Fara í efni

INNRI MARKAÐUR ESB, LÖG OG REGLUR SEM ÞAR UM GILDA

            Þessari grein er einungis ætlað að varpa hlutlausu ljósi á nokkur atriði sem snerta viðskipti og þjónustu á evrópska efnahagssvæðinu. Pólitísk afstaða verður ekki tekin hér þótt aðild Íslands að ESB sé í eðli sínu pólitískt mál. Stofnun innri markaðar (Internal Market/Common Market) er ein mikilvæg forsenda þess að ESB varð til sem bandalag Evrópuríkja (sjá t.d.: http://europa.eu/about-eu/eu-history/index_en.htm). Innri markaðurinn felur í sér viðskiptasvæði þar sem samræmdar reglur gilda um viðskipti innan svæðisins. Oft er þar vísað til svonefnds fjórfrelsis, en það tekur til frjáls flæðis á vörum (free movement of goods), frjálsrar farar fólks, frelsis til að veita og þiggja þjónustu, og frjálsra fjármagnsflutninga (free movement of capital). Samstarfið tekur einnig til sameiginlegrar stefnu í viðskiptum, viðskiptatengsla við þriðju ríki (third countries), og síðast en ekki síst samkeppnismála (competition policy). Ísland varð hluti af þessu samstarfi með aðild sinni að samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES).

Frjáls viðskipti með vörur

            Í þriðja hluta Lissabon-sáttmálans (Treaty on the Functioning of the European Union - Hér eftir nefndur TFEU) er fjallað um innri markaðinn. Nánar tiltekið í greinum 26 og 27. Þar kemur fram að sambandið (ESB) skal tryggja virkni innri markaðarins, í samræmi við ákvæði sáttmálanna. Innri markaðinum er ætlað að starfa án innri landamæra, þar sem áðurnefnt fjórfrelsi ríkir.

            Í 34. gr. [áður 28. gr. í the Treaty of Nice] kemur fram að magntakmarkanir á innflutningi (quantitative restrictions), eða ráðstafanir sem hafa hliðstæð áhrif, eru bannaðar milli aðildarríkja. 35. gr. mælir fyrir um sams konar bann í tengslum við útflutning. Undantekningarákvæði eru skilgreind í 36. gr. Þar kemur fram að takmarkanir eða bann kann að vera réttlætanlegt undir ákveðnum kringumstæðum. Um er að ræða: almennt siðgæði, allsherjarreglu eða almannaöryggi; verndun lífs og heilsu fólks, dýra og plantna; verndun þjóðargersema sem hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi; eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slíkt bann eða takmarkanir má hins vegar ekki fela í sér handahófskennda mismunun eða dulbúnar takmarkanir á viðskiptum milli aðildarríkja.

            Allmargir dómar (forúrskurðir) hafa fallið hjá Evrópudómstólnum í tengslum við  þær greinar sem snerta innflutning, útflutning og skorður sem mögulega má reisa við frjálsum viðskiptum með vörur (undantekningar frá meginreglu). Skulu stuttlega reifaðir þrír dómar dómstólsins. Þar ber fyrst að nefna hið þekkta mál C-8/74 Procureur de Roi v Dassonville. Það mál var sótt af hálfu belgískra yfirvalda vegna innflutnings á skosku whisky frá Frakklandi án upprunavottorðs. Við vörn málsins var því m.a. haldið fram að krafa um slíkt upprunavottorð væri andstæð þáverandi 28. gr. Rómarsáttmálans (núverandi 34. gr. sjá hér að ofan) sem legði bann við magntakmörkunum á innfluttum vörum. Belgísk yfirvöld héldu því hins vegar fram að þau hindruðu ekki viðskipti með því að setja innflytjendum skilyrði af þessu tagi, enda bæri innflytjendum að fara að landslögum.

            Evrópudómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að "Allar reglur í viðskiptum sem hindrað geta, beint eða óbeint, í raun eða mögulega, viðskipti innan bandalagsins..." [ESB] hafi hliðstæð áhrif og kvótar. Krafa um upprunavottorð var því ekki talin standast og brjóta gegn nefndri 28. gr. Þetta hefur verið nefnt Dassonville-formúlan.

