Fara í efni

Kári: ÍSLENSKA MAFÍAN TREYSTIR TÖKIN

Nýleg ráðning forstjóra Bankasýslu ríkisins sýnir vel að íslenska mafían er alls ekki á undanhaldi, þvert á móti hefur hún styrkt sig í sessi. Ýmsir bundu við það vonir að eftir íslenska efnahagshrunið yrðu teknir upp vandaðri og faglegri stjórnsýsluhættir, ekki hvað síst þegar kemur að opinberum ráðningum. Eins og flestum er kunnugt hafa opinberar ráðningar, áratugum saman, mjög gjarnan einkennst af sterkum pólitískum tengslum þess sem ráðinn er í ákveðið embætti við þá sem hafa veitingavaldið á hverjum tíma. Þetta hefur átt við um nánast allar stöður á vegum hins opinbera. Gildir einu hvort um hefur verið að ræða skrifstofustjóra í ráðuneytum, ráðuneytisstjóra, dómara Hæstaréttar, seðlabankastjóra og jafnvel skipan lektors í stjórnmálafræði svo nokkur dæmi séu tekin. Allt hefur þetta fólk verið í réttum flokkum og þóknanlegt veitingavaldinu.

Meðal áberandi einkenna á þessu fyrirkomulagi eru leikmyndirnar og leiksviðin sem notuð eru. Fyrsta skrefið virðist yfirleitt vera það að flokksklíka (klíkur) talar sig saman um "rétta manninn" í embættið. Þar er að sjálfsögðu um að ræða baktjaldamakk lykilmanna sem minnir nokkuð á það þegar nýjir menn eru undirbúnir til vígslu í margs konar glæpasamtök. Þegar gengið hefur verið frá því hver skuli hljóta "vígslu" er næsta skref að setja á "fjalirnar" leikrit. Viðkomandi staða er auglýst í dagblöðum, reynt að vanda auglýsinguna, látið koma fram hverjar séu menntunar- og hæfiskröfur, hvert skuli skila umsóknum, og fyrir hvaða tíma.

Sumir vita þá þegar að um leikrit er að ræða en taka samt þátt í því enda þótt aðrir kjósi stundum að draga umsókn sína til baka, þegar þeir verða þess áskynja að "búið er að ráða í stöðuna". Komið hefur fram hjá sumum umsækjendum, á undanförnum árum og áratugum, að þeir hafi upplifað allt umsóknarferlið einmitt sem leikrit, að varla hafi verið við þá rætt, og allt einkennst af miklu áhugaleysi þess sem lék það hlutverk að spyrja umsækjendur spurninga. En það sýnir öðru fremur að viðkomandi spyrjandi hefur verið lélegur leikari og illa valdið hlutverki sínu. Auk þess er ljóst að mikið hefur skort á æfingu og samhæfingu leikaranna í verkinu.

Einn slíkur leikari var gestur í Kastljósi kvöldsins í ríkissjónvarpinu. Þar ræddi Helgi Seljan við Þorstein Þorsteinsson stjórnarformann Bankasýslu ríkisins. Nokkuð skorti uppá að að Þorsteinn ylli hlutverki sínu og sást það greinilega á fasi hans sem einkenndist af talsverðu óöryggi. Hluti skýringarinnar kann að liggja í fjarveru "hvíslarans á sviðinu" sökum forfalla, auk skorts á undirbúningi hlutverksins, enda skammur tími frá því að þetta nýjasta leikrit var sett upp.

Þorsteinn reyndi eftir bestu getu að lýsa leikritinu sem slíku, hvernig umsækjendur hefðu verið látnir þreyta hæfnispróf, verið boðaðir í viðtöl, og hvernig stjórnin komst að þeirri "faglegu" og "óvæntu" niðurstöðu að Páll Magnússon, fyrrum aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur bankahrunsráðherra, hefði einmitt verið rétti maðurinn í stöðuna. Það var ekki laust við að áhorfandann gripi örlítil meðaumkun með Þorsteini enda var hann oft mjög ósannfærandi í hlutverki sínu og virtist einhvern veginn upplifa sig í heldur óþægilegri stöðu.

