Kári skrifar: FRJÁLST FLÆÐI Á "VÖRUM", SÝNDARSANNLEIKUR OG FJÁRGLÆFRAMENNSKA - ÞRIÐJI ORKUPAKKINN

      

            Í umræðunni um þriðja orkupakkann, undanfarna mánuði, hafa helstu talsmenn ríkisstjórnarinnar talsvert hamrað á því að rafmagn sé „vara“. Þar er stuðst við skilgreiningu ESB. Samkvæmt því fellur rafmagn undir reglur Evrópuréttarins um frjálst flæði. Um innri markað ESB er fjallað í greinum 26-27 í Lissabon-sáttmálanum. Um frjálst flæði gilda reglur innri markaðarins og koma fram í sama sáttmála [TFEU] greinum 28-37.

            En af lykilreglum innri markaðar Evrópu er reglan um gagnkvæma viðurkenningu (die gegenseitige Anerkennung). Reglan kemur víða við sögu. Á sviði viðskipta með vörur felur hún í sér að vörur sem eru löglega framleiddar og markaðssettar í einu aðildarríki ESB má flytja hindrunarlaust á milli aðildarríkja. Stefnumarkandi mál Evrópudómstólsins þar er mál 120/78 Re Cassis de Dijon [1979] ECR 649.[i] Í málinu var deilt um innflutning á líkjör frá Frakklandi til Þýskalands. Niðurstaðan varð í stutt máli sú að þar sem Cassis de Dijon væri löglega framleiddur og markaðssettur í Frakklandi skyldi það sama gilda í Þýskalandi [og þar með í öðrum ríkjum á innri markaðnum]. Þessa reglu má flokka meðal grunnreglna í Evrópurétti.

            Þetta þarf að hafa í huga þegar rætt er um það að íslensk stjórnvöld hafi lagningu sæstrengs algerlega á sínu valdi eftir að hafa þó samþykkt aðild að innri orkumarkaði Evrópu. Þversagnirnar eru slíkar í þeim málatilbúnaði öllum saman að mikla undrun vekur.

Undirbúningur og framkvæmd sæstrengs

            Þegar rætt er um sæstreng í tengslum við þriðja orkupakkann er því stundum haldið fram að samþykkt pakkans skipti engu máli á meðan ekki sé lagður strengur. Þetta er furðuleg röksemdafærsla og stenst auðvitað ekki. Það verða að teljast nokkur tíðindi í umræðunni það sem fram kom í viðtali Hauks Haukssonar, á Útvarpi Sögu, við forsætisráðherra Noregs, Ernu Solberg.[ii]

            Sumt sem þar kom fram hefur verið túlkað þannig að Íslendingum beri að sýna „samstarfsvilja“ og veita Dönum rafmagn. Sé það rétt, er það enn einn steinninn í þá vörðu að búið sé að semja um lagningu sæstrengs í kjölfar innleiðingar þriðja orkupakkans – á bakvið íslensku þjóðina! Eða hefur hún verið spurð álits á þessu? Ef svo er, hvenær? Það er hreint öfugmæli að vísa síðan til „leikregna lýðræðisins“ á Alþingi. Allt þetta ferli hefur hingað til verið „neðanjarðar“ og stjórnvöld sannarlega ekki verið útausandi á upplýsingar um gang mála. Síðan er vísað til þess að á norska stórþinginu hafi sama mál, orkupakkinn, verið rætt í heila fjóra og hálfa klukkustund, eins og það séu rök í málinu![iii] Algerlega galinn málflutningur.

            Það má fullyrða að málið hafi einnig verið mjög vanreifað í Noregi. Enda hefur það komið í ljós. Talið um íslensku „fyrirvarana“ var einungis aðferð sem átti að friðþægja (og blekkja) ákveðna alþingismenn til fylgilags. Aðferðin er vita gagnslaus að Evrópurétti, eins og þeim er ljóst sem hann hafa numið. Það er raunar alveg furðulegt að nokkrum embættismanni í ráðuneyti skyldi detta í hug að slíkt hefði eitthvert gildi. Líklegra er að þeir hafi einmitt ekki trúað því sjálfir heldur talið „fyrirvarana“ „gott deyfilyf“. Sé það rétt má ætla að sársauki sumra verði mikill þegar „deyfingin“ fer að minnka. Þá munu þeir sömu sjá að þeir voru hafðir að fíflum.

