Fara í efni

ÍSLENSKIR FJÁRGLÆFRA-MENN Í DULAR-GERVI ERLENDRA FJÁRFESTA?

Umræðan undanfarna mánuði og ár um erlenda fjárfesta er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Ýmsir stuðningsmenn hrun-hugmyndafræðinnar á Íslandi hafa mjög gagnrýnt stefnu núverandi ríkisstjórnar sem þeir segja hindra erlenda fjárfestingu. Í hópi þessara stuðningsmanna eru stjórnmálamenn og "erfingjar" fjár sem fengið var með hermangi, spilltri einkavæðingu og alls konar braski. Þessir menn sjá nú "erlenda fjárfesta" á færibandi að því er virðist og krefjast þess að opnað sé á "erlenda fjárfestingu". Þá hafa Samtök atvinnulífsins ekki látið sitt eftir liggja í þessu sambandi. Þetta er sagt nauðsynlegt svo koma megi "hjólum atvinnulífsins" af stað. Fréttamenn á sumum fjölmiðlum eru oft meðvirkir í umræðunni og spyrja viðmælendur sína alls ekki gagnrýnna spurninga þegar umræðan berst að "erlendum fjárfestingum" [FDI]. Eðlilegt væri að þessir viðmælendur sem sífellt ræða um þetta væru krafðir um nöfn meintra "fjárfesta", upplýsingar um þjóðerni þeirra, viðskiptasögu og tengsl við Ísland. Neiti viðmælendur að svara slíkum spurningum verður að líta svo á að ekkert mark sé takandi á tali þeirra.

Ein af þessum "erlendu fjárfestingum" er gagnaver á Suðurnesjum [Verne Holding ehf.]. En eins og menn muna þá var nafn "erlenda fjárfestisins" Björgólfs Thors talsvert tengt gagnaverinu. Annar "erlendur fjárfestir", Robert Wessman, hafði og áhuga á  ferðatengdum skurðaðgerðum. Enn vantar mikið á að hlutur þessara tveggja manna í hruninu hafi verið skýrður á fullnægjandi hátt og rakinn allur sá kóngulóarvefur sem þeir hafa spunnið í kringum sig og út frá sér. Þá er ljóst að erlendir bankar hafa afskrifað mjög háar upphæðir vegna lána til íslenskra fjárglæframanna í bankakerfinu og ekki ólíklegt að nú hyggist einhverjir láta hluta þess fjár "vinna fyrir sig" í gegnum "erlenda fjárfestingu". Orkulindir þjóða eru vinsælt skotmark fjárglæframanna í þessu sambandi sem og margt annað.

Hún er virkilega áleitin sú spurning hvort þetta sé það sem átt er við með "erlendri fjárfestingu"; innkoma og afturganga íslenkra fjárglæframanna í íslenskt atvinnu- og fjármálalíf. Magma-leikritið á Suðurnesjum sýnir vel að hægur vandi er að fara í kringum reglur og lög á evrópska efnahagssvæðinu þegar um "erlenda fjárfestingu" er að ræða. En þar var sænskt skúffufyrirtæki notað sem milliliður fyrir "kanadíska fjárfesta". Fróðlegt væri að vita hvort t.a.m. Halldór J Kristjánsson, Finnur Ingólfsson eða aðrir sem tengsl hafa við íslenskt bankakerfi hafi þar komið að málum. En margir muna vel eftir þætti "erlenda fjárfestisins" Hannesar Smárasonar í REI-málinu svo kallaða. Öll hafa þessi mál verið með mjög sérstökum blæ svo ekki sé nú meira sagt.

