Fara í efni

VÍGVÆÐING NORÐURSKLÓÐA

Ný hervæðing á Keflavíkurflugvelli er liður í vígvæðingu norðurslóða, Norður-Atlantshafsins og Norður-Íshafsins. Hver vígvæðingarfréttin rekur aðra.

A  Á undanförnum mánuðum hefur útvarpið sagt nokkrar fréttir af viðamiklum framkvæmdum á Keflavíkurvelli á vegum (aðallega) Bandaríkjahers, aðstöðu fyrir fleiri kafbátaleitarvélar, íbúðir fyrir meira en þúsund hermenn og uppfærsla ratsjárkerfa í fjórum landshornum. Hægt verður að taka við allt að tveimur orrustuflugsveitum hvenær sólarhringsins sem er, í hverri flugsveit jafnan 18 til 24 orrustuflugvélar o.s.frv. 

B  Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna væntanlegur í opinbera heimsókn til Íslands fjórða september til viðræðna við Katrínu og Guðlaug Þór. RÚV vitnar í vef Hvíta hússins: „Í heimsókninni mun varaforsetinn leggja áherslu á hernaðarlegt mikilvægi Íslands á Norðurslóðum... Einnig verður lagt áherslu á [svo]  aðgerðir NATO gegn umsvifum Rússa á svæðinu og tækifæri til aukinna viðskipta og fjárfestinga.“ https://www.ruv.is/utvarp/spila/frettir-kl-08-00/25233?ep=7gkgdn

C  Að lokinni Íslandsför heldur Pence til Bretlands. Auk efnahagsmála ætlar hann þar að „ræða við Breta um hvernig best sé að stemma stigu við árásargirni Írans í Miðausturlöndum og víðar, og hvernig svara eigi ógninni sem stafi af Kínverjum.“ https://www.ruv.is/utvarp/spila/frettir-kl-08-00/25233?ep=7gkgdn

D  Á heimleið frá Póllandi – til að minnast 80 ára innrásar Þjóðverja þar – kemur Donald Trump við í Kaupmannahöfn til að funda með Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana. Samkvæmt mörgum fréttaveitum er fyrsta atriði á dagskr að „ræða norðurslóðamál“, með sérstöku tilliti til Grænlands. Því til staðfestingar verða á fundinum einnig formaður grænlensku landstjórnarinnar og lögmaður Færeyja. Það sem gerir Danmörku spennandi fyrir forusturíki Vestursins eru yfirráðin yfir Grændlandi sem gefur aðgang að Norður-Íshafinu. Tal hins opinskáa forseta BNA við fjölmiðla um áhuga á að kaupa Grænland talar sínu máli, er púslubiti í þessari mynd. „Trump sagði landlegu Grænlands hernaðarlega mikilvæga og því sé áhuginn fyrir hendi“ segir í fréttum RÚV.  NÝJASTA: Nú hefur Trump aflýst heimsókninni þar sem danski forsætisráðherrann vilji ekki ræða „sölu Grænlands“. Trump er greinilega móðgaður og móðgar Dani á móti. Þá blasir líka við að hernaðarlegt mikilvægi Grænlands var hið eina í heimsókninni sem skipti BNA einhverju máli.

E  Þriðja Bandaríska stórmennið heiðraði Ísland með nærveru sinni, Mike Pompeo í febrúar sl. Hann ræddi við Guðlaug Þór Þórðarson um „hvert sé best að flytja hergögn og annað, til að tryggja öryggi á norðurslóðum“, og sagði að Ísland yrði „ekki vanrækt lengur“. https://neistar.is/greinar/herinn-ut-um-framdyr-inn-um-bakdyr/

F  Bandaríkjastjórn endurræsti í fyrra Atlantshafsflotann (United States Second Fleet) sem hún hafði leyst upp árið 2011. Hún „ætlar honum hlutverk á hafsvæðum fyrir norðan Ísland. Viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli tekur mið af þessu“, skrifar Björn Bjarnason í Mbl. 9. ágúst. http://arc.ci.x-cago.net/data/mbl/20190809/pages/01036/articles/MBL-20190809-01036005.pdf

G  NATO-flotaæfingar við Ísland eru nú haldnar ár eftir ár: Árið 2017, Exercise Dynamic Mongoose, 11 herskip, 5 kafbátar og 2000-3000 sjóliðar frá 9 NATO-ríkjum. Árið 2018, Trident Juncture 10 herskip með um 6000 sjóliða æfðu við Ísland í október (sem var upphaf að 10-falt stærri æfingu í Noregi).

