Fara í efni

AÐFÖRIN AÐ RÍKISÚTVARPINU

 Nýjasta aðförin að Ríkisútvarpinu[i] er liður í ferli sem staðið hefur árum og áratugum saman. Um er að ræða hreina árás á tjáningarfrelsi, menningu, og sjálfstæði þessarar menningarstofnunar, til þess gerða að auka á forheimskun þjóðarinnar [forheimskuðum kjósendum er gjarnan auðveldara að stjórna] og greiða götu fjárglæframanna sem væntanlegra „kaupenda" Ríkisútvarpsins.

            Allt vandlega úthugsað og skipulagt í langan tíma. Þetta ætti fáum að koma á óvart sem fylgst hafa með þróun íslensks samfélags undanfarin 20 ár eða svo. Allt tal um sparnað uppá 500 milljónir er einungis yfirskin, til réttlætingar aðförinni. Upphæðin sem nefnd er skiptir engu máli í heildarsamhenginu, enda allt annað sem málið snýst raunverulega um, og verður vikið betur að því hér á eftir.

Frelsi og stjórnun

            Tengsl fjölmiðla og samfélags hafa venjulega pólitískar hliðar annars vegar og félagslegar og menningarlegar hliðar hins vegar. Lykilatriði hins fyrr nefnda er frelsi og stjórnun. Þegar miðlun af einhverju tagi snertir náið beitingu valds í samfélaginu er sterkari tilhneiging til athugunar og eftirlits, ef ekki beinnar íhlutunar. Almennt má segja að fjölmiðlar sem starfa á sviði afþreyingar- og skemmtiefnis komist frekar hjá athugun og íhlutun en þeir fjölmiðlar sem snerta beint hinn félagslega veruleika.

            Nánast allir fjölmiðlar hafa möguleg afgerandi áhrif, í þeim skilningi að geta dregið úr og haft áhrif á vald ríkjandi stjórnvalda.[ii]

Ríkisútvarp sem stofnun

            Flest ríki í heiminum, með örfáum undantekningum, reka ríkisútvarp (almannaútvarp) sem kostað er af opinberu fé.[iii] Og í flestum löndum þar sem ríkisútvarp er rekið, sérstaklega í Vestur-Evrópu, er átt við stofnanir sem starfa samkvæmt sérstökum lögum og eru yfirleitt fjármagnaðar með opinberu fé, oft lögbundnum afnotagjöldum. Þær hafa víðtækt sjálfstæði á sviði ritstjórnar og reksturs. Hlutverki ríkisútvarps má í stuttu máli skipta í eftirtalda þætti:

  • 1. Útbreiðsla. Útsendingar þurfa að vera aðgengilegar borgurum um land allt. Þetta er veigamikið jafnræðis- og lýðræðismarkmið, að því marki sem það setur alla borgara við sama borð óháð félagslegri stöðu eða efnahag.
  • 2. Fjölbreytileiki. Þjónustu sem ríkisútvarp veitir má skipta í þrjá flokka. Hvers konar dagskrá boðið er uppá, til hvaða hlustenda er höfðað, og hvaða málefni eru rædd. Endurspegla þarf fjölbreytilega almannahagsmuni með því að bjóða uppá mismunandi dagskrá, frá fréttum til „léttari dagskrár". Sumt efni er einkum ætlað ákveðnum markhópum þar sem væntingar eru fjölbreyttar.

En á endanum ættu útsendingar að ná til allra, ekki í gegnum einstaka dagskrárliði, heldur í gegnum alla dagskrána og fjölbreytileika hennar. Og að lokum í gegnum fjölbreytileika viðfangsefnanna sem rædd eru. Ríkisútvarp ætti einnig að bregðast við mismunandi almannahagsmunum og þannig endurspegla þau mál sem miklu varða í samfélaginu. Fjölbreytileiki og útbreiðsla styðja við það hlutverk að bjóða stundum dagskrá fyrir æskuna, eldri borgara og aðra hópa, þannig að lokum sé efnið við hæfi allra.

