Fara í efni

MANNLEGHEIT EÐA MARKAÐS-VÆÐING?

Kári - útför
Kári - útför

Oft er sagt að erfitt sé tveimur herrum að þjóna. Margir sem gengið hafa Mammon á hönd helga sig gjarnan öðrum markmiðum en andlegum. Sumir stjórnmálamenn eru þar á meðal. Þeir sjá „markaðslausnir" sem endanlegar lausnir á vandamálum mannlegs og veraldlegs samfélags.  Andlegu gildin, sem gera manninn mennskan, víkja þá oft algerlega fyrir áherslu á auð og völd. Ljóst er að „markaðsvæðing" getur oft átt rétt á sér en hlutverk hennar þarf að skilgreina mjög vandlega og missa aldrei sjónar á mannlegum og andlegum þörfum. Séu þær þarfir vanræktar er mikil hætta á afskræmingu samfélagsins, þar sem vélræn vísinda- og gróðahyggja ræður för. Í slíku umhverfi þrífast félagsleg vandamál vel, fleiri og erfiðari vandamál en tæknin nær að leysa. Og firring er gjarnan fylgifiskur gróðahyggjunnar. Andlegum gildum má því líkja við „lím" sem öllu heldur saman en dregur um leið úr afskræmingunni.

Einhver besta aðferð til þess að meta stjórnmálamenn er því að greina, orð frá orði, það sem þeir láta frá sér fara í ræðu og riti (og að sjálfsögðu samband orða og efnda). Mæla þannig hvort viðkomandi stjórnmálamaður þjónar Mammon eða hvort hann boðar eilíf gildi. Það tvennt fer sjaldan saman. „Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera." (Mat. 6:21).

Oft er rætt um aðskilnað ríkis og kirkju. Hugsanlega sjá einhverjir fyrir sér að ríkiskirkjan verði „einkavædd"? Þá er mjög vaxandi tilhneiging í íslensku samfélagi (og víðar) í þá átt að fólk greiði sjálft fyrir margs konar þjónustu sem með réttu ætti að greiðast sameiginlega. Dæmi um það er hækkun „þjónustugjalda" á sjúkrahúsum [að ekki sé talað um „skuldalækkanir" sem fólki er sjálfu ætlað að greiða, þvert á gefin loforð]. Í samræmi við þessa þróun má ætla að í framtíðinni verði boðnar tryggingar hjá tryggingafélögum þar sem fólk greiðir tjón sín að fullu. Sjálfsábyrgð verður þá 100% á hverri tryggingu, jafnt skyldutryggingum sem öðrum.

Mestu „markaðssinnar" á Alþingi munu ekki láta sitt eftir liggja að útskýra hversu mikla réttarbót þessar „nýju tryggingar" hafi í för með sér. Og standi það engum nær en tjónþola sjálfum að greiða sitt tjón! Neikvæðir vextir verða einnig ráðandi viðmið í bönkum, þar sem viðskiptavinur greiðir bankanum „vexti" fyrir að fá náðarsamlegast að geyma peninga sína í bankanum [þekkist raunar þegar s.s. í Sviss og víðar af öðrum ástæðum. Aðferðin er þá notuð sem „hemill" í peningamálum, til þess að „draga úr styrkingu" gjaldmiðla]. Hugmyndina um „sjálfsútfarir" má skoða í ljósi margs konar „markaðslausna" sem ýmsir stjórnmálamenn tala gjarnan fyrir en „markaðsvæðing mennskunnar" fylgir þá oft í kjölfarið.

- Sjálfsútfarir -

Þegar tekur fyrnast fjör
og frelsi boðar hinsta för.
Orðin er nú tæknin snör
eigin stjórna jarðarför.


(Heimild: http://top-10-list.org/)

 

Lög um sjálfsútfararþjónustur

2014 nr. 501 20. júní

 

I. kafli. Gildissvið, skilgreiningar, markmið og gjaldtaka

 1. gr. Gildissvið.

