Baldur Andrésson skrifar: VAÐLAHEIÐAR-VÉLIN
Vélabrögð,skrum og bein ósannindi eru því miður umbúnaður Vaðlaheiðarframkvæmdar, sem nú er sögð í burðarliði. Ekkert málefni ætti þó að byggja á slíkum grunni. Skal þó ósagt um hvernig raunverulegt gildi þessa heiðargats verður, staðbundið,eða á landsmælikvarða. Þessa valkosts við allsæmilegan þjóðveg um Víkurskarð.
Stofnun séreignarfélgs, Vaðlaheiðarfélags, hefur m.a. þann
tilgang að ríkissjóð megi mjólka, án nánari afskipta Alþingis og
lýðræðisumfjöllunar þar um. Sérkennilegt er að ríkið sjálft sé
meirihlutaeigandi í tæki, sem einmitt ber með sér ábyrgðarleysið
sjálft. Það hlakkar nú í svangri verktakahjörð og í SA. Þar á bæjum
ríkir engin samfélagsábyrgð. Þessi framkvæmd er dýr,
gjaldeyriskrefjandi, krefst lítils mannafla. Samgöngubótin er vafa
undirorpin miðað við yfir 10 milljarða króna tilkostnað.
Sýnt er að ríkið mun líklega axla allt að 2/3 tilkostnaðar við gerð
Vaðlaheiðargats. Þessar líkur eru augljósar en þeim er rækilega
leynt. Í stað þess hafa verið framsettir ,,útreikningar" sem eiga
að sýna ,,sjálfbærni" þ.e. að veggjöld vegfarenda standi
undir rekstri og fjármagnskostnaði. Höfundar vita best
sjálfir um haldleysi þessa skrums. Skrumið á þó að endast til þess
tíma að ,,of seint verði að hætta við". Þá hefur gildið
sannast.
Hvorki þráhyggja, né annarleg andstaða við þetta heiðargat hefur hvatt mig til gagnrýni. Hvatinn er sá að um þetta málefni lykur lygaumbúnaður. Inn í hann er sjálfu Alþingi flækt, valdmiklum ríkisstofnunum, lýðræðiskjörnum fulltrúum þjóðarinnar. Ásóknin í gerð þessa tiltekna gats hefur skekkt alla umræðum um samgöngumál, þjóðvegakerfið í heild. Ásóknin hefur m.a. kallað fram þá stefnu að sundra megi því samtaksmálefni samfélagsins, sem þjóðveganetið er- sundra því í sameignarvegi og séreignir og láta frumstæð markaðslögmál gilda um suma hluta þess og aðra ekki. Allt eftir geðþóttasveiflum hvers tíma. Sú stefna er friðarof á Íslandi- rof á samhyggðarvilja fólks.
Þetta heiðargatsmálefni er talandi sönnun um að með samstilltum
vélbrögðum og skrumi má keyra fram stór málefni og valda
um leið samfélagsusla. Nauðsyn jarðganga um Vaðlaheiði er umdeild.
Varla verður gatinu stillt upp sem þarfasta samtaki á Íslandi.
Á hinn bóginn er fullyrt að göngin verði samfélaginu í heild
enginn kostnaðrabaggi. Reksturinn byggist á ,,vali einstaklingsins"
þ.e. vilja hvers vegfarenda til aukaútgjalda, sér til þæginda og
hagræðis. Á þessu skrumi hefur vélbragðið byggst.
Að líkum munu senn birtast ,,leiðréttingar" við
sjálfbærniútreikninga talsmanna Vaðlaheiðargats og um leið staðfest
að ríkið mun axla megnið af tilkostnaði öllum. Svo getur skýrum
skjöplast verður þá sagt !
Þá sannast enn, að vélbrögð duga enn á Íslandi. Í bili.
Baldur Andrésson.