Björn Jónasson skrifar: EINN RÁÐHERRA?
Svavar Gestsson, ágætur félagi um margra ára skeið og
baráttumaður fyrir málstað launafólks alla sína tíð, setur fram
merkilega kenningu í Fréttablaðinu þann 7. september 2010. Hún er
svona:
"Þegar ég skilaði niðurstöðu Icesave-samninganna vorið 2009 var
almenn ánægja með niðurstöðuna víða, meðal annars í Morgunblaðinu.
Þá gerðust þau undur að einn ráðherra ríkisstjórnarinnar gerði
bandalag við stjórnarandstöðuna um að Ísland ætti ekki að
borga" .
Vandinn við þessa kenningu er sá að samningunum var haldið leyndum
í upphafi. Fyrst fyrir ríkisstjórn og síðan fyrir þinginu. Og síðan
fyrir þjóðinni. Það var ekki fyrr en efni samninganna lak út til
fréttastofu RÚV, nafnlaust í brúnu umslagi að efni þeirra var
almenningi ljóst. Það gat aldrei orðið ánægja með eitthvað sem
enginn vissi hvað var. Það átti að lauma samningunum í gegn án þess
að þing og þjóð fengi um þá vitneskju. Þar var ekki við Svavar að
sakast, heldur við röng vinnubrögð, leyndarhyggju og skorti á
lýðræðisskilningi við ríkisstjórnarborðið. Alla þessa vitleysu
tekur Svavar á sig og reynir með því að endurskrifa söguna þannig
að allt snúist þetta um "einn ráðherra". Með öðrum orðum, öll
þjóðin átti að hafa glaðst yfir samningi, sem hún hafði ekki séð,
en gleðin var eyðilögð af "einum ráðherra". Þjóðin greiddi síðan
atkvæði, vegna ákvörðunar "eins forseta". Við skulum ekki gleyma
því að þjóðin mætti á kjörstað og greiddi atkvæði, samstíga og
einhuga sem "einn maður". Slík úrslit hafa ekki orðið síðan 1944.
Það verða þessum "eina ráðherra" ágæt eftirmæli að hafa
gengið í takt, við eina þjóð.
mkv.
Björn Jónasson