þeirra var fólk í minnihluta sjávarútvegsnefndar Alþingis. Um þetta sagði m.a. Danfríður Skarphéðinsdóttir, þáverandi fulltrúi minnihlutans á Alþingi, 30. apríl 1990 og vísaði þar í umsagnir við frumvarpið:

            „Í mörgum þeirra umsagna, sem sjávarútvegsnefnd efri deildar bárust um frumvarpið, koma einnig fram áskoranir til Alþingis um að hyggja að byggðasjónarmiðum og koma í veg fyrir að örfáir aðilar getið höndlað með sameiginlega auðlind landsmanna í eigin þágu algjörlega án tillits til byggðar í landinu og hagsmuna þjóðarinnar í heild.“[i]

            Sumir „félagshyggjumanna“ sem þetta mál fluttu og studdu hafa sagt að ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg til þess að ná fram hagræðingu í sjávarútvegi. Þingmenn almennt virðast ekki hafa gerst sér ljóst hvað þarna er raunverulega um að ræða. Frá aldaöðli, allt frá landnámi, hefur íslensk þjóð nýtt sér meira og minna auðlindir sjávar allt í kringum landið. Hversu litlar eða miklar veiðar voru stundaðar er hins vegar aukaatriði í því sambandi. Meginatriðið er það veiðar voru stundaðar. Með þeim var skapaður sameiginlegur eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum sjávar.

            Sá réttur er síðan endanlega festur í lög [réttur sem stofnast af hefð er lögfestur] með ákvæðum um að fiskistofnar við Ísland séu sameign þjóðarinnar. Það ákvæði var því á allan hátt rökrétt þótt það hefði mátt koma fyrr í íslenska löggjöf. Sumir lagaprófessorar kusu að líta algerlega framhjá þessum staðreyndum og gerðust jafnvel svo djarfir að telja útgerðarmenn hafa myndað sinn eigin „hefðarrétt“ frá því að lögin um stjórn fiskveiða voru sett, árið 1983 [tóku gildi 1984]. Það hlaut ævinlega að vera fráleit ályktun, enda augljóst að hefðarréttur þjóðarinnar er miklu eldri sem nemur mörgum öldum! Þetta veit meirihluti þjóðarinnar og gerir sér fulla grein fyrir.

            Með tilkomu framsalsins verður sú sérkennilega breyting á eðli eignarréttarins[ii] að mönnum er heimilað að selja það sem þeir eiga ekki! Það var stórt nýmæli í heimi lögfræðinnar. Í þeim réttarkerfum þar sem greinarhöfundur þekkir til er almennt gengið út frá því að eigandi hafi ráðstöfunarrétt eigna sinna og ákveði sjálfur hvort hann selur þær. Það gildir bæði um eignina sjálfa og afnot af henni. Meirihluti Alþingis virðist hins vegar ekki hafa talið sig bundinn af þessum atriðum á nokkurn hátt, heldur væri fullkomlega frjálst að taka eigur þjóðarinnar og leyfa fáeinum aðilum að braska með þær eins og um einkaeign þeirra væri að ræða.     Þetta hefur og orðið æ skýrara t.d. við hjónaskilnaði þegar kvóti hefur komið til skipta. Í lögfræði heitir þetta að höndla með þýfi. Sá sem kaupir þýfi, hvort sem hann er í „góðri trú“ [bona fide purchaser] eða ekki er þar með orðinn þjófsnautur, kaupir stolinn „varning“. Því til viðbótar hefði kaupendum mátt vera ljóst að þeir væru að kaupa þýfi, enda hafði Alþingi engan rétt til þessara ráðstafana, alveg þvert á eignarrétt þjóðarinnar og vilja. Mönnum mátti því alla tíð vera ljóst að um þýfi væri að ræða.

            Einn þeirra manna á Alþingi sem virðist hafa gert sér nokkuð góða grein fyrir þessu var Ágúst Einarsson. Sú ályktun verður dregin af orðum hans á Alþingi fimmtudaginn 09. október 1997, í umræðum um veiðileyfagjald. Þar vísaði Ágúst í ávarp fundar Samtaka um þjóðareign:

            ,,Íslandsmið hafa verið sameign þjóðarinnar frá öndverðu. Á þessari öld háðu Íslendingar harða baráttu fyrir því að aðrar þjóðir viðurkenndu eignarrétt Íslendinga á miðunum. Nýting fiskimiða landsins hefur lagt drjúgan skerf að framförum og velsæld þjóðarinnar á 20. öld. Með lögum um stjórn fiskveiða og framsali ríkisvaldsins á sameign þjóðarinnar til einstakra manna og félaga, án þess að gjald komi fyrir, er brotið gegn eignarrétti þjóðarinnar --- horfið frá leikreglum lýðræðis og jafnréttis.