            Eins og áður var nefnt, gerir 36. gr. TFEU ráð fyrir undantekningum frá meginreglum þeim sem felast í 34. og 35. gr. sama sáttmála. Evrópudómstóllinn hefur og mótað ákveðnar reglur um frávik frá þessum greinum [34 og 35, áður 28 og 29. Er einnig rétt að hafa í huga að 34. gr. er meðal þeirra greina sem hafa bein réttaráhrif direct effect]. Skulu hér nefnd til viðbótar tvö mál sem telja má stefnumarkandi. Hið fyrra er mál 120/78 Rewe-Zentral AG v Bundesmonopolverwaltung für Branntwein, eða Cassis de Dijon málið. Það snérist í stuttu máli um innflutning á líkjör (Cassis de Dijon) frá Frakklandi til Þýskalands. Áfengismagn hans var 16% en samkvæmt þýskum lögum þurfti lágmarks áfengismagn að vera 25%. Þýsk yfirvöld leyfðu því ekki sölu á Cassis sem líkjör í Þýskalandi og höfðuðu sakamál. Evrópudómstóllinn taldi hins vegar að slík hindrun stæðist ekki og mótaði í raun þá reglu að samræmd viðmið skyldu gilda innan ESB sem byggðust á gagnkvæmri viðurkenningu (mutual recognition) á milli aðildarríkja. Þessu fylgir að þegar vara er komin á markað í einu aðildarríki (og löglega framleidd þar) er óheimilt að hefta innflutning hennar til annars aðildarríkis [frjálst flæði á sameiginlegum innri markaði] nema því aðeins að ríki geti réttlætt slíka takmörkun á grundvelli "lögboðinnar kröfu" (sbr. mandatory requirement). Sá listi er alls ekki tæmandi og ýmislegt getur fallið undir "lögboðna kröfu" í þeim efnum. En almennt er um að ræða atriði sem talin eru varða almannahagsmuni af einhverju tagi (sbr. og umfjöllun um 36. gr. hér á undan). En hvað fellur undir nefnda reglu er oft matskennt og tengist því sem í bandarískum samkeppnisrétti (anti-trust law) er nefnt "skynsemisreglan" (rule of reason[i]).

            Þriðja málið (tvö mál rekin samhliða) í þessari umfjöllun eru nr. 267 & 268/91 Republic of Fr. v Bernard Keck & Daniel. Mithouard [oft nefnt Keck]. Málavextir voru þeir að samkvæmt frönskum lögum var söluaðilum ekki heimilt að selja vörur á lægra verði en heildarverði sem þeir greiddu fyrir varninginn, ásamt veltuskatti, sérstökum gjöldum sem tengdust sölunni, og flutningskostnaði. Þ.e.a.s. vöruna mátti ekki selja með tapi. Undantekningar voru þó leyfðar þegar um var að ræða vörur sem ætlað var að endast í skamman tíma. Heimilt var að beita sektum væri brotið gegn þessum ákvæðum. Árið 1989 fundu frönsk samkeppnisyfirvöld ákveðið magn af kaffi og bjór sem boðið var til sölu á stórmarkaði, undir kostnaðarverði. Í framhaldi af því var höfðað sakamál gegn stjórnendum stórmarkaðarins. Stefndu héldu því fram í vörn sinni að bann við sölu undir kostnaðarverði bryti m.a. gegn frjálsu flæði á vörum, þar sem slíkt bann gæti leitt til minnkandi sölu á ákveðnum innfluttum vörum.

            Í dóminum er vísað til þáverandi 30. gr. [núverandi 34. gr.] og tekið fram að dómstóllinn hafi stöðugt dæmt á þá vegu að hvers konar tilhögun sem geti beint eða óbeint, í raun eða mögulega, hindrað viðskipti innan sambandsins [ESB] teljist þess eðlis að hún jafngildi magntakmörkunum (quantitative restriction).

            Innlend lög sem leggja bann við sölu undir kostnaðarverði séu ekki til þess gerð að stýra viðskiptum með vörur á milli aðildarríkja. Slík lög kunni að takmarka það magn sem selt er og þess vegna sölu á framleiðslu frá öðrum aðildarríkjum. Í ljósi þeirrar tilhneigingar kaupmanna að beita fyrir sig 30. greininni, í þeim tilgangi að láta reyna á hvers konar reglur sem kunna að takmarka viðskiptafrelsi þeirra, jafnvel þegar þær reglur snerta ekki framleiðslu frá öðrum aðildarríkjum, taldi dómstóllinn nauðsynlegt að endurskoða og skýra eigin dóma (dómafordæmi) um þessi efni.

