Fara í efni

INNLEIÐING ORKUPAKKA 3 KEMUR ÍSLENSKUM NEYTENDUM AÐ ENGU GAGNI EN ÞJÓNAR HAGSMUNUM FJÁRGLÆFRAMANNA

            Eftir að hafa horft á Silfrið á RUV er betur ljóst en áður að sumir þingmenn leggja mjög sérkennilegan skilning í hugtökin „neytendavernd“, „samkeppni“ og „frjáls markaður“. Sumt af þessu fólki virðist telja að það sé á sama tíma hægt að markaðsvæða og stjórna því hver fær að keppa á sama markaði. Rétt að fólk geri sér ljóst, að eftir að búið er að samþykkja ákveðna markaðsvæðingu, með innleiðingu tilskipana og reglugerða þar að lútandi, gilda reglur Evrópuréttar um viðkomandi starfsemi. Það er ekki hægt á sama tíma að gangast undir ákveðnar reglur en ætla sér líka að hafa fulla stjórn á málum eftir að reglurnar hafa verið innleiddar. Þannig virkar þetta ekki.

            Stuðningsfólk þriðja orkupakkans hélt því m.a. fram í nefndum sjónvarpsþætti að Íslendingar myndu áfram hafa fulla stjórn á öllu sem við kæmi mögulegri lagningu sæstrengs, landgrunni og mannvirkjum sem þessu tengjast. Vel kann að vera að sumir telji að íslensk lög muni halda vel gagnvart Evrópurétti þegar til kastanna kemur. Ég tel það hins vegar alrangt mat. Íslensk lög munu víkja þegar upp kemur ágreiningur, eins og dómafordæmi Evrópudómstólsins í Lúxemborg sýna og sanna. Sumir andstæðingar orkupakka 3 hafa réttilega bent á það að „athafnamenn“ muni láta reyna á stöðu sína gagnvart evrópskum lögum og geri kröfur í samræmi við þau, verði pakkinn samþykktur. Það er algerlega rétt athugað. Nægir að skoða réttarþróun í ESB til þess að sannfærast um það. En ákvæði íslenskra laga geta aldrei gengið gegn, eða gengið á svig, við Evrópuréttinn (s.s. tilskipanir, reglugerðir).


Tilgangslaust að innleiða orkupakkann án sæstrengs í kjölfarið

            Eftir að Ísland hefur tengst innri orkumarkaði Evrópu með sæstreng (einum eða fleirum) er hafið yfir allan vafa að samræmdar reglur Evrópuréttar gilda um öll þau atriði og til þess er leikurinn gerður! En þá að spurningunni um það hvort Íslendingar geti bæði sleppt og haldið á sama tíma – bæði „átt kökuna og étið hana“. Stutta svarið er nei, það er ekki hægt. Það má fullyrða að þjóðinni sé ekki sagt satt í þessu máli. Stjórnmálamenn gæta ekki hagsmuna hennar heldur auðmagnsins – það blasir við. Treysta þjóðinni ekki til þess að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu en sitja þó í umboði hennar á Alþingi! Hvernig má þetta vera? Öll vinnubrögð málsins bera merki gerræðis og hræðslu við vilja þjóðarinnar. Þegar upp er staðið er það ekki samstaða innan þingsins sem máli skiptir heldur hitt hvort vilji þingsins er í samræmi við þjóðarviljann – það er kjarni málsins. Í þessu máli er alveg ljóst að svo er ekki. Þingið böðlast áfram gegn vilja þjóðarinnar. Séu menn í vafa um það, og telji þingið samstiga þjóðinni, þurfa þeir vart að óttast útkomu úr þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mikilvæga mál. En þótt málið sé borið fram í formi þingsályktunar (viljayfirlýsing þingsins) er rétt að hafa eftirfarandi í huga:

            „Við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar er stundum gerður svokallaður stjórnskipulegur fyrirvari skv. 103. gr. EES-samningsins, eða fyrirvari um samþykki þjóðþinga EFTA-ríkjanna, ef þannig ber undir að samþykki þeirra er nauðsynlegt samkvæmt stjórnskipunarlögum.

            Þegar lagabreytingar eru nauðsynlegar er ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni tekin með stjórnskipulegum fyrirvara sem þýðir að ákvörðunin tekur ekki gildi fyrr en Ísland hefur aflétt þessum fyrirvara. Samkvæmt EES-samningnum hefur hvert ríki sex mánuði til þess. Stjórnskipulegum fyrirvara verður einungis aflétt af hálfu Íslands þegar Alþingi hefur veitt samþykki sitt með þingsályktun um að staðfesta megi ákvörðunina og/eða breytt lögum í því skyni. Sé ákvörðun staðfest á grundvelli heimildar í þingsályktun þarf alltaf að fylgja henni eftir með viðeigandi lagabreytingum til þess að gerð teljist innleidd á fullnægjandi hátt.“[i]

            Aðferðafræðin nú (og þjóðin sér í gegnum) er að neita einfaldlega öllum áformum um lagningu sæstrengs. En samt á að innleiða reglur sem byggjast á aðild að innri orkumarkaði Evrópu. Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Líkist því helst að Ástralía sækti um aðild að Norðurskautsráðinu, hafandi engin tengsl við Norðurslóðir. Svona málflutningur er fjarstæðukenndur og segir fólki strax að eitthvað allt annað býr að baki.