            Hafi einhverjir þingmenn, raunverulega, skipt um skoðun á grundvelli fyrirvaranna er augljóst að þeir hafa verið blekktir illilega. Þarna gildir nefnilega, að „vatn rennur ekki upp í móti“. Samt finnst t.d. svokallað félagshyggjufólk í VG; frjálshyggjumenn og frjálshyggjukratar sem reyna enn að halda því fram, þvert á alla skynsemi. Sé reynt að benda þessu sama fólki á þá staðreynd, þrætir það, hættir að sjá og heyra, en fullyrðir í örvæntingu sinni að fyrirvarar haldi sem geta eðli málsins samkvæmt aldrei haldið! Það má kalla fullkomna afneitun.

            Málið er einfalt: fyrirvarar sem ekki er samið um og fá staðfestingu innan sameiginlegu EES-nefndarinnar hafa ekkert lagalegt gildi að Evrópurétti. Jafnvel þótt slíkum fyrirvörum væri fyrirkomið í íslenskum lögum (þ.e.a.s. ekki í reglugerð) þá hefðu þeir samt ekkert laglegt gildi gagnvart Evrópurétti. Enn fremur, ákvæði í stjórnarskrá víkja fyrir Evrópurétti stangist þau á við hann. Um það eru dómafordæmi. Af þessu ætti að sjást hve fráleit umræðan um trygga fyrirvara er, nær ekki nokkurri átt.

            Varðandi lagningu sæstrengs, og fullveldi Íslands, er rétt að fólk hafi í huga að það er ekki hægt að framselja hluta fullveldis (ríkisvalds) en telja þó að ríki hafi áfram óskert fullveldi. Með aðildinni að EES var ákveðnum hluta fullveldisins afsalað. Ísland varð skuldbundið til þess að taka upp m.a. reglur um fjórfrelsið svokallaða. Flutningur rafmagns um sæstreng (innri markaður Evrópu) lýtur m.a. reglum fjórfrelsisins um „frjálst flæði vara“. Þ.e.a.s. hluti þess fullveldis sem afsalað var er á sama sviði, á sviði viðskipta með vörur innan Evrópska efnahagssvæðisins.

            Þar af leiðandi er afar sérkennileg nálgun að hægt sé að afsala sér hluta fullveldis (EES) en telja að íslenska ríkið geti síðan beitt „fullveldisrétti“ á sama sviði til þess að hefta markmið þriðja orkupakkans, um samtengingu aðildarríkjanna. Þetta verður enn augljósara ef Ísland hefði afsalað sér öllu fullveldinu til erlendrar stofnunar (eða annars ríkis). Í krafti hvaða fullveldisréttar ætti Ísland þá að skáka á eftir? Það verður ekki bæði sleppt og haldið.

Sýndarsannleikur og almannatenglar

            Helst verður dregin sú ályktun að upplýsingaleynd jafngildi „leikreglum lýðræðisins“ í huga sumra þingmanna. Samkvæmt því er hámarkslýðræði náð þegar upplýsingaleyndin er alger. Öll gagnrýni sem komið hefur fram um þriðja orkupakkann er frá aðilum sem stjórnvöld stýra ekki. Sumir fjölmiðlar og svokallaðir „almannatenglar“ (public relations) fást hins vegar við að „búa til veruleika“, eru í vasa stjórnvalda og reka áróður þeirra.

