Fara í efni

Unnar Bjarnason: HÁTÆKNI NJÓSNAKERFIÐ “LifeLog”

DARPA, þróunarstofnun hátæknibúnaðar til varnarmála (e. Defense Advanced Research Projects Agency), var sett á laggirnar árið 1958 í kalda stríðinu eftir að Sovétmenn höfðu skotið Sputnik á braut um jörðu. Stofnuninni var ætlað að þróa hátækni vopn í hernaði gegn þeirri ógn sem stafaði af Sóvétríkjunum. Ekki er ljóst hvenær DARPA hóf þróun á kerfi sem hét LifeLog en það var í janúar 2004 sem DARPA hætti þróun á verkefninu, en það hafði verið unnið í samvinnu við varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Markmið þessa verkefnis var að koma á fót risavöxnu kerfi sem myndi geyma og greina öll samskipti, allar neysluvenjur, samgöngur, GPS hnit, sambandssögu, fjölskylduupplýsingar og lífkenni jarðarbúa. Án þess að gefa nokkra skýringu á hvers vegna hætt var við verkefnið, aðra en "breytingu á forgangsröðun", var Facebook hleypt af stokkunum í febrúar sama ár (2004). Eða í mánuðnum eftir að "hætt" var við Lifelog. 

Facebook hafði áður heitið FaceMash og verið notað innan háskólanna í Bandaríkjunum með raunverulegum upplýsingum og nöfnum nemenda. Það var nýjung.

Á þessum tíma var Myspace einn vinsælasti samskiptamiðillinn en hann hafði verið settur á laggirnar árið 2003. Þar notaðist fólk yfirleitt við gælunöfn. Á sama tíma á Íslandi var hugi.is einnig nokkuð vinsæll samskiptamiðill. Þar talaði fólk um hin ýmsu málefni einnig undir gælunöfnum. Það sama á við um önnur samskipta forrit eins og MSN messenger og forrit sem töluðu í gegnum IRC staðalinn sem dæmi. Fólk var yfirleitt ekki að tala undir réttu nafni, hvað þá fullu nafni. Þetta var “normið” þá. Myspace var svo keypt af fyrirtæki Rupert Murdoch, News Corporation, árið 2005, en Myspace var stærsti vefur Bandaríkjanna árið 2006 með fleiri heimsóknir en sjálf leitarvélin Google. Það var svo árið 2009 sem Facebook tók forskotið yfir Myspace en þá höfðu notendur Myspace meira og minna fært sig yfir á þetta nýja fyrirbæri, Facebook en árið 2010 skilaði Facebook fyrst gróða og hafði þá verið rekið í heil 6 ár með tapi.

Hvort sem þetta eru allt tilviljanir eða hvort þarna hafi ákveðinni atburðarrás verið stjórnað, þá hefst hér nýtt “trend” í internet sögunni. Á þessu nýja fyrirbæri skrifaði fólk undir réttu nafni þrátt fyrir að meðferð persónuupplýsinga þess hafi í besta falli verið óljós. Í stað nafnleyndar gaf fólk viljugt upp hverskyns persónuupplýsingar. Svo sem fullt nafn, síma, netfang, sveitarfélag, sambandsstöðu (og með hverjum), hvert það fór í skóla, hvar það vinnur, hver fjölskyldutengsl þeirra eru við aðra notendur, trúarskoðanir, stjórnmálaskoðanir og fleira í þeim dúr. Því meira sem hægt var að fylla inn í, þeim mun betra. Þetta byrjaði þó ekki svona ákaft heldur stigmagnaðist. Eftir að fólki fannst eðlilegt að gefa upp ákveðnar upplýsingar þótti því ekki tiltökumál að láta eftir aðrar upplýsingar. Það eru víst “allir” að þessu hugsaði það kannski. Þessa stigmögnun mætti kalla “framleiðslu á samþykki” eða á ensku “manufacturing consent”. Nú þykir ekkert eðlilegra en að deila myndum og myndskeiðum af sjálfum sér, vinum og fjölskyldu, myndum af börnunum sínum ásamt allri meðgöngusögunni, persónulegum sigrum, sögum af erfiðleikum, sambandsslitum í beinni og hvað þetta er nú allt saman sem fólk deilir nú á Facebook. Oftar en ekki blasa slíkir póstar á tímalínu fólks við öllum þeim sem fara inn á prófíl notandans. En burtséð frá því hvað aðrir notendur sjá um þig, þá skulum við aðeins íhuga hvað kerfið Facebook veit um þig…