Orkustefna Evrópusambandsins

            Orkustefna Evrópusambandsins[ii] og samstarf byggist á nokkrum lagastoðum í Lissabon-sáttmálanum[iii] (TFEU). Þar er um að ræða gr. 194 (orka), gr. 114 (innri markaðurinn[iv]), gr. 122 (framboðsöryggi – security of supply) gr. 170-172 (orkunet – engergy networks) og gr. 216-218 („ytri orkustefna“ - external energy policy).

            Þegar lesin er tilskipun 2009/72/EC um rafmagn er margt sem vekur athygli, ekki síst VI., VII. og VIII. kafli hennar. Í 1. mgr. 32. gr. er t.a.m. fjallað um aðgang þriðja aðila (Third-party access) að flutnings- og dreifikerfum. Þegar Inga Sæland benti á þann möguleika, í Silfrinu, að menn myndu virkja og síðan vilja selja rafmagn inn á sameiginlegan markað var því mótmælt sem misskilningi af öðrum í sama þætti. En þetta er nákvæmlega rétt hjá Ingu Sæland. Það verður nánast ógerningur að standa gegn því ef fram koma „fjársterkir“ aðilar [fjárglæframenn] og vilja kosta lagningu sæstrengs og þannig opna á raforkusölu inn á sameiginlegan markað Evrópu, eftir að „pakkinn“ hefur verið samþykktur.

            Séríslenskir fyrirvarar (hvað þá munnleg loforð) verða algerlega haldlausir í því sambandi. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. tilskipunarinnar er hægt að neita aðgangi að flutnings- og dreifikerfum en þá neitun þarf að rökstyðja mjög vel og neitun verður að byggjast á hlutlægum, tæknilegum og efnahagslegum forsendum [„...based on objective and technically and economically justified criteria“]. Ekki er hægt hér að rekja öll þau mörgu álitamál sem orkupakki 3 felur sér. En t.a.m. má benda á XI. kafla umræddrar tilskipunar. Í 1. mgr. 42. gr. segir t.d.: „Ef upp kemur skyndilega kreppa á orkumarkaði þar sem líkamlegt öryggi eða öryggi einstaklinga, búnaðaðar, mannvirkja eða ástandi kerfis er ógnað, getur aðildarríki tímabundið[v] gert nauðsynlegar varúðarráðstafanir.“ Samkvæmt 1. mgr. 43 gr. verða allar ráðstafanir sem aðildarríki grípa til samkvæmt nefndri tilskipun að vera í samræmi við Lissabon-sáttmálann (TFEU), sérstaklega 30. gr.[vi] hans [sem fjallar um innri markaðinn] um tolla (customs duties) og lög sambandsins (Community law).

Getur Alþingi bæði sleppt og haldið?

            Það er helst að skilja á þingmönnum sem styðja innleiðingu þriðja orkupakkans að ekkert muni breytast við það á Íslandi – að allt vald um framhald mála haldist óbreytt hjá Alþingi. Með þessari „röksemd“ má segja að menn slái ryki í augun á sjálfum sér og kjósi að sjá ekki hið augljósa. Skoðum þá betur hvort Alþingi muni ráða einhverju um lagningu sæstrengs, eftir að orkupakki 3 hefur verið innleiddur.

            Svarið við þessari spurningu liggur að nokkru í gildi fyrirvaranna og áður voru nefndir. Eins og komið er fram munu þeir reynast haldlausir með öllu, í núverandi mynd. Þrýstingurinn sem Alþingi virðist bogna undan felst í hundruðum og þúsundum milljarða sem þarna liggja undir, á formi fjárfestinga í sæstreng, orkuverum (vatnsorka, gufa, vindorka) og mannvirkjum sem þessu tengjast. Erlendir og íslenskir fjárglæframenn ætla sér þar stóran hlut og Alþingi einfaldlega bognar undan þrýstingnum frá þessum aðilum. Þá er þjóðarhagsmunum ævinlega fórnað á altari græðginnar eins og kunnugt er (nægir að nefna kvótann, „bankaránin“ árið 2002, Magma og fleira í þeim dúr). Beint lýðræði er besta lausnin á þessum vanda. Þannig má uppræta klíkumyndun stjórnmálanna. En t.d. Styrmir Gunnarsson hefur árum saman talað fyrir beinu lýðræði.