  • 3. Sjálfstæði. Ríkisútvarp (almannaútvarp) er í eðli sínu vettvangur þar sem hugmyndir skulu fá að njóta sín, þar sem upplýsingar, skoðanir og gagnrýni [allra] fá að koma fram [án afskipta stjórnvalda]. Þetta er einungis mögulegt ef sjálfstæði ríkisútvarps er tryggt, og því viðhaldið, gegn þrýstingi af viðskiptalegum og stjórnmálalegum toga.[iv] Spurningin snýst ekki síst um það með hvaða ráðum hægt er að standa vörð um sjálfstæðið og tryggja trúverðugleika almannaútvarps í augum almennings. Ef almennt mætti gera ráð fyrir pólitískum áhrifum á upplýsingar sem fram koma í almannaútvarpi myndi það eyðileggja tiltrú almennings á viðkomandi fjölmiðil. Á sama hátt má segja að tiltrúin hyrfi ef dagskrá almannaútvarps væri sniðin að viðskiptalegum þörfum, þar sem margir ættu erfitt með að skilja hvers vegna skattfé væri varið til þess að kosta þjónustu sem ekki væri í grundvallaratriðum ólík þjónustu einkarekinna fjölmiðla.[v]
  • 4. Sérstaða. Sérstaðan útheimtir þjónustu sem er aðgreinanleg frá útsendingum annara fjölmiðla. Dagskrá ríkisútvarps þarf að vera frábrugðin að gæðum, og sérstaklega í eðli sínu, þjónustu annara aðila. Spurningin snýst ekki einvörðungu um að framleiða dagskrárefni sem aðrir hafa ekki áhuga á, og ná til hlustenda (áhorfenda) sem aðrir vanrækja, heldur snýst þetta fremur um að gera hlutina öðruvísi, án þess að útiloka einhverja grein. Þessa reglu verður ríkisútvarp að hafa að leiðarljósi við nýsköpun, virkja ný tækifæri, marka nýja sérstöðu, setja viðmið, og halda öðrum fjölmiðlum við efnið [vera leiðandi].[vi] Þessu til viðbótar má nefna að Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki sem hlekkur í almannavörnum á Íslandi.

            Af framansögðu má ljóst vera að ríkisútvarp er frábrugðið einkareknum fjölmiðlum í grundvallaratriðum. Ríkisútvarp lýtur ekki, og á ekki að lúta, markaðslögmálum.

Yfirgangur niðurrifsaflanna

            Aðförin nú, og árásirnar sem Ríkisútvarpið (RUV) hefur lengi mátt þola, einkennist af hræðslu ákveðinna sérhagsmunafla, og stjórnmálamanna sem þeirra gæta, við óheftan aðgang almennings að upplýsingum. Hefur það oft og tíðum mjög tekið á sig myndir sem þekktar eru frá fyrrum Austantjaldsríkjum og árásarmennirnir fordæmdu manna mest á sínum tíma. Eins og margir muna, þá gekk þetta svo langt, skömmu fyrir hrunið mikla, að búið var að „máta" væntanlegan „kaupanda" við Ríkisútvarpið. En sá hafði þá fyrir nokkrum árum náð undir sig Landsbankanum, með aðstoð spilltra íslenskra stjórnmálamanna. En „fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott". Hrunið gerði sjálfkrafa útaf við þessi áform og vænlegi „kaupandinn", sem áður hafi farið mikinn í fjölmiðlum og lýst því yfir að „aðrir væru til þess hæfari að reka útvarp en ríkið", var síðar lýstur gjaldþrota. Verður það að teljast lán fyrir íslenskan almenning.

            Segja má að nokkur atriði einkenni ferlið hvernig á eyðileggja ríkisfyrirtæki. Því má gróflega skipta í eftirfarandi:

