Kári skrifar: ÍSLENSKT ÞJÓÐFÉLAG Í HELGREIP MAFÍUSTARFSEMI? - BANKAKERFI OG AUÐLINDIR - ORKUPAKKI 4

            Þegar rætt er um orkumál þjóðarinnar er nauðsynlegt að gera það í alþjóðlegu samhengi – sem hluta af alþjóðlegri hagsmunabaráttu. Einn af verstu göllum Evrópusambandsins er mikill „frjálshyggjuhalli“ á ákveðnum sviðum. Hann birtist m.a. í afstöðu sambandsins til markaðsvæðingar og einkavæðingar.

            Í stuttu máli felur markaðsvæðing í sér að ákveðin starfsemi er opnuð upp á gátt fyrir bröskurum og fjárglæframönnum, enda eru það þeir hópar sem helst hafa pólitísk sambönd, aðgang að fjármagni og geta nýtt sér tækifærin sem viðkomandi markaðsvæðingu fylgja. Almenningur hefur ekkert gagn af braski og fjárglæfrum en fær hins vegar að taka á sig tapið og tjónið, þegar allt er komið í óefni. Sagan sýnir það.

            Íslensk stjórnmál eru gervimennska. Þau snúast fyrst og fremst um að þjóna persónulegum hagsmunum, sérhagsmunum „djúpríkisins“ og íslensku mafíunnar. Almenningur má hinsvegar éta það sem úti frýs. Þar sem mafía ræður ríkisvaldinu má með réttu tala um „djúpríkisvald“.

            Það sýnist einmitt vera staðan á Íslandi [og miklu víðar]. Íslenska mafían hefur sterk tengsl við erlendar mafíur, s.s. í fjármálakerfinu, enda er mafíustarfsemi alþjóðleg í eðli sínu. Rannsóknir benda til þess að skipulögð glæpastarfsemi [mafíustarfsemi] geti ekki þrifist til lengdar nema í skjóli ríkisvaldsins.[i] Það hefur sýnt sig á Íslandi! Við það bættust m.a. óvirkt eftirlit, meðvirk stjórnmál og gagnrýnislausir fjölmiðlar.

[Íslenskt þjóð í helgreip?]

Þátíð hefur þetta kennt,

þessar fregnir kunnar.

Held að þjóðin hafi lent,

í helgreip mafíunnar.

            Það má fullyrða að mörgum þingmönnum veitir ekkert af óskertri skynsemi sinni og ættu helst aldrei að komast í tæri við áfengi. Enn og aftur þrýstir „djúpríkið“ á aukið „frelsi“, nú í sölu áfengis. Margar rannsóknir sýna hins vegar að aðgengi og neysla haldast í hendur. Nái þetta gæluverkefni sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Pírata fram að ganga má því búast við aukinni og vaxandi áfengisdrykkju á Íslandi. Það verður að teljast öfugþróun. Ábyrgðarlausir þingmenn, t.d. Viðreisnar, tala um „forvarnir“ í því sambandi.

            Þar gildir almennt að „Of seint er að byrgja brunninn, þá barnið er dottið ofan í“. Auk þess er augljóst að fjárframlög hins opinbera til heilbrigðismála, og annara skyldra þátta, hafa verið of lág um árabil. Halda menn virkilega að þau muni snögglega aukast til forvarna, við það eitt að auka „frelsi“ í sölu áfengis? Þetta er auðvitað eins og hver önnur vitleysa. Málið snýst enn og aftur um hagsmuni, hagsmuni braskara og fjárglæframanna. Íslandssagan geymir mörg slík dæmi.

            Glæpir og aðgengi eru enn fremur sitt hvor hlið á sama peningi. Það er einmitt meginástæða þess að í mörgum ríkjum gilda strangar reglur um aðgang t.d. að skotvopnum. Aukið aðgengi að þeim merkir almennt fleiri glæpi þar sem skotvopnum er beitt, enda þótt margt fleira komi til. En á sama hátt og framleiðendur áfengis hafa fjárhagslega hagsmuni af sem mestri sölu þess, hafa framleiðendur skotvopna beina hagsmuni af sem mestri skotvopnasölu.

Skilgreiningar

            Þótt orðið „mafía“ vísi í hugum margra til atburða á Sikiley [Cosa Nostra], og virki mjög gildishlaðið, þá er það samt svo að það er notað um allan heim; í skýrslum, í fræðiritum og víðar, sem samheiti yfir hóp (hópa) sem stundar skipulagða glæpastarfsemi. Því er nauðsynlegt að skilgreina hvað felst í hugtakinu.

            Í bandarískum alríkislögum, um meðferð sakamála, er skilgreining á „fyrirtæki“ (enterprise), í 18. bálki [18 U.S.C.§1961(4)] um afbrot og meðferð sakamála. Skilgreiningin telst ná yfir bæði lögleg og ólögleg fyrirtæki.[ii] Í 4. tölulið segir svo: „Fyrirtæki“ nær yfir hvaða einstakling, félag, hlutafélag, samtök, eða annan lögaðila, og hvaða stéttarfélag eða hóp einstaklinga sem tengjast í raun, þó ekki séu lögaðilar...“[iii]

            Rétt er að greina á milli annars vegar skipulagðrar glæpastarfsemi og „mafíustarfsemi“ enda þótt mikil skörun sé þar á milli. Mafía vísar almennt til þrengri hóps af fólki, t.d. fjölskyldna, sem einkennast af stigveldi í uppbyggingu (lóðrétt uppbygging). Glæpastarfsemin er gjarnan á ákveðnu og afmörkuðu sviði, s.s. í fíkniefnasölu og vændi. Skipulögð glæpastarfsemi er almennara hugtak. Getur vísað til glæpastarfsemi á nánast hvaða sviði sem er. Skiptingin er þó ekki einhlít. Mafíur hafa víða lagt undir sig nýjar greinar og „lagað sig að þörfum markaðarins“. Skipulagning er þó ætíð sameiginlegur þáttur.

