Björn Jónasson skrifar: OLNBOGARÝMI Í BRUSSEL
Fjölmargir menntamenn og stjórnmálamenn hér á landi hafa notið
góðs af auknu Evrópusamstarfi eftir gerð EES-samningsins. Sá
samningur hefur ýmsa kosti, einkum á sviði styrkja, vísindasamvinnu
og einnig hafa fjölmargir Íslendingar fengið vinnu í Brussel við
eftirlit ýmiskonar og skjalagerð. Nægir að benda á að hópur
Íslendinga og Norðmanna samdi álit Eftirlitsnefndar ESA um að
íslenskir skattgreiðendur bæru ábyrgð á Icesave skuldum
Landsbankans hf. Ragnar Arnalds skrifaði ágæta bók um EES
samninginn og fann honum ýmislegt til foráttu. Meðal annars það að
hann ýtir undir hrávöruframleiðslu en hamlar fullvinnslu afurða á
Íslandi. Engir tollar eru á óunnum fiski (þeas. óflökuðum) en
tollur á unnum fiski. Þetta gildir um fleiri afurðir og hefur leitt
til þess að vinna hefur flust úr landi og nægir að minna á
fyrirtæki Sigurðar Ágústssonar sem fullvinnur afurðir í Hirsthals í
Danmörku í stað Stykkishólms vegna þessa.
Hægt er að færa rök fyrir því að EES-samningurinn hafi verið
forsenda bankahrunsins. Án hans hefði "útrásin" verið erfiðari. Að
minnsta kosti hefði "exposure" bankanna aldrei orðið það sem hún
varð. EES-samningurinn er einnig svo viðamikill að burðir
þrjúhundruð þúsund manna þjóðar til að þýða, lögleiða og ekki síst
skilja allar reglugerðir og lög sem við höfum skuldbundið okkur til
að hlíta, eru vart nægilegir. Á sama hátt og bankarnir gleyptu
stóran hluta af ungu menntafólki, er líklegt að ESB samningur muni
krefjast vinnu þúsunda Íslendinga og kosta stórfé. Það mun eflaust
verða fjármagnað af ESB-stórríkinu. Samningurinn og almennt vinnan
við það að vera í ESB mun hugsanlega verða stærsta atvinnugreinin á
Íslandi. Á sama hátt og stærsta atvinnugreinin í Maputo í
Mozambique og víða í þróunarlöndum er þjónusta við
hjálparstofnanir.
Þannig yrðum við Íslendingar styrkjaþjóð. Atvinnuleysi meðal
menntamanna yrði ekkert. Lífsrými ESB-stórríkisins myndi stækka og
atvinnutækifærum menntamanna fjölga og olnbogarými stjórnmálamanna
í Brussel myndi aukast. Það er í þessu ljósi sem ber að skoða
tilfinningahita ESB umræðunnar. Það eru margar stéttir sem sjá hag
sínum borgið við innlimun Íslands. Það er hins vegar ljóst að
Ísland verður ekki lengur fiskiþjóð í Atlantshafi, heldur safn
blýantsnagara á styrkjum. Kannski er það allt í lagi og kannski sjá
menn þetta fyrir sér sem góðan kost. Það er hins vegar heiðarlegast
að gera grein fyrir sér í þessari umræðu allri. Hvernig hagsmunir
manna liggja. Það er klárt mál að þrjúhundruð þúsund manna þjóð
verður ekki söm innan stórríkisins ESB og utan þess.