Það er ekki óeðlilegt að staldrað sé við þegar umræðan um "erlendu fjárfestinguna" sprettur upp aftur og aftur. Á meðan margs konar mál eru enn til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara er rétt að sýna fyllstu tortryggni þegar "erlendu fjárfestinguna" ber á góma. Annað sem fróðlegt væri að vita lýtur að tengslum íslenskra, fyrrverandi ráðamanna við eigendur stjóriðju á Íslandi. Þar má t.d. nefna aðila sem höfðu milligöngu um komu Alcoa til Íslands, hvort þeir aðilar þáðu fé fyrir milligönguna, sem ekki hefur komið fram, og fleira því tengt. Með öðrum orðum, hvort mútugreiðslur hafi einhvers staðar verið reiddar af hendi í þessu ferli öllu saman. En slíkt er vel þekkt víða um heim, ekki síst í verktakastarfsemi. Mikið vantar enn á gegnsæi þegar kemur að þessum málum hérlendis. Hins vegar liggur fyrir að ítalskt verktakafyrirtæki, sem í erlendum fjölmiðlum hefur verið orðað við ítölsku mafíuna, var fengið til þess að reisa eina af hæstu stíflum heims á Íslandi. [Sjá t.d. grein í The Independent: http://www.independent.co.uk/news/world/europe/mafia-is-italys-biggest-commercial-business-397716.html] . Það er því alls ekki að ástæðulausu að þessum hliðum er velt upp í umræðunni. Svo virðist sem ýmsir telji sama "hvaðan gott kemur" þegar um er að ræða "erlenda fjárfestingu" og verktakastarfsemi. Vilji stjórnvöld hafa stjórn á rás atburða er þau sökuð um afturhaldssemi og að standa í vegi fyrir framförum. Einn af þeim sem mjög hefur sig í frammi er Viljálmur Egilsson - [sami maðurinn og krafðist þess á sínum tíma að gögnum sem gerð voru upptæk vegna rannsóknar á samráði olíufélaganna yrði skilað !]. Það er hins vegar full ástæða til þess að fara varlega í þessum efnum og kanna vel við hverja er verið að semja.

Skipulagðir glæpahópar leita óhjákvæmilega eftir arðbærum og öruggum tækifærum til fjárfestinga. Þessu markmiði má ná með því að tengjast inn í atvinnulíf samfélagsins í gegnum eignarhald á lögmætum fyrirtækjum. Þátttaka í greinum atvinnulífsins sem snúa að framleiðslu, dreifingu og neyslu þjónar margvíslegum tilgangi. Í fyrsta lagi eru þar fólgin tækifæri til þess að hylja ólögmæta starfsemi. Í öðru lagi er um að ræða tækifæri til peningaþvættis. Oft um að ræða fjárhættuspil, "pengingaþvott" þar sem bankar eru flæktir í mál, dreifingu á bjór, bifreiðasölu, bari og næturklúbba. Í þriðja lagi geta lögmæt fyrirtæki þjónað sem skálkaskjól vegna tekna sem eiga sér vafasaman uppruna. Fyrirtækin gera þá mögulegt að telja fram illa fengið fé undir lögmætu yfirskini (Lyman, M.D. og Potter, G.W. 2000. Organized Crime, 2nd. ed. Prentice Hall, bls. 86-87). Margir minnast þess að fyrrum skráðir eigendur Landsbanka Íslands voru sagðir hafa hagnast gríðarlega á sölu bruggverksmiðju í Saint-Petersburg í Rússlandi. Ekki hefur sanneikurinn verið sagður í því máli. Látum ekki hugmyndafræðinga og gerendur íslenska hrunsins stýra umræðunni um "erlenda fjárfestingu" á Íslandi, krefjum þá heldur svara við spurningum sem enn er ósvarað.

Sjá einnig:

http://ibnlive.in.com/news/how-russian-mafia-misuses-fdi-norms-to-grab-goa-land/41824-3.html

http://csis.org/programs/transnational-threats-project/past-task-forces/russian-organized-crime

http://fromthetrenchesworldreport.com/icelandic-banksters-start-to-fall-while-american-banksters-skate/1829

Mjög áhugavert viðtal við Dr. William K Black, um glæpabanka, matsfyrirtæki, þátt endurskoðenda og fl.: www.pbs.org/moyers/journal/04032009/watch.html