            Í ítölsku refsilögunum (Codice Penale[iv]) eru sérstök ákvæði um mafíu, í gr. 416-bis. Mafíustarfsemi er þar skilgreind út frá þremur aðilum eða fleiri. Við aðild að slíkri starfsemi liggur refsing tíu til fimmtán ára fangelsi. Við skipulagningu eða stjórnun sömu starfsemi liggur tólf til átján ára fangelsi. Starfsemi er skilgreind sem mafíustarfsemi þegar þeir sem henni tilheyra beita hótunum og ógnunum; nýta sér undirgefni og þögn til þess að fremja glæpi; ná með beinum eða óbeinum hætti stjórn á atvinnustarfsemi, fá ívilnanir, leyfi, samninga, ítök í opinberri þjónustu; til að hagnast eða fá ávinning fyrir sjálfa sig eða aðra; hindra frjálsar atkvæðagreiðslur og fleira. Sumt af þessu sýnist falla mjög vel að íslenskum veruleika.

            Hótunum er víða beitt á Íslandi, beint og óbeint. Ofbeldið er vissulega til staðar en það er hins vegar ekki eins sýnilegt og t.d. á Sikiley. Á hitt er einnig að líta, að þegar markmið nást fram án vopnaðs ofbeldis þá segir sig sjálft að menn beita því ekki. Glæpamenn (t.d. fjárglæframenn) beita ekki meira ofbeldi en þeir þurfa til þess að ná sínum markmiðum fram. Almennt á það við. Það merkir hins vegar ekki að ofbeldi skorti.

            Í þessu sambandi er af mörgu að taka. Illa hefur t.d. gengið að upplýsa hverjir keyptu 3600 íbúðir af Íbúðalánasjóði.[v] Það mál lyktar mjög af spillingu svo vægt sé til orða tekið. Rannsóknarskýrsla Alþingis geymir fjölmörg dæmi um spillingu og einmitt „mafíustarfsemi“. En margt fólk, og margir fjölmiðlar, veigra sér við að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

            Mafíustarfsemi er talið eitthvað sem „tíðkast bara í útlöndum“. Þó er algerlega óþarft að leita út fyrir landsteinana til þess að finna dæmi um mafíustarfsemi. Hún er víða í íslensku samfélagi. Hrunið afhjúpaði margt í þeim efnum. Spilling og mafíustarfsemi eru svo samofnir þættir við íslenska menningu að margir veita henni enga athygli, halda að „þetta eigi að vera svona“.

            Í a-lið 2. gr. Palermo-samnings[vi] Sameinuðu þjóðanna [UN Convention on Transnational Organized Crime] er skilgreining á skipulögðum glæpahópum. Miðað er við skipulagðan hóp, þriggja eða fleiri aðila, sem starfar í ákveðinn tíma, með það að markmiði að fremja einn eða fleiri alvarlega glæpi eða afbrot sem falla undir samninginn, til þess að ná fram, beint eða óbeint, fjárhagslegum ávinningi eða hafa annan hag af glæpastarfsemi.

            Sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á 7. gr. samningsins sem fjallar um aðgerðir gegn „peningaþvætti“.

Mafíuvæðing fjármálakerfisins

            Það er kunnara en frá þurfi að segja hvernig skipulögð, alþjóðleg glæpastarfsemi hefur náð tökum á fjármálakerfi heimsins.[vii] Ísland er sannarlega ekki undanskilið í þeirri öfugþróun. Þar er af mörgu að taka. Ein sterkasta birtingarmyndin er afskiptaleysi. Alþingi tekur ekki á málum; eftirlitsstofnanir virðast bæði sofandi og lamaðar og annað eftir því. Eitt besta dæmið eru svokölluð smálánafyrirtæki. Þar er ekki einungis um okurlán að ræða heldur hreinræktaða mafíustarfsemi. Nægir þar að skoða eðli starfseminnar sem slíkrar en einnig innheimtuaðferðir.

            Meðvirkni margra fjölmiðla er alger, þeir forðast að ræða málið [eins og orkupakkann], nema þá á mjög yfirborðslegan hátt. Það sýnir betur en margt annað hverskonar kverkatak mafían hefur á þjóðfélaginu og stofnunum þess. Margir fjölmiðlar stjórnast af ótta eins og alþingismenn. Þora ekki að taka á málum.