            Í Cassis de Dijon málinu taldi dómstóllinn að án samræmdrar löggjafar bæri að skoða innlendar reglur um form, stærð, þyngd, samsetningu, merkingu, pökkun o.s.frv. á innfluttum vörum, sem framleiddar eru löglega og markaðssettar í aðildarríki, sem brot á nefndri 30. gr. Hins vegar greinir dómstóllinn þetta betur í sundur í Keck. Meginatriðið er það hvort reglur koma misjafnlega niður eftir því hver stundar verslun eða hvort um er að ræða almennar reglur sem koma jafnt niður á öllum sem stunda sömu verslun.

            Segir í dóminum [Keck] að andstætt því sem áður hafi verið komist að, falli atriði sem flokkast undir "sölufyrirkomulag" (selling arrangement) á innfluttum vörum ekki undir hindrun á viðskiptum milli aðildarríkja. Þau falla því utan þáverandi 30. gr. Þetta hefur verið staðfest frekar í síðari dómum. Undir "sölufyrirkomulag" falla atriði eins og opnunartími, skilyrði um þjálfun starfsfólks, bann við auglýsingum lyfsala á ákveðnum vörum o.s.frv. Þetta felur í sér að greint er á milli vörunnar sjálfrar og þess hvernig hún er seld.

            Í þessu felst að aðildarríki væri ekki heimilt að setja reglur um atriði eins og merkingu og pökkun innfluttra vara án þess að slíkt væri talið hindra viðskipti á milli aðildarríkja. Hins vegar myndu þættir sem falla undir "sölufyrirkomulag" standast skilyrði þáverandi 30. gr. (og núverandi 34. gr.). Skilyrðið er það að sömu reglur gildi um alla sem stunda viðskipti á sama svæði (national territory), að sömu reglur gildi um innlenda framleiðslu og innflutta. Sé þessu skilyrði fullnægt, falla reglur aðildarríkja, varðandi innfluttar vörur eins og áður greinir, utan 30. greinar [34. gr.]. Niðurstaðan varð því sú að 30. gr. bæri að túlka þannig að hún næði ekki til löggjafar aðildarríkja sem mælir fyrir um bann við sölu undir kostnaðarverði.

Sameiginleg sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna

            Í 1. mgr. 38. gr. TFEU er kveðið á um sameiginlega sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu. Þar kemur fram að innri markaðurinn nær til landbúnaðar og sjávarútvegs og viðskipta með landbúnaðarafurðir. En landbúnaðarafurðir eru skilgreindar samkvæmt 1. mgr. sem vörur sem framleiddar eru úr "jarðvegi", búfjárrækt og sjávarútvegur. En til landbúnaðarafurða teljast einnig vörur sem falla undir fyrsta áfanga í vinnslu nefndra afurða. Markmið sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar eru skilgreind í 39. gr. Þau helstu eru: aukin framleiðni á nefndum afurðum í gegnum tækniframfarir; að tryggja viðunandi lífskjör í landbúnaði og þá sérstaklega að bæta lífsafkomu fólks sem starfar við landbúnað; að auka stöðugleika markaða og tryggja framboð; að tryggja sanngjarnt verð til neytenda.

            Til þess að svo megi verða þarf sameiginlega skipulagningu. Hún getur tekið á sig mismunandi myndir eftir því hvaða vörur um ræðir. Þar ber hæst sameiginlegar samkeppnisreglur (samkeppnislög), skyldu til samhæfingar ýmissa stofnana sem stýra innlendum markaði og samevrópsku skipulagi á innri markaðinum.

Frjáls för launafólks, þjónusta og fjármagn

Frjáls för launafólks

            Kveðið er á um frjálsa för launafólks undir greinum 45-48 í TFEU. Launafólki er almennt tryggt frelsi til farar innan Evrópusambandsins (1. mgr. 45. gr.). Í þessu felst að hvers konar mismunun á milli launafólks aðildarríkjanna sem byggist á þjóðerni skal afnumin. Tekur slíkt afnám til atvinnu, launa og annara vinnuskilyrða. Réttur þessi felur í sér eftirtalin atriði:

a) að taka atvinnutilboðum sem bjóðast.

b) að ferðast óhindrað innan aðildarríkja í þeim tilgangi (sbr. a-lið).

c) að dvelja í aðildarríki vegna atvinnu, samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða eða samkvæmt stjórnsýslufyrirmælum sem gilda um atvinnu borgara viðkomandi ríkis.

d) að dvelja í aðildarríki eftir að hafa starfað þar, með þeim fyrirvörum sem kveðið er á um í reglugerðum sem samdar eru af framkvæmdastjórn ESB.