  • ñ Skipt er um forstjóra. Valinn „réttur maður" úr viðskiptalífinu sem handgenginn er stjórnvöldum, fylgir valdinu, og framkvæmir vilja þess.
  • ñ Beitt er alls konar „ógnunum", s.s. uppsögnum, fjöldauppsögnum og fleiri ógeðfelldum aðferðum. Til þess gerðum að splundra samstöðu meðal starfsfólks, eyðileggja starfsanda og starfsánægju þess. Koma á óöryggi [innri eyðileggingu[vii]]. Eftir að hæfasta starfsfólkinu hefur verið sagt upp er gjarnan valið í staðinn mis illa hæft fólk, úr einkarekstrinum, sem tengist „réttum stjórnmálaöflum", enda pólitísku tengslin talin mikilvægari en hæfnin til að gegna ákveðnum störfum.
  • ñ Viðkomandi fyrirtæki markvisst „talað niður" [sem aldrei fyrr] og notuð til þess öll tækifæri, ekki síst á Alþingi, þar sem umboðsmenn sérhagsmuna beita margs konar kjafthætti, lýgi og rógi, til þess að ná fram markmiðum sínum [„væntanlegra kaupenda"].
  • ñ Dregið úr fjárframlögum og beitt fjársvelti [reynt að svelta menn til hlýðni við valdið]. Réttlætt með vísan til sparnaðar í ríkisrekstri [sem oftast reynist mesti þvættingur].
  • ñ Með minnkuðum fjárframlögum versna gæði þjónustunnar sem aftur gerir almenning fráhverfari viðkomandi stofnun [„sem aldrei geri orðið neitt fyrir fólk"]. Þannig er enn frekar skapaður grundvöllur „einkavæðingar" [annað orð yfir þjófnað].
  • ñ Umboðsmenn sérhagsmuna á Alþingi flytja frumvarp þar sem lagt er til að viðkomandi fyrirtæki (stofnun) verði breytt í „hlutafélag" (s.s. ohf.).
  • ñ Stjórnarmenn nýrrar stjórnar handvaldir út hópi flokksgæðinga og sumum þeirra jafnvel gefið færi á að „kaupa" í fyrirtækinu [ekki síst til þess að halda „góðu talsambandi" við menn með „réttar skoðanir" í pólitík].
  • ñ Umboðsmenn sérhagsmuna leggja til að hlutabréf í viðkomandi fyrirtæki verði seld („einkavæðing").
  • ñ „Réttur kaupandi" („kaupendur") handvalinn úr hópi fjárglæframanna en kaupverði haldið eins lágu og mögulegt er. Kjörin eftir því. Sett í gang leikrit þess efnis að „erlendur aðili" hafi einmitt lagt til að svona yrði staðið að málum.
  • ñ Viðkomandi fyrirtæki „tekið til handagagns" og þannig rekinn endahnútur á ferli þar sem fjárglæframenn beita fulltrúum sínum á Alþingi til þess að ná fyrirfram ákveðnum markmiðum.

            Þetta ferli þekkja menn frá fyrri árum og því ekkert þarna sem ætti að koma á óvart, þvert á móti flest eftir bókinni. Því miður bendir margt til þess að atburðarásin sé enn eina ferðina komin af stað. Baráttan um Landsvirkjun er t.a.m. ekki hafin en það fyrirtæki er einnig í sigti fjárglæframanna. Leikritið þar er að beita lífeyrissjóðum landsins sem millileik í taflinu, til þess að móta og „troða slóðina". Á meðan bíða aðrir á „hliðarlínunni".

Þáttur stjórnmálamanna

            Einn þeirra íslensku stjórnmálamanna, fyrr og síðar, sem hvað mest hafa sett sig uppá móti menningu (og meira segja viðurkennt í viðtali að hann skyldi ekki hugtakið menning) er Pétur Blöndal. Er ekki úr vegi að kanna hvað hann hefur talið sig hafa haft fram að færa í umræðunni um Ríkisútvarpið. En Pétur er að þessu leyti í sama „sértrúarsöfnuði" og Sigurður K Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Þessir menn hafa allir sömu „hugmyndafræðilegu" afstöðuna gagnvart Ríkisútvarpinu.