            En það er önnur hlið á þessu. Sumar rannsóknir hafa leitt í ljós að í sumum tilvikum eru þeir sem gegna stöðum í þágu almennings í raun skipuleggjendur glæpa.[viii] Þar eru t.d. tiltekin nokkur vel þekkt bandarísk fyrirtæki s.s. American Express, Merrill Lynch, the Miami National Bank, Citibank og fleiri. Þessi fyrirtæki eru öll sögð eiga það sameiginlegt að hafa tekið þátt í ólöglegu athæfi (illicit ventures).[ix]

            Sem dæmi er tekið „the Pizza Connection case“ þar sem heróíni frá Suð-Astur Asíu var dreift í gegnum fjölda pizza-staða í Bandaríkjunum og tugir milljóna dala voru „þvegnir“ í gegnum New York City Bank og síðan millifærðir á leynilega bankareikninga í Sviss og Bahama-eyjum og fleiri ríkjum.

            Eiturlyfjasalarnir notuðu einnig fyrirtæki á sviði verðbréfamiðlunar (Pierce, Fenner & Smith) í eigu Merrill Lynch til þess að greiða fimm milljónir Bandaríkjadala á sex vikna tímabili. Merrill Lynch samþykkti ekki einvörðungu þessar ákveðnu færslur heldur sá einnig um flutning fjárins með sérstakri öryggisgæslu. Þetta kom m.a. fram við skoðun rannsóknarnefndar á glæpum sem sett var á stofn í forsetatíð Ronald Reagan (President´s Commission on Organized Crime). Opinberir embættismenn og fólk í viðskiptum eru ekki peð í í skipulagðri glæpastarfsemi heldur oft hluti af henni.[x]

            Undanfarinn áratug [og lengur] hefur „þvottur“ fjárglæframanna á „skítugu fé“ verið umtalsvert vandamál í ýmsum Evrópuríkjum. Lagasetning til þess að taka á vandanum hefur reynst gagnslítil [gagnslaus] þar sem yfirsýn hefur skort með innleiðingu og eftirfylgni hennar. Evrópskar fjármálastofnanir hafa lagt af áreiðanleikakannanir, vegna kostnaðar við þær. Aðgerðir einstakra ríkja til að stemma stigu við peningaþvætti hafa reynst árangurslitlar, enda er fjármálakerfið fjölþjóðlegt og nánast ógerningur að loka öllum glufum á því.

            Þekktir evrópskir bankar eru flæktir í fjármálahneyksli og peningaþvætti. Þar má nefna Danske Bank, HSBC,[xi] Barclays og fleiri. Hafa sumir þessara banka verið sektaðir vegna peningaþvættis.[xii] Það á við um tíu stærstu banka Evrópu og átján af tuttugu stærstu bönkum Evrópu.[xiii] Í alþjóðabankakerfinu er stunduð víðtæk, glæpastarfsemi. Hún náði til Íslands með eftirminnilegum hætti um og uppúr síðustu aldamótum með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskt þjóðarbú. Ráðherrar á þeim tíma ræddu fjálglega um nauðsyn þess að fara að „evrópskum reglum“ og opna bankamarkaðinn og einkavæða. Nú er ætlunin að leika samskonar leik, bæði með bankana en bæta við raforkuframleiðslu og orkulindum. Eins og sést af þessu er hægt að endurtaka glæpavæðingu eins oft og „þurfa þykir“. Sumir stjórnmálamenn leggja þar sitt af mörkum og tala mjög fyrir áframhaldandi glæpavæðingu, enda þótt þeir noti önnur orð um fyrirbærið.

            Ekki þarf að leita lengi dæma úr íslensku fjármálakerfi, síðustu tvo áratugi, til þess að finna mörg dæmi um starfsemi sem fellur vel að skilgreiningum á skipulagðri glæpastarfsemi og jafnvel mafíustarfsemi. Má þar nefna skipulagningu, hótanir, undirgefni og þögn, stjórn á atvinnustarfsemi og „vafasama samninga“ með það að markmiði að hagnast. Þá voru íslenskir bankar til rannsóknar eftir hrun vegna gruns um peningaþvætti.[xiv] Sterkasta ljósið á Íslandi í þessu öllu saman hefur verið embætti sérstaks saksóknara. Náði embættið umtalsverðum árangri í rannsókn á íslenskri mafíustarfsemi, saksókn og sakfellingu gegn þeim sem henni tengjast. Það ber að þakka.

            Því má velta upp hvort hamagangur fjölmiðla og embættismanna um þessar mundir, gagnvart ríkislögreglustjóra, standi í einhverju sambandi við athyglisverða skýrslu embættis hans frá maí á þessu ári. Þá má leiða líkur að því að önnur ástæða fyrir nefndum hamagangi sé sú að nú telji einhverjir tímabært að kona gegni starfi ríkislögreglustjóra.