Í maí í vor tók Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu á fundi utanríkisráðherra ráðsins í Rovaniemi í Finnlandi. Samkvæmt hefðinni snúast fundir ráðsins um annað en öryggismál. Á fundinum kom þó skýrt í ljós gildi ráðsins séð af bandarískum sjónarhóli. Pompeo utanríkisráðherra var mættur og lýsti yfir: “Þetta er stund Ameríku til að standa upp sem heimskautaþjóð... Svæðið er orðið að vettvangi hnattrænna valda og samkeppni.“ Pompeo talaði býsna dólgslega á þessum fundi og hann beindi spjótum sínum nú einkum gegn Kína (sem þarna var áheyrnaraðili) og talaði um „ásælni“ Kína á svæðinu, vísandi einkum til norðursiglingaleiðarinnar til Evrópu. Sagði svo: "Árásargjörn hegðun (aggressive behaviour) Kína annars staðar sýnir okkur hvernig Kína mun fara með norðurslóðir.“ https://www.france24.com/en/20190506-pompeo-slams-china-russia-aggressive-arctic-behaviour

 Járnhnefinn og silkihanskinn

Öll framantalin atriði benda í sömu átt og aðeins sá blindi sér enn ekki að norðurslóðir dragast hratt inn í tafl um hnattræn yfirráð. Tafl þar sem Ísland er peð. Peð sem reyndar sýnist spila með af fúsum vilja. Það er visst nýnæmi í ofantöldum yfirlýsingum bandarískra stjórnvalda þar sem þau nefna nú hátt og skýrt sinn raunverulega „strategíska andstæðing“: Kína.

Í fyrra haust var Katrín Jakobsdóttir í útvarpi spurð um afstöðu VG til heræfingarinnar Trident Juncture (við Íslandsstrendur og í Þjórsárdal) og hún svaraði eins og pólitíkus í sleipara lagi: „Við segjum því að við erum reiðubúin að standa bakvið þjóðaröryggisstefnu Íslands sem auðvitað fjallar um miklu meira en þessa hluti. Hún fjallar um loftslagsvá, efnahagsvá, náttúruvá og margt fleira sem þar er undir og í raun og veru sérstakt fagnaðarefni að við höfum komið okkur þó saman um það, meirihluti Alþingis, um þjóðaröryggisstefnu sem byggir þá á mjög breiðum grunni því þetta er auðvitað miklu víðtækara en svo að þetta snúist bara um hernaðarógn.“  https://www.ruv.is/frett/thurfum-ad-bua-okkur-undir-ymsar-ognir?fbclid=IwAR37hJGgpTdFlL74kJ6SxCcf5orV0UKmEc5f89lg2Lx1PiY4a-kbdeg69BA Þetta kallast að sminka staðreyndirnar eða drepa þeim á dreif. VG skorast ekki undan ef skjóta skal flugskeytum á Damaskus, styðja refsiaðgerðir gegn Rússlandi eða Venesúela, bjóða Trident Juncture heim eða endurhervæða Miðnesheiði en kappkostar að sminka veruleikann og og koma silkihanska á járnhnefann. Það er draumur í dós fyrir heimsvaldasinna ef frjálslyndir vinstri menn og friðarsinnar ganga í það hlutverk.

 Guðlaugur Þór og Rússahættan

„Frá því að ég tók við sem utanríkisráðherra hef ég verið að vekja athygli kollega minna, bæði í Norður-Ameríku og sömuleiðis í Evrópu, á mikilvægi norðurskautssvæðisins vegna þess að við erum að sjá miklar breytingar á næstu árum“, segir Guðlaugur Þór Þórðarson og vísar til siglingaleiðarinnar norðan Asíu sem verði brátt eins og „langur Suez-skurður“. Hann bendir ennfremur sérstaklega á umferð rússnekra kafbáta „í grennd við Ísland“: „Það er fullyrt af þeim sem þekkja til og hefur komið fram í opinberri umræðu að þetta eru jafnvel meiri umsvif en voru á dögum Kalda stríðsins.“ https://www.ruv.is/frett/storaukin-vidvera-hermanna-vid-island Staðfestar fréttir af þessum „miklu umsvifum“ Rússa í grennd við Ísland höfum við samt ekki fengið ennþá. Verðum að láta orðróminn duga.

Guðlaugur Þór er ein röddin í hinum enduruppvakta kaldastríðskór sem syngur nú beggja vegna Atlantshafs. Rússar eru aftur hin mikla ógn. „Allt bendir til“ að þeir hafi blandað blandað sér í bandarísku forsetakosningarnar, þeir eitruðu, „að öllum líkindum“, fyrir Skripalfeðginin, „ýmislegt bendir til“ að þeir standi á bak við Julian Assange og uppljóstranir hans. Kafbátar þeirra streyma“áreiðanlega“ gegnum GIUK-hliðið o.s.frv.

Í viðbót við margs kyns orðróm kemur svo ein gallhörð staðreynd: Rússar hernámu Krímskaga 2014 og brutu með því þjóðréttarreglur. Þessi atburður dregur ansi langan slóða og er sagður hafa „breytt öllu“ í Evrópu. En hann breytti samt ekki því að skaginn sem Rússar hernámu var eftir sem áður aðallega byggður Rússum og hýsti áfram stærstu og elstu flotastöð Rússa.

