Sigríður Stefánsdóttir skrifar: ÉG FER Í STURTU A.M.K. EINU SINNI Á DAG OG NOTA HÁHRAÐA-TENGINGU ALLAN SÓLARHRINGINN

Þannig hef ég hugsað mér að hafa það svo lengi sem hægt er - með eða án aðstoðar.  Hve lengi er hægt er að halda þessari stöðu fer að sjálfsögðu eftir því hve miklu fjármagni er veitt til velferðarmála svo sem félagslegrar heimaþjónustu.  Það eru einkum tvær hugmyndir sem ég hef lengi staldrað við í sambandi við aðstoð við einstaklinga sem hafa þörf fyrir hana, þ.e. markmiðið að fólk skuli geta búið sem lengst á eigin heimili og að þjónustan skuli m.a. vera félagsleg.  Hvort tveggja er afar teygjanlegt, háð persónulegu mati, mannafla, launum og auðvitað fjármunum.

Þurfi ég aðstoð við að komast í sturtu og geti fengið hana heima einu sinni í viku lít ég svo á að ég geti ekki búið heima - eða ættu kannski börnin mín að koma á morgnana áður en þau fara í vinnu og snúa mömmu í gang?  Staðan breytist e.t.v. ekki svo mikið við að komast á dvalarheimili eða sjúkrahús; ekki er nóg starfsfólk til þess að aðstoða við böðun meira en kannski tvisvar í viku.  Hvar sem einstaklingurinn er staddur er staðan óviðunandi. 

Hugmyndafræðin að fólk geti búið sem lengst á eigin heimili er falleg og nánast ósnertanleg en hve raunhæf er hún?  Það þarf að þrífa baðherbergi og gólf oftar en aðra hverja viku.  Sama á við um skipti á rúmfatnaði o.fl. handtök sem geta verið veikburða fólki erfið.

Svo er það félagslega aðstoðin sem má hugsa sér á marga vegu en það vita allir sem til þekkja að hún mætir afgangi þegar takmörkuðum tíma er veitt í þjónustuna en einsemdin er gjarnan stærsti óvinur þeirra sem búa einir á heimili sínu.

Er hugsanlegt að viljaskortur og skilningsleysi þeirra sem geta keypt sér alla mögulega þjónustu á almennum markaði ráði hér einhverju um.

Margt hefur verið vel gert og bætt í félagslegri heimaþjónustu á undfanförnum árum og áratugum.  Vil ég þar sérstaklega nefna hvers kyns fræðslu starfsfólks um vinnuvernd, réttindamál og aukið samstarf innan málaflokksins. 

Við þurfum meira fjármagn því hvorki þjónustuþegar né starfsmenn geta endalaust hlaupið hraðar.

Fréttabréf