            Almannatenglar fást ekki við það að greina hvað er rétt og rangt heldur „endurskilgreina“ hugtökin og setja fram ákveðinn „sýndarsannleika“. Reyna síðan að selja hann fólki og fyrirtækjum. Vandamál kunna þó að skapast þegar „sýndarsannleikurinn“ og raunsannleikurinn rekast á. Á undanförnum mánuðum hafa stjórnvöld, og tengiliðir þeirra, teflt fram „sýndarsannleika“ um þriðja orkupakkann. Allt hefur það mistekist hrapalega. Íslenskir kjósendur vita vel að þetta er „bara ein lygin í viðbót“. Sá frábæri blaðamaður og ritstjóri, Jónas Kristjánsson, var skarpur greinandi á stjórnmál og þjóðfélag. Um almannatengla sagði Jónas m.a.:

            „Mörg dæmi eru um, að almannatenglar hafi notað netið til að koma lygum og rógi á framfæri, ekki bara í pólitík. Einnig hafa verið settar upp heimasíður og tölvupóstur til að vinna gegn fyrirtækjum, sem almannatenglar starfa fyrir.

            Tölvupóstur er orðin uppáháldsaðferð almannatengla til að halda sambandi við umheiminn. Fréttastjórar hafa séð við þessu og henda slíkum pósti. Þess vegna þurfa margir almannatenglar fyrst að hringja og spyrja, hvort þeir megi senda.“[iv]

            „Djúpríkið“ á Íslandi hefur á sínum snærum ýmsa „skítadreifara“ í þjóðfélagsumræðunni sem ganga erinda fjárglæframanna („íslensku mafíunnar“). Allt hrærist það fólk í heimi sýndarsannleika og boðar fjárglæfra sem mikinn „dugnað“ og merki um „snilli“. Sumir fjölmiðlar taka fullan þátt í því. En þá vaknar spurning: skapa fjárglæframenn einhver verðmæti? Eru þeir ekki einmitt miklir dragbítar á hagsæld þjóðfélaga? Hagnaðist almenningur á Íslandi á skuldasöfnun bankanna og gjaldþrotum í kjölfarið? Var það sérstakur „hvalreki“ fyrir íslensku þjóðina?

            Þriðji orkupakkinn er einn af mörgum „steinum í þessari hleðslu“. Lokatakmarkið er altæk stjórnun braskara og fjárglæframanna sem hafi stjórnmálin algerlega í vasanum. Sú þróun er þegar langt komin! Alþingi má í þessu sambandi líkja við „óhreina borðtusku“ sem aðrir handleika. Það hefur verið ömurlegt að fylgjast með þeirri þróun undanfarin ár.

Glæpamenska í bankakerfinu

            Dugnaður felst ekki í „árangri“ á fjárglæfrabrautinni heldur í andlegum þroska, samkenndinni, varðstöðu um almannaheill og almannahagsmuni. Hin svokallaða „endurreisn“ á Íslandi, eftir hrunið, varð á forsendum fjárglæfranna og fjármagnsins. Það sýndi sig t.d. í háum afskriftum, milljarða afskriftum, til fjárglæframannanna, gríðarlegum húsnæðisvandræðum fólks, þar sem íslenska mafían[v] (og tengist mjög „djúpríkinu“) náði til sín húsnæðinu eftir að fólkið var orðið gjaldþrota og hafði sumt flúið land. Íslenska mafían stjórnar bankakerfinu, auðlindanýtingu og hefur ítök á Alþingi.[vi] Það hefur lengi blasað við. Það er mun víðar en á Ítalíu sem stjórnmál eru spillt. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt.

            Maður er nefndur Dr. Antonio Maria Costa.[vii] Hann er ítalskur hagfræðingur og var á árunum 2002 til 2010 aðstoðarframkvæmdastjóri stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem berst gegn eiturlyfjum og glæpum (UNODC). Áður gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra Evrópska endurreisnar- og þróunarbankans (EBRD), frá 1994-2002, og stöðu framkvæmdastjóra Evrópusambandsins á sviði hagfræði og fjármála [Directorate General for Economic and Financial Affairs] frá 1987-2002.

            Costa varaði m.a. við því að fjármálakreppan [hrunið] gagnaðist skipulagðri glæpastarfsemi. Hann nefnir að svo virðist sem áreiðanleikakannanir (due diligence) hafi algerlega lagst af. Á sama tíma hafi erfitt efnahagslíf haft þau áhrif að fjárveitingar til lögreglu hafi snarminnkað, í Bandaríkjunum og víðar, sem aftur ryðji brautina fyrir frekari glæpastarfsemi.