 Lög þessi taka til starfrækslu sjálfsútfararþjónustu á Íslandi.

 2. gr. Skilgreiningar

 Í lögum þessum hafa hugtök eftirfarandi merkingu:

  • 1. Sjálfsútfararþjónusta: merkir útfararþjónustu þar sem einstaklingur stendur sjálfur straum af eigin vistaskiptum og annast burtför úr jarðnesku lífi með aðstoð tölvu- og vélbúnaðar.
  • 2. Hraðför: val viðskiptavinar um vistaskipti sem ganga hraðar fyrir sig en almennt gerist, ásamt hraðari frystingu.
  • 3. Djúpfrysting: umbreyting jarðlíkama í duft fyrir tilstilli fljótandi köfnunarefnis. (Fryst er niður í -196 °C).
  • 4. Stafrænn prestur: prestur á stafrænu formi sem jarðar stafrænt.
  • 5. Rafræn líkfylgd: ferli þar sem hinum látna er fylgt í gegnum vistaskiptin, á alnetinu, gegn hæfilegu gjaldi.

 3. gr. Markmið.

 Markmið laga þessara er sparnaður í ríkisrekstri og sveigjanlegra útfararform. Með lögunum er Íslendingum boðinn valkostur við hefðbundnar burtfarir og jarðarfarir. Stefnt er að því að sjálfsútfarir verði ráðandi útfararform á næstu árum þegar reynsla er komin á hið nýja fyrirkomulag. Stefnt er að umtalsverðri lækkun ríkisútgjalda vegna burtfara og jarðarfara.

  4. gr. Gjaldtaka.

 Gjaldtöku fyrir sjálfsútfararþjónustu skal þannig háttað, að greitt er fyrir burtför og sjálfsútför með greiðslukorti um leið og þjónustuleið er valin fyrir athöfn.

 Greiða má þjónustu fyrirfram, kjósi notandi að greiða ekki með greiðslukorti.

II. kafli. Þjónustuleiðir, svæfing og djúpfrysting.

 5. gr. Þjónustuleiðir.

 Viðskiptavinur sem hyggst nýta sér sjálfsútfararþjónustu hefur val um mismunandi þjónustuleiðir. Þegar hann hefur lagst endilangur í þar til gert hylki er þjónustuleið valin á snertiskjá. Þar má m.a. velja hraðför, fjölda sálma, gerð og lengd líkræðu, ásamt hraða frystingar, stafrænan prest og gerð duftkers. Einnig tónlist á meðan svæfing fer fram, nýjustu dagblöð, innlend og erlend. Enn fremur auglýsingar og þakkir til fjölmiðla að athöfn lokinni.

 Sjálfsútfararþjónustum er heimilt að leggja á sérstakt gjald vegna allra þjónustuþáttta sem eru umfram lágmarksþjónustu, þar með talda hraðför, stefgjöld og dagblöð.

 Notandi sjálfsútfararþjónustu skal ganga vel um búnað og húsnæði þjónustunnar og virða í hvívetna allar reglur sem um starfsemina gilda. Sjálfsútfararþjónustur lúta sömu reglum og gilda um kirkjulegar athafnir og útfararhelgi, sbr. 3. mgr. 122. gr. og 2. mgr. 124. gr. laga nr. 19/1940.

  6. gr. Svæfing.

 Svæfing fer fram með aðstoð tölvu- og vélbúnaðar. Skal notandi sjálfsútfararþjónustu tengja sig þar til gerðum nema sem greinir vitund og lífsmark. Svæfing skal framkvæmd með nál í æð sem notandi kemur sjálfur fyrir.

  7. gr. Djúpfrysting.

  Þegar tölvubúnaður hefur úrskurðað viðskiptavininn látinn, tekur við  frysting með fljótandi köfnunarefni. Því næst fara jarðneskar leifar í hristara og verða við það að dufti. Sjálfvirk pökkun er lokastig frystiferlis en þá er dufti viðskiptavinar komið í duftker að eigin vali.

