Baldur Andrésson skrifar: NÝ HÖLL Á HAFNARBAKKA
Í litlu landi ákváðu ráðamenn að heiðra braskhöfðingja með
heiðursgjöf. Hann fékk smíðakostnað útleiguhallar gefins að
viðbættum menningarstyrk til sín, svo að útleigubraskið
hans yrði fagurlegt álitum. Þjóðin litla borgaði.
Braskhöfðinginn var heimskur og fékk til liðs við sig hóp
loddara til hallarsmíða.
Loddarnir grófu og klömbruðu. Alltaf þurftu þeir meiri pening. Þá
henti það höfðingjann að fara á hausinn út af ýmsum fjárglæfrum.
Það hörmuðu loddarar sáran og óttuðust um eigin hag, og
að upp kæmist um fyrri loddarabrögðin sín.
Loddarar grétu fyrir ráðamönnum. Aðspurðir um höllina, bentu þeir á
grunn og útveggi. Höllin verður fögur, sögðu þeir, en aðeins í
augum gáfaðara og dannaðra. Aðspurðir sögðust þeir þurfa miklu
meiri peninga og miklu meiri tíma. Aðspurðir sögðu þeir að enginn
gæti smíðað höll, nema þeir sjálfir.
Ráðamenn vildu sér og loddurum vel og samþykktu allt sem
loddarar sögðu. Þetta var tilkynnt þjóðinni í litla landinu, sem
varð bara hvumsa. Borgið þið meira, var skipað. Við það tækifæri
hvarf hallartyrkur til menningar af blaði. Hann varð loddurum að
féþúfu strax, ásamt öðru smíðagulli til þeirra. Ráðamenn klöppuðu
og skipuðu riturum sínum að segja þjóðinni að allskonar væri
frábært.
Loddarar klömbruðu áfram og alltaf streymdi til þeirra ómælt
gullið. Því miður höfðu loddarar komið víðar við með braski. Þeir
fóru á hausinn, þrátt fyrir hallargullið allt, en höfðu þó áður
komið erlendum vinum sínum að klambrinu. Þeir tóku stöðu
loddara.
Þegar hér er komið í sögu var þjóðin farin að ókyrrast og spyrjast
fyrir um afdrif fjármuna sinna, tilganginn með
hallarklambrinu. Þá efldu ráðmenn menningartrúða til
starfa.
Höllin er til menningar segja trúðarnir nú, þegar önnur viðskipti leyfa segja þeir. Tapið á viðskiptunum borgar þjóðin. Hver annar ! Hún verður falleg, nema í augum heimskingja, segja trúðar og vitna í loddaraorð. Svo fín að allir gáfaðir falla í stafi. Í höllinni má kannski dansa, syngja, spila . Aðeins aumingjar efast, spyrja óþægilegra spurninga, velta vöngum. Ráðamenn og trúðar klappa einir. Þjóðin klórar sér í kollinum. Þjóðin þegir. Nú er bráðum sumarfrí. Sól á lofti. Þá fer þjóðin að grilla.
Hallarævintýrið er ófullgerð saga og verður köttur úti í mýri. Þoka umlykur höll á hafnarbakka. Þar lyktar vel af útrásarbraski. Gamlar vofur á sveimi.
Baldur Andrésson,arkitekt