 Grýlan og raunverulegi keppinauturinn

Rússland er ekki hnattveldi. Heldur risastórt land sem á nóg með að verja sín eigin umsetnu landamæri. Rússland stundar sáralítinn fjármagnsútflutning til annarra landa (nema hvað ólígarkar senda út peninga í skattaskjól) og í keppninni um heimsmarkaðinn er Rússland dvergur. Í samhenginu er Rússland aðeins vanþróaður hrávöruútflytjandi, hefur þess vegna litla innri efnahagslega hvata til útþenslustefnu.

Rússland er svæðisbundið stórveldi og ver hagsmuni sína sem slíkt – sem það hætti að gera á niðurlægingartíma Jeltsínáranna. En Rússland hefur sterkan her sem byggir á Sovéthernum, og er kjarnorkuveldi. Þess vegna geta Rússar ógnað andstæðingum sem komast upp að húsvegg þeirra eða gína yfir grannlöndum þeirra. Sýrland og Úkraína eru skýrustu dæmin um það.

Það eru ekki Rússar sem æfa stríð í nágrenni Íslands heldur Bandaríkin og NATO. Það eru ekki Rússar sem æfa stríð í nágrenni BNA eða NATO-stórvelda. Það er þveröfugt, BNA og NATO vígvæðast í Skandinavíu og allri línunni vestan Rússlands eftir austurþenslu NATO. Hernám Rússa á Krímskaga kom í kjölfar valdaskiptaaðgerðar í Kiev sem stjórnað var af CIA og sem boðaði inngöngu Úkraínu í NATO. Það  hefði þýtt eldflaugaskotpalla NATO á nær öllum vestulandamærum Rússlands. Hernám Krím er þjóðréttarbrot en verður samt að skoðast í ljósi slíkrar martraðar.

Það sjá allir sem vilja sjá að hinn eiginlegi andstæðingur Bandaríkjanna og Vestursins á taflborði heimsveldanna er ekki Rússland heldur Kína. Öfugt við Rússa er Kína hnattveldi, hratt rísandi efnahagslegt hnattveldi sem siglir fram úr BNA og Vestrinu á einu sviðinu af öðru. Við því eiga Bandaríkin og NATO ekki nema eitt svar: hernaðarmátt og vígvæðingu, þar hafa þau skýra yfirburði. En til að virkja þetta yfirburðatromp, vígvæðinguna, þarf ógnina, djöfullega óvinamynd: Það er hlutverk Rússagrýlunnar og stjórnvöld Kína munu líka verða djöfulgerð í djöflagerðarmaskínu vestrænna fjölmiðla, óhjákvæmilega eins og öll litlu óþægu löndin sem óhlýðnast Vestrinu og mega þola árás. Hingað til hafa bandarísk stjórnvöld dregið við sig að útnefna þennan „strategíska andstæðing“ sinn, en eins og ofannefnd ummæli þeirra sýna verður það nú smám saman opinbert.

 „Herskáasta þjóð mannskynssögunnar“ og Ísland

Ummæli Mike Pompeos um „árásargjarna hegðun Kína“ hljóma samt ekki sannfærandi. Jimmy Carter fyrrum forseti sagði í vor frá nýlegum fundi sínum með Donald Trump. Forsetinn hafði áhyggjur af hröðum efnahagsvexti Kínverja. Carter vildi skýra vöxtinn með friðar-ágóða Kína: „Frá því 1979, vitið þið hve oft Kína hefur verið í stríði við einhvern“ spurði Carter. „Við engan, á meðan við höfum verið í óslitnu stríði...“ Carter bætti við að Bandaríkin hefðu haldið frið í 16 ár af 242 ára tilveru sinni sem þjóð. Ef styrjaldir, hernaðarárásir og hernám eru öll talin með hafi raunar friðarárin í sögu Bandaríkjanna aðeins verið fimm... Carter kallaði síðan Bandaríkin „herskáustu þjóð mannkynssögunnar (the most warlike nation in the history of the world)“.   https://www.telesurenglish.net/opinion/Jimmy-Carter-Lectures-Trump-US-Is-Most-Warlike-Nation-in-History-of-the-World-20190418-0020.html

Þegar þessi „herskáasta þjóð mannkynssögunnar“ efnir til úlfúðar og stríðsæsinga við annað mesta kjarnorkuveldi heims og við hið framstormandi efnahagsveldi austursins finnst íslenskum stjórnvöldum sjálfsagt að vera með í því. Af hverju ekki? Íslenska stjórnmálaelítan í heild styður það – ekkert stjórnmálaafl á Alþingi skerst úr leik. Eða hvað?

Greinin birtist einnig í Neistum, vefriti Alþýðufylkingarinnar.