            Hann segir mun auðveldara fyrir glæpamenn nú að „þvo“ peninga [money laundering] en það var fyrir kreppuna. Bankamenn hafi gert hluti sem séu bæði heimskulegir og „djöfullegir“. Þeir hafi leyft glæpahagkerfi heimsins að verða hluti heimshagkerfisins. Fjárfestingabankamenn, sjóðsstjórar, hráefniskaupendur (commodity traders) og fasteignasalar hafi aðstoðað félög (glæpafélög) við að „þvætta“ hagnað af glæpastarfsemi og verða síðan lögmætir eigendur í rekstrinum [menn raunverulega „þvo sér leið“ inn í reksturinn].

            Bankar hafi þróað flókna fjármálagerninga [afleiður] sem vísvitandi séu gerðir til þess að draga úr gegnsæi og auðvelda ólögmæta starfsemi. Þökk sé þeim [bankamönnum], að glæpafélög hafi orðið fjölþjóðleg fyrirtæki í gegnum peningaþvætti: eins konar mafía.[viii] Þetta er einmitt þróun sem víða á sér stað, að mörkin á milli ólögmæts reksturs og lögmæts eru að verða æ ógreinilegri.

            Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að íslenskt fjármálalíf sé eins og það er, morandi í spillingu og neðanjarðarstarfsemi. Þetta er allt partur af „mafíuvæddu“ fjármálakerfi. Kemur þá enn og aftur að orkumálunum. Þau eru að sjálfsögðu mikilvægur hluti af þessu. Þetta skýrir einnig, að talsverðum hluta, hvers vegna „endurreisnin“ á Íslandi varð á forsendum fjármálakerfisins. Stjórnvöld bogna undan valdi mafíunnar.

            Þannig er því miður komið fyrir fulltrúalýðræðinu – það er orðið að „borðtusku“ fjárglæframanna. Það mun staðfestast eina ferðina enn verði þriðji orkupakkinn samþykktur og tekinn upp í íslenskan rétt.

            Því má bæta við, að ýmsir auðugustu menn í þessu jarðlífi hafa loks áttað sig þeirri „augljósu“ staðreynd að menn taka ekki efnaleg gæði (jarðnesk gæði) með sér til Himnaríkis. Þeir hafa því ákveðið að gefa talsvert stóran hluta af auði sínum til ýmissa mála. Það hlýtur að teljast þroskamerki.

Réttur neytenda versnar, græðgin vex

            Íslenska ríkinu mun aldrei líðast, eftir innleiðingu þriðja orkupakkans, að standa gegn markmiðum hans! Málið er svo einfalt. Réttur neytenda mun versna, með stórhækkuðu raforkuverði,[ix] og „samkeppnin“ enda í fákeppni og einokun, að lokum með gjaldþrotum, þegar græðgin keyrir um þverbak. Þá má almenningur gjarnan taka við og bjarga „einkaframtakinu“. Í því er nákvæmlega enginn „dugnaður“ fólginn heldur einmitt mjög frumstæð hvöt sem heitir græðgi. Hún er af mörgum talin dauðasynd.[x] Um græðgina fórust Mahatma Gandhi svo orð: „Jörðin veitir nóg til þess að fullnægja þörfum sérhvers manns, en ekki til þess að fullnægja græðgi allra“. Af þessu má sjá að græðgin er mun frekari á auðlindir og gæði jarðar en þörfin. Með öðrum orðum, græðgin er „óendanleg“ en þörfin er „endanleg“.

            Orkupakki 3 gengur í ranga átt. Hann gengur í þá átt að upphefja græðgina og hvetja til þess að allskonar braskaralýður og fjárglæframenn keppi sín á milli á markaðstorgi hennar. Það er kallað „innri orkumarkaður Evrópu“. Upphafning og innbygging græðginnar er þannig órjúfanlegur hluti af markaðsvæðingu sem þessari. Græðgin er beinlínis drifkraftur markaðsvæðingar. Hverjir gjalda fyrir það? Því er fljótsvarað; neytendur (almenningur), auðlindir og vistkerfi jarðar! Það eru fórnardýrin á altari græðginnar.