            Ofantalin atriði eru háð fyrirvörum sem lúta að allsherjarreglu, almannaöryggi og lýðheilsu. Það felur í sér að rétt til frjálsrar farar mætti mögulega takmarka (eða hindra) á grundvelli þess að viðkomandi einstaklingur teldist ógn við almannaöryggi eða væri haldinn hættulegum smitsjúkdómi.

            Í þessum hluta er ekki úr vegi að nefna einn dóm Evrópudómstólsins. Það er mál 41/74 Yvonne van Duyn v Home Office.[ii] Málsatvik voru eftirfarandi. Starfsemi Vísindakirkjunnar var talin skaðleg félagslega í Bretlandi. Hollenskur ríkisborgari, kona að nafni van Duyn, sóttist eftir því að hefja störf sem ritari hjá Vísindakirkjunni og flytja til Bretlands í þeim tilgangi. Beiðninni var hins vegar hafnað og van Duyn snúið aftur til Hollands. Í kjölfarið höfðaði van Duyn mál á hendur breska innanríkisráðuneytinu (Home Office) á þeim forsendum að réttur sinn samkæmt lögum sambandsins (ESB) hefði verið brotinn, m.a. þáverandi 48. gr. Rómarsáttmálans sem fjallaði um frjálsa för fólks.

            En þar sem Bresk stjórnvöld höfðu aldrei bannað breskum ríkisborgurum að starfa fyrir Vísindakirkjuna, þá kvartaði van Duyn einnig vegna mismununar á grundvelli þjóðernis. Enn fremur byggði van Duyn málarekstur sinn á 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 64/221 en þar sagði m.a.: "...ráðstafanir á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis skulu byggjast einvörðungu á persónulegri háttsemi viðkomandi."

            Breski dómstóllinn, sem fékk málið til meðferðar, óskaði forúrskurðar [fyrsta beiðni þess efnis eftir inngöngu Breta í ESB] frá Evrópudómstólnum. Megin spurningin sem hann (ECJ) þurfti að taka afstöðu til var hvort tilskipunin hefði bein réttaráhrif (direct effect), þ.e.a.s. hvort einstaklingar gætu beitt henni fyrir innlendum dómstólum. Niðurstaðan varð að svo væri, enda væri dregið úr vægi tilskipana ef ekki væri hægt að beita þeim fyrir innlendum dómstólum. Þessu næst þurfti Evrópudómstóllinn að taka afstöðu til þeirrar spurningar hvort Bretland, með því að meina van Duyn um aðgang, hefði brotið gegn ákvæðum tilskipunarinnar.

            Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að aðildarríkjum væri einungis heimilt að hindra för ríkisborgara annara ESB ríkja á grundvelli allsherjarreglu, í þeim tilvikum sem viðkomandi einstaklingur sjálfur teldist ógna reglunni. Tengsl við hóp nægðu ekki ein og sér til þess að sýna fram á ætlaða háttsemi. Yfirvöldum væri hins vegar heimilt að taka slík tengsl með í reikninginn við ákvörðun sína. Stefna breskra stjórnvalda á áttunda áratugnum var sú að hindra útbreiðslu Vísindakirkjunnar (þótt hún væri ekki ólögleg). Ráðstöfun breska innanríkisráðuneytisins var talin standast Evrópuréttinn [að hindra frjálsa för í þessu tilviki].

Frelsi til þess að veita þjónustu

            Réttur til þess að veita þjónustu í öðru aðildarríki ESB (EES ríki) tekur m.a. til  sjálfstæðrar atvinnustarfsemi og þess að stofna og reka fyrirtæki (right of establishment). Um það gildir almennt að hömlur á nefndan rétt eru bannaðar. Bannið nær einnig til takmarkana á opnun skrifstofa, útibúa eða dótturfélaga af hálfu ríkisborgara aðildarríkja sem vilja hefja atvinnustarfsemi í öðru aðildarríki (sbr. 49. gr. TFEU). Heimilt er þó að takmarka nefndan rétt á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis eða lýðheilsu (sbr. 52. gr.). Þessu tengist og gagnkvæm viðurkenning (sbr. regluna um "mutual recognition"[iii]) prófskírteina og annara skírteina (vottorða) sem staðfesta formlega menntun og hæfni. Nánar er kveðið á um þessi atriði í Evróputilskipunum (Sbr. og EES samninginn. Sjá einnig: mál C-340/89 Vlassopoulou[iv]).

http://eur-lex.europa.eu/en/dossier/dossier_31.htm

            Fyrirtæki sem stofnuð hafa verið í samræmi við lög aðildarríkis og hafa skráða skrifstofu, yfirstjórn eða höfuðstöðvar innan ESB [the Union], af því tagi sem áður er getið um, skulu ekki sæta annari meðferð en ríkisborgarar viðkomandi ríkis (bann við mismunun).