            „Kynjahalli“ er að mati sumra helsta skýringin á flestum vanda. Ekki sýndist kyn þó breyta neinu í orkupakkamálinu! Afstaða „þingkvenna“ var á engan hátt skynsamlegri eða upplýstari í því máli en þingmanna af karlkyni. Meðvirkni „þingkvenna“ með valdinu var engu minni en karlanna. Almennt virðist klúður margra kvenna síst minna í stjórnunarstöðum en klúður karla, hafi konur á annað borð tækifæri til þess að klúðra hlutum. Hins vegar verður heldur ekki ályktað sem svo að klúður kvenna sé almennt meira. Líklegri skýring er sú að hæfni og verðleikar viðkomandi persónu ráði mestu, óháð kyni. Í skýrslu ríkislögreglustjóra er hreyft við ýmsum atriðum sem sumir fjölmiðlar hafa ekki hampað mikið. Í skýrslunni segir m.a.:

            „Það er mat lögreglu að hér á landi starfi skipulagðir hópar brotamanna sem sumir hverjir búa yfir umtalsverðum styrk og fjármagni. Eftir því sem hópar þessir eflast verður örðugra fyrir lögreglu að sporna gegn starfsemi þeirra. Þeir eiga auðveldara með að fela slóð sína og fjárhagslegur styrkur gerir þeim kleift að kaupa sérfræðiþekkingu og fela ágóða starfseminnar í löglegum rekstri. Slík aðferð við peningaþvætti getur haft bein áhrif á markaði,t.d. vegna betri samkeppnisstöðu sem ólöglegur ábati tryggir.“[xv] Í skýrslunni er heildaráhætta á skipulagðri glæpastarfsemi sögð „gífurleg“ [hæsta áhættustig í skýrslunni]. Hvað snertir spillingu sérstaklega, þá er ljóst að hún snertir mest hið pólitíska svið. Það kann enn fremur að skýra viðbrögð sumra stjórnmálamanna við ákveðnum ummælum ríkislögreglustjóra.

            Fjárglæframennska er mjög dýr fyrir þjóðfélagið, ekki einungis í töpuðum fjármunum heldur og í margskonar afleiddu tjóni. Upphæðir hlaupa oft á milljörðum, tugum og hundruðum milljarða. Eftir stendur auðn og tóm þegar fjárglæframenn fara eins og engisprettur um akur.

Orkupakki 4

            Það hefur afhjúpast vel, undanfarin ár, hvernig mafíustarfsemi teygir sig í vaxandi mæli inn á svið orkulinda og orkunýtingar. Lýðskrumsfólk á Alþingi virðist standa í þeirri trú að orkupakki fjögur snúist um aðgerðir gegn loftslagsvá. Það er vissulega „yfirlýst markmið“. Eftir að meirihluti Alþingis brást við afgreiðslu orkupakka þrjú er ljóst að þjóðin þarf að vera enn betur á verði næstu misseri og ár.

            Fámennisklíkunni á Alþingi má ekki líðast að koma framleiðslu og dreifingu á raforku í hendur erlends valds, braskara og fjárglæframanna. Með innleiðingu orkupakka 3 var stigið stórt skref í þá átt [of stórt] en það þýðir þó alls ekki að baráttan sé töpuð – alls ekki. Það er í raun viðvarandi verkefni að verja auðlindir á Íslandi gegn misnotkun og valdaráni fámennisklíkunnar – að hindra að þjóðin sé rænd með heimild og þrýstingi frá Alþingi. Þegar rekast á hagsmunir fjárglæframanna og þjóðarinnar gengur meirihluti þingsins oftast erinda þeirra fyrr nefndu.

            Skoðun þessu næst hvað felst í orkupakka fjögur. Eins og áður hefur komið fram er lagagrunn orkustefnu ESB m.a. að finna í 194. gr. Lissabon-sáttmálans. Eftir að hann tók gildi falla orkumálin undir „sameiginlegar valdheimildir“ (shared competence) og deilast því á milli ESB og aðildarríkja þess. Ákvæði 2. mgr. 194. gr. eru talsvert mótsagnarkennd[xvi] en þar er kveðið á um rétt aðildarríkjanna til þess að halda yfirráðum í orkumálum sem þegar hefur verið afsalað til ESB. Þessu ákvæði virðist helst ætlað að vera einhverskonar „friðþæging“ fyrir stjórnvöld aðildarríkjanna, enda hafið yfir vafa að orkustefna ESB er ríkjandi og ræður ferðinni.

Yfirlit fjórða orkupakkans

Mynd 1[xvii]

  ELECTRICITYmarket.PNG

        Eins og fyrri orkupakkar, byggist sjá fjórði á reglugerðum og tilskipunum, ásamt undirbúningsgögnum, skýrslum og gögnum sem ekki hafa lagagildi (non-legislative). Megininnihald pakkans byggist á átta gerðum. Þær eru:

Tilskipun um orkunýtingu nr. 2018/844 (Energy Performance of Buildings Directive (EU) 2018/844[xviii]);

Tilskipun um endurnýjanlega orku nr. 2018/2001 (Renewable Energy Directive (EU) 2018/2001[xix]);

Tilskipun um orkunýtingu nr. 2018/2001 (Energy Efficiency Directive (EU) 2018/2002[xx]);

Reglugerð um stjórnun Orkusambands Evrópu og aðgerðir í loftslagsmálum nr. 2018/1999 (Governance of the Energy Union and Climate Action Regulation (EU) 2018/1999[xxi]);

Reglugerð um raforku nr. 2019/943 (Electricity Regulation (EU) 2019/943[xxii]);

Tilskipun um raforku nr. 2019/944 (Electricity Directive (EU) 2019/944[xxiii]);

Reglugerð um „áhættuviðbúnað“ á orkumarkaði nr. 2019/941 (Regulation on Risk-Preparedness in the Electricity Sector (EU) 2019/941[xxiv]);

Reglugerð Evrópusambandsins um orkustofnun Evrópu nr. 2019/942 [„Landsreglari“]. (Regulation on the European Union Agency for the Cooperation of Energy Regulators (EU) 2019/942[xxv]).