Nokkur atriði um auðlindamálin

            Sú tilgáta[xi] var sett fram hér á þessu vefsetri í vor, þann 29. maí 2019, að lokun stóriðjunnar, og raforkusala um sæstreng, væri stefna VG (og stjórnvalda auðvitað). Greinarhöfundur lætur segja sér það tvisvar ef tilgátan er röng. Það virðist nokkuð ljóst að þessi mál hafa ekki verið hugsuð til enda. Það vantar enn margar breytur í líkanið. Þar með getur útkoman aldrei orðið rétt.[xii] Eftirfarandi atriði koma strax til skoðunar:

1) nýting raforku innanlands eða sala hennar sem „hráefni“ um sæstreng til annara ríkja;

2) mikill virkjanarþrýstingur, í kjölfar innleiðingar þriðja orkupakkans og sölu um sæstreng, sem aftur gengur gegn markmiðum um náttúruvernd;

3) þáttur fjárglæframanna („frjálst flæði“ hentar þeim vel) og gríðarleg skuldsetning innlendra orkufyrirtækja eftir alla „markaðsvæðinguna“. Enn fremur gjaldþrot erlendra orkufyrirtækja sem fjárfest hafa á Íslandi. Þar koma að góðu gagni nokkrar bækur um bandaríska orkufyrirtækið ENRON; sem og um orkufyriræki í Kaliforníu;

4) stórhækkað raforkuverð innanlands sem Íslendingar verða látnir bera sjálfir, enda „helgar tilgangurinn meðalið“;

5) samkeppnisforskot á Íslandi vegna lægra raforkuverðs, miðað við önnur Evrópuríki;

6) staða Íslands til framtíðar sem „hrávöruútflutningsríkis“;[xiii]

7) orkuskipti innanlands (rafmagn til skemmtiferðaskipa etc.);

8) staða Landsvirkjunar á komandi árum;

9) fjárvarsla, ávöxtun og fleira sem tengist „þjóðarsjóðnum“ og stofnaður er til þess að gera bröskurum og fjárglæframönnum fært að ræna arði úr sameiginlegum orkulindum þjóðarinnar.

Orkustefna - spilling og glæpir innan orkufyrirtækja

            Það er kunnara en frá þurfi að segja, að orkupakki 3 sem nú er ræddur, og þá auðvitað oft í tengslum við lagningu sæstrengs, er einungis ein varða á langri leið. Í stóra samhenginu snýst málið um það hvort Íslendingar sem þjóð vilja MARKAÐS- OG EINKAVÆÐA orkulindirnar. Það er nokkuð kaldhæðnislegt til þess að vita að þar renna saman í einn farveg sjónarmið öfga-frjálshyggjumanna og hægri-krata.

            Báðir hópar eru æstir í markaðsvæðingu og telja það svarið við sérhverjum vanda þjóðfélagsins. Þetta eru með öðrum orðum, trúarbrögð þessa fólks. Það talar fjálglega um rafmagn sem „vöru“ þótt enginn rökstuðningur liggi þar að baki, annar en sá að þannig sé það innan ESB. Spurningin sem þá þarf m.a. að svara er þessi: hvers vegna ættu menn að samþykkja þá skilgreiningu og gera hana að sinni?

            Það er mjög mikilvægt að hafa ætíð á hreinu að allar þessar tilfæringar (aðgreining framleiðslu og dreifingar etc), markaðsvæðing og einkavæðing eru fjandsamlegar hagsmunum almennings og neytenda. Rafmagn er ein af grunnstoðum samfélagsins og það er fráleitt að hleypa fjárglæframönnum í sameiginlegt gullegg þjóðarinnar. Þjóðin hreinlega VERÐUR að losa sig við alla stjórnmálamenn sem svo mikið sem ljá því máls, að ekki sé talað um forhertan ásetning og stuðning. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Kverkatak íslensku mafíunnar á þjóðinni þarf að losa.

