Fara í efni

ÓLÖGMÆT GJALDTAKA

Engum dylst að fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi hefur aukist svo mikið undanfarin ár, að átroðnings er farið að gæta á vinsælum ferðamannastöðum. Nú hafa landeigendur víða um land boðað gjaldtöku vegna þessa og bera fyrir sig skorti á þjónustu og uppbyggingu. Engin sönnunarbyrði hvílir þó á landeigenda að sýna fram á landskemmdir vegna fjölda ferðamanna ef hann ætlar að hefja gjaldtöku, sem er  að öllum líkindum ólögleg. Gjaldtakan hlýtur að vera ólögleg þar sem hún brýtur í bága við 18.grein náttúruverndarlaga (umferð gangandi manna), sem snýr að almannarétti. 

Síðastliðið sumar hófu landeigendur við Kerið í Grímsnesi, að rukka aðgangseyri af þeim sem vildu berja Kerið augum. Ekki var verið að rukka fyrir neina sérstaka þjónustu, heldur gjald fyrir inngöngu á svæðið.

Eflaust má deila um hvort svæðið sé illa farið og aðgangseyrinn nauðsynlegur til endurbóta, en það er efni í annan pistil.

Í 18.grein náttúruverndarlaga stendur:

"Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Þó er í sérstökum tilvikum heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og stiga för manna og dvöl á afgirtu óræktuðu eignarlandi í byggð ef það er nauðsynlegt vegna nýtingar þess eða verndunar"

Af þessu má sjá að landeigendur í Kerinu gætu lokað svæðinu ef það uppfyllir þessi skilyrði, en þeir hafa enga heimild til gjaldtöku. Annað hvort er svæðið lokað eða ekki. Að meina fólki umferð um landið, ef það vill ekki greiða aðgangseyri, er brot á almannarétti. Engin heimild er fyrir þessari gjaldtöku og hefur hún enga stoð í lögum.

Þó svo að gjaldtakan væri lögleg, þá byði það upp á óþolandi ástand um allt land og misnotkun á ákvæði náttúruverndarlaga af hendi landeigenda. Skemmdir á landi þyrftu sannarlega að vera til staðar og vegna átroðnings ferðamanna. Hver á að meta það? Landeigendur eða Umhverfisstofnun? Eðlilegt væri að einhverskonar umhverfismat þyrfti þá að fara fram.

Eflaust þykir flestum óeðlilegt og siðlaust að græða á náttúruperlum, og ætti gjald þess vegna aðeins að duga fyrir rekstrarkostnaði. Er réttlætanlegt að landeigandi leggi út nokkrar milljónir í stofnkostnað og hali inn tugi milljóna á ári í formi ólöglegrar gjaldtöku ?

Það mætti kannski minnast á það í leiðinni, að uppbygging í Kerinu í Grímsnesi (aðkoma, bílastæði o.fl) var kostuð af almannafé, áður en núverandi eigendur tóku við.

Í nýjum gögnum frá Hagstofu Íslands kemur fram að tekjur af erlendum ferðamönnum, árið 2013, námu tæplega 275 milljörðum. (http://www.saf.is/tekjur-af-erlendum-ferdamonnum-aldrei-verid-meiri/)

Þetta er svimandi há upphæð og ætti ríkið og ferðaþjónustan að sjálfsögðu að greiða fyrir þessa uppbyggingu með einum eða öðrum hætti. Örlítill skattur á ferðaþjónustuna, sem væri eyrnamerktur uppbyggingu ferðamannastaða, myndi leysa þetta og gæti tekjunum verið deilt niður á sveitarfélögin og féð notað í ferðamannastaðina. Á þessi atvinnugrein kannski að vera undanskilin eðlilegum sköttum og gjöldum?

Það er grundvallarréttur fólks að ferðast um eigið land endurgjaldslaust. Þetta snýst ekki um að geta ekki borgað 500 kall, heldur hvort landeigendum verði í sjálfsvald sett hvort þeir rukki samlanda sína á fölskum forsendum.