  Það er á ábyrgð sjálfsútfararþjónustu að tryggja virkni og viðhald alls tölvu- og vélbúnaðar og hafa tiltæka sjálfvirka vararafstöð komi til rafmagnsleysis eða bilana á meðan athöfn stendur yfir.

III. kafli. Stafrænn prestur, rafræn líkfylgd og jarðsetning.

  8. gr. Stafrænn prestur.

   Eftir pökkun skal duftker renna á færibandi að altari sjálfsútfararþjónustu. Birtist þá rafrænn prestur á flatskjá og flytur ræðu og blessunarorð sem viðskiptavinur hefur valið sér um leið og þjónusta var keypt. Sálmar og undirspil skulu einnig flytjast á stafrænu formi.

  Heimilt er að flytja sálmasöng og undirspil fólks af holdi og blóði við athöfn og skal þá greitt fyrir það sérstaklega þegar þjónustuleið er valin.

  9. gr. Rafræn líkfylgd.

  Þeir sem þess óska geta fylgst með sjálfsútför og fylgt notanda til grafar á alnetinu. Greiða skal fyrir þá þjónustu eftir gjaldskrá sjálfsútfaraþjónustu á hverjum tíma.

  Annars konar líkfylgd en um getur í 1. mgr. er óheimil, s.s. að bjóða öðrum til sjálfsútfarar eða sjónvarpa beint frá athöfn.

  Mæti einhver óboðinn til líkfylgdar skal kæra slík brot til lögreglu.

  Víkja má frá ákvæðum 2. mgr. að fengnu sérstöku leyfi ráðherra.

  10. gr. Jarðsetning.

  Að athöfn lokinni sér tölvustýrt færiband um færslu dufthylkis til moldar. Boðið er uppá valmynd við upphaf athafnar þar sem velja má legstað. Greiðist slíkt sérstaklega samkvæmt gjaldskrá.

  Kjósi viðskiptavinur legstað utan sjálfsútfararþjónustu skal staðfesta það samtímis vali á þjónustuleið. Verður dufthylki þá „afhent" rafrænt á þjónustustað gegn framvísun leyninúmers.

IV. kafli.  Framkvæmd og eftirlit.

  11. gr. Framkvæmd.

 Sjálfsútfararþjónustur eru leyfisskyldar. Um starfrækslu þeirra fer eftir lögum þessum og reglugerð sem ráðherra setur. Gefur Innanríkisráðuneytið út leyfi til sjálfsútfararþjónustu að uppfylltum skilyrðum um feril og greiðsluhæfi umsækjanda.

 Kennitöluflökkurum er óheimilt að starfrækja sjálfsútfararþjónustu og skal hafna beiðni þeirra um starfsleyfi.

  Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá 2. mgr. þyki honum sýnt að umsækjandi uppfylli að öðru leyti skilyrði til reksturs.

  12. gr. Eftirlit.

 Eftirlit með sjálfsútfararþjónustum annast hálfeinkarekið eftirlitsfyrirtæki sem kostað er á fjárlögum. Skal það nefnast „Sjálfsútfaraeftirlitið" [„SÚE"].

  Eftirlitið getur stöðvað starfsemi sjálfsútfararþjónustu þyki sýnt að hún brjóti gegn lögum eða uppfylli ekki lengur skilyrði til reksturs, samkvæmt leyfi frá ráðuneyti.

  Gæta skal fyllstu varkárni og sýna tillitssemi sé gripið til ráðstafana skv. 2. mgr. enda standi sjálfsútför ekki yfir þegar lokun fer fram. Þess sé gætt að ákvörðun sé í samræmi við meðalhófsreglu Evrópu- og stjórnsýsluréttar.

V. kafli. Gildistaka o.fl.

  13. gr. Lög þessi öðlast gildi 24. desember 2014.

  14. gr. [Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um afmarkaða framkvæmd laga þessara.]