            Ísland á að þróa sína eigin orkustefnu, byggða á þeim gildum sem löngum hafa ríkt, eða allt frá stofnun Landsvirkjunar árið 1965. Byggja skal á því sjónarmiði að rafmagn sem slíkt sé þjóðfélagsleg undirstaða, hvorki „vara“ né „þjónusta“. Raforkuverð til neytenda ráðist af þessum sjónarmiðum en lúti ekki lögmálum framboðs og eftirspurnar (sé ekki „markaðsvara“). Það mun reynast gæfuríkt til langrar framtíðar og gefa ýmsum atvinnugreinum (t.d. bakaríum, grænmetisbændum o.s.frv) dýrmætt forskot í samkeppninni um hylli neytenda.

            Eitt af stóru vandamálunum við „markaðsvæðinguna“ og „einkavæðinguna“ er nefnilega það að hvort tveggja felur oftar en ekki í sér „ránsvæðingu“. Heilu samfélögin eru bókstaflega rænd, í krafti lagasetninga og „innleiðinga“. Ágóðinn, sem vissulega verður oft mikill, lendir allur inná fjarlægum bankareikningum og þjóðirnar sjá aldrei neitt af honum. Honum er einfaldlega stolið! Þannig verður það að sjálfsögðu. Það er hin blákalda staðreynd málsins. Stóra, undirliggjandi vandamálið er því AUÐLINDARÁN. Gjáin, sem myndast hefur á milli þings og þjóðar, í orkupakkamálinu er tilkomin sökum þess að stjórnmálastéttin íslenska er, eins og komið er fram, „borðtuska“ fjárglæframanna og gætir hagsmuna þeirra. Þeir hagsmunir eru hins vegar algerlega andstæðir hagsmunum þjóðarinnar. Þjóðin hefur engan hag af því að láta ræna sig! Það má öllum ljóst vera.

            Víkjum þessu næst að stöðu einkarekinna orkufyrirtækja. Eitt af því sem einkennir mörg einkarekin orkufyrirtæki er mikil skuldsetning, jafnvel ofurskuldsetning og gjaldþrot.[xiv] Ekki hefur einkavæðing raforkugeirans verið neytendum hagfelld í Nígeríu en það er e.t.v. það ríki sem best er að hafa til viðmiðunar þegar íslensk einkavæðing er til umræðu.

            Framleiðsla, og dreifing, á rafmagni var einkavædd árið 2013 í Nígeríu. Usman Gur Mohammed, framkvæmdastjóri raforkudreifingarfyrirtækisins TCN[xv] í Nígeríu viðurkennir að mistök hafi verið gerð í einkavæðingarferlinu en styður þó einkavæðingu á sviði orkumála.[xvi] Samskonar rök hafa einnig heyrst á Íslandi, t.d. um einkavæðingu bankanna. Sumir hafa reynt, meira að segja eftir hrunið, að réttlæta einkavæðinguna sem slíka; telja einungis að „ekki hafi verið rétt að henni staðið“! Það er gott fyrir það sama fólk að vita að það á skoðanabræður í Nígeríu sem telja þetta einungis spurningu um „rétta aðferð“.

            Svo virðist sem margir forðist að viðurkenna þá staðreynd að t.d. einkarekinn bankarekstur, og rekstur einkarekinna orkufyrirækja, er oft og tíðum stórfelld, skipulögð glæpastarsemi. Snýst ekkert um „mistök“, „óheppni“ eða annað í þeim dúr, heldur þaulskipulagða glæpastarfsemi. Nú vilja menn á Alþingi [meirihlutinn] ólmir og uppvægir „opna dyrnar“ að orkulindum Íslands fyrir nefndri glæpastarfsemi, því sú verður að sjálfsöðu raunin þegar búið er að „opna“.