Taldi Þorsteinn Páli helst til tekna að hafa verið skósveinn Valgerðar í ráðuneyti því sem lagði grunninn að íslenska bankahruninu [ásamt fleirum]. Varla er hægt að hugsa sér glæsilegri feril manns til að gegna stjórnunarstöðu hjá íslenska ríkinu. Þetta er einstakt tækifæri til þess að fá að koma aftur að bankakerfi sem viðkomandi tók þátt í að leggja að velli. Minnir helst á það ef Timothy McVeigh [annar þeirra sem dæmdur var fyrir sprengingu stjórnsýslubyggingarinnar í Oklahoma árið 1995] hefði verið valinn til að sjá um endurreisn og viðhald sömu byggingar eftir að hafa áður lagt hana í rúst. En líkja má "einkavæðingu" íslensku bankanna við "pólitískt hryðjuverk" enda þótt þessum tveimur málum verði ekki jafnað saman að öðru leyti.

Eins og flestum er kunnugt hefur Framsóknarflokkurinn lengi verið farvegur fyrir margs konar "mafíustarfsemi". Mikið af því tengist svo nefndri helmingaskiptareglu. Ýmsir framsóknarmenn hafa þannig óspart beitt pólitískum tengslum til þess að ná til sín eignum ríkisins [nægir að nefna Búnaðarbankann] og hlunnfara almenning, enda "kaupverð" gjarnan verið lágt. Arðgreiðslurnar hafa skilað sér til nýrra "skráðra eigenda" en tapið verið skilið eftir hjá almenningi. Þetta er hin fullkomna "einkavæðing" í framkvæmd. Páll Magnússon er "innvígður og innmúraður" í þetta spillingarkerfi Framsóknarflokksins. Nú er hann látinn njóta ávaxa erfiðis síns og gerður að forstjóra Bankasýslu ríkisins. Ráðning Páls sýnir vel að íslenska mafían hefur treyst tökin á íslensku samfélagi, hefur aftur orðið sýnileg. Allt íslenska valdakerfið tekur þátt í leikritunum sem setja þarf upp á hverjum tíma í þeim tilgangi að blekkja almenning.

Íslenska mafían er því leyti fágaðri en systursamtök hennar víða erlendis að hún beitir ekki vopnavaldi til að ná fram markmiðum sínum. En ástæða þess virðist einföld - hún þarf þess ekki, nær öllum sínum markmiðum án vopnavalds. Hins vegar verður sýnileiki íslensku mafíunnar aldrei meiri en þegar hagsmunir hennar rekast á við hagsmuni meirihluta þjóðarinnar. Undanfarin misseri hefur þetta komið berlega í ljós varðandi sjávarútveginn og alla þá glæpamennsku sem einkennt hefur kvótakerfið svonefnda. Þar átti Framsóknarflokkurinn ekki lítinn hluta að máli [að koma kerfinu á]. Ýmsir þingmenn ganga gersamlega gegn þjóðarhagsmunum í málefnum sjávarútvegsins en styðja íslensku mafíuna dyggilega sem hefur umtalsvert fé til ráðstöfunar og kaupir sér með því bæði völd og áhrif. Hefur það komið vel í ljós þegar skoðuð eru framlög til stjórnmálaflokka, svo eitt dæmi sé tekið.

Hvort spilling og mafíustarfsemi eru óhjákvæmilegir fylgifiskar fulltrúalýðræðis er önnur og stærri umræða sem bíður að sinni. Ljóst er þó að langt er í land að íslenska mafían verði upprætt. En þar sem mafíustarfsemi nær tökum á öllum helstu valdastofnunum samfélaga [er orðin stofnanavædd] er baráttumönnum gegn glæpastarfsemi mikill vandi á höndum. Slíkir menn hafa þó komið fram og náð árangri síðustu áratugi og má nefna Giovanni Falcone [fæddur í Palermo á Sikiley], rannsóknardómara sem mjög beitti sér gegn mafíunni á Sikiley og galt fyrir með lífi sínu.

Nokkrar slóðir.
Á ensku:

http://www.bestofsicily.com/mag/art48.htm

http://www.telegraph.co.uk/news/obituaries/law-obituaries/5367721/Giovanni-Falcone.html

Á ítölsku:

http://digilander.libero.it/inmemoria/falcone_biografia.htm

http://www.lastoriasiamonoi.rai.it/puntata.aspx?id=334