            Skoðum þessu næst í pakkann og könnum innihaldið betur. E.t.v. er best að byrja á Reglugerð um raforku nr. 2019/943. Markmið [yfirlýst markmið] reglugerðarinnar koma fram í 1. gr. hennar.

            Vísað er til loftslagsmarkmiða ESB fram til ársins 2030 (a-liður 1. gr.). Hugsunin er sú að beita tækjum markaðskerfis til þess að ná fram markmiðum Orkusambands Evrópu (Energy Union) og aukinni „hagkvæmni“, hærra hlutfalli endurnýjanlegrar orku, öryggi í framboði, „sveigjanleika“, „sjálfbærni“ minnkun kolefnis og „nýsköpun“. Þarna vakna strax fjölmargar, áleitnar spurningar. Sú fyrsta er þessi: hverjum dettur í hug að hinn „frjálsi markaður“ muni best leysa þau markmið sem þarna eru sett fram? Ekki hefur „frjáls markaður“ gefist vel í bankamálunum, eins og áður er komið fram í þessari grein.

            Það er útaf fyrir sig galin nálgun að telja að „frjáls markaður“ muni leysa mál eins og „hagkvæmni“, öryggi í framboði (framboðsöryggi), „sjálfbærni“ og fleira. Hámörkun gróðans samrímist ákaflega illa þessum markmiðum. Ekki hefur „frjáls markaður“ leyst framboðsöryggi á raforku í sumum fylkjum Bandaríkjanna, eftir að „opnun markaða“ hófst þar, um og eftir 1990!

            Engin ástæða er til þess að ætla annað en að brask og fjárglæframennska muni ná yfirtökunum á raforkumarkaði eins og víða annars staðar, eftir að að „hliðið hefur verið opnað“. Það er almennt reynslan. Menn eru tilbúnir að hirða gróðann en jafnframt skilja tap og skuldir eftir hjá almenningi. Margir Íslendingar þekkja orðið, af biturri reynslu, hvernig þetta virkar!

            Í c-lið 1. gr. sömu reglugerðar [nr. 2019/943] er enn fremur ýmislegt gagnrýnivert. Þar er lýst þeim markmiðum að setja sanngjarnar reglur um raforkuflutning yfir landamæri og þannig auka „samkeppni“ á innri markaðnum; að hanna „uppbótakerfi“[xxvi] vegna raforkuflutninga yfir landamæri og fleira. Þessar tilfæringar munu mjög sennilega hækka allan kostnað, „samkeppnin“ snýst upp í fákeppni og almenningur (og innlendur rekstur) greiðir fyrir í hækkuðu raforkuverði.   Almennt má segja að sú aðgerð, að ætla sér að leysa orkuskort, umhverfismál og vandamál tengd hagkvæmni, með „markaðslausnum“ sé ákaflega slæm hugmynd. Allt sem fylgir því slíku „markaðskerfi“, s.s. eftirlit og stofnanir, gerir fátt annað en hleypa verði upp úr öllu valdi og þeim aukna kostnaði er síðan velt yfir á neytendur [sem alltaf greiða að lokum].

            Meðal markmiða í d-lið 1. gr. sömu reglugerðar er „framboðsöryggi“ á raforku. Um það er að segja að um leið og „einkaframtakið“ telur of dýrt að standa í slíku, með öllu sem til þarf, kemur það fljótlega niður á þjónustunni.[xxvii] Að einkaframtak sé best fallið til þess að reka innviði samfélaga, á borð við framleiðslu og dreifingu rafmagns, er glórulaus hugmynd. Í raun úrelt hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Henni ber að hafna með öllu. Leysir engin vandamál en býr til fjölmörg vandamál.

            Í a-lið 3. gr. kemur fram að raforkuverð skal ráðast af framboði og eftirspurn [„markaðsverð“]. Í h-lið er kveðið á um það að fjarlægja skuli hindranir á flæði raforku á milli tilboðssvæða [bidding zones] og yfir landamæri aðildarríkja (að innri orkumarkaði). Hér verður stiklað á stóru enda er allt „frjálshyggjurausið“ í umræddri reglugerð nokkuð yfirþyrmandi. En vakin skal athygli á t.a.m. 1. mgr. 10. gr. Þar segir m.a. að ekkert lágmark né hámark skuli vera á heildsöluverði raforku, enda er hinum „frjálsa markaði“ ætlað að stýra verðinu.

            Í V. kafla reglugerðarinnar er m.a. fjallað um evrópskt net flutningskerfisstjóra  vegna rafmagns. Þar er vert að skoða sérstaklega 28., 29., 30., og 32. gr. Þessar greinar fjalla um „ENTSO“ [European network of transmission system operators for electricity]. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skulu flutningskerfisstjórar hafa með sér Evrópusamvinnu [Union level], í gegnum „ENTSO“, á sviði raforku. Markmið þess er að styrkja innri raforkumarkaðinn og viðskipti milli svæða. Í 2. mgr. 28. gr. segir m.a. að „ENTSO“ skuli koma á virkum og samþættum markaði og styðja við loftslagsmarkmið.

            Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. skulu flutningskerfisstjórar raforku leggja fyrir framkvæmdastjórnina, og ACER, öll drög að breytingum á samþykktum, skrá yfir félaga eða starfsreglur ENTSO um raforku. Verkefni „ENTSO“ eru skilgreind í 30. gr.

            Eins og kemur fram í 1. mgr. 32. gr. skal ACER hafa eftirlit með framkvæmd verkefna „ENTSO“ vegna raforku sem um getur í 1., 2. og 3. mgr. 30. gr. og tilkynna framkvæmdastjórninni um niðurstöður sínar. Nánar verður fjallað um innihald fjórða orkupakkans í næstu greinum.

Málfrelsið á undir högg að sækja á Alþingi

            Það bar til tíðinda á Alþingi nýlega að þingforseti lýsti með berum orðum hvernig forsætisnefnd þingsins hefur tekið að sér að útdeila þingmönnum málfrelsi. Það er auðvitað gert jafn gerræðislega og margt annað á Íslandi. Um þetta sagði þingforsetinn m.a.:

            „Forsætisnefnd hefur ákveðið að gera breytingu á vinnureglum forseta við stjórn þingfunda. Sú breyting lýtur að framkvæmd andsvara og krefst ekki breytinga á þingsköpum[xxviii] því að forseti hefur samkvæmt þingsköpum sjálfstætt vald til að ákveða framkvæmd andsvara. Sú breyting sem gerð hefur verið er tvíþætt. Í fyrsta lagi verður þingmanni úr sama flokki og ræðumaður er ekki heimilt að veita andsvar.

            Svokallað „samsvar“ verður því ekki heimilað nema sérstaklega standi á, svo sem að fyrir liggi að þingmennirnir séu á öndverðum meiði í málinu eða að um málið gildi að þingmenn skiptist alls ekki eftir flokkslínum. Í öðru lagi verða andsvör ekki leyfð við endurteknar svokallaðar fimm mínútna ræður. Með þessum breytingum er verið að færa andsvörin í það horf sem til var stofnað í upphafi við afnám deildanna 1991.“[xxix]

            Sumir þeir sem nú vilja skerða málfrelsi annara þingmanna eru í hópi mestu strigakjafta sem sést hafa á Alþingi. Þeir hafa verið þingmenn lengi, eða svo lengi sem elstu menn muna. Er það vel þekkt í stjórnmálasögunni að sumir menn telja sig ómissandi og spillast í réttu hlutfalli við tímann sem þeir halda völdum. Valdhroki og yfirgangur verða gjarnan mjög ráðandi þættir í stjórnunarstíl sömu manna. Það sem þó vekur e.t.v. mesta athygli er hversu auðvelt þessum mönnum reynist að skipta um skoðun. Þeir fullyrða og lofa öllu fögru fyrir kosningar en ætla sér aldrei að standa við eitt né neitt [aðildarumsókn að ESB eða hvað annað]. Þessir menn eru fljótir að selja „sannfæringu“ sína fyrir ráðherrastóla eða embætti sem í huga þeira sjálfra eru mikilvæg.

            Íslenskir kjósendur vita hins vegar að mafían [íslensk og erlend] ræður förinni og beitir þingmönnum fyrir sig eins og strengjabrúðum. Það hefur mjög sýnt sig t.d. í orkupakkamálinu. Stjórnarþingmenn kusu að þegja þunnu hljóði í vor [vafalaust verið ráðleggingar „almanntengla“ „djúpríkisins“] þegar málið var til umræðu en rifu kjaft í blaðagreinum og kölluðu frammí ræður þeirra sem stóðu vaktina á Alþingi. Þeir sem þar brugðust þjóðinni eiga eilífa skömm skylda. Sömu stjórnarþingmenn vilja síðan takmarka málfrelsi þeirra sem tala gegn yfirgangi og auðlindaráni, verandi sjálfir eins og múlbundnir asnar.

            Núverandi valdastétt hefur brugðist algerlega í auðlindamálunum. Það á jafnt við um þá þingmenn sem studdu orkupakkann á Alþingi sem og forseta Íslands sem sýndi með staðfestingu sinni að hann er auðsveipur sonur valdsins. Allt var það mjög dapurlegt á að horfa. Meirihlutafólk virðist ekki hafa nokkra sjálfstæða skoðun eða taka af skarið um neitt. Óttinn ræður för – óttinn við vilja þjóðarinnar, óttinn við endalok EES-samningsins, óttinn við reiði Norðmanna eða Brusselvaldsins og óttinn við íslensku mafíuna! Þetta má kalla stjórnmál óttans. En þurfi sama fólk að ferðast til annara landa, á kostnað kjósenda, er eins og allur ótti hverfi eins og dögg fyrir sólu!

            Margir sem stunda stjórnmál gera það fyrst og fremst fyrir sjálfa sig [og vegna hagsmuna fjárglæframanna], eða eins og Vilmundur Gylfason sagði: „Þetta fólk er ekki fulltrúar fyrir neinn nema sjálft sig og hagsmuni sína.“ Það kemur sér upp „viðskiptasamböndum“ í gegnum stjórnmálin sem það síðan notar í eigin þágu, jafnvel löngu eftir að það er horfið af þingi. Allt snýst um eigin hag, að komast í spillingu og kjötkatla.