            Þingmaðurinn Pétur Blöndal hafði vart fyrr verið kjörinn til setu á Alþingi, árið 1995, þegar hann tók að boða fjandsemi sína gagnvart Ríkisútvarpinu. Ræður þingmannsins, og blaðagreinar, frá þessum árum bera því glöggt vitni. „Fé án hirðis" var að vísu ekki orðið vinsælt slagorð þá en margs konar annar þvættingur hafður uppi.       Eitt allra ómerkilegasta áróðursbragðið frá munni þingmannsins er að halda því fram að þjóðin eigi í raun ekki Ríkisútvarpið heldur ríkið. Þetta séu tvö aðskilin fyrirbæri. Auðvitað ómerkilegra en orð fá lýst, hrein og klár hártogun, til þess gerð að læða því inn hjá fólki að Ríkisútvarpið sé í raun andstætt þjóðinni [en með sömu rökum mætti halda því fram að t.d. lögreglan sé á vegum ríkisins og andstæð þjóðarhagsmunum]. Í umræðum á Alþingi, um skylduáskrift, þann 14. nóvember árið 1996 sagði þingmaðurinn m.a.:

„Herra forseti. Af hverju stendur ríkissjóður Íslands í útvarps- og sjónvarpsrekstri? Hvað með blaða- og bókaútgáfu? Hvað með internetið? Af hverju vill ríkissjóður Íslands ekki fara að stunda internetið og skylda alla Íslendinga til að keyra í gegnum sig á internetinu?"[viii]

            Þessi orð eru í samræmi við annað „framlag" þingmannsins til umræðu á Íslandi. Lýsa fádæma vanþekkingu og skilningsleysi á þýðingu og sérstöðu ríkisútvarps [og yfirleitt allri almannaþjónustu]. Í umræðum á Alþingi, um ráðningu fréttastjóra Ríkisútvarpsins, þann 10. mars árið 2005, var þingmaðurinn við sama heygarðshornið:

„Frú forseti. RÚV er eign ríkisins en ekki þjóðarinnar. Það er mikill munur þar á. Þjóðin uppgötvar það þegar hún þarf að borga skatta til ríkisins að þetta er ekki sami aðilinn. Allt tal um það að menn eigi RÚV, það sé eign þjóðarinnar, er náttúrlega alveg út í hött. Ef menn eiga eitthvað geta þeir gert eitthvað við það, selt það eða veðsett. Það geta þeir ekki með Ríkisútvarpið."[ix]

            Þarna er með útúrsnúningi látið að því liggja að greiddir skattar séu tapað fé fyrir almenning, hverfi bara til ríkisins eins og ekkert komi í staðinn. Augljóslega grundvallarmisskilningur á því hvernig nútíma samfélög eru rekin. Þar að auki fráleitt að beita þröngri túlkun samkvæmt einkaeignarrétti (s.s. um sölu og veðsetningu) á almannaeigur, enda um margt gerólík fyrirbæri.

            Þjóðin (almenningur) greiðir að sjálfsögðu í sameiginlega sjóði, sjálfri sér til handa, enda þótt ríkið hafi það stjórnskipulega hlutverk að tryggja rekstur og lögbundna hagsmuni ríkisstofnana sem aftur ber að starfa í þágu þjóðarinnar.[x] En þjóðin hefur mátt hlusta á svona málflutning árum saman, eins og þann sem fram kemur í ívitnuðum ræðum umrædds þingmanns.

            Þá lét núverandi menntamálaráðherra það verða meðal fyrstu verka sinna að breyta stjórnarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins síðastliðið sumar. Breytingin fólst í beintengingu ráðherrans við stjórnina, svo handstýra megi með „gamla laginu" hvernig „sannleikurinn" er matreiddur. Allt er þetta liður í því að stýra skoðanamyndun á Íslandi og gæta þess að „nægt tillit" sé tekið til sérhagsmuna á kostnað almannahagsmuna. Um það snýst þetta allt saman í stuttu máli.

            Forheimskunin sem nefnd var í upphafi er þannig liður í handstýringu hugarfarsins sem aftur er ætlað að skila sér í niðurstöðum kosninga [„manipulation"]. Það er mikilvægt að þjóðin láti sér „einkavæðingu" ríkisbankanna, og margra annarra ríkisstofnana, að kenningu verða og hafni yfirgangi fjárglæframanna sem með aðstoð stjórnmálamanna ásælast Ríkisútvarpið og Landsvirkjun.

Nokkrar slóðir tengdar fjölmiðlun

Alternative Sources of Funding for Public Broadcasting Stations. Rep. Corporation for Public Broadcasting (CPB), 20 June 2012. Web. 07 Dec. 2013. <http://www.cpb.org/aboutcpb/Alternative_Sources_of_Funding_for_Public_Broadcasting_Stations.pdf>.