            Fiskimiðin eru í raun að hverfa úr eign íslensks almennings til kvótaeigenda þrátt fyrir þau ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þetta samrýmist ekki hagsmunum og réttlætiskennd þjóðarinnar né hefð í nýtingu fiskimiðanna.“[iii]

            Það er nokkuð ljóst að Ágúst hafði þá þegar efasemdir um eðli og útfærslu framsalsins. Enda hefur það komið fram í viðtölum við hann síðar. Fleiri í hans flokki hefðu gjarnan mátt tileinka sér sömu efasemdir. Fyrrum ráðherrar, hagfræðingar og fleiri hafa rætt um „hagræðinguna“ sem fylgt hafi kvótakerfinu (framsalinu). Hún hefur öll orðið á kostnað byggðar í landinu og gert að verkum að örfáir braskarar hafa sópað til sín arðinum af þjóðareigninni. Það heitir ekki „hagræðing“, það er stuldur. Alþingi kórónaði þann glæp með því síðan með því að leyfa mönnum að selja (og kaupa) þýfið eins og komið er fram. Lágmarkið hefði verið að spyrja þjóðina sjálfa álits í þjóðaratkvæðagreiðslu, um það hvernig hún vildi ráðstafa eign sinni. Almennt þykir það góð lögfræði að spyrja eigandann fyrst, en ekki taka eignir hans, að honum forspurðum, og færa þær öðrum á silfurfati.

            Alþingi á strax að ráðast í það verkefni að innkalla allan kvóta og biðja eigandann, þjóðina, afsökunar á því að hafa heimilað afnot af þjóðareign án leyfis frá þjóðinni. Áður en menn fara að ræða um „hagræði“ sem hlýst af samþjöppun í þágu fárra aðila, þá verða menn að spyrja um eignarréttinn. Hann er þjóðarinnar eins og komið er fram. Yfir þann rétt getur Alþingi á hverjum tíma ekki valtað og tekið sér vald sem það hefur ekki. Ekki frekar en að t.d. mannréttindi verða af mönum tekin [samkvæmt náttúrurétti fylgja þau sérhverjum manni frá fæðingu, sbr. t.d. Tómas frá Akvínó og John Locke ].[iv]

            Brottkast, brask, spilling og peningaþvætti [jafnvel með fulltingi Seðlabankans] eru fylgifiskar núverandi kerfis. „Tuskurbrúðurnar“ sem hafa valist til forystu eiga að taka sig saman í andlitinu og skila þjóðinni því sem frá henni var stolið, með lögleysum frá Alþingi og það áður en mönnum tekst að selja þýfið úr landi. Á sama tíma eru innviðir þjóðfélagsins fjársvelltir og ekki hægt að sinna sómasamlegri þjónustu við borgarana. Verkefni næstu kosninga verður að losna við alla þingmenn sem bera á þessu ábyrgð. Gildir þá einu hvernig ábyrgðin er tilkomin. Þeir sem horfa á, án þess að aðhafast, eru ekki síður ábyrgir en aðrir.

            Sumir ráðherrar virðast þó hafa meiri áhuga á að að brosa í erlendar myndavélar en taka á málum sem þeir voru valdir til að sinna.

 

 liberty.png

[i]      Svartletrun mín. 112. löggjafarþing. – 352 . mál. https://www.althingi.is/altext/112/s/1113.html

[ii]    Sjá og: Nemo Dat Quod Non Habet Law and Legal Definition. https://definitions.uslegal.com/n/nemo-dat-quod-non-habet/

[iii]   Veiðileyfagjald 5. mál, þingsályktunartillaga 122. löggjafarþing 1997–1998. https://www.althingi.is/altext/122/10/r09113623.sgml

[iv]    Sjá enn fremur - Natural Law and Natural Rights: https://oll.libertyfund.org/groups/102

Fréttabréf