Fara í efni

UM MARGS KONAR STRÍÐ

,,Sigurganga frjálshyggjunnar" setti sannarlega víða mark á fyrsta áratug aldar, sem m.a. Íslendingar fóru ekki varhluta af. ,,Sigurgangan" einkenndist af stjórnlausum efnahagsumbrotum víða um  lönd og stríðsofbeldi, skilur eftir sig sviðna jörð og vaxinn ójöfnuð, hvar sem litið er. Enn ríkir hamfaraskeið.

Athygliverðar eru ábendingar um samtengingu bandarískra frjálshyggjutúar-bragða við  ógeðfellda stríðsstefnu gagnvart Afganistan og þá ekki síður gegn Írak. Ekki er aðeins um einfaldar heimsvaldastefnuaðgerðir að ræða því grimmd og niðurbrotsstefna innrásaraflanna gengur  lengra en venja er til um slíkt. ,,Endurheimt" vestrænna olíurisa á olíuauði úr höndum landsmanna í Írak blasir auðvitað við sem augljóst innrásramarkmið þar, en þar með er ekki öll saga sögð.  Bandarískt ,,Blitzkrieg" var í báðum tilvikum hernaðartaktíkin, eyðing sem flestra mannslífa á sem skemmstum tíma, eyðing mannvirkja og samfélagsstoða, andlegt, innra niðurbrot þjóða, pyntingar og morð, niðurlæging  ,,andstæðinga".

Bent hefur verið á að frjálshyggjutrúin hefur mótað alla þætti bandarískrar stríðsstefnu. Jafnvel hernaðarframkvæmdin sjálf er þannig mótuð. Mun fleiri eru nú á vegum bandarískra  hernaðarverktaka starfandi í innrásarlöndunum en á vegum bandaríska hersins. Einkavæðingin blómstrar á því sviði líka. Báðum stríðum fylgdu nýttir möguleikar á að láta milljarði spillingardala  renna til stórfyrirtækja.

Þegar jörð er sviðin, stoðir horfnar, gæti slíkt reynst siðlausum tilraunatækifæri.

Þegar kemur að ,,enduruppbyggingu" sigurvegaranna á samfélagsumhverfinu í Afganistan og Írak blasir við að vísvitandi og skipulega var áður unnið að niðurbroti stoða. Þegar ráðist var á Afganistan voru samfélagsstoðir þar raunar þegar í rusli að flestu leyti. Létt var að útrýma restinni. Í Írak var ráðist sérstaklega á þar-ent opinbert skólakerfi sem hafði þó skilað af sér m.a. grunnmenntun til 90% þjóðarinnar. Opinbera heilbrigðiskerfið var rústað skipulega, veitustofnanir og annað sem taldist í samfélagseigu. Með bandarísku pennastriki var hálf milljón opinberra starfsmanna rekin úr starfi, þ.á.m. stærstur hluti menntamanna og sérfræðinga, sem gerðust flestir landflótta. Kennisetning frjálshyggjunnar er  að öll samfélagseiga á samfélagstoðum sé til bölvunar. Í ljósi þessa var Írak rústað og dýrðartími boðaður með einkavæðingu á öllum sviðum, ekki bara á olíuauði.

Bæði í Afganistan og Írak er t.d. unnið að því að allar meginþjóðbrautir verði í einkaeigu, vatnsból og -veitur, almenn þjónusta öll. Orkulindir ,,alþjóðavæddar".

Seint eða aldrei verða þær hörmungar metnar sem þessi öfgafulla frjálshyggjutrú hefur þegar framkallað eða dökkleit framtíð þjóðanna. Óumdeilt er að hin svonefnda ,,uppbygging" í Afganistan og Írak er öll í skötulíki, hefur leitt til gríðarlegar spillingartilþrifa í þeim löndum og innan BNA líka. Íbúar þessara sigruðu landa búa við vesæld, sem aldrei fyrr og hafa þeir þó margt reynt.

Ísland varð ekki bráð stríðsbrjálæðinga á fyrsta áratug aldarinnar. En trúbrjálæði frjálshyggjunnar molaði margan steininn á Íslandi þá  eins og víðar í veröldinni. Tekjuójöfnuður jókst, enda sköpuð m.a.fámenn stétt fjármálamógúla fært mikið vald í hendur. Henni var skapað ráðrúm með eftirlitsleysi, beinum framlögum og ívilnunum, fært óskert meginvald yfir efnahagslífinu. Alið var á einkavæðingu, ekki aðeins allra peningastofnanna. Vald peningafursta átti líka að ná til æðstu menntastofnanna, allra ráðandi fjölmiðla, ná til menningarlífsins, náttúrunytja. Valdið átti að smjúga inn í merg og bein allra landsmanna, móta lífssýn þeirra, kjör og samfélagið allt. Ísland var þó ekki einsdæmi hvað áráttuna varðaði.

Á Íslandi var ,,Bitzkrieg" ekki mögulegt, hvorki eiginlegt né óeiginlegt. Með þjóðinni hafði lengi blundað samtaksvilji, siðmenning og jafnaðarviðhorf, andstæða trúarborðskap frjálshyggjunnar. Þótt hægribylgjan yrði róttæk á Íslandi á skömmum tíma, brotnaði hún oft á skerjum. Samt blundar með boðberum hennar sá draumur að útrýma skuli í sem mestum mæli öllu,sem kallst gæti sameignarform fólks á samfélagsstoðum og samfélagseignum, skólum, spítölum, almannavegum,náttúruauðlindum. Samtak fólkisins skal verða sértak peningavaldhafa, markaðshyggjan einráð.

Á síðasta skeiði nýliðins áratugar varð íslenskt og alþjóðlegt efnahagshrun, sem enginn sér nú fyrir endann á. Frjálshyggjutrúin gæti við það beðið afhroð en við ógnarafl er að eiga, sem enn telur sig vera rótfest. Yfirstandandi áfall hefur kallað fram ringlureið í huga fólks, sem áður þoldi, þolir enn linnulausan áróður hægriaflanna. Vinstriöfl þóttust áður heyja varnarstríð og völdu taktíst undanhald gegn hægribylgju síðasta áratugar. Innan vinstrihreyfingarinnar ríkir enn ákveðin ringlureið. Jafnvel hún mengaðist af hægritrúaráróðri bólutímans.

Enginn skyldi vanmeta frjálshyggjuofstækið, þótt það velji sér  rólegt sýndar-yfirbragð. Hægriöflin eru enn albúin til árása, þótt ein byltingartilraun þeirra hafi orðið öllum dýrkeyptar ófarir. Hægt en bítandi reyna hægriöflin að finna á ný þau vopn sem duga málstaðnum. Þau ætla frjálshyggjunni fullan sigur, hverju sem tautar, hvað sem það kostar. Gegn þessu afli dugar ekki undanhald.

Það býr mikið vit með Íslendingum almennt, gott siðferðiþrek. Brýnt er að þeir skilji þó til botns hið stóra pólitíska samhengi, standist sterkum áróðursöflum snúning, sameinist til góðra verka, láti ringlureið og hægralýðskrum ekki móta huga sinn. Allra síst eiga þeir að endurreisa svarinn óvin sinn af sárabeði.

Sá óvinur vísar nú til samfélags í áfalli af hans völdum, en segist einn hafa lækninguna, þá formúlu sem skaðanum olli. Íslendingar hafna því læknisráði.

Við svo búið er ekkert að óttast - allra síst framtíðina
Baldur Andrésson, sept 2011.