Það sem fólk kannski áttar sig ekki fullkomlega á er að vefurinn skráir niður alla þá tengla, þ.á.m. ytri síður, sem notandi smellir á innan vefsins. Einnig hefur Facebook orðið uppvíst af því að skrá niður ókláraða statusa og skilaboð, statusa og skilaboð sem þú deildir aldrei. Þetta er fyrir utan það sem Facebook augljóslega geymir, þ.e. hverskonar efni þér líkar, hvaða myndbönd þú spilar, hverju þú leitaðir að, öll prívat samskipti þín við aðra notendur, öll "commentin" þín, hvaða vörum þú hefur áhuga á, hvaða viðburði þú ert að fara á, GPS hnitin þín o.s.frv. Þessu deilir fólk viljugt til Facebook í fullkomlega blindu trausti. Við þetta bætast svo þau gögn sem notendur deila inn á Instagram og WhatsApp. En þessi fyrirtæki eignaðist Facebook árin 2012 og 2014.

Hvað ef við sameinum þessar upplýsingar um þig og þær upplýsingar sem Google* veitan safnar um þig. Þ.e. upplýsingum úr leitarvél Google, Chrome vafranum, Gmail, YouTube, Google Analytics (sem skráir niður hvaða síður þú heimsækir), Google Maps, Google Cloud, Google Drive (skrárnar þínar), snjallsímanum þínum, snjallsjónvarpinu, Firestore gagnagrunni Google, Google Home vörunum, Nest öryggiskerfunum frá Google o.s.frv.? Erum við þá ekki komin með LifeLog kerfið sem DARPA var að þróa en "hætti" við? Og meira til! Og þetta notum við viljug í blindu trausti við bandaríska hernaðarstofnun. Eins og Edward Snowden sagði: “Facebook is a surveillance company rebranded as 'social media'”.

Facebook hefur í gegnum tíðina staðið að ótal félagslegum tilraunum, allt frá árinu 2010. Sumar hverjar sakleysislegar en aðrar varhugaverðar. Twitter þurfti að viðurkenna fyrir þingnefnd að það setji ákveðna notendur og skoðanir í draugsham (e. ghosted). Það lýsir sér þannig að notandi deilir pósti en sá póstur birtist ekki í straumi annarra og er einungis sýnilegur þeim sem deildi eða mjög litlum hópi fylgjenda hans. Þannig geta þessir vefir mótað vinsælar og óvinsælar skoðanir. Það er hæpið að Facebook hafi ekki einnig slíka skoðunarmótandi eiginleika. Nú hefur Facebook og Google farið í aðgerðir gegn svokölluðum falsfréttum. Facebook hefur nú þegar lokað hundruðum síðna sem tengjast fjölmiðlum sem birta aðrar fréttir en birtast í ríkjandi fjölmiðlum. Slíkar síður eru sigtaðar út af stofnun eins og “NewsGuard” og fara í flokkinn samsæriskenningar, falsfréttir eða (rússneskur) áróður. Nýlega var íslenskri Facebooksíðu lokað án fyrirvara eða ástæðu en þar var deilt fréttum af stríðunum í Mið-Austurlöndum. Næstu fórnarlömb eru víst þau sem efast um öryggi bólusetninga. Hver næstu skotmörk verða, kemur líklega í ljós fljótlega. Slíkar aðfarir eru til þess gerðar að draga úr gagnrýnni hugsun. Einskonar ríkisskoðun skal vera sú lína sem leyfð er. Þetta er að gerast núna og er ekkert nýtt. Fréttaveitum hefur verið beitt sem vopni í stríðum frá því að þær veitur litu dagsins ljós. Þessar veitur eru ekki undanskyldar, þvert á móti og því er tímabært að taka þessa notkun okkar á þessum miðlum til róttækrar endurskoðunar.

 *Einkunnarorð Google voru “Don’t be evil” en þau einkunnarorð voru réttilega lögð niður árið 2015.

Höfundur er tölvunarfræðingur og fyrrverandi vefstjóri samfélagsmiðilsins hugi.is