Berman, Beau. „Public TV in Germany, It's No PBS - Ctnow." CTnow, 12 Sept. 2012. Web. 07 Dec. 2013. <http://www.ctnow.com/news/nationworld/ctn-public-tv-in-germany-its-no-pbs-20120912,0,5337124.post>.

„Broadcasting Law in Germany." Broadcasting Law in Germany. N.p., n.d. Web. 07 Dec. 2013. <http://www.iuscomp.org/gla/literature/broadcst.htm>.

Dougherty, Dale. „A More Public Role for Public Broadcasting: Education." OReilly Radar. Http://radar.oreilly.com, 9 Oct. 2009. Web. 07 Dec. 2013. <http://radar.oreilly.com/2009/10/a-more-public-role-for-public.html>.

„Eight Ways to Kill Employee Morale." Human Resource Management Solutions by People Wise. People Wise, 04 Dec. 2008. Web. 07 Dec. 2013. <http://peoplewise.wordpress.com/2008/12/04/eight-ways-to-kill-employee-morale/>.

„France Televisions." France Televisions. France Télévisions SA, 2011. Web. 07 Dec. 2013. <http://www.francetelevisions.fr/>.

„Globalnavigation." ZDF in Figures. ZDF, n.d. Web. 07 Dec. 2013. <http://www.zdf.com/index.php?id=181>.

„Global Study Confirms Public Service Broadcasting Has Positive Effect on Commercial Broadcasting." BBC News. BBC, 03 Dec. 2013. Web. 07 Dec. 2013. <http://www.bbc.co.uk/mediacentre/latestnews/2013/psb-report.html>.

Heimir Steinsson. „Um Stefnu Ríkisútvarpsins." Morgunblaðið 13 Feb. 1996: 24. Morgunblaðið. Web. <http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=128191&pageId=1847917&lang=is&q=R%EDkis%FAtarpi%F0>.

HOLZNAGEL, BERND og KATHRIN JANSEN. „Public Service Broadcasters under Pressure: German Broadcasters Face Convergence." OpenDemocracy. OurKingdom, 02 June 2010. Web. 07 Dec. 2013. <http://www.opendemocracy.net/public-service-broadcasters-under-pressure-german-broadcasters-face-convergence>.

Jakubowicz, Dr. Karol. „Public Service Broadcasting: A New Beginning, or the Beginning of the End? KnowledgePolitics - THEORY AND PRACTICE FOR THE INFORMATION SOCIETY, 2011. Web. <http://www.coe.int/t/dghl/standardsetting/media/doc/PSB_Anewbeginning_KJ_en.pdf>.

Nordicity. Analysis of Government Support for Public Broadcasting and Other Culture in Canada. Rep. Nordicity, Apr. 2011. Web. <http://www.cbc.radio-canada.ca/_files/cbcrc/documents/latest-studies/nordicity-analysis-public-broadcasting-en.pdf>.


 

[i]     Stofnað árið 1930 og hóf útsendingar þann 20. desember sama ár (http://www.ruv.is/um-ruv/saga-ruv).

[ii]    McQuail, Denis (2000). McQuail´s Mass Communication Theory, 4th. ed. SAGE Publication, bls. 30.

[iii]   A Model Public Service Broadcasting Law (2005). ARTICLE 19, London. [http://www.article19.org/data/files/pdfs/standards/modelpsblaw.pdf]

[iv]   Public Broadcasting: Why? How? (2000). World Radio and Television Council. [http://portal.unesco.org/ci/en/files/18796/11144252115pb_why_how.pdf/pb_why_how.pdf]

[v]    Sama heimild.

[vi]   Sama heimild.

[vii]  Sjá einnig: http://www.visir.is/adolf-ingi-var-lagdur-i-einelti-a-ruv/article/2013131209378

[viii] http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/121/11/r14184947.sgml&leito=R%EDkis%FAtvarpi%F0#word1

[ix]   http://www.althingi.is/altext/raeda/131/rad20050310T105038.html?leito=R%EDkis%FAtvarpi%F0#word1

[x]    Nægir að nefna 70. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um rétt manna til þess að fá leyst úr ágreiningi í einkamálum og fá úrlausn í sakamálum fyrir dómstólum.