            Enginn „duglegur“ fjárglæframaður lætur slíkt tækifæri sér úr greipum ganga, hafandi bæði regluverk ESB og „borðtuskurnar“ á Alþingi Íslendinga að baki sér. Tug- og hundrað milljarða gjalþrot orkufyrirtækja ættu því engum að koma á óvart á næstu árum og áratugum.

            Sumir munu snúa út úr og segja sem svo að hægt sé að safna skuldum í hvaða reskstri sem er, að aldrei verði gyrt fyrir það. Þetta eru hins vegar haldlítil „rök“ í þessu sambandi. Hvers vegna? Í fyrsta lagi skiptir regluverkið miklu máli. Hversu fljótt og hvernig gripið er til rástafana. Það skiptir miklu máli hvað grein er um að ræða. Halda menn að skuldasöfnun íslensku bankanna hefðu verið jafnauðveld í hvaða annari grein sem vera skal? Bankar og Orkufyrirtæki[xvii] eru almennt mjög ákjósanlegur vettavangur til þess að stunda glæpastarfsemi[xviii] eins og komið er fram. Það stafar af eðli starfseminnar.

            Í fréttabréfi Alþjóðabankans frá árinu 2000 er fjallað um þetta. Þar segir m.a. að grein orkumála (energy sector) með flókinni blöndu af opinberum reksti og einkarekstri, og oft einokunarstöðu, sé viðkvæm fyrir spillingu. Greinin [orka] skapi mikar tekjur samanborið við önnur innviðafyrirtæki. Tækifæri til ólöglegs ábata séu því mikil.[xix] Það er full ástæða til þess að vara mjög við þeirr hættu sem því fylgir að opna fjárglæframönnum [og mafíósum] leið inn á íslenskan orkumarkað, með innleiðingu orkupakka 3 sem er ein varðan á leið til algerrar „markaðsvæðingar“ [„mafíuvæðingar“] orkumálanna. Það hefur vægast sagt gefist illa í bankaheiminum, um allan heim. Orkumál á Íslandi eiga ekki að vera vettvangur alþjóðlegrar glæpastarfsemi, með botnlausri skuldasöfnun og gjaldþrotum í kjölfarið. Orkustefna Evrópusambandsins hefur af sumum fræðimönnum verði nefnd „hættuleg tilraun“. Steve Thomas,[xx] prófessor í orkurétti við háskólann í Greenwich í Englandi, tekur fram að líkan ESB byggir á heildsöluvörumarkaði, til þess að ákveða verð, lágmarka aðgangshindranir og senda fjárfestum merki. Hann segir hvergi í heiminum vísbendingar um það að tilraunin muni heppnast.[xxi] Segjum nei við „einkavæðingu[xxii] ala Russía“, segjum nei við glæpavæðingu orkumálanna, segjum nei við orkupakka 3!

 ENRON.PNG

Fyrrum forstjóri orkufyrirtækisins Enron, Kenneth Lay, í fylgd glæsikonu á leið í dómsal[xxiii]

Nokkrar slóðir sem tengjast efni greinarinnar:

https://www.economist.com/briefing/2013/10/15/how-to-lose-half-a-trillion-euros

https://www.vox.com/2019/1/14/18182162/pg-e-camp-fire-bankruptcy

https://home.kpmg/xx/en/home/insights/2018/08/european-power-and-utilities-report-q2-2018.html

https://qz.com/india/996242/indias-electricity-companies-have-surplus-power-and-thats-a-big-problem/

https://economictimes.indiatimes.com/industry/energy/power/states-to-face-fund-cuts-for-missing-uday-targets/articleshow/70779596.cms

https://blogs.worldbank.org/ppps/breathing-new-life-power-utilities-through-debt-restructuring-tools

https://www.moneysavingexpert.com/news/2017/10/energy-firms-ordered-to-do-more-to-help-those-in-debt/

https://www.creditriskmonitor.com/blog/reviewing-2018%E2%80%99s-largest-energy-bankruptcies-more-trouble-ahead

https://oilprice.com/Energy/Energy-General/The-10-Biggest-Energy-Company-Bankruptcies.html