            Þjónusta í skilningi sáttmálanna felur í sér þjónustu sem veitt er gegn gjaldi, að því marki sem hún fellur ekki undir ákvæði sem snerta frjálsa vöruflutninga, fjármagn og frjálsa för launafólks (þ.e.a.s. fellur ekki undir aðra þætti fjórfrelsisins). Þjónusta í þessu sambandi nær sérstaklega til starfsemi á sviði iðnaðar, viðskipta, iðnaðarmanna og sérfræðinga (sérfræðistarfa).

            Í framhaldi af þessu er rétt að nefna eitt mál sérstaklega, mál C-212/97 Centros Ltd v Erhvervs- og Selskabsstyrelsen.[v] Forsaga málsins er í stuttu máli sú að til þess að stofna einkahlutafélag í Danmörku þurfti að leggja fram 200.000 danskar krónur. Í Bretlandi var hins vegar ekki áskilin nein lágmarksupphæð hlutafjár til þess að stofna félag af þessu tagi. Þetta nýttu sér tveir danskir ríkisborgarar [karl og kona] sem búsettir voru í Danmörku. Fóru þeir til Bretlands og stofnuðu þar Centros Ltd með 100 pundum í hlutafé, sem skiptist jafnt á milli stofnenda. Fyrirtækið var skráð með skrifstofu á heimili vinar í Bretlandi. Í framhaldi af þessu sótti Centros um að skrá útibú í Danmörku. En leyfilegt var að fara þessa leið í tilvikum erlendra fyrirtækja, án neinnar kröfu um lágmarks eigið fé, samkvæmt dönskum lögum. Dönsk yfirvöld neituðu hins vegar skráningu Centros á þeim forsendum að aldrei hefði verið ætlunin að reka starfsemi í Bretlandi. Útibúið væri því dulbúin aðalskrifstofa, og Centros einungis stofnað til þess að fara fram hjá dönskum lögum. Málinu var áfrýjað á þeim grundvelli að neitun danskra yfirvalda fæli í sér brot á frelsi til þess að stofna fyrirtæki (freedom of establishment).

            Niðurstaða Evrópudómstólsins varð sú að aðildarríki væri óheimilt að neita skráningu útibús fyrirtækis sem stofnað hefur verið í samræmi við lög annars aðildarríkis. Hins vegar væri yfirvöldum [í þessu tilviki dönskum] heimilt að setja reglur og gera ráðstafanir til þess að hindra og refsa fyrir sviksamlegt athæfi, hvort sem er vegna fyrirtækisins sjálfs sem um ræðir (og í samvinnu við það ríki þar sem fyrirtækið er stofnað) eða eigendur þess, þegar sýnt hefur verið fram á að stofnun fyrirtækis er til þess ætluð að komast hjá skyldum [brjóta lög] gagnvart kröfuhöfum (opinberum eða einkaaðilum) í þeim ríkum sem í hlut eiga. Í þessu felst að þótt ekki sé heimilt að neita skráningu útibús í öðru aðildarríki, þá verður viðkomandi fyrirtæki og útibú að fara að lögum sem lúta að rekstri fyrirtækja sem slíkra.

Frjálsir fjármagnsflutningar

            Í greinum 63-66 í TFEU er fjallað um frjálsa fjármagnsflutninga[vi] á milli aðildarríkja ESB. Meginreglan er sú að allar takmarkanir á flutningi fjármagns milli ríkjanna eru bannaðar. Sama gildir um fjármagnsflutninga á milli aðildarríkja og þriðju ríkja [ríkja utan ESB]. Reglan er þó alls ekki án undantekninga.

