Fara í efni

SVEIGJANLEG SIÐFERÐISKENND

Það hefur komið berlega í ljós hin síðari ár hvað siðferði sumra Íslendinga er sveigjanlegt. Nokkur dæmi um þetta má finna á Alþingi. Þar sitja þingmenn sem þegið hafa kúlulán. En svo nefnast lán með einum gjalddaga, án afborgana, þar til lán er "yfirleitt greitt" upp í einu lagi [höfuðstóll og vextir]. Samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis þáðu nokkrir alþingismenn slík lán umfram 100 milljónir hjá föllnu íslensku bönkunum. Þeir eru: Bjarni Benediktsson, Ólöf Norðdal og Þorgerður K Gunnarsdóttir. Ekki verður séð að nefndar lántökur hafi verið dregnar í efa. En þetta fólk á það sameiginlegt að hafa hlotið menntun sína í siðfræði við lagadeild Háskóla Íslands, hjá lærimeisturum sem þar miðluðu af óbilandi og ótæmandi siðferðisþreki sínu. Þau fræ hafa æ síðan borið "ríkulegan ávöxt".

Það sem er ekki síst merkilegt við þetta mál allt saman er að framangreint fólk situr enn á Alþingi eins og ekkert hafi í skorist. Leyfir sér jafnvel að hafa í frammi gífuryrði og munnbrúk þegar því þykir að sér þrengt. En einn helsti kostur þess að vera gæddur sveigjanlegri siðferðiskennd er einmitt sá að fólk getur leyft sér bókstaflega hvað sem er. Siðferðið er einfaldlega lagað að aðstæðum hverju sinni.

Fleiri þingmenn eru gæddir sveigjanlegri siðferðiskennd. Tryggvi Þór Herbertsson kom að ritun skýrslu sem kostuð var af einum helsta siðferðisstólpa landsins: Viðskiptaráði Íslands. Skýrslunni var ætlað að sannfæra sem flesta um ágæti íslenska bankakerfsins. Þá hefur og komið fram í fjölmiðlum að nefndur Tryggvi hafi fengið 300 milljón króna kúlulán, í gegnum einkahlutafélag, til kaupa á hlutabréfum í Askar Capital. Er þá enn ótalinn þáttur Illuga Gunnarssonar og tengsl hans við sjóð 9 hjá Glitni. Tæki of langan tíma að rekja feril Péturs Blöndal og ábyrgð hans á falli sparisjóðanna, eftir "einkavæðingu" þeirra, sem Pétri var mikið hjartans mál að næði fram að ganga. Þessir þrír menn sitja enn á þingi, þ.e. Tryggvi, Illugi og Pétur. Sveigjanleg siðferðiskennd þeirra gerir þeim mögulegt að sitja á Alþingi og bjóða sig fram aftur, algerlega óháð því hvað þeir kunna að hafa aðhafst í "einkalífinu". Það kemur ekki málinu við.

Lagalega spurningin snýst hins vegar talsvert um það hvað menn vissu eða máttu vita, áður en stofnað var til ákveðinna fjárskuldbindinga eða þegar aðrar ákvarðanir voru teknar. Hvort ákvarðanir voru teknar í góðri trú (bona fide). Sveigjanlega siðferðiskenndin gerir mönum hins vegar fært að að komast að þeirri niðurstöðu að ákvarðanir hafi yfirleitt alltaf verið teknar í góðri trú, "...enda þótt heilbrigð skynsemi segi mönnum frekar að blöðrur sem þenjast sífellt út hljóti að lokum að springa." En slíkt er fremur viðfangsefni eðlisfræði og tengist lítið "fjármálaverkfræði", fegurð hennar og snilld. Fólk sem gætt er sveigjanlegri siðferðiskennd þarf heldur aldrei að axla neina ábyrgð á gerðum sínum, metur það einfaldlega sjálft hvort það hafi brotið eitthvað af sér eða breytt rangt. Þessa "nýju siðfræði" mætti með réttu kalla "siðferðisverkfræði". Þar koma stærðfæði og líkindafræði að góðu haldi. Siðferðið er einfaldlega mælt eftir því hversu góðar líkur eru á því að menn komist upp með ákveðna hegðun eða sleppi við fangelsi. Sé útkoman úr því reikningsdæmi gerandanum í hag eru skilyrði sveigjanlega siðferðisins uppfyllt og gerðin sem um ræðir fullkomlega réttlætanleg. Það á síðan eftir að koma betur í ljós hvort siðferðiskennd íslenskra dómara er jafn sveigjanleg og sumra þingmanna.