[i]      Arrêt de la Cour du 20 février 1979. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/FR/ALL/?uri=CELEX:61978CJ0120

[ii]    https://utvarpsaga.is/loftslagsmal-saestrengur-orkupakkinn-erna-solberg/

[iii]   Fréttablaðið, 31. maí 2019. https://www.visir.is/g/2019190539847

[iv]    Jónas Kristjánsson. 2008. http://www.jonas.is/kennsla/pr-og-auglysingar/

[v]     Sjá einnig: OCCRP - Organized Crime and Corruption Reporting Project. https://www.occrp.org/en/projects?task=view&id=239

[vi]    Sjá enn fremur: EUROPOL. 2013. Threat Assessment. Italian Organised Crime. https://www.europol.europa.eu/sites/default/files/documents/italian_organised_crime_threat_assessment_0.pdf

[vii]  https://www.un.org/press/en/2002/SGA791.doc.htm

[viii] OCCRP op. cit.

[ix]    Sjá t.d.: European Power & Utilities Report - Q2 2018. https://home.kpmg/xx/en/home/insights/2018/08/european-power-and-utilities-report-q2-2018.html

[x]     Seven Deadly Sins. http://www.deadlysins.com/greed

[xi]    http://ogmundur.is/frjalsir-pennar/2019/05/kari-skrifar-hvad-skyrir-stefnu-stjornvalda-um-innleidingu-thridja-orkupakkans

[xii]  Þeim sem áhuga hafa á orkurétti (Energy Law) má t.d. benda á : EU Energy Law and Policy Issues. https://intersentia.com/en/eu-energy-law-and-policy-issues-15357.html

[xiii] Sjá t.d.: Lighthouse Project »Electricity as a Raw Material«.

https://www.fraunhofer.de/en/research/lighthouse-projects-fraunhofer-initiatives/fraunhofer-lighthouse-projects/electricity-as-a-raw-material.html

[xiv]  Sjá t.d.: The 10 Biggest Energy Company Bankruptcies. Oct 10, 2014. https://oilprice.com/Energy/Energy-General/The-10-Biggest-Energy-Company-Bankruptcies.html#

[xv]   Transmission Company of Nigeria (TCN). https://tcn.org.ng/page_about_me_md.php

[xvi]  Abuja, O.N. (2019). Discos’ debt to transmission company hits N231bn. [online] Punch Newspapers. Available at: https://punchng.com/discos-debt-to-transmission-company-hits-n231bn/ [Accessed 23 Aug. 2019].

[xvii] Sjá t.d.: Gennaioli, C. and Tavoni, M. (2016). Clean or dirty energy: evidence of corruption in the renewable energy sector. Public Choice, 166(3-4), pp.261-290. Available at: https://link.springer.com/article/10.1007/s11127-016-0322-y [Accessed 23 Aug. 2019].

[xviii]       Sjá einnig: European Commission. (2019). Examining the links between organised crime and corruption. [online] Seldi.net. Available at: https://seldi.net/publications/publications/examining-the-links-between-organised-crime-and-corruption/ [Accessed 23 Aug. 2019].

[xix]  Laszlo Lovei, and Alastair McKechnie. 2000. The costs of corruption for the poor : the energy sector (English). Public policy for the private sector ; Note no. 207. Washington, DC: World Bank. http://documents.worldbank.org/curated/en/343191468762311247/The-costs-of-corruption-for-the-poor-the-energy-sector

[xx]   http://www.gre.ac.uk/about/schools/business/enterprise/research?a=75254

[xxi]  European Federation of Public Service Unions (EPSU) Press Communication – 13 May 2013. https://www.epsu.org/article/new-study-concludes-eus-internal-energy-market-remains-dangerous-experiment-and-threatens

[xxii] https://www.ucis.pitt.edu/nceeer/1994-808-01-3-Nelson.pdf

[xxiii]       http://www.nbcnews.com/id/5387858/ns/business-corporate_scandals/t/ex-enron-ceo-pleads-not-guilty/#.XWBOCPzLehc

 

 

Fréttabréf