Baldur Andrésson skrifar: UM SKÚFFUR OG SKÖMM
Einhver skoðanakönnun leiddi í ljós andstöðu 75% Íslendinga við
eignaryfirtöku spekúlanta á orkumannvirkjum og orkunýtingarrétti á
Reykjanesi. Yfirtakan er gráleit og formið er greinilega
ólöglegt.
Þrátt fyrir þessar aðstæður virðist nú jafnvel of seint fyrir
rass gripið. Þótt þjóðargersemar liggi undir, hugvit og
náttúruauður, er verslað í myrkum skúmaskotum.
Magma-tilvikið skýra sumir sem eftirleik græðgisvæðingar í
aðdraganda hrunsins, eins konar eftirskjálfta frá
hamfaratíma. Mörg teikn eru á hinn bóginn um að Magma-
tilvikið sé fremur forleikur en eftirleikur.
Forleikur að nýju átaki til einkavæðingar, sem í því tilviki er
knúinn fram með engu minna ofstæki en fyrri daginn.
Þessu síðara átaki er stýrt skipulega í anda AGS, eftir þekktri
formúlu. Ríki og sveitarfélög eru sett í greiðsluklemmu,
bönnuð lántaka. Ríkinu er fyrirlagt, við kreppu- aðstæður að draga
úr framkvæmdum og eignavexti, því er ætluð bæklun, að búa við
baklás AGS.
Við blasa ógnir vegna ofurskuldsetningar OR og Landsvirkjun er ekki
á góðu róli. Innan skamms er fyrirséð varnarstríð
fyrir samfélagseign á þeim stórfyrirtækjum báðum. Ríkinu er
fyrirmunað að eignast ný spítalahús, hvatt til sölu á öðrum. Nýjum
almannavegum skal fyrirkomið í einkaeigu og jafnvel þeim gömlu, ef
endurbóta er þörf. Megnið af fjármálafyrirtækjum er nú þegar á leið
í hendur fjölþjóða braskara, lúta skuggastjórn kröfuhafa.
Mörg önnur vötnin renna nú sömu leið. Ríkið ætti að eiga
lánstraust hjá lífeyrissjóðum en því er ekki að heilsa. Sjóðunum er
einmitt stýrt af talsmönnum einkavæðingar, sem kjósa sér frelsi
kattarins.
Sjóðstjórar setja traust sitt miklu fremur á samstarf við innlenda
eða erlenda braskara í einkavæðingarferlum, sem þeir styðja. Í því
tilviki sækja brennd börn í eldinn.
Hressileg umræðan um Magmabraskið ætti að vekja þjóðina af
sinnuleysi. Andstaðan er ljós í myrkri. Stórar spurnir koma fram,
svara er krafist. Váboðinn felur í sér tilgátu um samfélag manna
sem rænt hefur verið reisn og sjálfræði, þar sem þegnarinir búa við
kúgunarvald fjölþjóðabraskara.
Í Magmatilviki er sótt að jarðarorku landsins og stefnt er á
fallvötnin líka. Sótt er grimmt að þeirri hugmynd að náttúruauður
landsins haldist undir samfélagsstjórn, haldist í þjóðareigu.
Sóknin er grimm ögrun við framtíðarvonir flestra
landsmanna.
Skítur og kanill er greiðsla Magma fyrir jarðorkunot á
Reykjanesskaga um mannsaldra. Eignina á að fela í ólöglegri
skúffu í Svíþjóð. Vert er að muna að spilling og einkabrask
innalands með eignir í samfélagseigu voru upphaf slysafléttunnar.
Þá lærist að skilin milli ,,þjóðlegs auðmagns" og alþjóðlegs eru
harla óskýr. Sleppi samfélagið taki á grunnstoðum sínum er fjandi
laus. Magmamálið er sannarlega váboði.
Baldur Andrésson