            Í 58. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS[vii]) er fjallað um réttindi og skyldur annara ríkja í efnahagslögsögu ríkja. Þar er m.a. fjallað um sæstrengi og leiðslur (pipelines). Í 1. mgr. 58. gr. kemur fram að öllum ríkjum (strandríkjum jafnt sem landluktum) er heimilt að leggja sæstrengi og leiðslur í efnahagslögsögu annara ríkja.[viii] Það sem eftir er snýr þá að landhelginni sjálfri sem er 12 mílur eins og menn vita. Þá vaknar sú spurning hvort líklegt sé að Alþingi (sem auðveldlega bognar undan þrýstingi auðvalds) muni leggjast gegn lagningu sæstrengs, í gegnum 12 mílurnar, komi fram „fjárfestar“ [fjárglæframenn] sem tilbúnir eru að kosta lagningu hans alla leið að ströndum Íslands? Það er næstum fullvíst að Alþingi myndi „finna farsæla leið“ til að „greiða fyrir málinu“ og ekki sjá því neitt til fyrirstöðu (og alls ekki vilja þjóðarinnar!). Þingmenn flestir myndu leggjast hundflatir fyrir auðvaldinu eins og svo oft áður. Þannig hefur það lengi virkað.

            Orkustefna hefur lengi vel að mestu leyti lotið stjórnun einstakra aðildarríkja ESB. Þó hefur þar mátt greina tilhneigingu í átt til yfirþjóðlegs valds á þessu sviði. En eftir tilkomu Lissabon-sáttmálans heyrir orkustefna ekki lengur einvörðungu [sbr. exclusive competences, shared competences] undir yfirvöld einstakra aðildarríkja þar sem hlutur ESB fer stækkandi í þessum málaflokki. Það er því algerlega ljóst hvert stefnir innan Evrópusambandsins á sviði orkumála.[ix]

            Í ljósi þessa er vert að leiða alvarlega hugann að því hvaða stefnu Íslendingar, sem þjóð, hyggjast fylgja í orkumálum framtíðarinnar. Öllu sem mögulega eða bókstaflega ógnar yfirráðum íslenskrar þjóðar yfir orkuauðlindum sínum bera að hafna. Alltof mikið er í húfi svo verjandi sé að leggja upp í frekari óvissuferðir vegna innleiðinga með fyrirvörum sem munu auðvitað ekki halda þegar til kemur. Enda felst sterk afstaða með sameiginlegri orkustefnu ESB í því að samþykkja orkupakka 3 - og það í mikilli andstöðu við þjóðina sjálfa. Það nægir að skoða hverjir og hvaða samtök styðja mest orkupakkann til þess að sjá að hagsmunir auðvaldsins eru þar í fyrirrúmi. Nægir að nefna hið sérkennilega „Viðskiptaráð“[x]. Þarf að segja fleira?

            Niðurstaðan er sú að verði opnað frekar á „frjálshyggjuvæðingu“ með orku munu stjórnvöld missa öll tök á þróuninni – verða ekki spurð álits – en verði stjórnvöld til „trafala“ verða þau mjög sennilega kærð til evrópskara stofnana sem þá munu að sjálfsögðu veita „frjálshyggjunni“ brautargengi. Eða út á hvað halda menn að þetta gangi? Allt tal um að íslensk stjórnvöld muni áfram hafa fulla stjórn á rás atburða mun reynast þvættingur og markleysa. En það er enn von - með því að hafna algerlega orkupakka 3. Það á Alþingi að gera, án allra undanbragða.

 

[Glæfravæðing fylgir innleiðingu]

Í glæframönnum gleðihljóð,

geta skapað pressu.

Eignarhald og íslensk þjóð,

alltaf gætt´að þessu.

 

[i]      https://www.stjornarradid.is/verkefni/utanrikismal/evropusamvinna/ees-upplysingaveitan/akvardanataka-innan-ees/

[ii]    Fact Sheets on the European Union. European Parliament. Internal energy market.

       http://www.europarl.europa.eu/factsheets/en/sheet/45/internal-energy-market

[iii]   Sáttmálarnir falla undir það sem á ensku nefnist „primary legislation“. Tilskipanir og reglugerðir falla undir „secondary legislation“.

[iv]    Í inngangi tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 713/2009 um stofnun ACER, (orkustofnunar ESB) er m.a. vísað til gr. 95 í Nice-sáttmálanum (núverandi gr. 114 í Lissabon-sáttmálanum) um innri markaðinn.

[v]     Svartletrun mín.

[vi]    Article 30 (ex Article 25 TEC) „Customs duties on imports and exports and charges having equivalent effect shall be prohibited between Member States. This prohibition shall also apply to customs duties of a fiscal nature.“

[vii]  Sjá enn fremur: Mortensen, B., Duvoort, M., Braun, J. and Hillig, D. (2019). New Gas Market Directive will change balance of power between EU and Member States. [online] Energy Post. Available at: https://energypost.eu/new-gas-market-directive-will-change-balance-of-power-between-eu-and-member-states/ [Accessed 7 May 2019].

[viii] UNCLOS. https://www.un.org/depts/los/convention_agreements/texts/unclos/part5.htm

[ix]    Szulecki, K., Fischer, S., Gullberg, A. T., & Sartor, O. (2016, March 1). Shaping the 'Energy Union': between national positions and governance innovation in EU energy and climate policy. Available at: https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/14693062.2015.1135100

[x]     Viðskiptaráð. https://vi.is/malefnastarf/umsagnir/ekkert-ad-ottast-vid-thridja-orkupakkann/