            Hugsjónir hafa ekki sést áratugum saman í íslenskum stjórnmálum – með örfáum heiðarlegum undantekningum. Almenn vanhæfni er ráðandi. Það kom berlega í ljós í umræðum á Alþingi um orkupakka þrjú. Af stuðningsmönnum pakkans reyndust einungis fáeinir skilja hvað raunverulega í honum felst og afleiðingarnar sem af honum hljótast. Þetta er sama fólkið og kaus að ræða málið ekki á Alþingi í vor en birtast í sjónvarpsfréttum og þvaðra um „málþóf“ annara, hafandi þó ekki burði sjálft til þess að ræða málið af nokkru viti.

            Sú gagnrýni kom sannarlega úr hörðustu átt! Um suma þessara þingmanna er reyndar rætt í rannsóknarskýrslu Alþingis, í tengslum við miður siðlega hluti s.s. leikfléttur með einkahlutafélög. Það eitt ætti að vera næg ástæða til þess að viðkomandi þingmenn sæu sóma sinn í því að láta sem minnst fyrir sér fara. En frekja og ófyrirleitni eru systur og vona að allt sé gleymt.

Fer greind almennt hnignandi?

            Eitt af því sem komið hefur fram í umræðu undanfarin er er hvort greind fólks fari almennt hnignandi. Sé það svo má augljóst vera að Alþingi Íslendinga er þar ekki undanskilið. En mælingar á greindarvísitölu fólks benda til þess að síðustu áratugi megi greina versnandi útkomu á greindarprófum. Það er ekki hvað síst áhugavert í ljósi vaxandi mafíustarfsemi s.s. í fjármálakerfinu. Viðbragðsleysi stjórnvalda og eftirlitsaðila [t.d. gagnvart smálánum] verður mun skiljanlegra ef hnignandi greind er þar skýringarþáttur. Glenn Harlan Reyolds er prófessor í lögum við háskólann í Tennessee (University of Tennessee). Hann segir að á meðan stjórnmálamenn tali um aukið bakgrunnseftirlit með byssueigendum þá velti hann fyrir sér hvort það sem raunverulega skorti sé greindarpróf fyrir stjórnmálamenn.[xxx]

[Greindarpróf fyrir þingmenn]

Mæla af viti er mikil rausn,

margur heldur skáli.

Greindarpróf er gefin lausn,

á gömlu vandamáli.

            Hugmyndin er verulega góð og mætti vel heimfæra upp á Alþingi Íslendinga. Góð byrjun væri það að setja greindarpróf sem skilyrði þess að hægt sé að bjóða sig fram. Sjálfsagt og eðlilegt væri að bjóða væntanlegum þingmannsefnum að sitja undirbúningsnámskeið og æfingapróf. Enn fremur yrði samhliða því að gera siðfræðinámskeið að skilyrði og próf í siðfræði. Tryggja þarf að menntun sem slík verði ekki ráðandi þáttur um útkomu úr prófunum. Enda ekki ætlunin að veita menntafólki forgang, heldur einmitt hitt að greina frá óbrenglaða ályktunarhæfni; siðferðiskennd; afstöðu til siðferðilegra álitamála; almenna dómgreind [sem oft skortir á Alþingi] og aðra þætti sem minna skólagengið fólk hefur oft í ríkum mæli.

Nokkrar slóðir sem tengst efni greinarinnar

https://www.inc.com/most-innovative-women-2019.html

https://medicalxpress.com/news/2018-06-iq-scores-1970s.html

https://www.theguardian.com/commentisfree/2018/jun/17/dumbing-down-or-need-better--smarter-measure

https://nypost.com/2013/04/08/we-need-an-iq-test-for-politicians/

https://anonhq.com/hungary-becomes-first-european-country-ban-rothschild-banks/

http://curacaochronicle.com/politics/van-raak-curacaos-politics-is-in-the-grip-of-the-mafia/

https://www.ilfattoquotidiano.it/longform/mafia-and-organized-crime-in-europe/map/

https://www.unodc.org/pdf/crime/forum/forum3_Art1.pdf

https://ecpr.eu/Filestore/PaperProposal/4f8abbf2-48a4-4b22-ab36-1ab7e2d4bb80.pdf

https://www.unodc.org/e4j/en/organized-crime/module-2/key-issues/legal-definitions.html

https://www.loc.gov/law/foreign-news/article/italy-new-law-on-the-protection-of-judicial-witnesses-enters-into-force/

https://rico.uslegal.com/rico-claim/enterprise/

https://supreme.justia.com/cases/federal/us/452/576/

https://www.interpol.int/Crimes/Organized-crime

http://www.organized-crime.de/OCDEF1.htm

https://www.unodc.org/documents/organized-crime/EnglishDigest_Final301012_30102012.pdf

https://www.ayottecarmichael.com/organized-crime-and-gangs

https://www.riskscreen.com/kyc360/news/uk-role-in-money-laundering-scandal-an-absolute-disgrace-says-whistleblower/

http://www.eurojust.europa.eu/press/PressReleases/Pages/2014/2014-11-21.aspx

https://www.cerre.eu/sites/cerre/files/151006_CERREStudy_EnergyTransition_Final.pdf

https://www.oxfordenergy.org/wpcms/wp-content/uploads/2016/12/EU-energy-policy-4th-time-lucky.pdf