            Ákvæði 63. gr. veita aðildarríkjum heimild til þess að beita takmörkunum gagnvart þriðju ríkjum hafi slíkar takmarkanir átt sér lagastoð þann 31 desember 1993. Þ.e. ákvæði 63. gr. ná ekki til takmarkana sem þegar voru til staðar sama ár, samkvæmt landslögum eða samkvæmt Evrópuréttinum. Þá eru ýmsar undantekningar leyfðar, frá meginreglunni um frjálsa fjármagnsflutninga, af hálfu aðildarríkja ESB og tilgreindir eru í 65. gr. TFEU. Þar má nefna mismunandi skattalega meðferð þeirra sem ekki eru ríkisborgarar ESB ríkis (b-liður 1. mgr. 65. gr.). Einnig er aðildarríkjum heimilt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir brot á landslögum og reglugerðum, einkum á sviði skatta og eftirlits með fjármálastofnunum. Sömuleiðis mega ríkin setja reglur (skráningarreglur) sem lúta að stjórnsýslu og tölfræðilegum upplýsingum, s.s. varðandi eftirlit með reiðufé á landamærum, eða gera ráðstafanir sem réttlætanlegar eru á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis. Þess konar ráðstafanir mega þó ekki fela í sér handahófskennda mismunun eða hömlur í skilningi 3. mgr. 65. gr.

            Evrópudómstóllinn hefur viðurkennt rétt aðildarríkja til þess að reisa skorður við frjálsum fjármagnsflutningum, í ákveðnum tilvikum. Þar er m.a. um að ræða almannaþjónustu, s.s. póstþjónustu, þar sem nauðsynlegt er talið að viðhalda greiðsluhæfni og samfellu í alhliða póstþjónustu (sbr. dóma Evrópudómstólsins, mál C-282/04 og C-283/04, Framkvæmdastjórnin gegn Hollandi).

            Aðildarríkjum er einnig heimilt að grípa til ráðstafana (sem kunna að hefta frjálsa för fjármagns) þegar um öryggi í orkumálum ríkjanna er að tefla. Það á t.d. við um jarðolíu, fjarskipti og raforku en dómstóllinn hefur úrskurðað að standa beri vörð um slíka þætti og veita þjónustu á þeim sviðum innan aðildarríkja þegar kreppa kann að ógna almannaöryggi (s.s. ef raforkuskortur verður. Sjá einnig mál C-463/00, Framkvæmdastjórnin gegn Spáni[vii]).

            Einnig má nefna 4. mgr. 21. gr. samrunareglugerðar nr. 139/2004 um samruna fyrirtækja (Merger regluation) þar sem sérstaklega er rætt um fjölmiðlafrelsi sem "lögmæta hagsmuni" (legitimate interests) aðildarríkjanna. Slíkir hagsmunir kunna og að falla undir áðurnefndan b-lið 1. mgr. 65. gr. TFEU.

Ýtarefni um innri markaðinn fyrir áhugasama

http://www.eurofound.europa.eu/areas/industrialrelations/dictionary/dictionary6.htm

http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2005:255:0022:0142:en:PDF

http://assembly.coe.int/ASP/Doc/XrefViewHTML.asp?FileId=18733&Language=EN

http://ec.europa.eu/enterprise/policies/single-market-goods/files/goods/docs/art34-36/new_guide_en.pdf

http://www.lawiki.org/lawwiki/Abolition_of_quantitative_restrictions

http://ec.europa.eu/internal_market/capital/overview_en.htm

http://www.europeanlawmonitor.org/eu-policy-areas/eu-free-movement-of-capital.html

 


 

[i]
      http://www.fjc.gov/public/pdf.nsf/lookup/antitrust.pdf/$file/antitrust.pdf  

[ii]    http://eur-lex.europa.eu/smartapi/cgi/sga_doc?smartapi!celexplus!prod!CELEXnumdoc&numdoc=61974J0041&lg=en  

[iii]   http://ec.europa.eu/enterprise/policies/single-market-goods/files/goods/docs/art34-36/new_guide_en.pdf  

[iv]   http://eur-lex.europa.eu/smartapi/cgi/sga_doc?smartapi!celexplus!prod!CELEXnumdoc&numdoc=61989J0340&lg=en  

[v]    http://eur-lex.europa.eu/smartapi/cgi/sga_doc?smartapi!celexplus!prod!CELEXnumdoc&numdoc=61997J0212&lg=en  

[vi]   http://ec.europa.eu/internal_market/capital/framework/treaty_en.htm  

[vii]  http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=CELEX:62000CJ0463:EN:HTML