https://www.ceep.be/gas-directive/

https://www.hylaw.eu/sites/default/files/2019-02/D4.4%20-%20EU%20regulations%20and%20directives%20which%20impact%20the%20deployment%20of%20FCH%20technologies_0.pdf

https://www.eib.org/attachments/draft-energy-lending-policy-26-07-19-en.pdf

http://www.eufores.org/fileadmin/eufores/Events/National_Parliamentary_Events/Belgium_2019/EUFORES_Budapest_EHOOS.pdf

https://www.abc.net.au/news/2019-07-15/energy-prices-on-the-rise-depite-reregulation-of-the-market/11299192

https://www.accc.gov.au/system/files/Appendix%2011%20-%20The%20Brattle%20Group%20-%20International%20Experiences%20in%20Retail%20El....pdf

https://americanaffairsjournal.org/2017/05/no-free-market-electricity-can-ever/

https://www.pbs.org/wgbh/pages/frontline/shows/blackout/regulation/primer.html

https://www.thebalance.com/deregulation-definition-pros-cons-examples-3305921

https://www.cleanenergywire.org/factsheets/why-power-prices-turn-negative

https://papers.ssrn.com/sol3/papers.cfm?abstract_id=2157193

https://documents.uow.edu.au/~sharonb/critique.html

 

[i]      Lymann, D.M. og Potter, G.W. (2000). Organized Crime. Prentice Hall, p. 495.

[ii]    United States v. Turkette, 452 U.S. 576 (1981).

[iii]   https://codes.findlaw.com/us/title-18-crimes-and-criminal-procedure/18-usc-sect-1961.html

[iv]    http://europam.eu/data/mechanisms/FD/FD%20Laws/Italy/Italy_Penal%20Code_2007_amended%202016.pdf

[v]     Sjá t.d. Miðjan. „Þagnarmúr um 57 milljarða viðskipti“. https://www.midjan.is/thagnarmur-um-57-milljarda-vidskipti/

[vi]    https://www.unodc.org/documents/middleeastandnorthafrica/organised-crime/UNITED_NATIONS_CONVENTION_AGAINST_TRANSNATIONAL_ORGANIZED_CRIME_AND_THE_PROTOCOLS_THERETO.pdf

[vii]  Sjá einnig: Bianchini, E. et. al. (2017). Mafia money pollutes the EU economy. Euobserver. https://euobserver.com/justice/138561

[viii] Lymann op. cit., p. 418.

[ix]    Ibid.

[x]     Ibid.

[xi]    https://www.marketwatch.com/story/netflix-documentary-re-examines-hsbcs-881-million-money-laundering-scandal-2018-02-21

[xii]  „Every top 10 bank fined as £150 billion laundered annually“. (2019). Trilateral IT. https://trilateral-it.com/every-top-10-bank-fined-as-150-billion-laundered-annually/

[xiii] Ibid.

[xiv]  Sjá t.d. frétt Ríkisútvarpsins frá 12. desember 2011. https://www.ruv.is/frett/peningathvaetti-i-islenskum-bonkum

[xv]   Ríkislögreglustjóri. (2019). Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi. Áhættumatsskýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra. https://www.logreglan.is/wp-content/uploads/2019/05/Skip.-gl%c3%a6past.-endanleg-2019.pdf

[xvi]  Sjá einnig: Hanche, L. og Winters, M. (2017). The EU Winter Package - Briefing Paper. Allen & Overy. https://core.ac.uk/download/pdf/79665899.pdf

[xvii] Heimild: https://www.twobirds.com/~/media/pdfs/clean-energy-package-compromise-infographic.pdf?la=en&hash=0C53CD7CBA1707009A256D28093EBDB1C5718AEB

[xviii]       https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=uriserv%3AOJ.L_.2018.156.01.0075.01.ENG

[xix]  https://eur-lex.europa.eu/eli/dir/2018/2001/oj

[xx]   https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=uriserv%3AOJ.L_.2018.328.01.0210.01.ENG

[xxi]  https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=uriserv:OJ.L_.2018.328.01.0001.01.ENG&toc=OJ:L:2018:328:FULL

[xxii] https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=uriserv:OJ.L_.2019.158.01.0054.01.ENG&toc=OJ:L:2019:158:TOC

[xxiii]       https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX:32019L0944

[xxiv]       https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=uriserv:OJ.L_.2019.158.01.0001.01.ENG

[xxv] https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=uriserv:OJ.L_.2019.158.01.0022.01.ENG

[xxvi]       https://acer.europa.eu/en/Electricity/Infrastructure_and_network%20development/Pages/Inter-TSO-compensation-mechanism-and-transmission-charging.aspx

[xxvii]      Sjá enn fremur: Burger, C. og Weinmann, J. (2019). The failure of privatization in the energy sector and why today’s consumers are reclaiming power. Renewable Energy WORLD. https://www.renewableenergyworld.com/2019/06/26/the-failure-of-privatization-in-the-energy-sector-and-why-todays-consumers-are-reclaiming-power/

[xxviii]     Svartletrun mín.

[xxix]       Ávarp forseta Alþingis við setningu 150. löggjafarþings. https://www.althingi.is/tilkynningar/avarp-forseta-althingis-vid-setningu-150.-loggjafarthings

[xxx] Reyolds, Harlan Glenn. (2013). New York Post. https://nypost.com/2013/04/08/we-need-an-iq-test-for-politicians/

 

Fréttabréf